Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tekjuuppgjör rekstrar
  • Viðskiptakröfur
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 202/1996

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1951, 61. gr., 74. gr. 5. tölul. 2. mgr. (brl. nr. 122/1993, 11. gr.), 95. gr. 1. mgr.  

Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að telja bæri móttekna víxla til innborgana vegna seldrar þjónustu í skilningi 1. málsl. 61. gr. laga nr. 75/1981 og bæri að miða við það þegar tekjuuppgjöri væri hagað í samræmi við það lagaákvæði.

I.

Kæruefni máls þessa, sem barst yfirskattanefnd með kæru, dags. 16. desember 1994, er sú ákvörðun skattstjóra, sbr. bréf hans, dags. 25. júlí 1994, og kæruúrskurð, dags. 21. nóvember 1994, að lækka fjárhæð útistandandi viðskiptakrafna á skattframtali kæranda í 1.486.091 kr. Skattstjóri byggði ákvörðun sína á því að viðskiptavíxlar gætu ekki talist útistandandi viðskiptakröfur, svo sem gert væri ráð fyrir í efnahagsreikningi, og því væri ekki heimilt að fresta tekjufærslu seldrar þjónustu sem greidd hefði verið með víxlum, sbr. 61. gr. laga nr. 75/1981. Taldi skattstjóri greiðslu með víxli vera innborgun í skilningi 61. gr. laganna.

Af hálfu kæranda er í fyrsta lagi gerð krafa um að ákvörðun skattstjóra verði felld úr gildi þar sem óheimilt hafi verið að framkvæma hina kærðu breytingu samkvæmt 95. gr. laga nr. 75/1981. Að því er varðar efnishlið málsins er vísað til þess að samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 5. tölul. 74. gr. sömu laga sé skilgreint hvað teljist til útistandandi viðskiptaskulda. Það sé ekki á valdi skattstjóra að meta það að viðskiptavíxlar teljist ekki til slíkra skulda. Tekur umboðsmaður kæranda fram að skattstjóri hafi látið form umræddrar viðskiptakröfu ráða afstöðu sinni í stað efni hennar en slíkt fái ekki staðist. Þá er vísað til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 725/1981.

Með bréfi, dags. 20. október 1995, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda gert þá kröfu að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

II.

Engir annmarkar þykja vera á málsmeðferð skattstjóra sem valda eiga ómerkingu ákvörðunar hans.

Taka verður undir það með skattstjóra að telja beri móttekna víxla til innborgana vegna seldrar þjónustu í skilningi 1. málsl. 61. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og ber að miða við það þegar tekjuuppgjöri er hagað í samræmi við það lagaákvæði. Takist innheimta slíkra víxla ekki, telst hið fyrra skuldasamband milli kaupanda og seljanda, sem myndast um leið og viðskiptin fara fram, orðið virkt að nýju. Með þessum athugasemdum er úrskurður skattstjóra staðfestur.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Úrskurður skattstjóra er staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja