Úrskurður yfirskattanefndar

  • Vanræksla á skilum fullnægjandi ársreiknings
  • Sekt

Úrskurður nr. 99/2019

Lög nr. 3/2006, 96. gr., 98. gr. 1. mgr., 109. gr., 120. gr. 3. mgr. (brl. nr. 73/2016, 58. gr., 60. gr., 71. gr.)  

Kærandi, sem var einkahlutafélag, mótmælti ákvörðun ársreikningaskrár að gera félaginu sekt vegna meintrar vanrækslu á að standa skil á endurskoðuðum ársreikningi til opinberrar birtingar. Talið var að þar sem kærandi hefði verið yfir tveimur af þremur stærðarmörkum sem kveðið væri á um í ársreikningalögum hefði félaginu borið að láta endurskoða ársreikning félagsins og standa skil á honum til ársreikningaskrár. Var kröfu kæranda um niðurfellingu sektar hafnað.

Ár 2019, miðvikudaginn 15. maí, er tekið fyrir mál nr. 2/2019; kæra A ehf., dags. 31. desember 2018, vegna ákvörðunar um sekt vegna brota á reglum um ársreikninga. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 31. desember 2018, hefur kærandi mótmælt ákvörðun ársreikningaskrár að gera félaginu sekt að fjárhæð 600.000 kr. vegna vanrækslu kæranda á að standa skil á endurskoðuðum ársreikningi fyrir árið 2017 til opinberrar birtingar, sbr. úrskurð ársreikningaskrár, dags. 2. október 2018.

Málavextir eru þeir að hinn 13. ágúst 2018 skoraði ársreikningaskrá á kæranda að standa skil á ársreikningi fyrir reikningsárið 2017, en ársreikningi félagsins fyrir greint reikningsár hafði ekki verið skilað til ársreikningaskrár til opinberrar birtingar í samræmi við ákvæði 1. mgr. 109. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga. Kærandi stóð skil á ársreikningi fyrir reikningsárið 2017 án endurskoðunar eða könnunar hinn 22. ágúst 2018. Með bréfi ársreikningaskrár til kæranda, dags. 29. ágúst 2018, var kæranda tilkynnt að innsendur ársreikningur félagsins fyrir reikningsárið 2017 hefði verið felldur út af ársreikningaskrá sem ófullnægjandi. Var rakið í bréfinu að samkvæmt ákvæðum 96. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, sbr. og 4. mgr. 3. gr. laganna, væri félaginu skylt að láta endurskoða ársreikninginn, enda væri félagið yfir tveimur af þeim þremur stærðarmörkum sem kveðið væri á um í undanþáguákvæði 1. mgr. 98. gr. laganna. Var skorað á kæranda að leggja fram endurskoðaðan ársreikning með áritun endurskoðanda, er skyldi samþykktur á hluthafafundi, ásamt skýrslu stjórnar, ellegar yrði félaginu ákvörðuð sekt að fjárhæð 600.000 kr., sbr. 3. mgr. 120. gr. laga nr. 3/2006. Var kæranda veittur 30 daga frestur til að bregðast við bréfi ársreikningaskrár. Áskorun ársreikningaskrár var svarað með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 19. september 2018. Í bréfinu kom fram að fyrirsvarsmenn kæranda gerðu sér grein fyrir þeim annmörkum sem væru á ársreikningi félagsins fyrir reikningsárið 2017. Teldu þeir sig þó ekki vera í aðstöðu til að bæta úr þeim annmörkum nema verða fyrir töluverðum kostnaði, ef það væri á annað borð hægt. Þyrfti endurskoðun á ársreikningi að vera ákveðin fyrirfram og hefðu fyrirsvarsmenn kæranda ákveðið að ársreikningur kæranda vegna ársins 2018 yrði endurskoðaður. Væri þess farið á leit að fallið yrði frá því að ákvarða kæranda sekt.

Ársreikningaskrá hratt hinni boðuðu sektarákvörðun í framkvæmd með úrskurði, dags. 2. október 2018, og ákvað kæranda sekt að fjárhæð 600.000 kr.

Í úrskurði ársreikningaskrár var fjallað um skyldu félaga til að semja ársreikning í samræmi við lög, reglugerðir og settar reikningsskilareglur, sbr. 3. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, og þá meginreglu ársreikningalaga að endurskoða skyldi öll félög nema þau sem undanskilin væru vegna smæðar sinnar. Væri kærandi yfir tveimur af þeim þremur stærðarmörkum sem kveðið væri á um í 1. mgr. 98. gr. laga nr. 3/2006 og bæri félaginu því að láta endurskoða ársreikning sinn. Var rakið að samkvæmt 3. mgr. 120. gr. laga nr. 3/2006 skyldi ársreikningaskrá, ef skráin teldi ársreikning ekki uppfylla ákvæði laganna, tilkynna félagi um þá afstöðu, gefa því kost á úrbótum og möguleika á að koma að andmælum. Ef ekki bærust fullnægjandi skýringar eða úrbætur innan 30 daga skyldi lögð á félagið stjórnvaldssekt að fjárhæð 600.000 kr. Í 4. mgr. sama lagaákvæðis kæmi fram að ef félag legði fram fullnægjandi upplýsingar eða skýringar með ársreikningi eða samstæðureikningi innan 30 daga frá tilkynningu um álagningu stjórnvaldssektar skyldi ársreikningaskrá lækka sektina um 90%. Ef úrbætur væru gerðar innan tveggja mánaða frá tilkynningu um sektarákvörðum skyldi lækka sektina um 60% en um 40% ef úrbætur væru gerðar innan þriggja mánaða. Var tekið fram að kærandi hefði ekki lagt fram fullnægjandi ársreikning fyrir reikningsárið 2017 þrátt fyrir áskorun ársreikningaskrár þar um. Hefði ársreikningaskrá því ákveðið að leggja stjórnvaldssekt á félagið að fjárhæð 600.000 kr. samkvæmt 3. mgr. 120. gr. laga nr. 3/2006. Í niðurlagi úrskurðarins var vakin athygli á heimild ársreikningaskrár í 1. málsl. 1. mgr. 121. gr. laga nr. 3/2006 til að krefjast skipta á búi kæranda hefðu úrbætur ekki verið gerðar innan átta mánaða frá því að ársreikningaskrá hefði komist að þeirri niðurstöðu að ársreikningur félagsins væri ekki fullnægjandi.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 31. desember 2018, er þess krafist að ákvörðun ársreikningaskrár um að leggja á kæranda stjórnvaldssekt verði felld úr gildi og að ¬ársreikningur kæranda, sem skilað var 22. ágúst 2018, verði „aftur skráður sem skilaður“. Í kærunni er rakið að fyrirsvarsmönnum kæranda finnist ákvörðun ársreikningaskrár mjög íþyngjandi og að ársreikningaskrá gangi of hart fram í aðgerðum sínum. Telji fyrirsvarsmenn kæranda það íþyngjandi að það sé sama sekt fyrir að skila ekki ársreikningi og að skila óendurskoðuðum ársreikningi sem eigi að vera endurskoðaður. Þá séu viðmiðunartölur 1. mgr. 98. gr. laga nr. 3/2006 að því er varðar stærðarmörk félaga of lágar. Ennfremur hafi ársreikningaskrá verið tilkynnt að ársreikningur fyrir reikningsárið 2018 verði endurskoðaður og því telji fyrirsvarsmenn kæranda það íþyngjandi að ekki sé hægt að falla frá þeirri ákvörðun að sekta kæranda vegna þess að ársreikningur vegna ársins 2017 sé ekki endurskoðaður. Loks sé það íþyngjandi að ætlast til þess að félagið láti endurskoða ársreikning vegna ársins 2017 á haustmánuðum ársins 2018 þegar ekki hafi verið gert ráð fyrir því í byrjun. Sé það á annað borð hægt fylgi því mikill kostnaður, auk þess sem ákveðin áhætta fylgi endurskoðunarvinnu sem gerð sé svona eftir á.

II.

Með bréfi, dags. 19. mars 2019, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að sektarákvörðun ársreikningaskrár standi óhögguð. Í umsögninni er vikið að athugasemdum kæranda í kæru félagsins til yfirskattanefndar og tekið fram að ákvæði laga nr. 3/2006, um ársreikninga, varðandi endurskoðunarskyldu félaga séu skýr, sbr. 1. mgr. 96. gr. og 1. og 4. mgr. 3. gr. laganna. Sé ársreikningaskrá ennfremur bundin af ákvæðum laganna við álagningu stjórnvaldssektar vegna ófullnægjandi skila á ársreikningi og sé sektarfjárhæð sú sama hvort sem félag vanræki skil á ársreikningi eða hann sé ófullnægjandi að mati ársreikningaskrár. Þá hafi ársreikningaskrá engar heimildir til að víkja frá viðmiðunartölum 1. mgr. 98. gr. laganna. Ennfremur sé ekki hægt að skorast undan skyldu til að endurskoða ársreikning fyrir árið 2017 með því að skila óendurskoðuðum ársreikningi eða með loforði um að láta endurskoða ársreikning félagsins vegna ársins 2018. Félaginu hafi borið lagaskylda til að standa skil á endurskoðuðum ársreikningi fyrir reikningsárið 2017.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 27. mars 2019, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um umsögnina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Í máli þessu er til umfjöllunar sú ákvörðun ársreikningaskrár að gera kæranda sekt að fjárhæð 600.000 kr. vegna vanrækslu félagsins á að standa skil á endurskoðuðum ársreikningi fyrir reikningsárið 2017, sbr. 3. mgr. 120. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, með áorðnum breytingum.

Í IX. kafla laga nr. 3/2006, um ársreikninga, eru ákvæði um endurskoðun og yfirferð ársreikninga félaga sem falla undir gildissvið laganna. Í 1. mgr. 96. gr. laganna kemur fram að aðalfundur eða almennur félagsfundur kjósi einn eða fleiri endurskoðendur eða endurskoðunarfyrirtæki, í samræmi við ársreikningalög og samþykktir félagsins, til að endurskoða ársreikning viðkomandi félags. Í samþykktum megi enn fremur fela opinberum eða öðrum aðilum að tilnefna einn eða fleiri endurskoðendur eða endurskoðunarfyrirtæki. Í 1. mgr. 98. gr. laganna kemur fram að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 96. gr. laganna sé félögum, sem séu undir tveimur af þremur stærðarmörkun sem tilgreind eru í lagaákvæðinu, ekki skylt að kjósa endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki til að endurskoða ársreikninga sína. Er þar í fyrsta lagi miðað við niðurstöðutölu efnahagsreiknings 200.000.000 kr., í öðru lagi hreina veltu 400.000.000 kr. og í þriðja lagi að meðaltali 50 ársverk á fjárhagsárinu. Í 2-4. mgr. ákvæðisins eru síðan talin upp félög sem falla ekki undir undanþágu 1. mgr. þess. Er þar um að ræða félög sem flokkast sem einingar tengdar almannahagsmunum, félög sem ekki leggja hömlur á viðskipti með eignarhluta og samvinnufélög er hafa B-deild stofnsjóðs.

Um birtingu ársreikninga og skyldur félaga til þess að standa ársreikningaskrá skil á ársreikningum sínum eru ákvæði í X. kafla laga nr. 3/2006. Í XII. kafla laganna er fjallað um viðurlög og málsmeðferð vegna brota á þeim. Í 3. mgr. 120. gr. laganna, sbr. 71. gr. laga nr. 73/2016, um breytingu á lögum um ársreikninga nr. 3/2006, kemur fram að uppfylli ársreikningur eða samstæðureikningur ekki ákvæði laganna að mati ársreikningaskrár skuli hún tilkynna félagi um þá afstöðu, gefa því kost á úrbótum og möguleika á að koma að andmælum. Berist ekki fullnægjandi skýringar eða úrbætur innan 30 daga skuli ársreikningaskrá leggja á félagið stjórnvaldssekt að fjárhæð 600.000 kr. Þá eru í 4. mgr. sömu lagagreinar kveðið á um að leggi félag fram fullnægjandi upplýsingar eða skýringar með ársreikningi eða samstæðureikningi innan 30 daga frá tilkynningu um álagningu stjórnvaldssektar skuli ársreikningaskrá lækka sektarfjárhæðina um 90%. Séu úrbætur gerðar innan tveggja mánaða frá tilkynningu sektarfjárhæðar skuli lækka sektarfjárhæðina um 60%, en séu úrbætur gerðar innan þriggja mánaða frá tilkynningu sektarfjárhæðar skuli lækka sektarfjárhæðina um 40%. Í 3. málsl. 5. mgr. lagaákvæðisins kemur svo fram að ákvörðun ársreikningaskrár um álagningu sektar samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins sé kæranleg til yfirskattanefndar, sbr. lög nr. 30/1992. Þá er kveðið á um það í 6. mgr. ákvæðisins að stjórnvaldssektum verði beitt óháð því hvort lögbrot séu framin af ásetningi eða gáleysi.

Samkvæmt óendurskoðuðum ársreikningi kæranda fyrir árið 2017, sem barst ársreikningaskrá 22. ágúst 2018, námu eignir félagsins 307.163.130 kr. (317.583.018 kr. árið 2016) og voru rekstrartekjur ársins 702.412.491 kr. (726.017.270 kr. árið 2016). Þá var meðalfjöldi ársverka á fjárhagsárinu 17 (16 árið 2016). Samkvæmt þessu var kærandi yfir tveimur af þremur stærðarmörkum sem kveðið er á um í 1. mgr. 98. gr. laga nr. 3/2006. Bar kæranda því að láta endurskoða ársreikning félagsins í samræmi við ákvæði 1. mgr. 96. gr. laganna og standa skil á honum til ársreikningaskrár til opinberrar birtingar, sbr. 1. mgr. 109. gr. laganna. Vegna vanrækslu kæranda á að gera úrbætur á innsendum ársreikningi félagsins fyrir reikningsárið 2017, þrátt fyrir áskorun þar um, voru lagaskilyrði til beitingar sektar samkvæmt 3. mgr. 120. gr. laga nr. 3/2006. Af hálfu kæranda hefur því einkum verið borið við að lögákveðin sektarfjárhæð og stærðarmörk séu ósanngjörn og að endurskoðun ársreiknings kæranda fyrir árið 2017 muni reynast kæranda íþyngjandi og kostnaðarsöm. Þessar viðbárur kæranda þykja ekki geta leitt til niðurfellingar hinnar umdeildu sektarákvörðunar ársreikningaskrár. Með vísan til framanritaðs er kröfu kæranda um niðurfellingu sektar hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Hin kærða sektarákvörðun ársreikningaskrár stendur óhögguð.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja