Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður
  • Starfsmannakostnaður
  • Framlag til stjórnmálasamtaka

Úrskurður nr. 47/1996

Gjaldár 1991 og 1992

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul., 32. gr., 52. gr. 1. tölul.  

Með úrskurði yfirskattanefndar var fallist á að útgjöld kæranda, sem var verslunarfyrirtæki, vegna jólafagnaðar og sumarferða starfsfólks félagsins væru frádráttarbær rekstrarkostnaður. Þá var fallist á gjaldfærslu vegna blómagjafa til viðskiptavina og áfengiskaupa vegna móttöku viðskiptavina, en síðastnefndur liður var tekinn til greina með áætlaðri fjárhæð. Niðurfelling skattstjóra á gjaldfærðum kostnaði vegna vinnuklæðnaðar starfsfólks var felld úr gildi. Kröfum kæranda um gjaldfærslu kostnaðar vegna gjafa til starfsfólks, líkamsræktar starfsfólks og framlags til starfsmannafélags var hafnað. Í málinu var einnig deilt um þá ákvörðun skattstjóra að lækka gjaldfærðan auglýsingakostnað á þeim forsendum að greiðslur til útgefanda tímaritsins, sem var stjórnmálafélag, væru styrkir eða framlög þar sem engar auglýsingar frá kæranda hefðu birst í tímaritinu fyrir utan eina styrktarlínu. Yfirskattanefnd taldi kæranda ekki hafa sýnt fram á að um rekstrarkostnað væri að ræða umfram það sem skattstjóri hefði fallist á. Að virtum málavöxtum var álagsbeiting felld niður.

I.

Með kæru, dags. 30. nóvember 1993, hefur umboðsmaður kæranda kært endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 1991 og 1992, sbr. endurákvörðun, dags. 25. ágúst 1993, og kæruúrskurð, dags. 3. nóvember 1993. Breytingar skattstjóra á skattframtölum kæranda, sem mótmælt er í kæru til yfirskattanefndar, eru þessar:

1. Skattstjóri lækkaði gjaldfærðan kostnað vegna starfsfólks gjaldárið 1991, 5.268.046 kr., um 1.785.389 kr. og gjaldárið 1992, 3.142.640 kr., um 1.493.644 kr. Taldi skattstjóri að umræddur kostnaður vegna starfsmanna kæranda væri þess eðlis að sem slíkur gæti hann ekki talist til skyldubundinnar kvaðar í rekstri kæranda eða um væri að ræða óhjákvæmileg útgjöld við öflun tekna. Kostnaðurinn væri til að mynda ekki bundinn lögum, reglugerðum eða ákvæðum í kjarasamningum. Skattstjóri féllst því ekki á að umþrættir kostnaðarliðir væru til öflunar, viðhalds eða tryggingar tekjum kæranda, sbr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kvaðst hann telja að um ónauðsynlegan kostnað væri að ræða við öflun teknanna, um væri að ræða kostnað sem ákvarðaður væri einhliða af framkvæmdastjóra og um væri að ræða kostnað sem ekki tengdist beinni öflun tekna kæranda. Um eftirfarandi lækkanir kostnaðarliða var að ræða:

a) Jólafundur starfsmanna 241.444 kr. samkvæmt rekstrarreikningi fyrir rekstrarárið 1990 og 328.738 kr. rekstrarárið 1991. Skattstjóri taldi að kostnaður vegna jólafundar starfsmanna uppfyllti ekki það skilyrði að teljast frádráttarbær frá tekjum þar sem hann hefði ekki gengið til öflunar á tekjum kæranda. Af hálfu kæranda er því haldið fram að á hverju ári í desember hafi félagið haft þann sið að gleðjast með starfsmönnum sínum á tímamótum og hátíðarstundu og fagna árangri ársins. Um sé að ræða kostnaðarlið sem nemi um 2 til 3 þúsund krónum á hvern þátttakanda. Kærandi meti það til ígildis tekjuöflunar að hafa samstilltari hóp starfsmanna til að vinna að markmiðum félagsins.

b) Gjafir samkvæmt rekstrarreikningi 1990 439.781 kr. og samkvæmt rekstrarreikningi 1991 461.200 kr. og veitingahús, gjafakort 155.800 kr. Skattstjóri taldi að kostnaður þessi væri ekki frádráttarbær frá tekjum, sbr. 1. tölul. 52. gr. laga nr. 75/1981. Af hálfu kæranda er tekið fram að meðal gjafa séu bókfærð blómakaup við ýmiss tækifæri sem fyrirtækið noti til að minna á sig og samgleðjast t.d. birgjum eða stórum kaupendum svo að nokkur tækifæri séu nefnd. Kærandi telur að 11 reikningar að fjárhæð 33.302 kr. árið 1990 og 18 reikningar að fjárhæð 44.764 kr. árið 1991 falli undir slíkar gjafir. Að öðru leyti er af hálfu kæranda skírskotað til reikningsskilavenju um gjaldfærslu rekstrarkostnaðar.

c) Fatnaður samkvæmt rekstrarreikningi 1990 155.537 kr. og samkvæmt rekstrarreikningi 1991 383.941 kr. Skattstjóri taldi í kæruúrskurði að ekki hefði verið sýnt fram á frádráttarbærni kostnaðar vegna kaupa fatnaðar, nánar tiltekið á peysum að fjárhæð 139.887 kr. í rekstrarreikningi 1991 og 311.701 kr. í rekstrarreikningi 1990, jökkum að fjárhæð 72.240 kr. í rekstrarreikningi 1990 og blússum og skyrtum að fjárhæð 15.650 kr. í rekstrarreikningi 1991. Af hálfu kæranda er bent á að félagið hafi farið fram á það við starfsfólk að það gangi til vinnu í þessum fatnaði og tekið fram að ekki sé um alfatnað að ræða, einungis einfalda boli og peysur með auglýsingum fyrir fyrirtækið.

d) Sumarferð að fjárhæð 149.670 kr. samkvæmt rekstrarreikningi 1990, líkamsrækt að fjárhæð 110.792 kr. samkvæmt rekstrarreikningi 1990 og 101.310 kr. samkvæmt rekstrarreikningi 1991 og framlag til starfsmannafélags að fjárhæð 70.000 kr. samkvæmt rekstrarreikningi 1990 og 80.000 kr. samkvæmt rekstrarreikningi 1991. Skattstjóri taldi að kærandi hefði ekki sýnt fram á að þessi kostnaður væri til öflunar tekna kæranda, sbr. 29. og 31. gr. laga nr. 75/1981. Af hálfu kæranda er því haldið fram að líkamsrækt sé fyrirbyggjandi aðgerð til að koma í veg fyrir heilsutap með tilheyrandi kostnaði fyrir kæranda og sumarferð og framlag til starfsmannafélags sé af sama meiði. Þessi útgjöld séu hluti af kostnaði við að hafa starfsfólk í vinnu.

e) ÁTVR reikningar að fjárhæð 326.420 kr. samkvæmt rekstrarreikningi 1990 og að fjárhæð 274.400 kr. samkvæmt rekstrarreikningi 1991. Skattstjóri taldi að ekki hefði verið sýnt fram á að áfengiskaup, sem m.a. voru vegna námskeiðshalds starfsmanna, væru gjöld til tekjuöflunar kæranda skv. 29. og 31. gr. laga nr. 75/1981. Af hálfu kæranda er því haldið fram að þessi kostnaður sé sama eðlis og annar starfsmannakostnaður. Hluti þessa kostnaðar, u.þ.b. 30%, sé tengdur kostnaði á aðkeyptum matföngum vegna námskeiðshalds. Að öðru leyti tengist kostnaðurinn viðskiptahagsmunum kæranda m.a. veitingar til viðskiptamanna kæranda sem heimsæki fyrirtækið.

4. Auglýsingar. Skattstjóri lækkaði gjaldaliðinn auglýsingar, 13.504.180 kr. samkvæmt rekstrarreikningi 1990, um 490.050 kr. og 16.627.116 kr. samkvæmt rekstrarreikningi 1991 um 390.000 kr. Skattstjóri taldi að greiðslur kæranda til tímaritsins X, nánar tiltekið 300.000 kr. á árinu 1990 og 390.000 kr. af 400.000 kr. greiðslu á árinu 1991, væru ekki rekstrarkostnaður. Sama gilti um áfengiskaup að fjárhæð 105.000 kr. sem og greiðslu til bókaútgáfunnar Y 85.000 kr. á árinu 1990. Skattstjóri taldi að greiðslur kæranda til tímaritsins X væru styrkir eða framlög til útgefenda tímaritsins þar sem engar auglýsingar frá kæranda hefðu birst í tímaritinu umrædd ár fyrir utan eina styrktarlínu, sem skattstjóri mat á 10.000 kr. til gjalda. Af hálfu kæranda er því haldið fram að aðalforsenda skattstjóra varðandi útstrikun auglýsingakostnaðar sé að fjárhæð til ákveðins tímarits sé of há með tilliti til auglýsingagildis og bendir í því sambandi til jafnræðisreglu varðandi önnur tilgreind dagblöð.

5. Beiting álags. Skattstjóri beitti 25% álagi skv. 106. gr. laga nr. 75/1981 á áætlaða og vantalda skattstofna þar sem hann taldi að rekstrarreikningar með skattframtölum umræddra gjaldára væru haldnir þeim annmörkum að ekki verði á þeim byggð rétt álagning. Af hálfu kæranda er bent á að regla 106. gr. sé heimild til beitingar refsikenndra viðurlaga nema 3. mgr. 106. gr. eigi við. Þó hafi 3. mgr. lítið sjálfstætt gildi vegna þess hvernig heimildinni hefur verið beitt. Kærandi bendir á nokkra úrskurði ríkisskattanefndar máli sínu til stuðnings.

II.

Með bréfi, dags. 8. júlí 1994, hefur ríkisskattstjóri lagt fram þá kröfugerð í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur að öðru leyti en því að með vísan til skýringa kæranda í kæru sé rétt að fallast á gjaldfærslu jólafagnaðar starfsfólks.

III.

Um lið 1-a) Fallist er á kröfu kæranda um frádrátt kostnaðar vegna jólafagnaðar starfsfólks, sbr. og kröfugerð ríkisskattstjóra.

Um lið 1-b) Óumdeilt er að um er að ræða útgjöld vegna gjafa til starfsmanna að frátöldum kostnaði vegna blómakaupa, 33.302 kr. rekstrarárið 1990 og 44.764 kr. rekstrarárið 1991, en blómin kveður kærandi hafa verið send viðskiptavinum af ýmsu tilefni. Með hliðsjón af starfsemi kæranda og að virtum fjárhæðum þykir mega fallast á gjaldfærslu blómakaupa þessara. Að öðru leyti er á það fallist með skattstjóra að útgjöldin teljast ekki frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 1. tölul. 51. gr. sömu laga, svo sem það ákvæði var orðað á þeim tíma sem málið varðar.

Um lið 1-c) Ekki liggur annað fyrir en að um sé að ræða vinnuklæðnað starfsfólks kæranda. Þegar til þess er litið þykir skattstjóri ekki hafa rökstutt nægjanlega synjun sína á kröfu kæranda og verður því að fella úr gildi ákvörðun hans varðandi kostnaðarlið þennan.

Um lið 1-d) Ekki þykja efni til annars en að taka kröfu kæranda til greina að því er snertir kostnað við sumarferðir starfsmanna, enda verður ekki annað séð en að sá kostnaður sé innan hóflegra marka þegar litið er til starfsmannafjölda. Hins vegar þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra að því er varðar kostnað vegna íþrótta starfsmanna, enda verður ekki talið að slíkur kostnaður geti fallið undir frádráttarbæran rekstrarkostnað í skilningi 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981 gjaldárin 1991 og 1992. Kærandi þykir ekki hafa sýnt fram á að framlag til starfsmannafélags sé í þeim tengslum við tekjuöflun hans að unnt sé að svo vöxnu að fallast á kröfu um frádrátt vegna þeirra útgjalda.

Um lið 1-e) Af hálfu kæranda er upplýst að kostnaðarliður þessi sé að öllu verulegu leyti vegna móttöku viðskiptavina eða sé að öðru leyti í tengslum við viðskiptahagsmuni kæranda. Hluti útgjaldanna sé þó vegna námskeiðahalds starfsfólks. Kærandi þykir ekki hafa gert þá grein fyrir þessum útgjöldum sem vefenging skattstjóra gaf tilefni til. Þegar litið er til eðlis og umfangs starfsemi kæranda þykir þó ekki rétt að synja alfarið um gjaldfærslu þessa kostnaðar og þykir að virtum atvikum bera að heimila helming fjárhæðanna til frádráttar tekjum á viðkomandi árum.

Um lið 4. Samkvæmt fyrirliggjandi ljósritum reikninga greiddi kærandi tímaritinu X á árinu 1990 samkvæmt einum reikningi fyrir auglýsingu samkvæmt samkomulagi 300.000 kr. og á árinu 1991 samkvæmt fjórum reikningum samtals 400.000 kr. Fyrir liggur ómótmælt af hálfu kæranda að aðeins ein auglýsing, svokölluð styrktarlína, birtist í tímaritinu á árinu 1991. Kærandi þykir ekki hafa sýnt fram á að um rekstrarkostnað hafi verið að ræða umfram það sem skattstjóri hefur fallist á og er því þessum kærulið synjað.

Um lið 5. Að virtum málavöxtum þykir mega fallast á kröfur kæranda og fella niður álagsbeitingu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfur kæranda vegna jólafundar, blómakaupa, sumarferðar og áfengiskaupa með 587.626 kr. á skattframtali 1991 og 510.702 kr. á skattframtali 1992. Ákvörðun skattstjóra varðandi fatnað starfsfólks er felld úr gildi. … Synjað er kröfu kæranda varðandi frádrátt vegna gjafa, líkamsræktar starfsfólks, framlags til starfsmannafélags og greiðslu skv. lið 4. … Álag fellur niður.

 

 

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja