Úrskurður yfirskattanefndar

  • Teknategund
  • Atvinnurekstur
  • Hrossarækt

Úrskurður nr. 173/1996

Gjaldár 1994

Lög nr. 75/1981, 62. gr. 3. mgr., 7. gr. B-liður  

Að virtri hrossaeign kæranda í árslok 1993, sem var þrjú tryppi og einn eldri hestur, og óverulegum tekjum kæranda af hrossaeign sinni staðfesti yfirskattanefnd þá niðurstöðu skattstjóra að ekki væri um að ræða tekjur af atvinnurekstri.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests gjaldárið 1994 og sætti því áætlun skattstjóra á skattstofnum við álagningu opinberra gjalda það ár. Af hálfu kæranda var álagningin kærð með kæru, dags. 24. ágúst 1994, og framlagningu skattframtals til rökstuðnings kærunni, mótt. af skattstjóra hinn 28. október 1994. Skattframtalinu fylgdi ársreikningur vegna iðnaðar og nam rekstrartap vegna þeirrar starfsemi 157.493 kr. Reiknað endurgjald vegna vinnu kæranda við reksturinn nam 1.380.000 kr. Þá fylgdi skattframtalinu landbúnaðarskýrsla þar sem gerð var grein fyrir tekjum að fjárhæð 43.810 kr. (innlegg tveggja hrossa) og gjöldum að fjárhæð 242.928 kr. Að teknu tilliti til verðbreytingarfærslu nam rekstrartap ársins 163.875 kr. sem kærandi færði á samræmingarblað (RSK 4.05).

Kæruefnið í máli þessu, sbr. kæru til yfirskattanefndar, dags. 14. desember 1994, er sú ákvörðun skattstjóra í kæruúrskurði hans, dags. 24. nóvember 1994, að heimila ekki yfirfærslu taps samkvæmt landbúnaðarskýrslu til næsta árs, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með því að hann taldi að ekki væri um atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi kæranda að ræða. Til stuðnings ákvörðun sinni vísaði skattstjóri til umfangs starfseminnar, þess að engin virðisaukaskattsskyld sala hefði átt sér stað og að kærandi væri hvorki tilkynntur á grunnskrá virðisaukaskatts né á launagreiðendaskrá staðgreiðslu sem bóndi.

Umboðsmaður kæranda krefst þess í kæru til yfirskattanefndar að tap samkvæmt landbúnaðarskýrslu verði viðurkennt. Í kærunni kemur fram að kærandi hafi keypt jörðina H árið 1992. Í skattframtali 1993 sé litið svo á að um rekstur sé að ræða, sbr. landbúnaðarskýrslu með því framtali, og hafi tap af landbúnaði verið fært til frádráttar tekjum af öðrum rekstri. Sé ekki kunnugt um neinar reglur eða aðrar viðmiðanir um hvenær umfang sé orðið það mikið að hægt sé að tala um rekstur. Rökstuðningur skattstjóra um að kærandi hafi ekki tilkynnt um starfsemi sína sé ekki nægjanlegur. Kærandi búi í sveit og þurfi að viðhalda jörð sinni, t.d. varðandi ræktun og girðingar. Sé eðlilegt að skattstjóri líti til þess hvar búseta manna sé og að aðilar fái að halda utan um kostnað sem lagður sé í viðhald o.fl. vegna hugsanlegs söluhagnaðar síðar.

Með bréfi, dags. 13. október 1995, hefur ríkisskattstjóri f.h. gjaldkrefjenda krafist þess að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

II.

Þegar litið er til óverulegra tekna af hrossaeign á árinu 1993, svo og hrossaeignar kæranda í árslok samkvæmt landbúnaðarskýrslu, þ.e. þrjú tryppi og einn eldri hestur, þykir bera að staðfesta það mat skattstjóra að tekjur þessar á árinu 1993 séu ekki þess eðlis að þær falli undir B-lið 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Úrskurður skattstjóra er staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja