Úrskurður yfirskattanefndar

  • Takmörkuð skattskylda
  • Lífeyrissparnaður
  • Málskostnaður

Úrskurður nr. 21/2019

Gjaldár 2018

Lög nr. 90/2003, 3. gr. 2. tölul., 70. gr. 2. tölul. 3. mgr. (brl. nr. 128/2009, 16. gr.)   Lög nr. 30/1992, 8. gr. 2. mgr. (brl. nr. 96/1998, 4. gr.)  

Kærandi, sem var búsett í Danmörku, fékk greiddan út lífeyrissparnað á árinu 2017. Fallist var á að kæranda bæri fullur persónuafsláttur til frádráttar álögðum tekjuskatti og útsvari af lífeyristekjunum. Málskostnaðarkröfu kæranda var hafnað, en hún rak mál sitt sjálf og lagði ekki fram nein gögn um útlagðan kostnað.

Ár 2019, miðvikudaginn 13. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 174/2018; kæra A, dags. 19. nóvember 2018, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2018. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 19. nóvember 2018, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 25. október 2018, vegna álagningar opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2018. Varðar kæruefni málsins skattalega meðferð lífeyrisgreiðslna á árinu 2017.

II.

Helstu málavextir eru þeir að í skattframtali kæranda árið 2018 voru færðar til tekna lífeyrisgreiðslur að fjárhæð 324.714 kr. Í athugasemdareit í skattframtalinu kom fram að kærandi hefði flutt til Danmerkur árið 2016. Kom fram að kærandi hefði ekki getað skráð þær upplýsingar í lið 1.6 í skattframtalinu og þess vegna hefði hún tilgreint 1. janúar 2017. Í lið 1.6 í skattframtalinu kom fram að kærandi hefði flutt úr landi 2. janúar 2017 til Danmerkur. Við almenna álagningu opinberra gjalda var lagður á kæranda tekjuskattur að fjárhæð 94.676 kr. og útsvar að fjárhæð 47.019 kr. eða samtals 141.695 kr.

Með kæru til ríkisskattstjóra, dags. 21. ágúst 2018, gerði kærandi athugasemdir vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2018. Í kærunni kom fram að vegna mistaka hefði kærandi tilgreint tvo dvalardaga hér á landi í skattframtali sínu árið 2018. Hið rétta væri að hún hefði dvalið hér á landi tilgreinda daga í febrúar, apríl, maí, ágúst, september, nóvember og desember 2017, svo sem meðfylgjandi afrit af flugmiðum bæru með sér. Hefði kærandi samkvæmt þessu dvalið á Íslandi í 150 daga árið 2017.

Með kæruúrskurði, dags. 25. október 2018, tók ríkisskattstjóri kæru kæranda til afgreiðslu. Í úrskurðinum var tekið fram að kærandi hefði verið búsett í Danmörku á árinu 2017 og hefði hún því borið takmarkaða skattskyldu hér á landi. Lífeyristekjur sem hún hefði fengið hér á landi væru skattskyldar samkvæmt 2. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Samkvæmt 3. mgr. 2. tölul. 70. gr. laga nr. 90/2003 skyldi ákvarða tekjuskatt aðila sem skattskyldir væru samkvæmt 3. gr. laganna og fengju lífeyristekjur frá íslenskum aðilum þannig að tekjuskattur reiknaðist af tekjuskattsstofni samkvæmt 1. – 3. tölul. 66. gr. laganna að teknu tilliti til persónuafsláttar samkvæmt A-lið 67. gr. Kærandi hefði fengið lífeyrisgreiðslur í júlí 2017 og ætti hún því rétt á persónuafslætti í 31 dag. Leiddi ákvörðun ríkisskattstjóra til þess að tekjuskattur kæranda lækkaði úr 94.676 kr. í 19.139 kr.

III.

Með kæru, dags. 19. nóvember 2018, hefur kærandi skotið úrskurði ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar. Í kærunni er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði ógiltur og að staðfest verði að kærandi sé skuldlaus við innheimtumann ríkisjóðs. Í kærunni er bent á að haldið hafi verið eftir staðgreiðslu opinberra gjalda af lífeyrisgreiðslum til kæranda og eigi kærandi því að vera skuldlaus.

Með bréfi, dags. 21. nóvember 2018, hefur kærandi gert kröfu um að henni verði ákvarðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði. Kemur fram í bréfinu að kærandi hafi unnið í u.þ.b. sex klukkustundir við öflun gagna, ritun kæru og samskipti við ríkisskattstjóra og tollstjóra.

IV.

Með bréfi, dags. 4. desember 2018, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 5. desember 2018, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Kærandi í máli þessu, sem er búsett í Danmörku, fékk greiddan út lífeyrissparnað að fjárhæð 324.714 kr. á árinu 2017. Er því ljóst að kærandi bar takmarkaða skattskyldu hér á landi gjaldárið 2018 á grundvelli 2. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, vegna umræddrar lífeyrisgreiðslu. Er við þetta miðað í hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 25. október 2018, þar sem fram kemur m.a. að haga beri álagningu opinberra gjalda kæranda í samræmi við ákvæði 70. gr. laga nr. 90/2003 þar sem mælt er fyrir um tekjuskatt aðila sem bera takmarkaða skattskyldu hér á landi. Samkvæmt 3. mgr. 2. tölul. 70. gr. laganna skal tekjuskattur eftirlaunaþega og lífeyrisþega, sem um ræðir í 2. tölul. 3. gr. laganna, reiknast af tekjuskattsstofni samkvæmt 1.-3. tölul. 1. mgr. 66. gr. að teknu tilliti til persónuafsláttar samkvæmt A-lið 67. gr. laganna. Persónuafsláttur skal í þessum tilvikum einungis dreginn frá tekjuskatti af eftirlaunum og lífeyri viðkomandi aðila og skal ónýttum hluta hans einungis ráðstafað til greiðslu á útsvari af sömu tekjum. Sá hluti persónuafsláttar sem þá er enn óráðstafað fellur niður og er hann ekki millifæranlegur milli hjóna nema þau séu bæði eftirlaunaþegar eða lífeyrisþegar og falli að öðru leyti bæði undir ákvæði þessarar málsgreinar. Með vísan til framangreindra ákvæða verður að telja að kæranda beri fullur persónuafsláttur að fjárhæð 634.880 kr. til frádráttar álögðum tekjuskatti og útsvari af lífeyristekjum sem um ræðir, sbr. og úrskurð yfirskattanefndar nr. 148/2015. Er því fallist á kröfu kæranda þar að lútandi.

Kærandi hefur gert kröfu um að henni verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Í ákvæði þessu kemur fram að falli úrskurður yfirskattanefndar skattaðila í hag, að hluta eða öllu leyti, geti yfirskattanefnd úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, að hluta eða öllu leyti, enda hafi skattaðili haft uppi slíka kröfu við meðferð málsins, um sé að ræða kostnað sem eðlilegt var að hann stofnaði til vegna meðferðar málsins og ósanngjarnt væri að hann bæri þann kostnað sjálfur. Fyrir liggur að kærandi hefur rekið mál sitt sjálf á öllum stigum þess. Þá hefur kærandi ekki lagt fram nein gögn um útlagðan kostnað þrátt fyrir ábendingu þar um í bréfi yfirskattanefndar, dags. 20. nóvember 2018, þar sem móttaka kærunnar var staðfest. Með vísan til þessa, sbr. og starfsreglur yfirskattanefndar um ákvörðun málskostnaðar frá 21. nóvember 2014, sem birtar eru á vef nefndarinnar, eru ekki skilyrði til að úrskurða kæranda málskostnað til greiðslu úr ríkissjóði. Verður því að hafna málskostnaðarkröfu kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Persónuafsláttur til frádráttar álögðum tekjuskatti og útsvari kæranda ákvarðast 634.880 kr. Málskostnaðarkröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja