Úrskurður yfirskattanefndar

  • Örorkubætur
  • Vátryggingar
  • Skaðabætur

Úrskurður nr. 195/1996

Gjaldár 1995

Lög nr. 75/1981, 28. gr. 2. tölul.  

Deilt var um þá ákvörðun skattstjóra að færa greiðslu frá vátryggingafélögum, sem kærandi fékk greidda vegna varanlegrar örorku, að hluta til tekna hjá kæranda sem vexti af bótagreiðslum. Yfirskattanefnd vísaði til þess að samkvæmt 2. tölul. 28. gr. laga nr. 75/1981 teldist eignaauki vegna greiðslu bóta fyrir varanlega örorku ekki til tekna, enda væru bæturnar ákveðnar í einu lagi til greiðslu. Líta yrði svo á að heildarfjárhæð bótagreiðslu til kæranda hefði falið í sér sérstaka útreikniaðferð sem tíðkuð hefði verið samkvæmt dómvenju við mat á fjárhæð bóta, sem fjallað væri um í ákvæðinu, en hefði ekki falið í sér eiginlegar vaxtatekjur. Var tekjufærsla skattstjóra því felld niður.

I.

Málavextir eru þeir að á skattframtali kæranda árið 1995 kom fram að hún hefði fengið greiddar bætur vegna varanlegrar örorku samtals að fjárhæð 1.799.947 kr. Með bréfi, dags. 19. apríl 1995, óskaði skattstjóri eftir því, með vísan til 1. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að kærandi legði fram gögn sem sýndu útreikninga umræddra greiðslna. Að fengnum þessum gögnum tilkynnti skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 22. júní 1995, að hann hefði við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1995 og með vísan til 1. og 3. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981 fært vexti frá Sjóvá Almennum og Vátryggingafélagi Íslands, samtals að fjárhæð 148.412 kr., í reit 14 á skattframtali.

Umboðsmaður kæranda mótmælti álagningunni með kæru, dags. 23. ágúst 1995. Kom fram að kærandi hefði lent í umferðarslysi á árinu 1988. Vegna læknisfræðilegra ástæðna hefði ekki verið unnt að ganga frá bótamálum á hendur bótagreiðendum fyrr en á árinu 1994 en þá hefði við ákvörðun bótafjárhæðar verið tekið tillit til eingreiðsluhagræðis og skattfrelsis bótanna. Fjárhæð bótanna miðaðist við slysadag en við hana legðust vextir á meðan ekki væri unnt að gera upp tjónið. Samkvæmt þessu hlytu vextir, sem bótaþegi hefði fengið vegna dráttar á uppgjöri, að eiga að færast í athugasemdadálk en ekki í reit 14. Færsla þessara vaxta væri fordæmislaus og ekki í anda laganna þar sem löggjafinn hefði ætlað örorkubótum að vera skattfrjálsum. Færsla á vöxtum í reit 14 gæti haft í för með sér að vaxtabætur minnkuðu en sú hefði einmitt verið raunin í tilviki kæranda.

Skattstjóri hafnaði kröfum kæranda með kæruúrskurði, dags. 26. október 1995. Samkvæmt C-lið 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, væru vaxtagjöld til útreiknings vaxtabóta þeir vextir sem væru vegna stofnkostnaðar íbúðarhúsnæðis auk verðbóta og lántökukostnaður að frádregnum vaxtatekjum samkvæmt 8. gr. laganna. Í 1. og 3. tölul. 8. gr. kæmi fram að vexti og verðbætur á inneignir og kröfur skyldi telja sem vaxtatekjur án tillits til þess frá hverjum þeir bærust. Sú framtalsskylda væri fortakslaus. Þar sem ekki yrði annað séð en að um vaxtagreiðslur á bótakröfur hefði verið að ræða yrði ekki annað séð en að telja bæri þessa vexti í reit 14 á skattframtali. Uppgjörsblöð bótagreiðenda sýndu greinilega hvað greitt væri og væri engin breyting á því að bótaþátturinn væri skattfrjáls, sbr. 2. tölul. 28. gr. laga nr. 75/1981. Hafnaði skattstjóri sjónarmiðum um að vextir af bótakröfu væru ígildi skaðabótanna sjálfra.

Í kröfu umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar eru kröfur og sjónarmið ítrekuð.

Með bréfi, dags. 12. janúar 1996, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Með hliðsjón af framkomnum skýringum og gögnum er fallist á kröfu kæranda.“

II.

Í 2. tölul. 28. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er m.a. kveðið á um að eignaauki sem verði vegna greiðslu bóta fyrir varanlega örorku teljist ekki til tekna þrátt fyrir önnur ákvæði II. kafla laganna, enda séu bæturnar ákveðnar í einu lagi til greiðslu. Líta verður svo á að heildarfjárhæð bótanna, sem kærandi fékk greiddar á árinu 1994, hafi falið í sér sérstaka útreikniaðferð sem tíðkuð hefur verið samkvæmt dómvenju við mat á fjárhæð bóta sem fjallað er um í ákvæðinu en hafi ekki falið í sér eiginlegar vaxtatekjur. Breytir orðalag í uppgjöri við vátryggjendur hér engu um. Með vísan til þessa, svo og til kröfugerðar ríkisskattstjóra, er fallist á kröfur kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfur kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja