Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 544/1990

Gjaldár 1989

Lög nr. 67/1971 — 14. gr. — 35. gr.   Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 2. tl. 2. ml. — 100. gr. 5. mgr.  

Skattskyldar tekjur — Barnalífeyrir — Örorka — Örorka foreldris — Örorkustyrkur — Almannatryggingar — Tryggingastofnun ríkisins — Barnalífeyrir vegna örorku foreldris — Skattfrelsi — Skattfrjálsar tekjur — Lögskýring — Starfsreglur Tryggingastofnunar ríkisins — Kröfugerð ríkisskattstjóra — RIS 1984.150 — Fordæmisgildi stjórnvaldsákvörðunar

Málavextir eru þeir, að meðal greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins í reit 7.3 í skattframtali sínu árið 1989 færði kærandi barnalífeyri 88.222 kr. Með kæru, dags. 29. ágúst 1989, fór umboðsmaður kæranda fram á, að greiðsla þessi yrði felld undan skattlagningu, enda bæri ekki að telja hana til tekna skv. 2. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með kæruúrskurði, dags. 19. febrúar 1990, synjaði skattstjóri kröfu kæranda með þeim rökum, að barnalífeyrir, sem greiddur væri með örorkustyrk, teldist að fullu til skattskyldra tekna, sbr. 2. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 28. febrúar 1990, og er ítrekuð krafan um niðurfellingu skattlagningar á umrædda greiðslu barnalífeyris, sem greiddur hafi verið vegna örorku kæranda. Þá segir svo í kærunni:

„Til frekari skýringa viljum við taka fram að barnalífeyrinn er greiddur af Tryggingastofnun ríkisins sem ekki tekur af honum staðgreiðsluskatt. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun telja þeir viðkomandi barnalífeyri undanþeginn skattlagningu samanber vinnureglur þeirra, unnar af lögfræðingi stofnunarinnar.

Samkvæmt 2. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 er barnalífeyrir sem greiddur er skv. 14. gr. og 35. gr. laga nr. 67/1971 ekki skattskyldur ef annaðhvort foreldri barns er látið eða barn ófeðrað. Ætla má að þessi grein skattalaga nái einnig til barnalífeyris sem greiddur er vegna örorku foreldris, sbr. 14. gr. laga nr. 67/1971.“

Með bréfi, dags. 30. maí 1990, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Með hliðsjón af úrskurði ríkisskattanefndar nr. 150/1984 svo og af meðfylgjandi reglum um úthlutun örorkustyrkja sem gefnar voru út af Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu í mars 1974, þykir mega fallast á að umræddur barnalífeyrir sé ekki skattskyldar tekjur hjá kæranda.“

Fallist er á kröfu kæranda í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja