Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattsekt
  • Skattrannsókn
  • Fyrning sakar

Úrskurður nr. 23/2019

Lög nr. 50/1988, 40. gr. 1. mgr. (brl. nr. 42/1995, 3. gr.), 41. gr. 7. mgr.   Lög nr. 19/1940, 82. gr. 4. mgr.  

Skattrannsóknarstjóri ríkisins krafðist þess að A, stjórnarmanni og prókúruhafa X ehf., yrði gerð sekt fyrir að hafa vanrækt að standa skil á virðisaukaskatti félagsins árin 2010 og 2011. Þar sem talið var að meint brot A gagnvart lögum um virðisaukaskatt væru fyrnd að öllu leyti var A ekki gerð sekt í málinu.

Ár 2019, miðvikudaginn 13. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 181/2018; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 23. nóvember 2018, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A fyrir brot á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2010 og 2011.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A sem fyrrum stjórnarmanni og prókúruhafa X ehf. (nú afskráð) er gefið að sök eftirfarandi:

Vanræksla á skilum á virðisaukaskattsskýrslum. Vanframtalin skattskyld velta og útskattur.

A er gefið að sök, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, að hafa vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum til skattyfirvalda vegna uppgjörstímabilanna janúar–febrúar tekjuársins 2010 til og með nóvember–desember tekjuársins 2011, og vanframtelja með því skattskylda veltu og virðisaukaskatt vegna rekstrar X ehf. Samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins nemur vanframtalin skattskyld velta samtals kr. 16.709.163 og vanframtalinn útskattur samtals kr. 4.260.837.

Sundurliðast vanframtalin skattskyld velta og virðisaukaskattur svo sem hér greinir:

Rekstrarár

Uppgjörstímabil

Vanframtalin skattskyld velta kr.

Vanframtalinn útskattur kr.

2010

janúar – febrúar

2.725.099

694.901

2010

mars – apríl

0

0

2010

maí – júní

0

0

2010

júlí – ágúst

2.103.586

536.414

2010

sept. – okt.

1.418.327

361.673

2010

nóv. – des.

1.697.211

432.789

Samtals kr.

7.944.223

2.025.777

2011

janúar – febrúar

1.418.327

361.673

2011

mars – apríl

1.577.689

402.311

2011

maí – júní

1.338.645

341.355

2011

júlí – ágúst

1.370.518

349.482

2011

sept. – okt.

1.370.518

349.482

2011

nóv. – des.

1.689.243

430.757

Samtals kr.

8.764.940

2.235.060

Samtals bæði árin

16.709.163

4.260.837

Sú háttsemi A sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr., 2. .gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr., 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum og 1. og 2. tl. 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 23. nóvember 2018, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Forsaga máls þessa er sú að með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 29. ágúst 2017, gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins þá kröfu að gjaldanda yrði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með því að hann hefði sem fyrirsvarsmaður X ehf. vanrækt að standa skil á virðisaukaskatti félagsins öll uppgjörstímabil áranna 2010 og 2011 að fjárhæð samtals 4.260.837 kr.

Með ábyrgðarbréfi yfirskattanefndar, dags. 4. september 2017, sem sent var á skráð heimilisfang gjaldanda, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Var bréf þetta endursent yfirskattanefnd með því að þess hefði ekki verið vitjað. Reynt var að koma fram birtingu fyrir gjaldanda eftir ákvæðum b-liðar 1. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, með bréfi yfirskattanefndar, dags. 10. október 2017, en birting tókst ekki. Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 184/2017, sem kveðinn var upp hinn 22. nóvember 2017, var kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda vísað frá yfirskattanefnd þar sem afstaða gjaldanda til meðferðar málsins lægi ekki fyrir, sbr. 4. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Með bréfi, dags. 18. apríl 2018, vísaði skattrannsóknarstjóri ríkisins máli gjaldanda til meðferðar hjá embætti héraðssaksóknara.

Með bréfi, dags. 23. október 2018, afturkallaði skattrannsóknarstjóri ríkisins fyrrgreinda vísun embættisins til héraðssaksóknara frá 18. apríl 2018 og óskaði þess að héraðssaksóknari endursendi málið til skattrannsóknarstjóra ríkisins, enda hefði komið fram ósk um það frá tilnefndum verjanda gjaldanda að málið yrði sent yfirskattanefnd til meðferðar, sbr. bréf verjandans til skattrannsóknarstjóra, dags. 1. október 2018.

Með bréfi héraðssaksóknara, dags. 23. október 2018, var málið endursent embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins.

III.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 27. nóvember 2018, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Með bréfi, mótt. 11. janúar 2019, hefur gjaldandi lagt fram vörn í málinu. Í vörninni er tekið fram að gjaldandi fallist á að yfirskattanefnd fjalli um mál hans. Er þess aðallega krafist að gjaldanda verði ekki gerð sekt í málinu en til vara að gjaldanda verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa. Þá er gerð krafa um að gjaldanda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Í vörninni eru málavextir raktir. Til stuðnings aðalkröfu er því m.a. haldið fram að huglæg refsiskilyrði skorti til að ákvarða gjaldanda sekt í málinu. Þá sé refsiábyrgð gjaldanda fyrnd, sbr. 1. mgr. 81. gr., sbr. 80. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Varakrafa gjaldanda byggir á sömu málsástæðum en til viðbótar er vísað til þess að langt sé liðið frá atvikum málsins og hafi skiptum á búi X ehf. t.a.m. lokið um fjórum árum fyrir upphaf rannsóknar. Þá er farið fram á að yfirskattanefnd leggi mat á ætlaðan innskatt félagsins þó svo að gögn um innskatt liggi ekki fyrir. Í vörninni er loks vikið að kröfu gjaldanda um málskostnað. Áætlaður heildarkostnaður gjaldanda vegna meðferðar málsins fyrir yfirskattanefnd sé 303.800 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti vegna 10 tíma vinnu umboðsmanns gjaldanda við málið.

IV.

Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur gjaldanda er byggð á því að gjaldandi hafi sem fyrirsvarsmaður X ehf., nú afskráð, vanrækt að standa skil á virðisaukaskatti félagsins öll uppgjörstímabil áranna 2010 og 2011. Samkvæmt 7. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, fyrnist sök samkvæmt 40. gr. laganna á sex árum miðað við upphaf rannsóknar á vegum skattrannsóknarstjóra ríkisins eða héraðssaksóknara eða hjá löglærðum fulltrúum þeirra gegn skattaðila sem sökunaut, enda verði ekki óeðlilegar tafir á rannsókn máls eða ákvörðun refsingar. Svo sem rakið var í kafla II hér að framan vísaði skattrannsóknarstjóri ríkisins máli gjaldanda til sektarmeðferðar hjá yfirskattanefnd með bréfi, dags. 29. ágúst 2017, en sektarkröfu skattrannsóknarstjóra var vísað frá yfirskattnefnd með úrskurði nr. 184/2017 með því að afstaða gjaldanda til meðferðar málsins lægi ekki fyrir, sbr. 4. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Var máli gjaldanda þá vísað til meðferðar hjá embætti héraðssaksóknara með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 18. apríl 2018, en skattrannsóknarstjóri afturkallaði málið í kjölfar beiðni tilnefnds verjanda gjaldanda til skattrannsóknarstjóra, dags. 1. október 2018, og sendi til yfirskattanefndar að nýju með bréfi, dags. 23. nóvember 2018. Ekki verður séð af gögnum málsins að gjaldandi hafi komið fyrir löglærðan fulltrúa skattrannsóknarstjóra ríkisins þar sem hann hafi verið sakaður um brot gegn skattalögum í rekstri X ehf. Þá liggur ekkert fyrir um framvindu málsins hjá embætti héraðssaksóknara. Fyrning sakar verður því fyrst talin hafa verið rofin er sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins var kynnt gjaldanda með bréfi yfirskattanefndar, dags. 27. nóvember 2018, sbr. fyrningarrofsreglu þá er fram kemur í 3. málsl. 4. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Voru þá liðin meira en sex ár frá gjalddaga uppgjörstímabilsins nóvember-desember 2011, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, sem er síðasta uppgjörstímabil sem sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu tekur til. Samkvæmt þessu verður að telja brot gjaldanda gagnvart lögum um virðisaukaskatt í máli þessu fyrnd að öllu leyti. Að þessu athuguðu verður gjaldanda ekki gerð sekt í máli þessu.

Tilnefndur verjandi gjaldanda hefur gert kröfu um að gjaldanda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Í ákvæði þessu kemur fram að falli úrskurður yfirskattanefndar skattaðila í hag, að hluta eða öllu leyti, geti yfirskattanefnd úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, að hluta eða öllu leyti, enda hafi skattaðili haft uppi slíka kröfu við meðferð málsins, um sé að ræða kostnað sem eðlilegt var að hann stofnaði til vegna meðferðar málsins og ósanngjarnt væri að hann bæri þann kostnað sjálfur. Af hálfu gjaldanda hafa engin gögn verið lögð fram um útlagðan kostnað hans þrátt fyrir ábendingu þar að lútandi í bréfi yfirskattanefndar, dags. 27. nóvember 2018. Með vísan til framanritaðs, sbr. og starfsreglur yfirskattanefndar um ákvörðun málskostnaðar frá 21. nóvember 2014, sem birtar eru á vef nefndarinnar, eru ekki skilyrði til að úrskurða gjaldanda málskostnað til greiðslu úr ríkissjóði. Verður því að hafna málskostnaðarkröfu gjaldanda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Gjaldanda, A, verður ekki gerð sekt í máli þessu. Málskostnaðarkröfu gjaldanda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja