Úrskurður yfirskattanefndar

  • Eignfærsla fasteignar
  • Valdsvið yfirskattanefndar

Úrskurður nr. 48/2019

Gjaldár 2018

Lög nr. 90/2003, 72. gr., 73. gr. 1. tölul.   Lög nr. 30/1992, 2. gr.  

Í kæru til yfirskattanefndar gerði kærandi ýmsar athugasemdir við framgang opinberra skipta á dánarbúi foreldra hans sem kærandi taldi eiga að leiða til leiðréttinga á skattframtali hans árið 2018, þ.e. niðurfellingar á eignfærslu fasteignar. Í úrskurði yfirskattanefndar var bent á að ágreiningur um skipti dánarbúa félli utan valdsviðs nefndarinnar. Þar sem ekki varð séð að athugasemdir kæranda vörðuðu í reynd ákvörðun tekjuskatts og útsvars var kærunni vísað frá yfirskattanefnd.

Ár 2019, miðvikudaginn 27. mars, er tekið fyrir mál nr. 170/2018; kæra A, dags. 21. nóvember 2018, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2018. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 21. nóvember 2018, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 4. október 2018, vegna álagningar opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2018. Með úrskurði þessum hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda um að eignfærsla fasteignarinnar M í skattframtali kæranda umrætt ár yrði felld niður. Í kæru til yfirskattanefndar er sú krafa kæranda ítrekuð.

II.

Málavextir eru þeir helstir að í skattframtali kæranda árið 2018 var færður til eignar eignarhlutur í fasteign að M með 1.310.505 kr.

Með bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 26. mars 2018, fór kærandi fram á að skattframtal hans yrði leiðrétt á þann veg að umrædd fasteign yrði felld niður úr framtalinu. Kom fram að eignin væri í eigu dánarbús foreldra kæranda sem væri í skiptameðferð hjá Héraðsdómi Reykjavíkur og hefði verið um árabil. Hvorki lægi fyrir samþykkt frumvarp til skipta á búinu né neitt frumvarp sem stuðst hefði verið við til að ljúka skiptunum. Beiðninni fylgdi ítarleg greinargerð um framvindu skiptanna og var tekið fram að þar væri fjallað um ýmis brot gagnvart erfingjum og þar með lögbrot þess sem bæri ábyrgð á skiptunum.

Með bréfi, dags. 23. maí 2018, tók ríkisskattstjóri leiðréttingarbeiðni kæranda til meðferðar, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, og hafnaði kröfu kæranda um að eignfærsla fasteignarinnar að M yrði felld niður í skattframtalinu. Vísaði ríkisskattstjóri til ákvæðis 1. tölul. 73. gr. laga nr. 90/2003 þess efnis að allar fasteignir, hverju nafni sem þær nefndust, skyldi telja til eignar á gildandi fasteignamatsverði, ellegar á stofnverði, væri fasteignamatsverð ekki fyrir hendi, svo sem nánar greindi í ákvæðinu. Þá tók ríkisskattstjóri fram að forskráning M í skattframtali kæranda væri í samræmi við upplýsingar í fasteignaskrá og fyrirliggjandi erfðafjárskýrslu hjá ríkisskattstjóra, dags. ... 2016.

Með kæru til ríkisskattstjóra, dags. 29. maí 2018, fór kærandi að nýju fram á að eignfærsla M yrði felld niður í skattframtali hans árið 2018. Tók kærandi fram að reglur 73. gr. laga nr. 90/2003 hefðu ekkert með erindi hans að gera og gæti úrlausn ríkisskattstjóra því ekki byggst á því sem fram kæmi í bréfi embættisins, dags. 23. maí 2018. Auk þess að ítreka fyrra erindi sitt færi kærandi því fram á að ríkisskattstjóri færi að lögum í málinu og gengi úr skugga um að þeir sem veitt hefðu embættinu upplýsingar styddust eingöngu við lög í sinni upplýsingagjöf. Svo hefði ekki verið í þessu tilviki og hefði kærandi bent á það í tvígang.

Með kæruúrskurði, dags. 4. október 2018, hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda. Vísaði ríkisskattstjóri sem áður til ákvæðis 1. tölul. 73. gr. laga nr. 90/2003 og áréttaði að kærandi væri skráður eigandi um 9% hluta eignarinnar að M í skrám Þjóðskrár Íslands. Þá ítrekaði ríkisskattstjóri að forskráning á framtali 2018 væri í samræmi við erfðafjárskýrslu og upplýsingar Þjóðskrár. Að svo stöddu yrði því ekki fallist á kröfu kæranda um að fasteignin yrði felld niður í skattframtali hans árið 2018.

III.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er gerð krafa um að eignfærsla fasteignar að M verði felld niður í skattframtali kæranda árið 2018. Í kærunni er ítrekuð sú afstaða kæranda að umrædd fasteign tilheyri dánarbúi foreldra kæranda. Hvorki liggi fyrir samþykkt né ósamþykkt frumvarp um skipti á dánarbúinu. Ekki liggi þannig fyrir neitt frumvarp sem skiptastjóri hafi ritað á að hafi verið samþykkt í samræmi við kröfur í 78. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl. Erfðafjárskýrsla, sem ríkisskattstjóri vísi til, sé af þessum sökum ekki til. Haldi einhver öðru fram sé um skjalafals að ræða sem kærandi geti ekki vænst að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi gert sig sekan um. Eign hafi verið færð á kæranda sem hann hafi ekki tekið við og ekki samþykkt á neinn hátt að taka við. Hvorki bréf ríkisskattstjóra, dags. 23. maí 2018, né úrskurður embættisins, dags. 4. október sama ár, hafi neitt með erindi kæranda að gera, enda hafi kærandi ekki vísað til efnis 73. gr. laga nr. 90/2003 í erindinu. Ríkisskattstjóri gangi út frá því að kærandi hafi rangt fyrir sér en gangi ekki úr skugga um hvort þær upplýsingar, sem hann hafi lagt fram, séu réttar eða rangar, áður en embættið hafi hafnað því að leiðrétta skattframtal kæranda. Í niðurlagi kæru er bent á að öll gögn vegna málsins liggi fyrir og sé unnt að leggja fram verði þess óskað, þar með talið þrjú frumvörp til úthlutunar úr dánarbúinu sem ekki hafi hlotið samþykki.

IV.

Með bréfi, dags. 21. desember 2018, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Í umsögninni er ítrekað að ríkisskattstjóri hafni því að fella úr skattframtali kæranda umrædda fasteign þar sem forskráning hennar í framtalinu sé í samræmi við erfðafjárskýrslu og upplýsingar í fasteignaskrá.

Með ódagsettu bréfi, sem barst yfirskattanefnd 22. janúar 2019, hefur kærandi ítrekað kröfur sínar í málinu. Tekur kærandi fram að það sé undarlegt að ábending sín til ríkisskattstjóra um að embættið hafi fært eign á nafn kæranda með röngu sé nú til meðferðar hjá yfirskattanefnd. Eðlileg viðbrögð ríkisskattstjóra hefðu verið að ganga úr skugga um hvort rétt væri og ganga svo frá málinu í samræmi við það. Í stað þess hafi ríkisskattstjóri, sem eigi að fylgjast með að eignir landsmanna og tekjur séu rétt skráðar vegna álagningar skatta, spurt þann aðila, sem framið hafi glæp og þar með brotið lög á margvíslega vegu, hvort hann hafi gert allt rétt. Með afgreiðslu sinni hafi ríkisskattstjóri hafnað því að ganga úr skugga um að ítarlegar upplýsingar, sem hann hafi fengið með upphaflegri ábendingu kæranda um málið, séu réttar sem honum hafi borið að gera eins og í öllum öðrum málum þar sem bent sé á lögbrot á starfssviði embættisins. Kærandi hafi hvorki keypt M né eignast á annan löglegan eða ólöglegan hátt. Hvorki forskráning ríkisskattstjóra né skráning í þjóðskrá sem brotlegur aðili hafi hlutast til breyti neinu um það að skiptum á umræddu dánarbúi sé ólokið. Hér sé um að ræða skjalafals framið af þeim, sem enn hafi með höndum ófrágengin búskipti dánarbúsins, og beri að taka á því. Ríkisskattstjóra beri þannig að kanna hvort ábending kæranda sé rétt miðað við gildandi lög og taka ákvörðun á þeim grundvelli, en ekki eingöngu á grundvelli skráningar.

V.

Kæra í máli þessu varðar þá ákvörðun ríkisskattstjóra að hafna kröfu kæranda þess efnis að eignfærsla fasteignarinnar M í skattframtali kæranda árið 2018 yrði felld niður, sbr. bréf ríkisskattstjóra, dags. 23. maí 2018, og kæruúrskurð, dags. 4. október sama ár. Vísaði ríkisskattstjóri til þess að kærandi væri skráður eigandi fasteignarinnar í fasteignaskrá og að eignarhlutur í fasteigninni hefði runnið til hans við slit á dánarbúi foreldra kæranda á árinu 2016, sbr. erfðafjárskýrslu, dags. ... 2016, sem liggur fyrir í málinu. Benti ríkisskattstjóri á að samkvæmt 1. tölul. 73. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, bæri að telja allar fasteignir, hverju nafni sem nefnast, til eignar á gildandi fasteignamatsverði. Af hálfu kæranda er þess krafist að eignfærsla fasteignarinnar í skattframtalinu verði felld niður. Er sú krafa fyrst og fremst byggð á því, miðað við efni kæru hans, að skiptum dánarbúsins sé ekki lokið þar sem ekkert frumvarp til úthlutunar úr búinu liggi fyrir, sbr. 78. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., sem vísað er til í þessu sambandi í kærunni. Er tekið fram í kærunni að með ákvörðun ríkisskattstjóra hafi „eign [verið] færð á mig sem ég hef ekki tekið við og hef ekki samþykkt á neinn hátt að taka við“ og beri því að leiðrétta eignfærsluna. Þá er meðal gagna málsins greinargerð kæranda, sem ber yfirskriftina „Saga af skiptum á dánarbúi“, þar sem lýst er framvindu skipta á dánarbúi foreldra kæranda. Eru þar af hálfu kæranda gerðar margvíslegar athugasemdir við meðferð skiptanna og ýmsar ákvarðanir Héraðsdóms Reykjavíkur og skiptastjóra í tengslum við þau.

Eins og fram kemur í greinargerð kæranda fer um skipti dánarbúa að fyrrgreindum lögum nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl. Fyrir liggur að dánarbú foreldra kæranda var tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur á árinu 2008 að kröfu sýslumannsins í Reykjavík og búinu skipaður skiptastjóri. Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð kæranda mun sá skiptastjóri síðar hafa beðið um lausn frá starfanum og var búinu í kjölfarið skipaður annar skiptastjóri. Á skiptafundi á árinu 2016 lagði skiptastjóri dánarbúsins fram frumvarp til úthlutunar eigna búsins, sbr. 77. gr. laga nr. 20/1991. Í greinargerð kæranda er rakið að hann hafi ekki samþykkt frumvarpið og gert athugasemdir við það með bréfum til Héraðsdóms Reykjavíkur sumarið 2016. Skiptum dánarbúsins mun þó hafa verið lokið í kjölfar þessa, enda liggur fyrir að skiptastjóri afhenti sýslumanninum í Reykjavík erfðafjárskýrslu ... 2016 til áritunar og ákvörðunar erfðafjárskatts, sbr. 80. gr. greindra laga nr. 20/1991 og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt. Var skýrslan árituð af hendi sýslumanns með athugasemd um samþykki og skiptalok.

Ljóst er af gögnum málsins og málatilbúnaði kæranda að af hans hálfu eru gerðar ýmsar athugasemdir við skipti dánarbús foreldra kæranda sem kærandi telur að leiða eigi til breytinga á skattframtali hans árið 2018, þ.e. niðurfellingar á eignfærslu fasteignarinnar að M. Er m.a. byggt á því af hálfu kæranda að hvorki sýslumaður né héraðsdómur hafi sinnt athugasemdum við frumvarp til úthlutunar úr búinu sem skyldi. Lýtur málatilbúnaður kæranda þannig fyrst og fremst að ágreiningi um skipti umrædds dánarbús. Slíkan ágreining ber að leiða til lykta samkvæmt lögum nr. 20/1991, sbr. m.a. 3. mgr. 79. gr. og 122. gr. þeirra laga. Ekki verður séð að athugasemdir kæranda í kæru við eignfærslu M varði í reynd ákvörðun tekjuskatts og útsvars samkvæmt ákvæðum laga nr. 90/2003 og nr. 4/1995, þar á meðal ákvörðun skattstofns, skattstigs eða annað það er máli skiptir um skatta þessa samkvæmt þeim lögum, heldur lúti að leiðréttingu skattframtals kæranda sem afleiðingu af viðhorfum kæranda um skipti dánarbúsins sem slík. Þau viðhorf hafa ekki fengið framgang við lausn ágreiningsmála vegna búskiptanna, eins og kærandi rekur sjálfur í greinargerð sinni um dánarbússkiptin. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum, tekur úrskurðarvald nefndarinnar einvörðungu til ákvarðana þargreindra stjórnvalda um skatta og gjöld og annarra ákvarðana ríkisskattstjóra og tollstjóra eftir því sem mælt er fyrir um í lögum. Ágreiningur um skipti dánarbúa fellur þannig utan valdsviðs yfirskattanefndar.

Með vísan til þess, sem hér að framan er rakið, þykir bera að vísa máli þessu frá yfirskattanefnd.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kæru í máli þessu er vísað frá yfirskattanefnd.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja