Úrskurður yfirskattanefndar
- Teknategund
- Söluhagnaður
- Kynslóðaskipti
Úrskurður nr. 79/2019
Gjaldár 2018
Lög nr. 90/2003, 7. gr. B-liður og C-liður 8. tölul., 44. gr.
Kærandi tók í arf eftir móður sína á árinu 2015 eignarhlut í atvinnuhúsnæði. Í málinu var deilt um hvort telja bæri söluhagnað vegna sölu eignarinnar til tekna af atvinnurekstri, svo sem ríkisskattstjóri taldi, eða til fjármagnstekna einstaklings utan rekstrar, eins og kærandi hélt fram. Í úrskurði yfirskattanefndar var bent á að arfleifandi hefði leigt fasteignina út í atvinnuskyni. Við þær aðstæður sem í málinu greindi var talið að kærandi hefði almennt verið í sömu stöðu í skattalegu tilliti við sölu fasteignarinnar og arfleifandi, hefði hann selt fasteignina sjálfur. Var fallist á með ríkisskattstjóra að virða bæri söluhagnað kæranda sem tekjur af atvinnurekstri.
Ár 2019, miðvikudaginn 24. apríl, er tekið fyrir mál nr. 17/2019; kæra A, dags. 15. janúar 2019, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2018. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 15. janúar 2019, hefur kærandi skotið kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 16. október 2018, til yfirskattanefndar. Með úrskurðinum gerði ríkisskattstjóri m.a. þær breytingar á skattframtali kæranda árið 2018 að söluandvirði atvinnuhúsnæðis að K að fjárhæð 11.700.000 kr. og leigutekjur að fjárhæð 205.944 kr. voru færðar kæranda til tekna í reit 1060 í rekstrarskýrslu sem atvinnurekstrartekjur, sbr. B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Til frádráttar tekjum færði ríkisskattstjóri sölukostnað að fjárhæð 238.253 kr. og bókfært verð eignarinnar 1.523.173 kr. Hreinar tekjur af atvinnurekstri urðu 10.144.518 kr. Í úrskurðinum kom fram að um sölu rekstrareigna, sem skattaðili fengi í arf, færi eins og í hendi arfláta.
Tildrög að úrskurði ríkisskattstjóra voru þau að hinn 24. apríl 2018 óskaði kærandi eftir leiðréttingu á skattframtali sínu árið 2018. Í leiðréttingarbeiðni kæranda kom m.a. fram að kærandi hefði á árinu 2017 selt eignarhlut sinn í atvinnuhúsnæði að K, sem hann hefði erft á árinu 2015, fyrir 11.700.000 kr., en kostnaður vegna sölunnar hefði numið 238.253 kr. Þá hefði kærandi haft 205.944 kr. í leigutekjur af eigninni á árinu. Ríkisskattstjóri tók beiðni kæranda til meðferðar sem kæru, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003, og kvað upp hinn kærða úrskurð, dags. 16. október 2018, í kjölfar bréfs, dags. 27. ágúst 2018, sem ekki var svarað af hálfu kæranda.
Með bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 30. október 2018, óskaði umboðsmaður kæranda eftir endurupptöku álagðra opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2018. Í bréfinu kom fram að kærandi hefði tekið umrædda fasteign í arf eftir móður sína og hefði hann aldrei komið nálægt neinum rekstri heldur hefði fasteignin verið leigð út á meðan hún var í sölumeðferð.
Ríkisskattstjóri hafnaði beiðni kæranda um endurupptöku með bréfi, dags. 14. nóvember 2018. Taldi ríkisskattstjóri að ekki kæmu fram neinar upplýsingar í endurupptökubeiðni umboðsmanns kæranda sem ekki hefðu legið fyrir við uppkvaðningu úrskurðar ríkisskattstjóra frá 16. október 2018. Væri beiðni kæranda um endurupptöku því hafnað, en kæranda til upplýsingar væri bent á úrskurði yfirskattanefndar nr. 180/2002 og 297/2003 um sambærileg mál.
Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, sbr. rökstuðning í bréfi, dags. 5. febrúar 2019, er þess krafist að söluhagnaður vegna sölu fasteignarinnar að K að fjárhæð 9.963.574 kr. (11.700.000 – 1.523.173 – 238.253) verði skattlagður sem fjármagnstekjur kæranda.
II.
Með bréfi, dags. 26. febrúar 2019, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Í umsögninni er rakið að kærandi hafi fengið eignarhluta í K í arf eftir móður sína á árinu 2015 og hafi eigendaskipti að eigninni verið skráð á því ári samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Samkvæmt sömu heimild sé um verslunarhúsnæði að ræða en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum hafi arfláti leigt eignina út til atvinnustarfsemi og hafi tekjur verið skilgreindar og skattlagðar sem tekjur af atvinnurekstri í hendi arfláta. Kærandi hafi ekki talið fram tekjur af eigninni í skattframtali árið 2016 og í skattframtali árið 2017 hafi eignin verið sögð leigð út sem íbúðarhúsnæði. Hafi leigutekjur kæranda þannig verið tilfærðar sem fjármagnstekjur af útleigu íbúðarhúsnæðis þrátt fyrir að leigutaki, X ehf., sé skóbúð samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum. Tekur ríkisskattstjóri fram að telja verði kæranda í sömu stöðu og arfláta ef arfláti hefði selt eignina sjálfur, auk þess sem kærandi hafi haldið rekstri eignarinnar áfram með sama hætti, þ.e. útleigu atvinnuhúsnæðis til atvinnustarfsemi. Beri samkvæmt þessu að telja söluhagnað kæranda sem tekjur af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003. Þessu til stuðnings bendir ríkisskattstjóri á að við eigendaskipti á eign við arftöku skuli fyrningargrunnur slíkrar eignar standa óbreyttur í hendi erfingja frá því sem hann var í hendi arfleifanda, sbr. 44. gr. laga nr. 90/2003.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 27. febrúar 2019, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
III.
Ágreiningur í máli þessu varðar tekjufærslu söluhagnaðar vegna sölu kæranda á eignarhlut hans í fasteigninni K á árinu 2017. Með hinum kærða úrskurði færði ríkisskattstjóri kæranda til tekna í skattframtali hans árið 2018 sem atvinnurekstrartekjur, sbr. B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, bæði söluhagnað vegna sölu fasteignarinnar á árinu 2017 og leigutekjur vegna útleigu fasteignarinnar á því ári. Í kæru til yfirskattanefndar eru ekki gerðar athugasemdir hvað snertir síðarnefnda breytingu ríkisskattstjóra. Hins vegar krefst kærandi þess að söluhagnaður fasteignarinnar verði skattlagður sem fjármagnstekjur hans. Ekki eru færð fram sérstök rök til stuðnings kröfu kæranda í kæru hans til yfirskattanefndar, en við meðferð málsins hefur kærandi komið á framfæri þeim sjónarmiðum að hann hafi ekki verið í rekstri og að fasteignin hafi aðeins verið leigð út á meðan hún var í sölumeðferð.
Fyrir liggur að kærandi fékk eignarhlut í fasteigninni K í arf á árinu 2015 frá móður sinni. Þá er fram komið í málinu að arfleifandi hafði með höndum útleigu fasteignarinnar í atvinnuskyni. Var fasteignin þannig leigð út í atvinnuskyni er kærandi fékk eignarhlutinn í arf eftir móður sína á árinu 2015, en jafnframt hafði kærandi tekjur af útleigu eignarinnar á eignarhaldstíma sínum svo sem fram er komið. Við þær aðstæður sem í málinu greinir verður að telja að kærandi hafi almennt verið í sömu stöðu í skattalegu tilliti við sölu fasteignarinnar og arfleifandi, hefði hann selt fasteignina sjálfur, sbr. m.a. 44. gr. laga nr. 90/2003, sem gefur vísbendingu um þessa reglu. Hefur og verið byggt á þessum skilningi í skatt- og úrskurðaframkvæmd, sbr. t.d. úrskurð yfirskattanefndar nr. 180/2002. Samkvæmt framansögðu verður að fallast á það með ríkisskattstjóra að söluhagnað kæranda vegna sölu fasteignarinnar að K beri að virða sem tekjur af atvinnurekstri í merkingu B-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Er kröfu kæranda því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.