Úrskurður yfirskattanefndar

  • Aðflutningsgjöld
  • Tollflokkun
  • Úrvinnslugjald
  • Gufusjóðari

Úrskurður nr. 60/2019

Lög nr. 88/2005, 20. gr.   Lög nr. 162/2002, 8. gr., 10. gr. a.   Almennar reglur um túlkun tollskrár.  

Deilt var um tollflokkun tækis sem notað var til að gufusjóða fiskafurðir. Yfirskattanefnd taldi tækið ekki geta talist ketil í skilningi vöruliðar 8404 í tollskrá, enda væri því ekki aðallega ætlað að framleiða gufu. Var fallist á með tollstjóra að tækið félli að vörulýsingu vöruliðar 8419, en undir þann vörulið félli vélbúnaður eða vélakostur til vinnslu á efnum með aðferðum sem fælu í sér hitabreytingu, svo sem með hitun eða suðu.

Ár 2019, miðvikudaginn 3. apríl, er tekið fyrir mál nr. 76/2018; kæra A ehf., dags. 7. maí 2018, vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæra í máli þessu, dags. 7. maí 2018, varðar úrskurð tollstjóra, dags. 26. mars 2018, um ákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings kæranda á gufukyntum sjóðara af gerðinni Myren BIK-230H. Kemur fram í kærunni að ágreiningur sé um tollflokkun gufusjóðarans, en við tollafgreiðslu og samkvæmt úrskurði tollstjóra var lagt til grundvallar að varan félli undir tollskrárnúmer 8419.8909 í tollskrá. Af hálfu kæranda er þess krafist að ákvörðun tollstjóra verði hnekkt. Nánar tiltekið krefst kærandi þess að umræddur sjóðari verði ekki felldur í fyrrgreint tollskrárnúmer og að úrvinnslugjald á hina innfluttu vöru verði fellt niður. Til vara gerir kærandi kröfu um endurgreiðslu úrvinnslugjalds verði sjóðarinn fluttur úr landi.

II.

Helstu málsatvik eru þau að kærandi flutti inn til landsins gufukyntan sjóðara af gerðinni Myren BIK-230H. Við tollafgreiðslu var byggt á því að varan félli undir tollskrárnúmer 8419.8909 í tollskrá.

Með kæru til tollstjóra, dags. 3. janúar 2018, mótmælti kærandi álagningu aðflutningsgjalda vegna vörunnar og fór fram á að tollflokkun hennar yrði endurskoðuð. Í kæru kæranda kom fram að um væri að ræða gufukyntan sjóðara sem hefði verið keyptur notaður. Sjóðarar af þessu tagi væru notaðir í vinnslulínu fiskimjölsverksmiðja til að sjóða fisk áður en hann færi áfram í vinnsluferli. Tækið væri smíðað úr stáli og um 20 tonn að þyngd. Á sjóðaranum væri gírmótor sem knýði snigil sjóðarans. Væri það eini hluti tækisins sem tengdist rafmagni. Því væri eindregið mótmælt tollflokkum sem leiddi til úrvinnslugjalds á raf- og rafeindatæki, enda gæti slík gjaldtaka ekki átt við þetta tæki. Virtist sem tollskráin hefði ekki fullnægjandi skilgreiningu á gufukyntum sjóðara. Að mati kæranda bæri að tollflokka tækið í tollskrárnúmer 8404.1009, en samkvæmt upplýsingum frá öðrum innflytjanda hefðu sambærileg tæki verið felld í það númer.

Með úrskurði, dags. 26. mars 2018, hafnaði tollstjóri kröfu kæranda. Í úrskurði tollstjóra kom fram að um væri að ræða sjóðara sem syði fiskafurðir með gufu sem væri framleidd í öðru tæki. Suðan færi fram í tromlu sem væri snúið með rafmagnsmótor. Tollskrárnúmer 8404.1009, sem kærandi teldi eiga við um tækið, væri fyrir aukavélakost við vatnsgufukatla. Tollstjóri gæti ekki fallist á þessa kröfu kæranda. Hið innflutta tæki væri ekki aukatæki fyrir gufukatla eins og þau sem féllu í vörulið 8404. Með slíkum tækjum væri átt við tæki sem þjónustuðu gufuketilinn með einum eða öðrum hætti, t.d. forhitarar fyrir gufukatla. Tæki kæranda fengi gufu frá gufukatli til að sjóða afurðirnar í tromlunni. Því væri gufuketillinn að þjóna tækinu. Suðutæki á borð við tæki kæranda flokkuðust í vörulið 8419 sem tæki til vélbúnaðar, til vinnslu á efnum með afurðum sem fælu í sér hitabreytingu, svo sem suðu. Nánar tiltekið flokkaðist tækið í tollskrárnúmer 8419.8909 með hliðsjón af túlkunarreglum 1 og 6. Á þessu tollskrárnúmeri hvíldu gjöld í samræmi við lög nr. 162/2002, um úrvinnslugjald. Engar undantekningar væri að finna í lögunum til að fella gjaldið niður þótt aðeins lítill hluti heildarþyngdar tækisins félli undir rafmagnsbúnaðinn. Vegna skírskotunar kæranda til tollflokkunar á tækjum annars aðila tók tollstjóri fram að röng framkvæmd tollflokkunar réttlætti ekki áframhaldandi ranga framkvæmd. Ávallt skyldi tollflokka vörur í það númer sem best ætti við, óháð því hvernig samsetning tækisins væri, og í samræmi við túlkunarreglur tollskrár.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar er áréttað að kærandi telji sjóðara, sem félagið hafi flutt til landsins, hafa verið tollflokkaðan rangt. Um sé að ræða gufukyntan sjóðara til fiskimjölsvinnslu. Sjóðarinn sé hitaður upp með gufu undir þrýsting frá gufukatli og sé þar með flokkaður hjá Vinnueftirliti ríkisins sem þrýstihylki eins og gufuketill. Hins vegar felli tollstjóri hann í tollflokk 8419.8909 og leggi á úrvinnslugjald á raftæki þrátt fyrir að sjóðarinn notist við gufu til að sjóða. Virðist kæranda sem engin hrein og klár tollflokkun sé til staðar í tollskránni fyrir sjóðara sem hannaður sé fyrir allt að 6 bara gufuþrýsting.

Af hálfu kæranda er þess krafist að varan verði ekki tollflokkuð í tollskrárnúmer 8419.8909 og að úrvinnslugjald 220.000 kr. verði fellt niður. Til vara fer kærandi fram á að umrædd upphæð verði endurgreidd komi til þess að sjóðarinn verði fluttur úr landi, en líklegt sé að það verði gert.

Kærunni fylgir m.a. tæknilýsing á sjóðaranum.

IV.

Með bréfi, dags. 30. maí 2018, hefur tollstjóri lagt fram umsögn í málinu. Í umsögninni er þess krafist að niðurstaða tollstjóra verði staðfest með vísan til forsendna í hinum kærða úrskurði. Vegna varakröfu kæranda bendir tollstjóri á að ekki sé eðlilegt að taka afstöðu til hennar á þessu stigi, en verði varan flutt úr landi og telji kærandi sig eiga rétt á endurgreiðslu sé rétt að hann setji fram beiðni við tollstjóra sem þá verði tekin afstaða til. Gæta verði skilyrða í 7. tölul. 7. gr. tollalaga, sbr. 53. gr. reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi, vegna endurgreiðslu á aðflutningsgjöldum við sölu úr landi. Eðlilegt sé að tollstjóri taki afstöðu til málsins verði sjóðarinn seldur úr landi.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 5. júní 2018, var kæranda send umsögn tollstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni. Engar athugasemdir hafa borist af þessu tilefni.

V.

Kæra í máli þessu varðar ákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings kæranda á gufukyntum sjóðara af gerðinni Myren BIK-230H, sbr. aðflutningsskýrslu kæranda, dags. 21. nóvember 2017. Fram er komið að um er að ræða tæki til að gufusjóða fiskafurðir við fiskimjölsvinnslu. Meðal álagðra aðflutningsgjalda, er samtals námu 855.841 kr., var úrvinnslugjald á raf- og rafeindatæki 220.000 kr. Tollstjóri taldi að varan félli undir vörulið 8419 í tollskrá, nánar tiltekið tollskrárnúmer 8419.8909, en greindur vöruliður tæki til vélbúnaðar til vinnslu á efnum með aðferðum sem fæli í sér hitabreytingu, svo sem suðu. Af hálfu kæranda er þessari tollflokkun mótmælt, einkum á þeim grundvelli að innheimta úrvinnslugjalds á raf- og rafeindatæki geti ekki staðist hvað snertir umræddan sjóðara, enda sé hann ekki búinn öðrum rafbúnaði en einum 11 kw rafmagnsmótor. Í kæru til tollstjóra hélt kærandi því fram að varan félli undir vörulið 8404 (tollskrárnúmer 8404.1009). Verður að telja að þeirri afstöðu sé haldið til streitu í kæru til yfirskattanefndar þótt ekki sé í kærunni tiltekið með beinum hætti tollskrárnúmer sem kærandi telur eiga við vöruna.

Samkvæmt framansögðu er ljóst að álagning úrvinnslugjalds er ástæða ágreinings í málinu. Um álagningu úrvinnslugjalds fer samkvæmt lögum nr. 162/2002, um úrvinnslugjald. Er þar kveðið á um gjaldtöku m.a. við innflutning gjaldskyldrar vöru. Samkvæmt 8. gr. laganna skal leggja úrvinnslugjald á ýmsa vöruflokka, eins og nánar er kveðið á um í viðaukum með lögum þessum. Þar á meðal leggst úrvinnslugjald á raf- og rafeindatæki samkvæmt upptalningu í viðauka XIX, sbr. 12. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna, sbr. 23. gr. laga nr. 125/2014. Samkvæmt greindum viðauka skal leggja úrvinnslugjald á raf- og rafeindatæki sem flokkast undir þargreind tollskrárnúmer, en meðal þeirra er tollskrárnúmerið 8419.8909. Eftir breytingu með 40. gr. laga nr. 126/2016 er úrvinnslugjald 11 kr./kg vegna raf- og rafeindatækja sem flokkast undir þetta tollskrárnúmer. Snýst deiluefni málsins fyrir yfirskattanefnd samkvæmt þessu um tollflokkun tækisins að þessu leyti.

Í tæknilýsingu, sem kærandi nefnir svo og fylgir kæru til yfirskattanefndar, er gerð svofelld grein fyrir eiginleikum og útbúnaði umrædds gufusjóðara:

„The superiority of the Myren indirect cooker is particularly evident when processing small and soft fish which requires slow and lenient heating to avoid undue disintegration. … Efficient heating surfaces are provided by the steam heated jacket and rotor. The steam jacket is divided into a number of sections, each section equipped with separate valve for control of the cooking process. The rotor has steam carrying threads giving optimal heat distribution. Each thread pitch is provided with a separate steam inlet and condensate outlet ensuring that steam and condensate has a definite direction of flow, contributing to the maintenance of excellent heat transfer. The rotary joints are selfadjusting and need no lubrication. They are connected by flexible hoses of stainless steel. … The rotor is supported by spherical roller bearings in both ends. The larger size’s also have a middle bearing. End covers are provided with stuffing boxes for the rotor. Easily detachable covers along the full length of the cooker permit convenient access for inspection and cleaning. Adjustable outlet gate provides a stepless control of the material level in the cooker during operation. This is particularly important when the material is soft and fluid.“

Í almennum reglum um túlkun tollskrárinnar, sem lögfest var sem viðauki við tollalög nr. 88/2005, kemur fram að við flokkun samkvæmt tollskrá skuli fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum einungis vera til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skuli tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða og athugasemdum við tilheyrandi flokka eða kafla. Þá kemur fram í a-lið 3. tölul. reglnanna að þegar til álita kemur að telja vörur til tveggja eða fleiri vöruliða skuli sá vöruliður sem felur í sér nákvæmasta vörulýsingu tekinn fram yfir vörulið með almennari vörulýsingu.

Í 84. kafla tollskrár er m.a. fjallað um katla, vélbúnað og vélræn tæki, svo og hluta til þeirra. Til 85. kafla tollskrár fellur ýmis rafbúnaður og -tæki og hlutar til þeirra. Í athugasemdum við XVI flokk tollskrárinnar, en sá flokkur samanstendur af köflum 84 og 85, er tekið fram að leiði ekki annað af orðalagi „flokkast vélasamstæður, settar saman í eina heild úr tveimur eða fleiri vélum og aðrar vélar hannaðar til að framkvæma tvö eða fleiri verkatriði, saman eða sér, eins og eingöngu væri um að ræða þann vélarhluta eða þá vél sem gegnir höfuðhlutverkinu“. Í athugasemd 5 kemur fram að sem vél í athugasemdum þessum teljist hverskonar vélar; vélbúnaður, vélakostur, áhöld, tækjabúnaður eða tæki sem getið sé í vöruliðum 84. eða 85. kafla.

Undir vörulið 8419 í 84. kafla tollskrár fellur „vélbúnaður, vélakostur eða búnaður fyrir rannsóknarstofur, einnig rafmagnshitaður (þó ekki bræðslu- og hitunarofnar og annar búnaður í nr. 8514) til vinnslu á efnum með aðferðum sem fela í sér hitabreytingu, svo sem með hitun, suðu, stiknun, eimingu, hreinsun, dauðhreinsun, gerilsneyðingu, eimvætingu, þurrkun, uppgufun, gufugerð, þéttingu eða kælingu, þó ekki vélbúnaður eða vélakostur til heimilisnota; hrað- eða geymavatnshitarar, ekki fyrir rafmagn“. Í tilvitnaðan vörulið 8514 falla „rafbræðslu- eða rafhitunarofnar (þar með taldir fyrir span- eða torleiði) fyrir iðnað eða rannsóknastofur; önnur tæki fyrir span- og torleiði fyrir iðnað eða rannsóknastofur til hitameðferðar á efnum“. Í vörulið 8404, sem kærandi vísar til, fellur „aukavélakostur til nota með kötlum í nr. 8402 eða 8403 (t.d. forhitarar, háhitarar, sóthreinsitæki, tæki til endurheimtu gass); þéttar fyrir gufu- eða aðrar aflvélar“.

Samkvæmt fyrrgreindri tæknilýsingu og lýsingu tollstjóra og kæranda á hinum umdeilda sjóðara gegnir tæki þetta því hlutverki að sjóða fiskafurðir með gufu. Fer suðan fram í tromlu sem snúið er af rafmagnsmótor. Ljóst má vera að tækið getur ekki fallið undir vörulið 8404, sem kærandi vísar til í kæru, enda tekur sá vöruliður eingöngu til þargreinds aukavélakosts til nota með kötlum í vöruliðum 8402 og 8403 sem annars vegar eru katlar til framleiðslu á vatnsgufu eða annarri gufu (nr. 8402) og hins vegar katlar til miðstöðvarhitunar (nr. 8403). Sjálft getur tækið (sjóðarinn) ekki talist ketill í skilningi umræddra vöruliða, enda er því ekki aðallega ætlað að framleiða gufu.

Eins og fram er komið tekur vöruliður 8419 til vélbúnaðar eða vélakosts til vinnslu á efnum með aðferðum sem fela í sér hitabreytingu, svo sem með hitun eða suðu, þó ekki tækja til heimilisnota. Tæki kæranda fellur að þessari vörulýsingu. Þá verður ekki séð að aðrir vöruliðir tollskrár en vöruliður 8419 geti komið hér til álita. Hér virðist helst mega huga að vörulið 8417, en til þess liðar heyra ofnar fyrir iðnað og rannsóknarstofur, þar með taldir líkbrennsluofnar, ekki fyrir rafmagn. Til þess er að líta að bæði samkvæmt orðalagi þessa vöruliðar og undirliða hans (tollskrárnúmera) á hér undir búnaður til hitunar í rými við háu eða tiltölulega háu hitastigi, þar á meðal til brennslu og bræðslu. Þykir það sem fram er komið um eiginleika sjóðarans og notkun hans ekki falla að þessu.

Með vísan til framanritaðs og reglna 1 og 6 í almennum reglum um túlkun tollskrár verður fallist á það með tollstjóra að vöruliður 8419 taki til hinnar innfluttu vöru og þá tollskrárnúmer 8419.8909, enda getur enginn annar undirliður vöruliðarins átt hér við. Getur ekki breytt þessari niðurstöðu þótt vinnsla afurða með notkun tækisins fari fram með gufu og ekki sé annar rafbúnaður við tækið en til að snúa tromlu þess, enda tekur vöruliðurinn ekki eingöngu til búnaðar sem hitaður er með rafmagni.

Samkvæmt framansögðu verður að hafna aðalkröfu kæranda í máli þessu.

Vegna varakröfu kæranda, sem lýtur að því að úrvinnslugjald verði endurgreitt ef sjóðarinn verði fluttur úr landi, verður að taka undir það með tollstjóra að þar sem þessi liður í kröfugerð kæranda var ekki til umfjöllunar í hinum kærða úrskurði tollstjóra, enda hafði þá ekki komið til útflutnings tækisins, verður ekki tekin afstaða til hans í úrskurði þessum. Er þessum þætti í kæru því vísað frá yfirskattanefnd.

Kæranda til leiðbeiningar skal tekið fram að í 10. gr. a laga nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, segir að sé gjaldskyld vara sannanlega flutt úr landi og komi ekki til úrvinnslu hér á landi skuli endurgreiða gjaldskyldum aðila, eða þeim sem keypt hefur vöruna af gjaldskyldum aðila, úrvinnslugjald sem greitt hefur verið af viðkomandi vöru. Aðili sem óskar endurgreiðslu skal tilgreina í sérstakri skýrslu til ríkisskattstjóra um magn vöru og fjárhæð þess úrvinnslugjalds sem sannanlega hefur verið greitt af viðkomandi vöru. Skýrslu skal skilað eigi síðar en 15 dögum fyrir gjalddaga úrvinnslugjalds. Endurgreiðsla skal fara fram á gjalddaga, enda hafi úrvinnslugjald vegna viðkomandi tímabils verið greitt.

Umsögn tollstjóra verður að skilja þannig að kæranda sé rétt að beina endurgreiðslubeiðni vegna útflutnings tækis síns til þess embættis, sbr. 7. tölul. 7. gr. tollalaga. Verður að ætla að þessi leiðbeining tollstjóra sé sett fram í samræmi við stjórnsýsluframkvæmd um afgreiðslu hliðstæðra mála. Er kæranda því bent á að snúa sér til tollstjóra vegna erindis síns sem hér um ræðir.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Aðalkröfu kæranda í máli þessu er hafnað. Varakröfu kæranda er vísað frá yfirskattanefnd.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja