Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 536/1990
Gjaldár 1988
Lög nr. 75/1981 — 69. gr. C-liður Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða II Reglugerð nr. 76/1988 — 2. gr. 2. mgr.
Húsnæðisbætur — Íbúðarhúsnæði — Fyrsta íbúðarhúsnæði — Byggingarstig — Upphaf byggingar — Úttekt byggingar — Kæruheimild — Kröfugerð kæranda — Rökstuðningur — Rökstuðningur ákvarðana skattstjóra — Rökstuðningi áfátt — Húsbygging — Húsbyggjandi
Málavextir eru þeir, að kærendur sóttu um húsnæðisbætur til skattstjóra árið 1988 með umsóknum, dags. 24. mars 1988, vegna íbúðarhúsnæðis að X. Í fylgiskjali með umsóknunum kom fram, að kærendur töldu sig hafa eignast íbúðarhúsnæði í fyrsta sinn 30. júlí 1984, þ.e. nefnt íbúðarhús við X. Bygging þess hefði byrjað síðla sumars 1983 og þá reistir sökklar m.a. til þess að fullnægja byggingarskilmálum Reykjavíkurborgar. Byrjað hefði verið að reisa húsið sumarið 1984 og það gert fokhelt þá. Væri fokheldisvottorð dagsett 30. júlí 1984. Tóku kærendur fram í gagni þessu, að vart gæti það verið ætlunin, að þeir, sem byrjað hefðu á sökklum í sama hverfi eftir áramótin ættu frekar rétt á bótum. Húsið hefði orðið íbúðarhæft í september 1986, en framkvæmdum væri ekki nærri lokið. Umsækjendur hefðu ekki notið vaxtafrádráttar í stað fasts frádráttar.
Með bréfum, dags. 28. júlí 1988, tilkynnti skattstjóri kærendum, að umsóknum þeirra um húsnæðisbætur gjaldárið 1988 væri synjað, þar sem íbúðarhúsnæði það, sem umsóknirnar vörðuðu, hefði ekki verið keypt, bygging hafin eða byggingarsamningur gerður á árunum 1984–1987. Vísaði skattstjóri til C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 9. gr. laga nr. 92/1987, um breyting á þeim lögum, og bráðabirgðaákvæðis II í síðarnefndu lögunum, svo og reglugerðar nr. 76/1988, um húsnæðisbætur.
Af hálfu kærenda var synjun skattstjóra mótmælt í kærum, dags. 29. ágúst 1988. Gerðu kærendur grein fyrir byggingaráföngum og héldu því jafnframt fram, að vart væri unnt að tala um íbúð fyrir fokheldisstig, enda miðaðist lánshæfi íbúðar við það. Með þessu væri verið að mismuna fólki eftir því hvort um kaup eða byggingu væri að ræða, er ekki gæti verið tilgangur laganna, enda um að ræða fyrstu íbúð kærenda. Þá vörpuðu kærendur fram þeirri spurningu, hvort þeir, sem ekki hefðu uppfyllt byggingarskilmála um framkvæmdarhraða, fengju húsnæðisbætur. Kærendur gátu þess, að byggingarsamningar hefðu verið gerðir við ýmsa verktaka um einstaka þætti byggingarinnar á árinu 1984 og síðar.
Með kæruúrskurðum, dags. 28. desember 1988, synjaði skattstjóri kröfum kærenda um húsnæðisbætur með svofelldum rökum: „Í bréfi yðar er m.a. upplýst að bygging íbúðar yðar hófst á árinu 1983. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 92/1987 teljast þeir eiga rétt á húsnæðisbótum sem keyptu eða hófu byggingu í fyrsta sinn á árunum 1984–1987.“ Ekki kærðu kærendur úrskurði þessa sérstaklega til ríkisskattanefndar, en ítrekuðu kröfur sínar um húsnæðisbætur með umsóknum, dags. 10. febrúar 1989, er fylgdu skattframtali það ár. Skírskotuðu kærendur til fyrri umsókna. Gangur og lyktir málsins gjaldárið 1989 urðu með sama hætti og áður. Skattstjóri tilkynnti kærendum, að umsóknum þeirra væri synjað, sbr. bréf hans, dags. 26. júlí 1989. Kærendur mótmæltu í kæru, dags. 24. ágúst 1989. Skattstjóri synjaði kröfum kærenda með kæruúrskurði, dags. 28. september 1989. Tók skattstjóri fram, að upplýst væri, að sökklar hefðu verið reistir síðsumars 1983. Þá segir svo í úrskurðinum: „Skv. C-lið 69. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 76/1988, með síðari breytingum, telst bygging húsnæðis hafin þegar undirstöðum byggingar er lokið skv. vottorði bygginarfulltrúa.“
Af hálfu kærenda hefur synjunum skattstjóra á húsnæðisbótum þeim til handa verið mótmælt í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 27. október 1989. Telja kærendur sig eiga rétt á húsnæðisbótum gjaldárin 1988 og 1989 í samræmi við reglur þar um eins og rökstutt hafi verið í innsendum gögnum.
Með bréfi, dags. 27. apríl 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Skilja verður kæruna svo að hún varði húsnæðisbætur til handa kærendum bæði gjaldárið 1988 og 1989. Fram hefur komið, að kærendur kærðu eigi sérstaklega kæruúrskurði skattstjóra, dags. 28. desember 1988, vegna gjaldársins 1988, en ítrekuðu kröfur sínar um húsnæðisbætur með nýjum umsóknum, dags. 10. febrúar 1989, er fylgdu skattframtali það ár. Eftir öllum atvikum og eins og sakarefni er háttað og málið liggur fyrir þykir mega taka til úrlausnar húsnæðisbætur kærenda fyrrnefnd gjaldár bæði. Réttur kærenda til húsnæðisbóta yrði að byggjast á bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 49/1987 eins og því ákvæði var breytt, með 14. gr. laga nr. 92/1987. Úrlausn máls þessa veltur á því, hvenær kærendur teljist hafa eignast umrætt íbúðarhúsnæði að X, í skilningi nefnds bráðabirgðaákvæðis. Í þessu sambandi er þess að geta, að fjármálaráðherra hefur sett reglugerð skv. C-lið 69. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 9. gr. laga nr. 92/1987, m.a. um það hvað teljist fyrsta íbúðarhúsnæði í eigu manns skv. lagaákvæði þessu. Er það reglugerð nr. 76/1988, um húsnæðisbætur, sbr. br. á þeirri reglugerð með reglugerð nr. 118/1988. Engin hliðstæð reglugerð hefur verið sett varðandi túlkun á nefndu bráðabirgðaákvæði. Þegar litið er til þess, sem upplýst er í máli þessu um framkvæmdir við undirstöður hússins að X, og með hliðsjón af 2. mgr. 2. gr. nefndrar reglugerðar þykir synjun skattstjóra eigi reist á nægilega traustum grunni. Að svo vöxnu þykir rétt að taka kröfu kærenda til greina.