Úrskurður yfirskattanefndar

  • Stimpilgjald
  • Eignayfirfærsla vegna sambúðarslita

Úrskurður nr. 109/2019

Lög nr. 138/2013, 6. gr. b-liður.  

Ekki var fallist á með kæranda að undanþáguákvæði b-liðar 6. gr. laga um stimpilgjald nr. 138/2013, sem varðaði yfirfærslu fasteignar sem lögð væri út erfingjum sem arfur eða maka upp í búshelming, gæti tekið til yfirfærslu fasteignar vegna slita á óvígðri sambúð. Kom m.a. fram í því sambandi að þegar rætt væri um „maka“ í lögum væri jafnan átt við einstakling í hjúskap, nema annað yrði sérstaklega ráðið af samhengi lagatexta eða tiltækum lögskýringargögnum.

Ár 2019, miðvikudaginn 3. júlí, er tekið fyrir mál nr. 65/2019; kæra A, dags. 19. mars 2019, vegna ákvörðunar stimpilgjalds. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 19. mars 2019, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun sýslumanns, dags. 7. desember 2018, um stimpilgjald. Kemur fram í kærunni að ágreiningur sé um ákvörðun stimpilgjalds í tengslum við yfirfærslu eignarréttar vegna íbúðar að K í kjölfar sambúðarslita kæranda og B. Af hálfu kæranda er þess krafist að henni verði endurgreitt stimpilgjald að fjárhæð 221.000 kr.

II.

Helstu málavextir eru þeir að kærandi og B slitu óvígðri sambúð á árinu 2018. Með skiptayfirlýsingu, dags. 5. desember 2018, afsalaði B 50% eignarhlut í fasteigninni að K til kæranda. Umrætt skjal var móttekið til þinglýsingar hjá sýslumanni 7. desember 2018. Verður ráðið af gögnum málsins að sýslumaður hafi krafist greiðslu stimpilgjalds við þinglýsingu skjalsins, sbr. greiðslukvittun, dags. 7. desember 2018, þar sem tilgreint er stimpilgjald að fjárhæð 221.000 kr. Á kvittuninni var kæranda leiðbeint um kæruheimild til yfirskattanefndar vegna ákvörðunar sýslumanns, sbr. 11. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, sbr. 40. gr. laga nr. 125/2015, um breyting á hinum fyrrnefndu lögum.

III.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 19. mars 2018, kemur fram að krafa kæranda um endurgreiðslu stimpilgjalds sé byggð á því að samkvæmt ákvæði b-liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, sé yfirfærsla fasteignarinnar að K undanþegin stimpilgjaldi. Er bent á að þrátt fyrir að sambúðaraðila sé ekki getið í ákvæði þessu mega ráða af öðrum ákvæðum sömu laga að vilji löggjafans hafi staðið til þess að makar og sambúðaraðilar yrðu meðhöndlaðir á sama hátt vegna stimpilgjalds, sbr. 6. mgr. 5. gr. laganna varðandi gjaldhlutfall. Ekki verði séð að önnur rök eigi við um yfirfærslu fasteigna og ekkert komi fram þar að lútandi í greinargerð með frumvarpi til laga um stimpilgjald. Þá sé til þess að líta að sýslumaðurinn á Vesturlandi hafi ekki innheimt stimpilgjald af sambærilegri yfirfærslu vegna sambúðarslita kæranda og B á þeim forsendum að yfirfærslan væri undanþegin á grundvelli 6. gr. laga nr. 138/2013. Kæru kæranda til yfirskattanefndar fylgja gögn, þ.e. greiðslukvittun, dags. 7. desember 2018, skiptayfirlýsing, dags. 5. desember 2018, og afrit af tölvupósti sýslumanns, dags. 15. mars 2018.

IV.

Með bréfi, dags. 3. apríl 2019, hefur sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagt fram umsögn vegna kærunnar. Í umsögninni er ákvæði b-liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 138/2013 tilfært orðrétt og tekið fram að þegar í lögum sé rætt um „maka“ eigi það við um einstakling í hjúskap nema annað sé tekið fram, sbr. t.d. 49. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007. Þá sé gerður greinarmunur á maka og sambúðaraðila í ákvæðum 3.-7. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2013 þar sem fjallað sé um skilyrði fyrir helmingsafslætti af stimpilgjöldum vegna fyrstu kaupa íbúðarhúsnæðis sem styðji þá túlkun að b-liður 1. mgr. 6. gr. laganna taki aðeins til aðila sem hafi verið í hjúskap. Það sé því álit sýslumanns að ekki sé heimilt að veita undanþágu frá greiðslu stimpilgjalds þegar eignayfirfærsla á fasteign sé til komin í kjölfar sambúðarslita.

Með bréfi, dags. 10. maí 2019, hefur kærandi gert grein fyrir athugasemdum sínum í tilefni af umsögn sýslumanns. Vegna tilvísunar sýslumanns til 49. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, tekur kærandi fram að í þeim lögum sé kveðið á um mismunandi réttindi hjóna og sambýlisfólks og því sé nauðsynlegt að gera greinarmun á þessu tvennu. Hinu sama sé ekki til að dreifa samkvæmt lögum um stimpilgjald. Þá sé ljóst af ákvæðum annarra laga að túlkun sýslumanns fái ekki staðist, sbr. t.d. 2. mgr. 91. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Það sé rauður þráður í löggjöf um stimpilgjald að fólki skuli ekki mismunað á grundvelli sambúðarforms. Sýslumaður leiði hjá sér ástæðu þess að yfirfærsla fasteigna vegna samvistarslita sé undanþegin stimpilgjaldi, þ.e. að gera fólki kleift að skipta eignum vegna samvistarslita, en eðli máls samkvæmt ætti ekki að skipta máli í því efni hvort fólk hafi verið gift eða skráð í sambúð. Í tilviki kæranda sé þannig um að ræða slit 30 ára sambúðar. Sjónarmið sýslumanns sé vart málefnalegt. Þá liggi fyrir að sýslumaðurinn á Vesturlandi hafi túlkað lögin á annan hátt en sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu. Sé því krafa kæranda um endurgreiðslu stimpilgjalds ítrekuð.

V.

Kæra í máli þessu varðar ákvörðun stimpilgjalds af eignaskiptayfirlýsingu, dags. 5. desember 2018, vegna fasteignar að K. Með skjali þessu afsalaði B 50% eignarhlut sínum í fasteigninni til kæranda. Er komið fram af hálfu kæranda að greind ráðstöfun hafi verið liður í eignaskiptum vegna sambúðarslita kæranda og B á árinu 2018. Er deilt um það í málinu hvort skjalið sé undanþegið stimpilgjaldi á grundvelli b-liðar 6. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, svo sem kærandi heldur fram. Því hafnaði sýslumaður á þeim grundvelli að ákvæðið tæki einungis til yfirfærslu fasteigna vegna hjúskaparslita en ekki vegna slita á óvígðri sambúð. Af hálfu kæranda er skilningi sýslumanns mótmælt, m.a. með þeim rökum að ekki séu nein efni til að mismuna fólki eftir sambúðarformi við álagningu stimpilgjalds. Þá er bent á í kæru að við þinglýsingu skjals hjá sýslumanninum á Vesturlandi vegna yfirfærslu fasteignar í tilefni af sambúðarslitum kæranda og B hafi ekki verið krafið um stimpilgjald. Er þess krafist að kæranda verði endurgreitt stimpilgjald vegna umræddar eignayfirfærslu.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, skal greiða í ríkissjóð sérstakt gjald, stimpilgjald, af þeim skjölum sem gjaldskyld eru samkvæmt lögunum. Í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að greiða skuli stimpilgjald af skjölum er varða eignaryfirfærslu fasteigna hér á landi. Fer gjaldskylda skjals eftir þeim réttindum er það veitir en ekki nafni þess eða formi, sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 138/2013, sbr. 1. gr. laga nr. 75/2014, ákvarðast stimpilgjald af gjaldskyldu skjali sem kveður á um eignaryfirfærslu fasteignar eftir matsverði eins og það er skráð í fasteignaskrá þegar gjaldskylda stofnast, enda endurspegli matsverðið byggingarstig eignar við afhendingu. Í 6. gr. laganna eru talin skjöl sem undanþegin eru stimpilgjaldi. Samkvæmt b-lið greinarinnar falla þar undir skjöl er sýna yfirfærslu fasteigna er lagðar hafa verið út erfingjum sem arfur eða maka upp í búshelming, enda sé ekki samhliða um sölu eða söluafsal að ræða.

Athugun á forsögu umrædds undanþáguákvæðis b-liðar 6. gr. laga nr. 138/2013 leiðir í ljós að hliðstætt ákvæði var upphaflega tekið upp í lög um stimpilgjald með 1. gr. laga nr. 35/1933, um breyting á lögum nr. 75/1921, um stimpilgjald. Samkvæmt ákvæði þessu, sbr. lokamálslið 17. gr. laga nr. 75/1921, voru undanskildir stimpilgjaldi „útdrættir úr skiptabók og önnur skjöl, er sýna eignayfirfærslu fasteigna, er lagðar hafa verið út erfingjum sem arfur, eða maka upp í búshelming hans (lóðseðlar), enda sé eigi samhliða um sölu eða söluafsal að ræða“, eins og ákvæðið hljóðaði. Í greinargerð með frumvarpi því, er varð að lögum nr. 35/1933, kom eftirfarandi fram um ástæður að baki lögtöku ákvæðisins:

„Ein aðalorsök þess, að afsals- og veðmálabækur eru eigi nú svo örugg heimild fyrir eignarrétti að fasteignum sem vera þyrfti, er sú, að þeir menn, er fá fasteignir að erfð, láta dragast, kostnaðarins vegna, að láta þinglesa eignarheimild sína (lóðseðil). Er það greiðsla stimpilgjaldsins, sem menn sérstaklega fráfælast, enda virðist það eigi sanngjarnt að taka bæði erfðafjárgjald og stimpilgjald af fasteignum, útlögðum við skipti, en aðeins erfðafjárgjald af lausafé. Kemur þetta sérstaklega hart niður og er erfitt í framkvæmd, þegar fasteign er útlögð maka, sumpart sem arfur, sumpart upp í búshelming hans. Mun þetta hafa leitt til mismunandi skilnings og framkvæmda á lögunum, og er sú ástæða ein næg til þess, að leitað sé heppilegri og sanngjarnari ákvæða. Er því hér lagt til, að stimpilgjaldið sé fellt alveg niður að því er lóðseðla snertir. Tekjutap ríkissjóðs vegna þessa getur eigi orðið svo tilfinnanlegt, að í það sé horfandi.“ (Þskj. nr. 161).

Í nefndaráliti fjárhagsnefndar Alþingis um frumvarpið, sbr. þskj. nr. 269, kom fram að nefndin féllist á efni frumvarpsins og rökstuðning. Var tekið fram að einkum væri ósamræmi í því, að gift kona, sem ætti óskilinn fjárhag með manni sínum, skyldi þurfa að greiða stimpilgjald til þess að fá þinglesna eignarheimild á sínum búshluta, vegna þess að maður hennar hefði einn verið talinn eigandi eignarinnar í veðmálabók.

Samkvæmt framansögðu eru skjöl er sýna yfirfærslu fasteigna er lagðar hafa verið út erfingjum sem arfur „eða maka upp í búshelming“ undanþegin stimpilgjaldi, enda sé ekki samhliða um sölu eða söluafsal að ræða. Taka verður undir með sýslumanni að þegar rætt er um „maka“ í lögum er jafnan átt við einstakling í hjúskap, nema annað verði sérstaklega ráðið af samhengi lagatexta eða lögskýringargögnum, sbr. t.d. 1. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Fer merking hugtaksins í lögum þannig ekki að öllu leyti saman við almenna málvenju. Þá hefur verið litið svo á að almennt sé ekki tækt að beita reglum um hjúskap með lögjöfnun um óvígða sambúð. Til samræmis við þetta er víða í lögum tekið sérstaklega fram um réttarstöðu „sambúðarmaka“, þ.e. einstaklings í óvígðri sambúð. Má í þessu sambandi í dæmaskyni vísa til 13. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, 13. gr. laga nr. 130/1999, um ættleiðingar, og 30. gr. barnalaga nr. 76/2003 þar sem í öllum tilvikum er gerður greinarmunur á maka og sambúðarmaka. Að því er snertir lög á sviði skatta og gjalda má hér nefna 3. mgr. 2. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt. Í tiltækum lögskýringargögnum að baki umræddu ákvæði b-liðar 6. gr. laga nr. 138/2013 og forvera þess í eldri lögum um stimpilgjald kemur ekkert fram sem bendir til þess að löggjafinn hafi ætlast til þess að umrædd undanþága laganna tæki til eignaskipta við slit óvígðrar sambúðar. Þvert á móti benda fyrrgreind ummæli í nefndaráliti fjárhagsnefndar Alþingis með frumvarpi til laga nr. 35/1933 til hins gagnstæða. Þá er til þess að líta að í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2013 er greint á milli maka og sambúðaraðila sem þykir sömuleiðis mæla gegn túlkun kæranda. Loks skal þess getið að um framkvæmd eldri laga um stimpilgjald nr. 36/1978 liggur fyrir ritið „Verklagsreglur við innheimtu stimpilgjalda“ sem gefið var út á vef fjármálaráðuneytisins á árinu 2012. Er þar vikið að umræddri undanþágu, sem þá var að finna í 16. gr. laga nr. 36/1978, og tekið fram að hún eigi aðeins við um skjöl er færa eignir milli einstaklinga vegna andláts og eignayfirfærslu milli hjóna við skilnað eða dóm vegna fjárslita. Er bent á að sambúðarslit falli ekki þar undir.

Með vísan til þess, sem hér að framan er rakið, verður ekki fallist á með kæranda að ákvæði b-liðar 6. gr. laga nr. 138/2013 geti tekið til yfirfærslu fasteignar vegna slita á óvígðri sambúð. Vegna athugasemda kæranda varðandi afgreiðslu hliðstæðs máls í öðru umdæmi, en um það liggur raunar ekkert haldbært fyrir í málinu, skal tekið fram að þótt misbrestur kunni að verða á framkvæmd stjórnvalds á tiltekinni réttarreglu gagnvart einstökum aðilum geta aðilar almennt ekki á grundvelli jafnræðisreglu krafist þess að stjórnvald haldi áfram meintu athafnaleysi og hagi sér svo gagnvart þeim. Verður krafa kæranda ekki tekin til greina á þeim grundvelli sem hér um ræðir.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja