Úrskurður yfirskattanefndar

  • Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði
  • Eignfærsla fasteignar

Úrskurður nr. 76/2019

Gjaldár 2018

Lög nr. 90/2003, 17. gr.  

Í máli þessu vegna skattlagningar söluhagnaðar íbúðarhúsnæðis taldi kærandi að B, fyrrum sambýliskona hans, hefði verið raunverulegur eigandi húsnæðisins og að söluhagnaðurinn tilheyrði henni. Í úrskurði yfirskattanefndar var m.a. vísað til þess að kærandi hefði verið þinglýstur eigandi íbúðarinnar og gert grein fyrir sölu hennar og uppgjöri söluhagnaðar í skattskilum sínum. Hvorki af hálfu kæranda né B hefði verið gerður reki að því að leggja fram leiðrétt skattframtöl til samræmis við fyrrgreind viðhorf um raunverulegt eignarhald húsnæðisins. Var kærunni vísað frá yfirskattanefnd að svo stöddu.

Ár 2019, miðvikudaginn 24. apríl, er tekið fyrir mál nr. 18/2019; kæra A, dags. 16. janúar 2019, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2018. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 16. janúar 2019, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 18. október 2018, vegna álagningar opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2018. Er kæruefni málsins skattaleg meðferð söluhagnaðar að fjárhæð 4.601.750 kr. í skattframtali kæranda umrætt ár.

II.

Málavextir eru þeir að í lið 3.9 í skattframtali kæranda árið 2018 var færður til tekna söluhagnaður að fjárhæð 4.601.250 kr. vegna sölu fasteignar að F á árinu 2017. Í greinargerð um kaup og sölu eigna (RSK 3.02), sem fylgdi skattframtalinu, var gerð grein fyrir útreikningi söluhagnaðarins. Var skattframtalið lagt óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda umrætt gjaldár.

Með kæru til ríkisskattstjóra, dags. 16. ágúst 2018, fór kærandi fram á breytingu á álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2018. Í kærunni var ekki gerð frekari grein fyrir efni málsins, en ýmis gögn fylgdu, m.a. ljósrit af eignaskiptasamningi, dags. 10. október 2016, vegna samvistaslita kæranda og B á árinu 2015, en í samningi þessum kom fram að fasteignin F, sem væri skráð eign kæranda, kæmi að fullu í hlut B við samvistaslitin. Þá kom fram að fasteignin yrði áfram á nafni kæranda þar til B tæki ákvörðun um sölu eignarinnar, enda bæri hún allan kostnað af rekstri fasteignarinnar frá undirritunardegi samkomulagsins. Söluverðmæti eignarinnar myndi renna að fullu til B þegar eignin yrði seld.

Í framhaldi af fyrirspurn ríkisskattstjóra um kæruefni með bréfi, dags. 26. september 2018, barst ríkisskattstjóra yfirlýsing kæranda, dags. 11. október 2018, þar sem greint var frá því að sala F væri til komin vegna skilnaðar kæranda og B, sbr. fyrrgreindan eignaskiptasamning. Kom fram að B hefði annast um allan rekstur eignarinnar eftir skilnaðinn, eins og bankayfirlit bæru með sér, og við sölu fasteignarinnar hefðu greiðslur runnið til hennar. B hefði keypt aðra eign og hefði söluandvirði F runnið beint til þeirra kaupa. Væri því farið fram á niðurfellingu skattlagningar vegna sölunnar þar sem fasteignin væri alfarið í eigu B sem hefði keypt aðra fasteign um leið og F hefði selst.

Með kæruúrskurði, dags. 18. október 2018, hafnaði ríkisskattstjóri kröfum kæranda. Í úrskurði sínum tók ríkisskattstjóri fram að engin gögn hefðu verið lögð fram í málinu til staðfestingar því að söluandvirði F hefði runnið til B eða að hún hefði gert grein fyrir eignarhaldi að fasteigninni, svo sem afsal eða kaupsamningur. Kærandi væri að öllu leyti skráður kaupandi og seljandi fasteignarinnar, sbr. þjóðskrá og kaupsamninga. Yrði því ekki séð að fyrrum sambýliskona kæranda hefði verið eigandi fasteignarinnar þótt söluandvirði eignarinnar kynni að hafa runnið til hennar. Þá hefði B staðfest að greiðslur að fjárhæð um 8.000.000 kr. vegna sölu F hefðu runnið til kaupa á fasteign að G, en hún væri ekki skráð eigandi þeirrar fasteignar heldur C. Þar sem eignarhald kæranda að F hefði varað í skemmri tíma en tvö ár yrði ekki annað séð en að um skattskyldan söluhagnað væri að ræða, sbr. 17. gr. laga nr. 90/2003. Yrði að svo stöddu ekki fallist á kröfu kæranda.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 16. janúar 2019, er þess krafist að skattlagning söluhagnaðar íbúðarhúsnæðis í skattframtali kæranda árið 2018 verði felld niður. Rakið er í kærunni að kærandi og B hafi slitið samvistir á árinu 2015. Þau hafi þá verið búsett að M sem hafi verið skráð eign kæranda, en bæði hafi litið svo á að fasteignin væri sameign þeirra beggja og að kærandi þyrfti með einhverjum hætti að greiða B út úr fasteigninni. B hafi ráðgert að kaupa íbúð að F, en við fjármögnun hafi komið í ljós að útilokað væri fyrir hana að fá greiðslumat, enda hafi hún verið einstæð móðir. Eina lausn vandans hafi verið sú að kærandi yrði skráður fyrir íbúðinni og færi í greiðslumatið, en B stæði straum af öllum rekstrarkostnaði vegna eignarinnar. Bæði kærandi og B hafi því litið svo á að allt eigið fé í F væri eign B, sbr. m.a. meðfylgjandi umboð kæranda til hennar til ráðstöfunar fjármuna vegna sölu F. Á árinu 2016 hafi B og C ákveðið að kaupa fasteign að G, en lent í fjármögnunarvanda þar sem treglega hafi gengið að selja fasteign C. Þá hafi þau ákveðið að reyna að selja F og í kjölfar sölunnar á þeirri eign gengið frá kaupum á G. Fjármunum vegna sölu F hafi þannig verið ráðstafað til kaupa á G, sbr. meðfylgjandi kauptilboð og kvittanir. Kærandi hafi hvergi komið nærri við ráðstöfun þessara fjármuna vegna sölu F, enda hafi bæði kærandi og B litið svo á að sú fasteign væri uppgjör kæranda til B vegna skilnaðar þeirra á árinu 2015. Þáttaka B í greiðslumati vegna G hafi aftur haft neikvæð áhrif og því hafi C einn verið kaupandi þeirrar eignar, en láðst hafi að gera grein fyrir eignarhlut kæranda í þeirri eign. Um sé að ræða heimili fjölskyldunnar og líti B og C bæði svo á að um sameiginlegar skuldbindingar þeirra sé að ræða þótt eignin sé skráð á nafn C. Þá hafi þau lagt traust á fullyrðingar fasteignasala um að engin hætta væri á því að til skattlagningar söluhagnaðar kæmi. Í ljósi framanritaðs sé litið svo á að skattlagning söluhagnaðar vegna sölu F sé ekki réttlætanleg. Öllum fjármunum vegna sölunnar hafi verið ráðstafað til kaupa á G. Verði raunin sú, að kæranda verði gert að greiða skatt af sölunni, muni sá skattur því á endanum lenda á B.

IV.

Með bréfi, dags. 29. janúar 2019, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Er áréttað í umsögninni að kærandi hafi verið skráður 100% kaupandi og seljandi að F og eignarhaldstími hans verið skemmri en tvö ár.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 31. janúar 2019, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að leggja fram gögn til skýringar og koma á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögninni ef ástæða yrði talin til. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, telst hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis að fullu til skattskyldra tekna á söluári hafi maður átt hið selda húsnæði skemur en tvö ár, en hafi hann átt hið selda í tvö ár eða lengur telst söluhagnaðurinn ekki til skattskyldra tekna, sbr. nánari skilyrði sem sett eru í málsgrein þessari. Í 2. mgr. 17. gr. laganna, sbr. 2. gr. laga nr. 164/2008, um breyting á hinum fyrrnefndu lögum, er mælt svo fyrir að maður geti farið fram á frestun söluhagnaðar um tvenn áramót frá söludegi. Kaupi hann annað íbúðarhúsnæði eða hefji byggingu íbúðarhúsnæðis hér á landi eða í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum í stað þess selda innan þess tíma færist söluhagnaðurinn til lækkunar stofnverði hinnar nýju eignar. Nemi stofnverð hinnar nýju eignar lægri fjárhæð en söluhagnaðinum innan þessara tímamarka telst mismunurinn til skattskyldra tekna á kaupári hinnar nýju eignar. Ef eignarinnar er ekki aflað innan tilskilins tíma telst söluhagnaðurinn með skattskyldum tekjum á öðru ári frá því er hann myndaðist.

Fram er komið að í kjölfar samvistaslita kæranda og fyrrverandi sambýliskonu hans, B, á árinu 2015 varð að samkomulagi með aðilum að húseignin að F, sem þá var skráð eign kæranda samkvæmt fasteignaskrá, skyldi koma að fullu í hlut B, sbr. ljósrit eignaskiptasamnings, dags. 10. október 2016, sem er meðal gagna málsins. Í eignaskiptasamningnum var þó tekið fram að fasteignin skyldi „vera áfram á nafni [kæranda] þar til B ákveður að selja hana“, enda bæri B allan kostnað af rekstri eignarinnar frá undirritun samningsins. Kom fram að söluandvirði eignarinnar myndi að öllu leyti renna til B þegar eignin yrði seld. Húseignin seldist á árinu 2017 og kemur fram í kæru að söluandvirði eignarinnar hafi verið ráðstafað til kaupa á fasteign að G sem skráð sé á nafn C. Í meðfylgjandi yfirlýsingu C, sem er ódagsett, kemur fram að B sé þó í raun meðeigandi hans að G, enda hafi hún lagt til meiri hluta þess eigin fjár sem runnið hafi til kaupa eignarinnar. Rétt er að taka fram að fyrir yfirskattanefnd er mál þetta rekið af B í umboði kæranda.

Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að skattlagning söluhagnaðar vegna sölu F sé ekki réttlætanleg þar sem húseignin hafi tilheyrt B, sbr. fyrrgreindan eignaskiptasamning, og B hafi ráðstafað fjármunum vegna sölunnar til kaupa á öðru íbúðarhúsnæði að G fyrir sig og fjölskyldu sína. Hins vegar hafi B láðst að gera grein fyrir eignarhlut sínum í hinu síðarnefnda húsnæði. Skilja verður málatilbúnað í kærunni svo að byggt sé á því að umræddur söluhagnaður vegna sölu F á árinu 2017 tilheyri í raun B en ekki kæranda þar sem B hafi verið raunverulegur eigandi húsnæðisins. Fyrir liggur að kærandi var þinglýstur eigandi F, en samkvæmt málsgögnum keypti kærandi húseignina í eigin nafni á árinu 2015. Þá var húsnæðið skráð eign hans samkvæmt fasteignaskrá, sbr. 10. og 22. gr. laga nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, með síðari breytingum. Í skattframtölum kæranda árin 2016 og 2017 var F talin til eignar og í skattframtali sínu árið 2018 gerði kærandi grein fyrir sölu eignarinnar á árinu 2017 og uppgjöri söluhagnaðar af því tilefni. Hvorki af hálfu kæranda né B hefur verið gerður neinn reki að því að leggja fram leiðrétt skattframtöl til samræmis við fyrrgreint viðhorf þeirra varðandi raunverulegt eignarhald húsnæðisins að F, en ljóst er að fyrirliggjandi skattskil vegna a.m.k. tekjuáranna 2016 og 2017 standast ekki miðað við þá afstöðu. Miðað við að skattskilin standi óhögguð að þessu leyti getur krafa kæranda því ekki náð fram að ganga.

Í tilefni af sjónarmiðum í kærunni er rétt að ítreka að samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2003 getur maður farið fram á frestun söluhagnaðar um tvenn áramót frá söludegi, sbr. hér að framan þar sem gerð er grein fyrir frestunar- og niðurfærsluheimild þess ákvæðis. Ekki verður glöggt ráðið af kæru kæranda til yfirskattanefndar hvort óskað sé eftir frestun á skattlagningu söluhagnaðarins án tillits til niðurstöðu málsins að öðru leyti, sbr. hér að framan, enda er ekkert vikið að því í kærunni. Verður frekast ráðið að kærandi hafi engin áform uppi um endurfjárfestingu í íbúðarhúsnæði í eigin nafni.

Með vísan til framanritaðs þykir rétt að vísa kærunni frá yfirskattanefnd að svo stöddu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kærunni er vísað frá yfirskattanefnd.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja