Úrskurður yfirskattanefndar

  • Aðflutningsgjöld
  • Tollflokkun
  • Torfærutæki

Úrskurður nr. 16/2019

Lög nr. 88/2005, 20. gr.   Lög nr. 29/1993, 4. gr. (brl. nr. 156/2010, 2. gr.)   Almennar reglur um túlkun tollskrár.  

Deilt var um ákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings kæranda á 11 ökutækjum af gerðinni Polaris RZR, Can-Am Maverick og Yamaha, en um var að ræða svonefnda „Buggy bíla.“ Tollstjóri leit svo á að við innflutning ökutækjanna hefði ranglega verið lagt til grundvallar tollafgreiðslu að þau féllu undir tollskrárnúmer 8703.1039 í tollskrá sem ökutæki sérstaklega gerð til aksturs í snjó og taldi ökutækin falla undir tollskrárnúmer 8703.2111 sem fjórhjól. Yfirskattanefnd vísaði til fyrirliggjandi upplýsinga í málinu um að ökutækin væru ekki markaðssett af hálfu framleiðenda sem beltabifreiðar eða snjóbifreiðar og að belti, sem unnt væri að koma fyrir undir þeim í stað hjóla, væru talin til aukabúnaðar með þeim á vefsíðu framleiðenda og söluaðila. Var ekki fallist á með kæranda að ökutækin féllu undir tollskrárnúmer 8703.1039 í tollskrá og væru undanþegin vörugjaldi sem beltabifreiðar samkvæmt i-lið 3. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993.

Ár 2019, miðvikudaginn 13. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 93/2018; kæra A ehf., dags. 7. júní 2018, vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæra í máli þessu, dags. 7. júní 2018, varðar úrskurð tollstjóra, dags. 9. mars 2018, um endurákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings kæranda á 11 ökutækjum á árunum 2015, 2016 og 2017. Samkvæmt gögnum málsins voru hin innfluttu ökutæki af gerðunum Polaris RZR, Can-Am Maverick og Yamaha. Samkvæmt úrskurði tollstjóra voru ökutækin talin falla undir tollskrárnúmer 8703.2111 í tollskrá sem ökutæki aðallega gerð til mannflutninga, nánar tiltekið sem fjórhjól með 1000 cm³ sprengirými eða minna. Af hálfu kæranda er hins vegar talið að ökutækin falli undir tollskrárnúmer 8703.1039 („Ökutæki sérstaklega gerð til aksturs í snjó; golfbifreiðar og áþekk ökutæki: Á beltum: Önnur ökutæki með stimpilbrunahreyfli með neistakveikju: Eigin þyngd yfir 700 kg“). Er þess krafist af hálfu kæranda að úrskurður tollstjóra verði felldur úr gildi.

II.

Málavextir eru þeir að á tímabilinu 8. maí 2015 til 12. maí 2017 flutti kærandi til landsins ellefu ökutæki af gerðunum Polaris RZR, Can-Am Maverick og Yamaha í jafn mörgum sendingum. Samkvæmt aðflutningsskýrslum, sem hlutu rafræna tollafgreiðslu, voru hin innfluttu ökutæki talin falla undir vörulið 8703 í tollskrá, nánar tiltekið undir tollskrárnúmer 8703.1039 sem „ökutæki sérstaklega gerð til aksturs í snjó; golfbifreiðar og áþekk ökutæki“.

Með bréfi til kæranda, dags. 22. september 2017, tilkynnti tollstjóri kæranda um fyrirhugaða endurákvörðun aðflutningsgjalda félagsins vegna umræddra vörusendinga, sbr. 111. gr. tollalaga nr. 88/2005. Í bréfi tollstjóra kom fram að við endurskoðun embættisins á greindum sendingum hefði komið í ljós að ökutækin hefðu hlotið ranga tollflokkun. Að mati tollstjóra ætti að flokka ökutækin í tollskrárnúmer 8703.2111 sem fjórhjól. Um væri að ræða svokölluð ATV-tæki. Til þess að umrædd ökutæki gætu flokkast sem beltabifreiðar væri ekki nóg að keyptur væri aukabúnaður, þ.e. belti undir ökutækin, heldur yrðu tækin að vera hönnuð og framleidd sérstaklega til aksturs í snjó. Í þessu tilfelli væri um óverulega og mögulega tímabundna breytingu á ökutækinu að ræða sem breytti ekki eðli þess. Beltin væru lausamunir sem fylgt hefðu ökutækjunum og hefðu ekki áhrif á tollflokkun. Áþekk ökutæki, sem flutt væru til landsins belta- eða dekkjalaus, væru tollflokkuð á sama hátt og ökutæki á dekkjum eða beltum. Fram kom að ef til endurákvörðunar kæmi á grundvelli fyrrgreindra ástæðna myndi það leiða til hækkunar aðflutningsgjalda. Gerði tollstjóri í bréfi sínu grein fyrir aðflutningsgjöldum samkvæmt umræddum tollskrárnúmerum. Um heimild til endurákvörðunar aðflutningsgjalda í sex ár frá tollafgreiðsluári vísaði tollstjóri til 111. gr. laga nr. 88/2005.

Boðuðum breytingum tollstjóra var mótmælt með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 23. október 2017. Í bréfinu kom m.a. fram að þau ökutæki sem málið varðaði væru tiltölulega ný af nálinni og notkun þeirra að mestu bundin við torfærari slóðir á fjöllum og hálendi þar sem erfitt væri að komast leiðar sinnar. Ökutækin hefðu verið keypt af erlendum umboðsaðila og flutt til landsins á beltum, svo sem gögn sem tollstjóra hefðu verið látin í té bæru með sér. Ekki yrði séð að máli skipti varðandi tollflokkun hvort ökutækin væru hönnuð eða framleidd sérstaklega sem beltatæki; í því sambandi skipti eingöngu máli að tækin væru notuð sem slík, þ.e. sem beltabifreiðar. Vafalaust væri að ökutækin gætu ekki talist fjórhjól, sbr. skilgreiningu í lið 01.72 í 1. gr. reglugerðar nr. 822/2004, um gerð og búnað ökutækja, enda væru hin innfluttu ökutæki þyngri en 550 kg og flutt inn á beltum en ekki hjólum. Þá væru tækin útbúin á allt annan hátt en fjórhjól, þ.e. þau væru með veltigrind, sæti fyrir farþega og búin þriggja punkta öryggisbeltum. Þá væru þau með stýrishjól auk þess sem eldsneytisgjöf og hemlum væri stýrt með fótstigum. Hin innfluttu ökutæki hefðu í öllum tilvikum verið skráningarskoðuð af Samgöngustofu án athugasemda og réttilega skráð sem fólksbifreiðar (M1) í notkunarflokki sem beltabifreiðar. Þá var í bréfinu vikið að túlkunarreglum tollskrár og tekið fram að kærandi liti svo á að ökutækin hefðu réttilega verið tollflokkuð sem ökutæki á beltum, sbr. túlkunarreglu 6 við tollskrána. Tollskrárnúmer 8703.1039 fæli í sér nákvæmasta lýsingu á ökutækjunum. Samkvæmt framansögðu væri ekkert tilefni til endurákvörðunar aðflutningsgjalda kæranda vegna innflutnings ökutækja sem um ræðir.

Með bréfi tollstjóra, dags. 12. desember 2017, var kæranda að nýju gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum í tilefni af boðaðri endurákvörðun. Í bréfinu kom fram að það væri sent til að koma á framfæri rökum sem ekki hefðu komið fram á fyrri stigum og veita kæranda aukinn frest til að koma að frekari andmælum. Í bréfinu gerði tollstjóri grein fyrir álagningu vörugjalds samkvæmt lögum nr. 29/1993. Fram kom að meginregla 3. gr. laganna um að vörugjald skyldi leggja á eftir koltvísýringslosun ætti eingöngu við um fólksbíla og almenna bíla sem alla jafna væru með skráða losun koltvísýrings. Hin innfluttu ökutæki kæranda væru ætluð til nota utan þjóðvega og féllu því undir c-lið 3. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993, þ.e. í 30% gjaldflokk vörugjalds. Í niðurlagi bréfsins rakti tollstjóri ákvæði 180. gr. b tollalaga nr. 88/2005 um álag á aðflutningsgjöld og tók fram að þetta ætti við um allar sendingar sem tollafgreiddar hefðu verið eftir 24. október 2016.

Af hálfu kæranda var fyrirhugaðri endurákvörðun tollstjóra mótmælt með bréfi, dags. 17. janúar 2018. Í bréfinu var athugasemdum tollstjóra varðandi álagningu vörugjalds hafnað sem röngum. Kom m.a. fram að ákvæði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 29/1993 væri skýrt um það að ákvæðið tæki til fólksbifreiða og annarra vélknúinna ökutækja. Umrætt ákvæði laga nr. 29/1993 fæli ekki í sér lögfestingu þeirrar reglugerðar sem vísað væri til í bréfi tollstjóra. Þá væri alrangt að hin innfluttu ökutæki féllu undir ákvæði c-liðar 3. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993 þar sem um beltabifreiðar væri að ræða í skilningi i-liðar 1. tölul. sömu lagagreinar sem bæru ekkert vörugjald. Ennfremur væri byggt á því af hálfu kæranda að tollalög nr. 88/2005 gengju framar lögum nr. 29/1993 og væru rétthærri lög samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum, enda væru hin fyrrnefndu lög yngri. Sérlög gengju framar almennum lögum. Í 1. gr. laga nr. 29/1993 væri sérstaklega vísað til tollalaga og ljóst að ætlun löggjafans sem ákvæðinu hefði verið að taka af allan vafa um að tollskráin og ákvæði hennar giltu framar ákvæðum vörugjaldslaga ef misræmi væri til staðar. Ekki yrði því byggt á ákvæðum laga nr. 29/1993 í málinu. Hvað sem því liði yrði ekki séð að neinu misræmi væri til að dreifa í tilviki hinna innfluttu ökutækja þar sem orðan tollskrár og vörugjaldslaga færi saman, sbr. tollskrárnúmer 8703.1039 annars vegar og i-lið 1. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993 hins vegar. Að öðru leyti var vísað til áður fram kominna sjónarmiða kæranda í málinu.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 9. mars 2018, hratt tollstjóri hinum boðuðu breytingum á aðflutningsgjöldum kæranda í framkvæmd. Byggði tollstjóri á því að ökutæki þau, sem kærandi hefði flutt til landsins á árunum 2015, 2016 og 2017, hefðu ranglega verið talin falla undir tollskrárnúmer 8703.1039 við tollflokkun og að ökutækin hefðu átt að falla undir tollskrárnúmer 8703.2111 sem fjórhjól. Leiddu breytingar tollstjóra til hækkunar aðflutningsgjalda um samtals 13.555.344 kr. að meðtöldu 50% álagi samkvæmt 180. gr. b tollalaga nr. 88/2005 vegna einnar vörusendingar sem tollafgreidd hefði verið 12. maí 2017.

III.

Í úrskurði sínum um endurákvörðun gerði tollstjóri grein fyrir gangi málsins og bréfaskiptum í því, þar á meðal andmælum kæranda. Kom fram að í málinu væri deilt um tollflokkun ökutækja, þ.e. svonefndra ATV-tækja (e. All-terrain Vehicles). Tollstjóri tók fram að þegar rætt væri um ATV-tæki væri átt við öll tæki sem væru sérstaklega búin til utanvegaaksturs, þótt jafnframt mætti aka þeim á hefðbundnum vegum. Kærandi teldi að fella bæri ökutækin undir tollskrárnúmer 8703.1039 í tollskrá sem ökutæki aðallega gerð til mannflutninga, nánar tiltekið sem ökutæki sérstaklega gerð til aksturs í snjó, golfbifreiðar og áþekk ökutæki, á beltum og með eigin þyngd yfir 700 kg. Tollstjóri teldi hins vegar að ökutækin skyldi flokka í tollskrárnúmer 8703.2111 sem fjórhjól. Samkvæmt lögum nr. 29/1993 bæru beltabifreiðar ekki vörugjald, sbr. i-lið 1. tölul. 4. gr. laganna, en fjórhjól bæru 30% vörugjald, sbr. b-lið 3. tölul. sömu lagagreinar.

Fram kom að tollstjóri teldi að aðflutningsgjöld af umræddum sendingum hefðu ekki verið rétt ákvörðuð við tollafgreiðslu. Til þess að ökutækin gætu talist beltabifreiðar væri ekki nóg að keyptur væri aukabúnaður í formi belta undir tækin, heldur yrðu þau að vera framleidd sérstaklega til aksturs í snjó. Væri litið til markaðssetningar vörunnar frá hendi framleiðanda skyti það frekari stoðum undir að ekki væri um að ræða ökutæki sem væru framleidd sérstaklega til aksturs í snjó. Um væri að ræða óverulega og mögulega tímabundna breytingu á ökutækinu sem breytti ekki eðli þess. Tollstjóri liti svo á að beltin væru lausamunir sem fylgdu ökutækinu og hefðu þannig ekki áhrif á tollflokkun frekar en ef ökutækið væri flutt inn dekkja- og beltislaust. Áþekk ökutæki sem flutt væru til landsins belta- eða dekkjalaus væru flokkuð á sama veg og slík ökutæki á dekkjum eða beltum. Þá mætti leiða að því líkum að það heyrði til undantekninga að belti væru sett undir ökutæki af greindum toga, enda væri hægt að setja beltabúnað undir ökutæki af öllum stærðum og gerðum án þess að áhrif hefði á tollflokkun. Í tilefni af sjónarmiðum kæranda varðandi tengsl tollalaga og vörugjaldslaga benti tollstjóri á að í úrskurði yfirskattanefndar nr. 7/2018 hefði verið tekin afstaða til þessa og talið að túlka bæri tollskrá til samræmis við vörugjaldslög, þó þannig að féllu skilgreiningar gjaldflokka í vörugjaldslögum ekki að skýringum tollskrár bæri að fara eftir lögunum en ekki tollskránni. Yrði því að hafna sjónarmiðum kæranda þess efnis að ekki bæri að beita lögum nr. 29/1993 í málinu.

Þá kom fram í úrskurði tollstjóra að fyrstu sex stafirnir í átta stafa tollskrárnúmerum tollskrár væru í samræmi við vöruflokkunarkerfi Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO) sem Ísland væri skuldbundið til að fylgja, sbr. auglýsingu nr. 25/1987. Skýringarritum og álitum WCO um tollflokkun væri ætlað að stuðla að samræmdri túlkun á flokkunarkerfi þessu og gætu verið til leiðbeiningar um tollflokkun samkvæmt íslensku tollskránni, enda þótt þau væru ekki bindandi að landsrétti. Beita bæri túlkunarreglu 1 við flokkun í vöruliði og túlkunarreglu 6 þegar kæmi að flokkun í undirliði. Þegar kæmi að beitingu túlkunarreglu 6 skyldi byggt á orðalagi undirliðar með því fororði að aðeins jafnsettir undirliðir væru bornir saman. Því næst þyrfti að ákveða skiptilið. Vöruliður 8703 bæri 8 skiptiliði í efsta lagi, þar á meðal þá tvo sem til umfjöllunar væru í málinu, þ.e. annars vegar „ökutæki sérstaklega gerð til aksturs í snjó; golfbifreiðar og áþekk ökutæki“ og hins vegar „önnur ökutæki, eingöngu með stimpilbrunahreyfli með neistakveikju“. Tollstjóri væri ekki þeirrar skoðunar að umrædd vara væri sérstaklega hönnuð til aksturs í snjó, burtséð frá því hvort hún kæmi á dekkjum, án dekkja eða á beltum. Þar af leiðandi væri ekki hægt að flokka vöruna í þann skiptilið, heldur væri seinni skiptiliðurinn meira lýsandi fyrir vöruna, sbr. túlkunarreglur 1 og 6 við tollskrá. Með vísan til framanritaðs kæmi boðuð endurákvörðun aðflutningsgjalda kæranda til framkvæmda, sbr. 111. gr. laga nr. 88/2005.

IV.

Í kafla I hér að framan er greint frá kröfugerð kæranda í kæru til yfirskattanefndar, dags. 7. júní 2018. Fram kemur í kærunni að kærandi telji einsýnt að allar sendingar sem málið varðar eigi undir tollskrárnúmer 8703.1039. Þá sé því ranglega haldið fram af hálfu tollstjóra að hin innfluttu ökutæki séu af gerð svonefndra ATV-ökutækja sem ætluð séu til aksturs utan vega, enda sé vandséð á hverju slíkar fullyrðingar séu byggðar eða hvaða vægi þær eigi að hafa við úrlausn málsins. Að öðru leyti eru í kærunni áréttuð þau sjónarmið sem fram komu í bréfum kæranda til tollstjóra, dags. 23. október 2017 og 17. janúar 2018.

V.

Með bréfi, dags. 24. ágúst 2018, hefur tollstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur. Sé vísað til úrskurðarins og röksemdir hans ítrekaðar.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 31. ágúst 2018, var kæranda sent ljósrit af umsögn tollstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

VI.

Eins og fram er komið varðar kæra í máli þessu úrskurð tollstjóra, dags. 9. mars 2018, um endurákvörðun aðflutningsgjalda, sbr. 111. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, vegna innflutnings kæranda á 11 ökutækjum á árunum 2015, 2016 og 2017. Samkvæmt gögnum málsins var um að ræða innflutning sex ökutækja af gerðinni Yamaha, fjögurra ökutækja af gerðinni Can-Am Maverick og eins ökutækis af gerðinni Polaris RZR, sbr. gögn er fylgdu kæru til yfirskattanefndar. Var endurákvörðun tollstjóra byggð á því að við innflutning ökutækjanna hefði ranglega verið lagt til grundvallar tollafgreiðslu að þau féllu undir tollskrárnúmer 8703.1039 í tollskrá sem ökutæki sérstaklega gerð til aksturs í snjó. Taldi tollstjóri ökutækin falla undir tollskrárnúmer 8703.2111 sem fjórhjól („Önnur ökutæki, eingöngu með stimpilbrunahreyfli með neistakveikju: Með 1000 cm³ sprengirými eða minna: Fjórhjól“). Er komið fram í málinu af hálfu tollstjóra að ökutæki, sem falli undir tollskrárnúmer 8703.2111, beri 30% vörugjald, en ökutæki er falli undir tollskrárnúmer 8703.1039 séu undanþegin vörugjaldi samkvæmt i-lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum. Er ljóst að álagning vörugjalds er ástæða ágreinings í málinu og lýtur krafa kæranda að því að hin innfluttu ökutæki verði talin undanþegin vörugjaldi, sbr. fyrrreint ákvæði i-liðar 1. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993.

Um álagningu vörugjalds á skráningarskyld ökutæki fer samkvæmt lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga þessara skal við flokkun til gjaldskyldu samkvæmt lögunum fylgt flokkunarreglum tollalaga. Um ákvæði þetta og samspil laga nr. 29/1993 við skýringu tollskrár með tilliti til álagningar vörugjalds hefur verið fjallað í úrskurðaframkvæmd yfirskattanefndar, sbr. einkum úrskurð nefndarinnar nr. 7/2018 þar sem deilt var um ákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings sendibifreiðar. Eins og bent er á í úrskurði þessum eru gjaldflokkar í lögum nr. 29/1993 ekki miðaðir við tiltekin tollskrárnúmer heldur eru þeir skilgreindir með sjálfstæðum hætti. Var talið verða að ganga út frá því að féllu skilgreiningar gjaldflokka í lögum nr. 29/1993 ekki að sundurliðun og skýringum tollskrár bæri að fara eftir hinum fyrrnefndu ákvæðum við ákvörðun gjaldstigs vörugjalds. Það leiðir af framansögðu að leysa ber úr ágreiningi í máli þessu á grundvelli flokkunarreglna tollalaga, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1993, en þó að því gættu sem fyrr greinir um sérstaka þýðingu ákvæða síðarnefndra laga um gjaldskyldu sérstakra flokka ökutækja. Í samræmi við þetta verður fyrst vikið að tollflokkun ökutækja sem í málinu greinir.

Í almennum reglum um túlkun tollskrárinnar, sem lögfest var sem viðauki við tollalög nr. 88/2005, kemur fram að við flokkun samkvæmt tollskrá skuli fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum einungis vera til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skuli tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða og athugasemdum við tilheyrandi flokka eða kafla. Í 87. kafla tollskrár er fjallað um ökutæki og hluta og fylgihluti til þeirra. Undir vörulið 8703 í þessum kafla tollskrárinnar falla bifreiðar og önnur vélknúin ökutæki aðallega gerð til mannflutninga. Undir fyrsta undirlið þessa vöruliðar falla ökutæki sem sérstaklega eru gerð til aksturs í snjó, golfbifreiðar og áþekk ökutæki. Annar undirliður vöruliðar 8703 tekur til annarra ökutækja með stimpilbrunahreyfli með neistakveikju. Til þess undirliðar heyrir m.a. tollskrárnúmer 8703.2111 sem tekur til fjórhjóla með 1000 cm³ sprengirými eða minna.

Eins og áður greinir eru hin innfluttu ökutæki sem málið snýst um af gerðunum Yamaha, Can-Am Maverick og Polaris RZR. Fram kemur í gögnum málsins að ökutækin teljist til svonefndra „side-by-side“ ökutækja, en í úrskurði tollstjóra er tekið fram að um sé að ræða svokallaða „Buggy bíla“ sem sérstaklega séu búnir til utanvegaaksturs. Munu öll ökutækin vera skráð sem fólksbifreiðar í ökutækjaskrá Samgöngustofu og notkunarflokkur tilgreindur beltabifreiðar. Tekið skal fram að hvorki af hálfu tollstjóra né kæranda hefur komið fram í málinu greinargóð lýsing á ökutækjunum, eiginleikum þeirra og útbúnaði. Í gögnum málsins koma þó fram upplýsingar um undirtegund ökutækjanna, þ.e. þrjú tæki eru af gerðinni Yamaha YX70ZPSGS, eitt tæki af gerðinni Yamaha YX70EPN1FL, eitt tæki af gerðinni Yamaha YX70EPGL, eitt tæki af gerðinni Yamaha YX70MPNFG, fjögur tæki af gerðinni Can-Am Maverick og eitt tæki af gerðinni Polaris RZR. Af þessu og upplýsingum í kæru til yfirskattanefndar verður ráðið að um sé að ræða ökutæki á fjórum hjólum eða beltum, stjórnað af sitjandi ökumanni með hefðbundnu stýri í þar til gerðu sæti, búin veltigrind án glugga, auk sætis fyrir farþega. Kemur fram í kærunni að notkun ökutækjanna sé að mestu bundin við torfærur á fjöllum og hálendi. Er ekki að sjá að fyrir yfirskattanefnd sé neinn ágreiningur um útbúnað ökutækjanna, en tekið er fram í kærunni að þau hafi verið flutt til landsins á beltum. Er krafa kæranda byggð á því að þar sem ökutækin séu á beltum og þannig sérstaklega gerð til aksturs í snjó falli þau undir tollskrárnúmer 8703.1039 í tollskrá. Af hálfu tollstjóra er hins vegar talið að umrædd belti séu einungis aukabúnaður með ökutækjunum og breyti engu um eðli þeirra sem ökutækja til utanvegaaksturs. Þótt hægt sé að koma fyrir beltum í stað hjóla undir ökutækjunum geti þau ekki þar með talist sérstaklega gerð eða framleidd til aksturs í snjó og þar af leiðandi ekki fallið undir tollskrárnúmer 8703.1039.

Þess er að geta að í úrskurðaframkvæmd hefur nýlega reynt á tollflokkun ökutækja af gerð svonefndra „Buggy bíla“ (fjórhjólabíla), sbr. úrskurði yfirskattanefndar nr. 185 og 188/2018 þar sem deilt var um tollflokkun ökutækja af gerðinni Arctic Cat Wildcat annars vegar og CFMOTO hins vegar. Í báðum umræddum úrskurðum var fallist á með tollstjóra að ökutækin féllu undir vörulið 8703 í tollskrá sem ökutæki til fólksflutninga, en af hálfu innflytjenda ökutækjanna var ýmist talið að þau féllu undir vörulið 8701 sem dráttarvélar eða vörulið 8704 sem ökutæki til vöruflutninga. Fyrir yfirskattanefnd var ekki sérstaklega deilt um nánari flokkun ökutækjanna innan vöruliðar 8703, en tollstjóri taldi þau falla undir tollskrárnúmer 8703.2111 sem fjórhjól. Í hinu fyrra máli vegna ökutækja af gerðinni Arctic Cat Wildcat, sem lauk með úrskurði yfirskattanefndar nr. 185/2018, kom fram að unnt væri að nota ökutækin með beltum til aksturs í snjó. Ekki var því þó haldið fram í málum þessum að viðkomandi ökutæki gætu fallið undir tollskrárnúmer 8703.1039 í tollskrá.

Af hálfu tollstjóra er komið fram í málinu að hin umþrættu ökutæki séu ekki markaðssett af hálfu framleiðenda þeirra sem beltabifreiðar eða snjóbifreiðar og að belti, sem unnt sé að koma fyrir undir þeim í stað hjóla, séu talin til aukabúnaðar með þeim á vefsíðum framleiðenda. Miðað við tiltækar upplýsingar í málinu, m.a. af vefsíðum framleiðenda og söluaðila ökutækjanna, verður að taka undir þetta með tollstjóra. Af hálfu kæranda hefur engin grein verið gerð fyrir því að hvaða leyti ökutækin geti talist sérstaklega gerð eða hönnuð til aksturs í snjó, að frátöldum þeim möguleika að koma fyrir greindum aukabúnaði (beltum) í stað hjóla. Verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að umrædd ökutæki séu um flest sömu gerðar og hliðstætt útbúin og þau ökutæki sem til umfjöllunar voru í fyrrgreindum úrskurðum yfirskattanefndar nr. 185 og 188/2018 og séu þannig einkum gerð til aksturs í torfærum. Með vísan til þessa verður ekki fallist á með kæranda að ökutækin falli undir tollskrárnúmer 8703.1039 í tollskrá sem ökutæki sem sérstaklega séu gerð til aksturs í snjó. Þá verður að sömu ástæðu ekki talið að ökutækin geti talist beltabifreiðar (snjóbílar) sérstaklega ætlaðar til aksturs í snjó í skilningi i-liðar 3. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993 og séu þannig undanþegnar vörugjaldi. Að því athuguðu og þar sem ökutæki af þeim toga sem um ræðir eru ekki sérstaklega talin upp í II. kafla laga nr. 29/1993 verður að taka undir með tollstjóra að þau falli undir safnákvæði c-liðar 3. tölul. 4. gr. laganna sem „önnur vélknúin ökutæki“ og séu þannig í 30% gjaldhlutfalli vörugjalds.

Með vísan til þess, sem hér að framan er rakið, svo og með vísan til 1. tölul. í almennum reglum um túlkun tollskrár, verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja