Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar til greiðslu húsnæðislána
  • Fyrstu kaup íbúðarhúsnæðis
  • Umsóknarfrestur

Úrskurður nr. 63/2019

Lög nr. 111/2016, 8. gr. (brl. nr. 63/2017, 4. gr.)   Lög nr. 37/1993, 28. gr.  

Kærandi keypti sína fyrstu íbúð í febrúar 2017 og ráðstafaði séreignarsparnaði til greiðslu húsnæðislána af íbúðinni á grundvelli laga nr. 40/2014. Kröfu kæranda um áframhaldandi ráðstöfun séreignarsparnaðar á grundvelli laga nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, var hafnað þar sem umsóknin barst ríkisskattstjóra hinn 17. janúar 2018 eða að liðnum lögboðnum sex mánaða fresti frá gildistöku laga nr. 111/2016 þann 1. júlí 2017. Var kærandi ekki talinn hafa sýnt fram á að afsakanlegar ástæður hefðu legið að baki síðbúinni umsókn hans þannig að ríkisskattstjóra hefði verið rétt að taka umsóknina til efnislegrar meðferðar.

Ár 2019, miðvikudaginn 3. apríl, er tekið fyrir mál nr. 198/2018; kæra A, dags. 11. desember 2018, vegna úttektar séreignarsparnaðar. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 11. desember 2018, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra 8. desember 2018 um að hafna umsókn kæranda um nýtingu séreignarsparnaðar vegna kaupa á fyrstu íbúð, sbr. lög nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, með áorðnum breytingum. Var ákvörðun ríkisskattstjóra byggð á því að umsókn kæranda hefði ekki borist ríkisskattstjóra fyrr en 17. janúar 2018 eða að liðnum lögboðnum fresti samkvæmt 4. mgr. 8. gr. laga nr. 111/2016 þar sem fram kæmi að sækja skyldi um áframhaldandi ráðstöfun iðgjalda á grundvelli laganna eigi síðar en sex mánuðum frá gildistöku laganna 1. júlí 2017. Umsókn kæranda væri því of seint fram komin og væri því hafnað.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að synjun ríkisskattstjóra verði hnekkt. Fram kemur að kærandi hafi keypt sína fyrstu íbúð að B þann 3. febrúar 2017. Í mars sama ár hafi kærandi sótt um ráðstöfun iðgjalda séreignarsparnaðar á grundvelli laga nr. 40/2014 og hafi verið fallist á þá umsókn. Síðar á sama ári hafi kærandi haft samband við leidretting.is til að fá upplýsingar um hvort hann uppfyllti skilyrði til að fá að nýta séreignarsparnað í tíu ár samkvæmt lögum nr. 111/2016 og hvernig standa ætti að því að sækja um framlengingu. Hafi kærandi fengið þau svör að allt væri komið og að hann þyrfti ekki að sækja um neitt meira. Hafi kærandi treyst þeim upplýsingum og því ekki aðhafst frekar. Í janúar 2018 hafi kæranda síðan orðið ljóst að líklegast hefðu honum verið veittar rangar upplýsingar. Kærandi hafi aftur haft samband við leidretting.is og þá verið bent á að enn væri opið fyrir umsóknir. Hafi kærandi þá sent inn umsókn.

Í kærunni kemur fram að skorað sé á ríkisskattstjóra að afhenda upptöku af símtali kæranda þar sem heyra megi hvernig kæranda hafi verið veittar rangar og ófullnægjandi leiðbeiningar þrátt fyrir skyldu stjórnvaldsins samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í ljósi þessa, sem og þess að skammur tími hafi verið liðinn frá því að umsóknarfrestur rann út, hafi ríkisskattstjóra borið að fallast á umsókn kæranda. Sé áréttað að þá hafi enn verið opið fyrir umsóknir á umsóknarvef ríkisskattstjóra. Þá sé illskiljanlegt hversu langan tíma hafi tekið að afgreiða umsóknina, en eftir því sem lengri tími líði sé líklegra en ella að hljóðupptökum hafi verið eytt. Verði því ríkisskattstjóri að bera hallann af því ef ekki sé unnt að sýna fram á að embættið hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt stjórnsýslulögum gagnvart kæranda. Hvorki sé á valdi kæranda að afla hljóðupptökunnar né að stjórna hraða á meðferð málsins. Stoði ekki fyrir ríkisskattstjóra að skýla sér á bak við formreglur og axla enga ábyrgð á mistökum. Ákvörðun embættisins sé íþyngjandi fyrir kæranda og hafi áhrif á fjárhag hans. Sé þess því krafist að fallist verði á umsókn kæranda.

II.

Með bréfi, dags. 5. febrúar 2019, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Í umsögn ríkisskattstjóra er m.a. bent á að umsóknarfrestur vegna séreignarsparnaðar, sbr. lög nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, hafi runnið út þann 2. janúar 2018 þar sem 1. sama mánaðar sé helgidagur. Umsókn kæranda hafi borist 17. sama mánaðar og sé því of seint fram komin. Vegna athugasemda í kæru kæranda varðandi rangar og ófullnægjandi leiðbeiningar af hendi ríkisskattstjóra er tekið fram að kærandi hafi fengið réttar leiðbeiningar um stöðu umsóknar hans í mars 2017, enda hafi lög nr. 111/2016 ekki tekið gildi á þeim tíma. Ekki komi fram í kærunni hvenær á árinu 2017 kærandi hafi aftur hringt í embættið. Þegar hringt hafi verið í þjónustuver embættisins eftir 1. júlí 2017 hafi eftir fremsta megni verið leitast við að leiðbeina þeim sem hefðu keypt fyrstu fasteign að sækja um úrræðið á skattur.is. Rétt sé að taka fram að búið sé að eyða símtölum sem átt hafi sér stað á árinu 2017 í samræmi við lög um persónuvernd nr. 90/2018. Þann 20. desember 2017 hafi verið sendur tölvupóstur á alla þá sem verið hafi með umsóknir inni á leidretting.is, sbr. hjálagt fylgiskjal. Dagana 27. og 28. desember 2017 hafi heilsíðuauglýsingar um umsóknarfrest vegna fyrstu íbúðar birst í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 11. febrúar 2019, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Hinn 20. febrúar 2019 hafði kærandi samband símleiðis við skrifstofu yfirskattanefndar og kvaðst ekki hafa neinu við að bæta í málinu.

III.

Um skattfrjálsa úttekt séreignarsparnaðar, sbr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, vegna kaupa á fyrstu íbúð gilda lög nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Samkvæmt 2. gr. laganna er rétthafa séreignarsparnaðar heimilt að nýta viðbótariðgjald, sem greitt er á samfelldu tíu ára tímabili, eftir gildistöku laganna að tilteknu hámarki á ári, sbr. 4. gr. þeirra, með því að a) verja uppsöfnuðu iðgjaldi til kaupa á fyrstu íbúð og/eða b) ráðstafa iðgjaldi inn á höfuðstól láns sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð. Þá er rétthafa heimilt að nýta iðgjald sem afborgun inn á óverðtryggt lán, sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð, og sem greiðslu inn á höfuðstól þess eftir því sem nánar er kveðið á um í 3. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2016 er skilyrði fyrir úttekt á séreignarsparnaði að rétthafi hafi ekki áður átt íbúð og að hann afli sér íbúðarhúsnæðis annaðhvort einn eða í félagi við annan einstakling. Þá skal rétthafi eiga að minnsta kosti 30% eignarhlut í þeirri íbúð sem aflað er. Í 4. mgr. 2. gr. laganna kemur fram að heimild rétthafa til að ráðstafa viðbótariðgjaldi samkvæmt lögunum fellur ekki niður þótt rétthafi selji íbúðina og kaupi sér nýja íbúð í stað þeirrar sem seld var. Skilyrði er að skipti á íbúð fari fram innan tíu ára tímabilsins, sbr. 3. mgr. sömu greinar, og að kaup rétthafa á nýrri íbúð fari fram innan tólf mánaða frá síðustu sölu þeirrar íbúðar sem veitti rétt til úttektar séreignarsparnaðar samkvæmt lögunum. Er tekið fram að rétthafa sé heimilt að ráðstafa viðbótariðgjaldi inn á lán með veði í hinni nýju íbúð þangað til hinu tíu ára samfellda tímabili lýkur.

Þann 16. maí 2014 voru samþykkt á Alþingi lög nr. 40/2014, um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar, en með þeim lögum var tveimur nýjum ákvæðum til bráðabirgða bætt við lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sbr. bráðabirgðaákvæði XVI og XVII í þeim lögum. Í bráðabirgðaákvæði XVI var kveðið á um heimild rétthafa séreignarsparnaðar til að nýta viðbótariðgjald vegna launagreiðslna á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017 til greiðslu inn á höfuðstól lána sem tekin hefðu verið vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Skilyrði var að lánin væru tryggð með veði í íbúðarhúsnæði og að vaxtagjöld af þeim væru grundvöllur útreiknings vaxtabóta. Lög nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, tóku gildi 1. júlí 2017, sbr. 1. mgr. 8. gr. þeirra laga, og í 2. og 3. mgr. sömu greinar er að finna ákvæði um lagaskil vegna úrræða á grundvelli laga nr. 40/2014. Í 3. mgr. 8. gr. laga nr. 111/2016 segir að rétthafa, sem hafi nýtt sér ákvæði til bráðabirgða XVII í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og/eða eftir atvikum ákvæði til bráðabirgða XVI sömu laga til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, sé heimilt að ráðstafa viðbótariðgjaldi inn á höfuðstól láns sem tryggt er með veði í íbúðinni og eftir því sem við á afborganir láns uns samfelldu tíu ára tímabili er náð, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2016. Skilyrði sé að um fyrstu kaup á íbúðarhúsnæði hafi verið að ræða, að rétthafi afli sér íbúðarhúsnæðis annaðhvort einn eða í félagi við annan einstakling og að hann eigi að minnsta kosti 30% eignarhlut í húsnæðinu. Tímabil ráðstöfunar samkvæmt fyrrgreindum bráðabirgðaákvæðum komi til frádráttar samfelldu tíu ára tímabili samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2016. Í 4. mgr. 8. gr. nefndra laga kom fram að rétthafi sem félli undir 3. mgr. skyldi með umsókn sækja um áframhaldandi ráðstöfun viðbótariðgjalda, sbr. 5. gr. laganna. Með 4. gr. laga nr. 63/2017 var því skilyrði bætt við síðastnefnt ákvæði að sótt skyldi um áframhaldandi ráðstöfun viðbótariðgjalda eigi síðar en sex mánuðum frá gildistöku laga nr. 111/2016.

Fram kemur í kæru kæranda til yfirskattanefndar að hann hafi keypt sína fyrstu íbúð í febrúar 2017 og að hann hafi í kjölfar þess sótt um ráðstöfun séreignarsparnaðar vegna öflunar húsnæðisins á grundvelli laga nr. 40/2014. Fyrir liggur að sú umsókn var samþykkt. Er ljóst að hér var um að ræða ráðstöfun iðgjalda á grundvelli bráðabirgðaákvæðis XVI í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sbr. 1. gr. laga nr. 40/2014. Umsókn kæranda um nýtingu og ráðstöfun séreignarsparnaðar á grundvelli laga nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, barst ríkisskattstjóra hinn 17. janúar 2018 eða að liðnum lögboðnum sex mánaða fresti samkvæmt 4. mgr. 8. gr. greindra laga, sbr. 4. gr. laga nr. 63/2017, um breyting á hinum fyrrnefndu lögum, sbr. og ákvæði 3. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 555/2017, um samræmt verklag við ráðstöfun iðgjalda til séreignarsparnaðar til stuðnings kaupa á fyrstu íbúð. Af hálfu kæranda er komið fram í málinu að hann hafi haft samband við embætti ríkisskattstjóra símleiðis eftir að umsókn hans um ráðstöfun séreignarsparnaðar samkvæmt lögum nr. 40/2014 var samþykkt, þ.e. síðar á árinu 2017, til að leita upplýsinga um hvernig standa ætti að því að sækja um áframhaldandi ráðstöfun iðgjalda samkvæmt lögum nr. 111/2016. Hafi honum við það tækifæri verið veittar rangar upplýsingar í þá veru að hann þyrfti ekki að aðhafast sérstaklega og sé það ástæða þess að kærandi hafi ekki brugðist við innan sex mánaða umsagnarfrests samkvæmt 4. mgr. 8. gr. síðastnefndra laga, sbr. 4. gr. laga nr. 63/2017. Um þetta liggur ekkert haldbært fyrir í málinu. Í umsögn ríkisskattstjóra í málinu er bent á að kæranda hafi, eins og öðrum umsækjendum um ráðstöfun sparnaðar samkvæmt eldri lögum nr. 40/2014, verið sendur tölvupóstur þann 20. desember 2017 þar sem athygli hans var vakin á nauðsyn þess að sækja sérstaklega um áframhaldandi ráðstöfun sparnaðar á leidretting.is í síðasta lagi 31. desember 2017 á þjónustuvef ríkisskattstjóra. Þá er komið fram að auglýsingar um lok umsóknarfrests vegna ráðstöfunar séreignarsparnaðar á grundvelli laga nr. 111/2016 birtust í dagblöðum dagana 27. og 28. desember 2017. Að framangreindu virtu þykir kærandi með fram komnum skýringum ekki hafa sýnt fram á að afsakanlegar ástæður hafi legið að baki síðbúinni umsókn hans þannig að ríkisskattstjóra hafi verið rétt að taka umsóknina til efnislegrar meðferðar, sbr. til hliðsjónar ákvæði um afleiðingar þess er kæra til æðra stjórnvalds berst að liðnum kærufresti í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að þessu athuguðu verður að hafna kröfu kæranda um endurskoðun hinnar kærðu ákvörðunar ríkisskattstjóra.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja