Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 545/1990

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. — 60. gr. 2. mgr. — 76. gr. — 91. gr. 1. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml.   Lög nr. 23/1985   Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða I  

Skattskyldar tekjur — Launatekjur — Gjaldþrot — Ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot — Tekjutímabil — Greiðsluár — Skuldir utan rekstrar — Frádráttarheimild — Frádráttarbærni við ákvörðun eignarskatts — Eignir, frádráttur frá eignum — Vaxtagjöld — Vaxtaafsláttur — Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Kæra, síðbúin — Síðbúin kæra — Kærufrestur — Vítaleysisástæður — Greinargerð um vaxtagjöld — Fylgigögn skattframtals — Leiðrétting — Leiðrétting skattframtals — Frávísun — Frávísun vegna síðbúinnar kæru

Málavextir eru þeir, að með kæru til skattstjóra, dags. 30. ágúst 1989, var farið fram á eftirfarandi leiðréttingar á skattframtali kærenda 1989:

„1. Í reit 7.1 hefur hann fært til tekna kr. 123.253 styrk frá Ríkisábyrgð á launum vegna gjaldþrota. Samkvæmt skattalögum er þessi upphæð ekki skattskyld og ber að færa í athugasemdadálk.

2. Samtala launa í reit 7.1 röng. Á að vera eftir leiðréttingu kr. 1.286.423.

3. Samkvæmt þeim gögnum sem undirritaður hefur undir höndum er ekki að sjá að X hafi talið fram neinar skuldir heldur sent með framtalinu ófullgerða greinargerð um vaxtagjöld. Eftir leiðréttingar á greinargerðinni og athugun á pappírum X fylgir hér með ný greinargerð og ber að færa samtölur hennar í reit 87 yfir vexti kr. 376.376 og eftirstöðvar skulda kr. 2.831.370.

4. Þá óskast fært í liðinn aðrar skuldir og vaxtagjöld eftirfarandi:

Útvegsbanki Ísl. víxill pr. 2/1 89 kr. 100.000

Lögfr. Y - 200.000

Útvegsbanki Ísl. # 2368 - 89.805

Samtals kr. 389.805

Þannig verða heildarskuldir, sem færa skal í reit 86 kr. 3.221.175.“

Með úrskurði uppkveðnum 11. október 1989 vísaði skattstjóri kærunni frá á þeim forsendum að hún væri of seint fram komin með vísan til 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Úrskurði skattstjóra hefur verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 15. janúar 1990. Í kærunni til ríkisskattanefndar eru kröfur kærenda ítrekaðar, sbr. kæru þeirra til skattstjóra.

Kröfugerð ríkisskattstjóra f.h. gjaldkrefjenda, dags. 8. maí 1990, er á þá leið, að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur, enda hafi engar skýringar verið gefnar á því, að ekki hefði verið kært innan veitts kærufrests.

Eftir atvikum þykir mega taka kæruna til efnismeðferðar.

Um 1. og 2. Ekki er fallist á kröfur kærenda. Greiðsla frá Ríkisbókhaldi 123.253 kr. vegna ríkisábyrgðar á launum við gjaldþrot telst til skattskyldra tekna.

Um 3. og 4. Fallist er á kröfu kærenda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja