Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattskyldar tekjur
  • Verkfallsstyrkur

Úrskurður nr. 174/1996

Gjaldár 1995

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 2. tölul.  

Deilt var um hvort greiðslur til kæranda frá kjaradeilusjóði stéttarfélags hennar, sem kærandi móttók meðan á verkfalli félagsins stóð, teldust verkfallsstyrkur og því skattskyldar tekjur kæranda eða hvort líta bæri á greiðslurnar sem lán stéttarfélagsins til kæranda samkvæmt skuldabréfi þar um. Yfirskattanefnd tók fram að þegar umræddar greiðslur fóru fram bentu reglur kjaradeilusjóðsins til þess að stuðningur stéttarfélagsins við félagsmenn í verkfalli ættu að vera í formi styrkja. Að því virtu og þegar litið var til atvika málsins að öðru leyti, sérstaklega til þess að endurgreiðsluskylda kæranda svaraði bersýnilega ekki nema að litlu leyti til fjárúthlutunarinnar, var fallist á þá niðurstöðu skattstjóra að telja bæri greiðslurnar til tekna hjá kæranda sem verkfallsstyrk.

I.

Samkvæmt gögnum þeim, sem fyrir liggja í máli þessu, voru tildrög þess með sérstökum hætti. Hinn 2. maí 1995 reit ríkisskattstjóri, eftirlitsskrifstofa, skattstjóranum í Reykjavík bréf og fylgdi því skýrsla embættisins vegna athugunar á greiðslum Sjúkraliðafélags Íslands til sjúkraliða vegna verkfalls í nóvember og desember 1994. Í bréfinu var tekið fram að upplýsingar um viðtakendur og fjárhæðir greiðslna hafi ekki borist við skil launamiða fyrr á árinu og svo virðist sem viðtakendur hafi ekki tekjufært greiðslurnar í skattframtölum sínum. Listi yfir nöfn skattaðila í umdæmi skattstjórans, sem þegið hefðu greiðslur, svo og fjárhæðir greiðslna væri meðfylgjandi.

Ríkisskattstjóri tók fram í bréfi sínu að hann teldi, á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga, að greiðslur þær, sem hér um ræddi, kynnu að vera skattskyldir styrkir samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Bæri því móttakendum þeirra að tekjufæra fjárhæðina í skattframtali árið 1995 í samræmi við leiðbeiningar ríkisskattstjóra um útfyllingu skattframtals. Ákveðið hefði verið að láta reyna á mál eins sjúkraliða og fá úrskurð yfirskattanefndar um skattskyldu umræddra styrkja. Sá sjúkraliði væri A, kærandi í máli þessu. Nánari gögn og upplýsingar um úthlutun til hennar væru meðfylgjandi bréfinu. Skattaleg meðferð annarra sjúkraliða, sem móttekið hefðu styrki, yrði síðan á grundvelli þess úrskurðar. Var þess óskað að skattstjórinn annaðist um skattalega meðferð þessara greiðslna til kæranda. Jafnframt beindi ríkisskattstjóri þeim tilmælum til skattstjórans að álagi samkvæmt 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 yrði ekki beitt með nánar tilgreindum rökum.

Í fyrrgreindri skýrslu eftirlitsskrifstofu ríkisskattstjóra, sem liggur fyrir í málinu, er greint frá athugun á greiðslum úr sjóði Sjúkraliðafélags Íslands til félagsmanna í verkfalli sjúkraliða á árinu 1994, þar á meðal viðræðum við forsvarsmenn félagsins. Er þar meðal annars fjallað um nefndar greiðslur og skilmála þeirra, uppruna þess fjár, sem úthlutað var, og stöðu verkfallssjóða félagsins. Ýmis gögn fylgja skýrslunni, þar á meðal minnisnóta stéttarfélagsins, lögð fram á fundi með fulltrúum ríkisskattstjóra 15. maí 1995, lög stéttarfélagsins og reglur fyrir Vinnudeilu- og verkfallssjóð þess frá 13. maí 1995.

II.

Hinn 12. júní 1995 reit skattstjóri A, kæranda í máli þessu, bréf vegna skattframtals hennar árið 1995. Í bréfinu greindi skattstjóri frá því að samkvæmt upplýsingum, sem ríkisskattstjóri hefði aflað hjá stéttarfélagi hennar, Sjúkraliðafélagi Íslands, hefði hún móttekið 25.000 kr. frá félaginu á árinu 1994. Þessa fjárúthlutun mætti rekja til umsókna kæranda til kjaradeilusjóðs stéttarfélagsins meðan á verkfalli félagsins hafi staðið.

Skattstjóri tók fram í bréfinu að fyrrgreindra greiðslna væri að engu getið í skattframtali kæranda árið 1995, en svo virtist sem um skattskyldar tekjur væri að ræða samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattstjóri kvað afrit af bréfi Sjúkraliðafélags Íslands, dags. 26. maí 1995, til kæranda liggja fyrir ásamt þeim gögnum sem vitnað væri til í bréfi þessu. Var þar um að ræða reglur fyrir Vinnudeilu- og verkfallssjóð Sjúkraliðafélags Íslands, drög að skuldabréfi vegna framlaga frá stéttarfélaginu í verkfalli þess, bréf eftirlitsskrifstofu ríkisskattstjóra, dags. 15. maí 1995, minnisnóta Sjúkraliðafélags Íslands, lögð fram á fundi með starfsmönnum ríkisskattstjóra 15. maí 1995, bréf Sjúkraliðafélags Íslands til ríkisskattstjóra, dags. 22. maí 1995, og ljósrit af umsóknum kæranda um framlög frá stéttarfélaginu í verkfallinu. Tók skattstjóri fram að ekki yrði séð að gögn þessi hefðu áhrif í skattalegu tilliti varðandi skattskyldu, sbr. fyrrgreint lagaákvæði, vegna umræddra greiðslna á þeim tíma sem útborgun hefði átt sér stað eða síðar.

Skoðun sinni til stuðnings benti skattstjóri á það í bréfinu að reglur fyrir Vinnudeilu- og verkfallssjóð Sjúkraliðafélags Íslands væru dagsettar 13. maí 1995 og „Drög að skuldabréfi vegna framlaga frá SLFÍ, í verkfalli þess“ hefðu að geyma ákvæði og yfirbragð er bæru blæ málamyndagernings sem slík. Mætti þar benda á skilmála bréfsins, sem sótt væru til áhættuviðskipta, þ.e. að endurgreiðslurnar væru „samkvæmt skilyrðum sem gilda um víkjandi lán“. Ekki þætti ástæða til að hafa uppi getgátur um önnur ákvæði skuldabréfsins, s.s. almenna heimild til útlána, vaxtakjör, fjölda og tímabil afborgana, en rétt þætti að benda á að samkvæmt afritum af fjórum umsóknum, sem undirritaðar væru af kæranda á árinu 1994, en fimmta umsóknin væri dagsett 6. janúar 1995 (úthlutun 5.000 kr.), þá yrði ekki séð að kærandi hefði á þeim tíma undirgengist nokkra þá skilmála er kvæðu á um endurgreiðslu úthlutana til hennar.

Fyrrgreint bréf ritaði skattstjóri kæranda á grundvelli 1. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Hann óskaði eftir skýringum kæranda ásamt viðeigandi gögnum innan sjö daga frá dagsetningu bréfsins. Svar barst ekki frá kæranda og með bréfi, dags. 25. júlí 1995, tilkynnti skattstjóri kæranda að umræddar greiðslur 25.000 kr. hefðu verið færðar henni til skattskyldra tekna í skattframtali árið 1995, sbr. 3. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Af hálfu umboðsmanns kæranda voru álögð opinber gjöld gjaldárið 1995 kærð til lækkunar með kæru, dags. 26. ágúst 1995, og boðað að frekari rökstuðningur og skýringar yrðu sendar skattstjóra innan tíðar. Með bréfi, dags. 29. ágúst 1995, gerði umboðsmaður kæranda grein fyrir málavöxtum, kröfum og rökstuðningi.

Gerð var grein fyrir því að í verkfalli Sjúkraliðafélags Íslands á síðari hluta ársins 1994 hefði stéttarfélagið greitt þeim félagsmönnum, sem í verkfalli voru, fjárhæðir úr sjóðum þess vegna missis ráðstöfunarfjár meðan á verkfallinu stóð. Við upphaf verkfallsins hefði stjórn stéttarfélagsins ákveðið til bráðabirgða á stjórnarfundi að koma á fót kjaradeilusjóði, en formleg stofnun slíks sjóðs samkvæmt samþykktum félagsins hefði þó orðið að fara fram á fulltrúaþingi. Hinn formlegi kjaradeilusjóður hefði síðan verið stofnaður á fulltrúaþingi þann 13. maí 1995.

Skattstjóri hefði í bréfi sínu, dags. 12. júní 1995, gert athugasemdir við að reglur um Vinnudeilu- og verkfallssjóð Sjúkraliðafélags Íslands séu fyrst dagsettar 13. maí 1995 og þær úthlutanir, sem til meðferðar séu, hafi átt sér stað fyrir þann tíma. Ekki verði séð að þetta formsatriði geti skipt máli við úrlausn ágreiningsins þar sem ekkert hafi getað verið því til fyrirstöðu að félagssjóður Sjúkraliðafélags Íslands gegndi hinu formlega hlutverki kjaradeilusjóðs meðan verkfallið stóð yfir á árinu 1994. Fram til þess tíma hefðu sjúkraliðar í Sjúkraliðafélagi Íslands ekki greitt í sérstakan kjaradeilusjóð á vegum félagsins. Þar af leiðandi hefðu engar „inneignir“ myndast innan félagsins sjálfs sem unnt hefði verið að ganga á við úthlutun í verkfallinu. Stjórn stéttarfélagsins hefði því staðið frammi fyrir því verkefni að afla fjár með öðrum hætti til að fjármagna fyrirhugaðar úthlutanir til félagsmanna. Meginframlagið hefði komið úr sameiginlegum verkfallssjóði allra aðildarfélaga BSRB. Meðal annars af þessum ástæðum hefðu þær forsendur verið ákveðnar fyrir úthlutunum að um lán væri að ræða til félagsmanna í verkfalli er síðar skyldu endurgreiðast og mynda stofnfé hins nýja Vinnudeilu- og verkfallssjóðs. Vegna mikils álags og anna á skrifstofu stéttarfélagsins í hita verkfallsins hefði hins vegar ekki gefist tími til að ganga þá strax frá formlegum skuldabréfum vegna úthlutananna, enda hefðu þær farið fram í mörgu lagi. Þess í stað hefðu skuldaviðurkenningar verið látnar nægja í formi kvittana fyrir móttöku fjárins á umsóknareyðublöð vegna úthlutana. Sérstaklega er bent á að á umræddum eyðublöðum komi ekki fram hugtök eins og „styrkur“, „bætur“, „laun“ eða „tekjur“ eða önnur sambærileg orð sem tengja megi beint ákvæðum 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Á umsóknareyðublöðunum standi einungis „úthlutun“.

Skattstjóri hefði byggt tekjufærslu á 25.000 kr. úthlutun til kæranda á 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og líti þar af leiðandi á úthlutunina sem styrk. Þessu sjónarmiði mótmælti umboðsmaður kæranda, enda væri um lán að ræða sem kærandi hefði skuldbundið sig til að endurgreiða samkvæmt skuldabréfi. Þá var því viðhorfi skattstjóra mótmælt sem órökstuddu að það skuldasamband hefði á sér blæ málamyndagernings, enda hefði skattstjóra mátt vera ljóst að þau drög að skuldabréfi, sem hann byggði þessa ályktun sína á, væru ófullgerð. Vísað var til skuldabréfs, sem kærandi hefði undirritað og afhent Sjúkraliðafélagi Íslands, er fylgdi bréfi umboðsmannsins í ljósriti. Fjarri lagi væri að það skuldabréf væri málamyndagerningur, enda væru þar skýr ákvæði um fjárhæð skuldar, afborgunartíma, ársvexti o.fl. Í skuldabréfinu kæmi jafnframt skýrt fram að að það væri gefið út til staðfestingar á skuldaviðurkenningum samkvæmt kvittunum frá 13., 14., 21. og 30. desember 1994 og 6. janúar 1995. Vextir skuldabréfsins væru 2% sem væru nærri fjórfalt hærri vextir en innlánsstofnanir greiddu af almennum sparisjóðsbókum. Forráðamenn Sjúkraliðafélags Íslands hefðu upplýst að félagið liti á það sem skyldu sína að sjá til þess að endurgreiðsla lánsins væri viðráðanleg hinum almenna félagsmanni og því væru vaxta- og afborgunarkjör miðuð við þá staðreynd að sjúkraliðar væru ekki hátekjufólk. Skilmálar, er tækju mið af greiðslugetu skuldara, fælu ekki í sér forsendu málamyndagernings.

Þá vék umboðsmaður kæranda að því í bréfi sínu til skattstjóra að skattstjóri styddi niðurstöðu sína um að skuldabréfið væri málamyndagerningur að skilmálar bréfsins fælu í sér að skuldin væri „víkjandi lán“. Þetta ákvæði gerði skuldabréfið á engan hátt tortryggilegt, enda væri algengt í viðskiptum án þess að talið væri að um málamyndagerninga væri að ræða. Slíkt ákvæði heimilaði skuldara á engan hátt að víkja sér undan greiðslu skuldar ef greiðsluhæfi væri fyrir hendi. Hins vegar viki skuldin fyrir öllum öðrum skuldum og félli jafnvel niður í því tilviki að skuldari gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar og missti eigur sínar. Að sögn forráðamanna Sjúkraliðafélags Íslands myndi félagið aldrei ganga svo langt gagnvart félagsmanni sínum að krefjast t.d. nauðungarsölu eigna eða gjaldþrotameðferðar vegna ógreiddrar skuldar hans við Vinnudeilu- og verkfallssjóð. Félagið myndi hins vegar reyna allar aðrar mögulegar og venjulegar innheimtuaðferðir.

Í bréfi umboðsmannsins var athugasemd skattstjóra í bréfi, dags. 12. júní 1995, um að greiðslna frá Sjúkraliðafélagi Íslands hafi í engu verið getið í skattframtali kæranda árið 1995 svarað svo að vegna mistaka hafi láðst að færa 25.000 kr. sem skuld við stéttarfélagið í kafla 10.6 í skattframtalinu. Var þess óskað að skattstjóri gerði þá leiðréttingu.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 31. október 1995, og synjaði kröfu kæranda. Hins vegar lækkaði skattstjóri hina kærðu tekjuviðbót úr 25.000 kr. í 20.000 kr. með því að ekki hefði stofnast hærri krafa kæranda til handa á tekjuárinu.

Í forsendum sínum tekur skattstjóri fram að af fyrirliggjandi afritum umsókna kæranda til kjaradeilusjóðs verði ekki ráðið að kærandi hafi undirgengist nokkra þá skilmála, er kveði á um endurgreiðslu úthlutaðs fjár, hvorki í umsóknunum né kvittunum fyrir móttöku fjárins. Enginn áskilnaður um endurgreiðslu komi heldur fram í niðurstöðum sjóðsstjórnar sem áritaðar séu á hverja umsókn. Þvert á móti verði af orðalagi í niðurstöðum sjóðsstjórnar ráðið að um óafturkræfa ráðstöfun fjár hafi verið að ræða, enda sé orðið úthlutun notað þar í tvígang, sbr. skýringu á því orði samkvæmt almennri málmerkingu sem skattstjóri gerir nánari grein fyrir í forsendum sínum. Umrædda ráðstöfun sé eðlilegt að skýra í ljósi áratugalangrar framkvæmdar við úthlutun og skattlagningu verkfallsstyrkja. Sé þá til þess að líta að úthlutunarfé hafi að mestu leyti komið úr sameiginlegum verkfallssjóði aðildarfélaga BSRB. Óeðlilegt sé að skattlagningu verði á annan veg háttað í tilviki kæranda en almennt hafi tíðkast um fé sem úthlutað hafi verið úr verkfallssjóðum.

Þá segir svo í forsendum úrskurðar skattstjóra:

„Í skuldabréfi því, sem kærandi gaf út þann 20. ágúst 1995, er ákvæði þess efnis að bréfið sé gefið út til staðfestingar á skuldaviðurkenningu vegna móttekins láns frá SLFÍ og í því sambandi vísað til umsókna kæranda í kjaradeilusjóð. Eins og hér að framan hefur verið rakið verður ekki séð að umsóknirnar eða afgreiðsla þeirra feli í sér neina skuldaviðurkenningu. Útgáfu skuldabréfsins verður að skoða í ljósi þeirra aðstæðna er uppi voru. Fyrr á árinu 1995 hafði Vinnudeilu- og verkfallssjóður SLFÍ verið stofnaður og sjóðnum settar reglur. Í þeim reglum er tilgangur sjóðsins markaður svo, að hann sé að aðstoða félagsmenn eftir því sem ástæða þyki til ef til vinnudeilu eða verkfalls komi. Í reglunum er jafnframt kveðið á um að að stofnfé sjóðsins skuli vera sérstakt framlag og endurgreiðslur frá félagsmönnum á lánum sem veitt voru í verkfalli á s.l. ári. Þá er í reglunum kveðið á um að fastar tekjur sjóðsins skuli ákveðnar af fulltrúaþingi SLFÍ og að þær skuli miðast við hlutfall af innheimtum félagsgjöldum til SFLÍ. Að framangreindu virtu þykir mega jafna greiðslum samkvæmt skuldabréfinu til hefðbundinna framlaga í verkfallssjóð. Í stað greiðslna er ákvarðast sem hlutfall af félagsgjöldum koma greiðslur samkvæmt skuldabréfi. Þannig verður að líta á úthlutun fjár í verkfalli annarsvegar og útgáfu skuldabréfs hinsvegar sem tvo aðskilda gerninga í skattalegu tilliti. Í þessu sambandi er vert að líta til þess, að allur meginþorri félagsmanna SLFÍ naut framlaga frá félaginu í verkfalli. Það er síðan á valdi fulltrúa þessara sömu félagsmanna að ákvarða framlög til Vinnudeilu- og verkfallssjóðs.

Að öllu framangreindu virtu þykir sýnt að umrædd framlög SFLÍ til kæranda hafi verið styrkur, sem skattskyldur er skv. 2. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981. Kröfu kæranda er því synjað.

Þrátt fyrir framanritað þykir verða að lækka hina kærðu tekjuviðbót á skattframtali 1995 úr kr. 25.000 í kr. 20.000. Helgast það af því, að samkvæmt fyrirliggjandi umsóknum kæranda í kjaradeilusjóð árituðum af sjóðsstjórn um afgreiðslu, námu framlög til kæranda á árinu 1994 aðeins kr. 20.000. Fjórða úthlutun kr. 5.000, á grundvelli umsóknar dagsettrar 30. desember 1994, var ekki afgreidd af sjóðsstjórn fyrr en 6. janúar 1995. Krafa til umræddrar fjárhæðar stofnaðist því ekki fyrr en á tekjuárinu 1995, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 75/1981.“

III.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 15. nóvember 1995. Er þess krafist að tekjuviðbót sú, sem skattstjóri ákvarðaði kæranda með úrskurði þessum, verði felld úr gildi svo og sú gjaldahækkun sem af henni leiddi.

Í kærunni er skírskotað til rökstuðnings þess, sem lagður var fram við meðferð málsins á skattstjórastigi, sbr. bréf umboðsmanns kæranda, dags. 29. ágúst 1995, í framhaldi af kæru, dags. 26. ágúst 1995. Í kærunni er skilningi skattstjóra á orðinu „úthlutun“ mótmælt á grundvelli merkingarfræðilegra raka og því meðal annars haldið fram að orð þetta geti tekið til lánveitingar. Þá er staðhæfingu skattstjóra um áratugalanga framkvæmd við úthlutun verkfallsstyrkja mótmælt og því borið við að forsvarsmenn ýmissa verkalýðsfélaga séu ekki þeirrar skoðunar að áratugalöng framkvæmd skattalegrar meðferðar á úthlutunum úr verkfallssjóðum feli í sér skattlagningu þeirra sem tekjur. Þetta skipti þó ekki meginmáli í tilviki kæranda þar sem kærandi hafi viðurkennt að um lán úr félagssjóði SLFÍ hafi verið að ræða og undirritað fullgilt og lögformlegt skuldabréf í því sambandi. Kærandi ætli að endurgreiða úthlutunina í samræmi við samþykktir SLFÍ og ákvæði skuldabréfsins. Því séu engar heimildir í lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, til að skattleggja fjárúthlutunina sem tekjur.

Í kærunni er þess getið að þegar Sjúkraliðafélag Íslands hafi boðað vinnustöðvun á árinu 1994 hafi félagið ekki átt kjaradeilusjóð sem nota mætti til að úthluta úr til félagsmanna í verkfalli. Stéttarfélagið hefði hins vegar aflað óendurkræfra framlaga til félagssjóðs frá ýmsum aðilum, þar á meðal BSRB. Ákveðið hefði verið, að þó svo að fé þessu yrði úthlutað, skyldu framlögin endurgreidd og mynda stofnfé þess Vinnudeilu- og verkfallssjóðs sem ráðgert var að stofna og var stofnaður vorið 1995. Í þessu sambandi megi ljóst vera að stofnféð skyldi koma frá félagssjóði, fjármagnað af framlögunum frá BSRB o.fl., en ekki frá félagsmönnum. Þá sé þess að geta að ekki hafi allir félagsmenn verið í verkfalli og þeir félagsmenn, sem hafi verið í verkfalli, hafi fengið misháar úthlutanir. Samkvæmt þessu fái sú ályktun skattstjóra ekki staðist að umræddu skuldabréfi megi jafna við framlög í verkfallssjóð og að úthlutun fjárins í verkfallinu og útgáfa skuldabréfsins séu tveir aðskildir gerningar í skattalegu tilliti. Ljóst sé að ef úthlutunin yrði skattlögð yrði stéttarfélagið og Vinnudeilu- og verkfallssjóður að breyta fyrri ákvörðunum sínum og samþykktum og ógilda skuldabréfið og afhenda kæranda það án frekari krafna.

IV.

Með bréfi, dags. 5. desember 1995, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

V.

Ágreiningur þessa máls snýst um það hvort greiðslur til kæranda að fjárhæð 20.000 kr. frá stéttarfélagi hennar, Sjúkraliðafélagi Íslands, sem kærandi móttók í desember 1994, meðan á verkfalli félagsins stóð, beri að telja styrk til kæranda, sem skattskyldur er samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, svo sem skattstjóri hefur álitið, eða hvort líta beri á greiðslur þessar sem lán stéttarfélagsins til kæranda, sem beri að endurgreiða, eins og haldið er fram af hálfu kæranda. Skattstjóri hefur byggt niðurstöðu sína um skattlagningu greiðslnanna sem styrks til kæranda á því að rétt sé, miðað við málsatvik, að líta á úthlutun fjárins til kæranda og útgáfu skuldabréfsins af hendi kæranda hinn 20. ágúst 1995 sem tvo aðskilda gerninga, þannig að úthlutunarféð teljist skattskyldur styrkur í hendi kæranda en greiðslum af skuldabréfinu megi á hinn bóginn jafna til hefðbundinna framlaga í verkfallssjóð er komi þá í stað greiðslna sem ákvarðast sem hlutfall af félagsgjöldum, sbr. 7. gr. þess Vinnudeilu- og verkfallssjóðs Sjúkraliðafélags Íslands sem stofnaður var 13. maí 1995. Skattstjóri hefur út af fyrir sig ekki beinlínis vefengt að kærandi væri í skuld við stéttarfélagið samkvæmt skuldabréfi þessu. Ekki virðist um það ágreiningur að umræddar greiðslur til kæranda væru skattskyldar tekjur samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, ef þær teldust hefðbundinn verkfallsstyrkur.

Eins og fram hefur komið kom til verkfalls Sjúkraliðafélags Íslands seint á árinu 1994 og hófst það 10. nóvember 1994 og lauk 30. desember 1994. Stéttarfélagið bjó þá ekki að fé í verkfallssjóði, enda þótt gert væri ráð fyrir kjaradeilusjóði samkvæmt 25. gr. félagslaga til styrktar þeim félagsmönnum sem ættu í langvinnum kjaradeilum og misstu laun af þeim sökum. Slíkum sjóði var í raun fyrst komið á laggirnar hinn 13. maí 1995, sbr. reglur fyrir Vinnudeilu- og verkfallssjóð Sjúkraliðafélags Íslands sem samþykktar voru þennan dag á fulltrúaþingi stéttarfélagsins. Í 6. gr. reglna þessara er tekið fram að sjóðsstjórn sé heimilt hvort heldur að veita félagsmönnum, sem eiga í verkfalli, styrk eða lán á til þess greindum kjörum eftir því sem henta þykir. Samkvæmt 7. gr. reglnanna skulu tekjur sjóðsins miðast við hlutfall af félagsgjöldum samkvæmt ákvörðun fulltrúaþings Sjúkraliðafélags Íslands um fastar tekjur sjóðsins hverju sinni. Í 1. málsl. 9. gr. reglnanna er kveðið á um stofnfé sjóðsins. Þar segir: „Stofnfé sjóðsins skal vera sérstakt framlag og endurgreiðslur frá félagsmönnum á lánum sem veitt voru til félagsmanna sem áttu í verkfalli á s.l. ári.“

Þar sem stéttarfélagið hafði ekki, á þeim tíma sem verkfallið stóð yfir, sjálft yfir að ráða fé til úthlutunar til þeirra félagsmanna, sem voru í verkfalli, aflaði það óendurkræfra framlaga í þessu skyni, aðallega úr sameiginlegum sjóði aðildarfélaga BSRB. Af úthlutunargögnum, sem fyrir liggja í málinu, verður ekki ráðið með neinni vissu hvort litið hefur verið á greiðslur til kæranda sem styrk eða lán. Viðhorf og gögn um að um lánveitingu hafi verið að ræða koma fyrst fram á vordögum 1995, eftir því sem gögn málsins bera með sér, og þá í sambandi við stofnun fyrrnefnds Vinnudeilu- og verkfallssjóðs. Ekki tilgreindi kærandi greiðslur þessar sem skuld við stéttarfélagið í skattframtali sínu árið 1995 sem dagsett er 12. maí 1995. Skuldabréf það að fjárhæð 30.000 kr, sem kærandi undirritaði hinn 20. ágúst 1995, skal greiðast með árlegum afborgunum á 10 árum. Það er óverðtryggt og ber 2% vexti p.a. Hvorki er það tryggt með veði né ábyrgðum. Tekið er fram í skilmálum þess að um það gildi reglur um víkjandi lán. Samkvæmt þessu er ljóst að skilmálar bréfsins eru svo hagstæðir skuldara að afbrigðilegt má teljast.

Á þeim tíma sem umræddar greiðslur til kæranda fóru fram var því einu til að dreifa í reglum félagsins um stuðning þess við félagsmenn í verkfalli er getur í 25. gr. félagslaga um Kjaradeilusjóð til styrktar félagsmönnum í langvinnum kjaradeilum. Þessi ákvæði félagslaga benda eindregið til þess að stuðningur félagsins eigi að vera í formi styrkja, enda er ekki getið neinna lánveitinga í þessu sambandi. Enda þótt fé hafi ekki verið fyrir hendi til úthlutunar úr sjóði þessum, eins og fyrr getur, verður ekki fram hjá því horft að félagslög höfðu á umræddum tíma þessi ákvæði ein um form stuðningsins. Að þessu virtu og þegar litið er til atvika málsins, sem að framan getur, þar á meðal þess að um úthlutun óendurkræfra framlaga til stéttarfélagsins var að ræða og að endurgreiðsluskylda kæranda svarar bersýnilega ekki nema að litlu leyti til úthlutaðs fjár til hennar, miðað við skilmála skuldabréfsins, verður að fallast á þá niðurstöðu skattstjóra að telja beri greiðslur Sjúkraliðafélags Íslands til kæranda skattskyldar tekjur sem styrk samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Sú fjárhagslega skuldbinding, sem í raun kann að felast í umræddu skuldabréfi fyrir kæranda, þykir ekki vera þessari niðurstöðu til fyrirstöðu, enda verður ekki annað séð en hún geti skoðast sjálfstætt stofnfjárframlag, sbr. 1. málsl. 9. gr. reglna um Vinnudeilu- og verkfallssjóð stéttarfélagsins frá 13. maí 1995. Samkvæmt þessu er kröfu kæranda hafnað. 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja