Úrskurður yfirskattanefndar

  • Ívilnun í sköttum
  • Menntun barns

Úrskurður nr. 113/2019

Gjaldár 2018

Lög nr. 90/2003, 65. gr. 1. mgr. 4. tölul.   Reglur ríkisskattstjóra nr. 212/1996.  

Kærandi krafðist þess að við ákvörðun ívilnunar til hennar vegna menntunar barns yrði ekki litið til tekna barnsins á viðkomandi tekjuári. Í úrskurði yfirskattanefndar var rakið að allar götur frá lögfestingu ákvæðis um ívilnun vegna kostnaðar við menntun barna 16 ára og eldri hefði verið í gildi sú regla samkvæmt viðeigandi stjórnvaldsfyrirmælum að við ákvörðun lækkunarfjárhæðar skyldi tekið tillit til tekna hlutaðeigandi ungmennis á tekjuári. Hefði sú regla staðið óhögguð þrátt fyrir að foreldrar hefðu allt frá árinu 1981 borið framfærsluskyldu gagnvart börnum sínum til 18 ára aldurs. Hefði verið lagt til grundvallar í skattframkvæmd um árabil í samræmi við reglur ríkisskattstjóra að fjárhæð ívilnunar vegna menntunar barna næmi bæði ákveðinni fjárhæð að hámarki og tæki með tilgreindum hætti mið af tekjum hlutaðeigandi námsmanns. Var kröfu kæranda hafnað.

Ár 2019, miðvikudaginn 3. júlí, er tekið fyrir mál nr. 3/2019; kæra A, dags. 3. janúar 2019, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2018. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 3. janúar 2019, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 3. október 2018, vegna álagningar opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2018. Með úrskurðinum hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda um hækkun ívilnunar vegna ungmennis í námi (dóttur kæranda) frá því sem fallist var á við álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2018. Við álagninguna ákvarðaði ríkisskattstjóri lækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns kæranda með 71.714 kr. Við þá ákvörðun tók ríkisskattstjóri mið af tekjum dóttur kæranda.

Í kærunni er gerð krafa um að ívilnunarfjárhæð vegna ungmennis í námi verði ákvörðuð án tillits til tekna ungmennisins.

II.

Málavextir eru þeir að í lið 1.3 í skattframtali kæranda óskaði kærandi eftir lækkun tekjuskattsstofns gjaldárið 2018 vegna menntunar barns, sbr. 4. tölul. 1.mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Kom fram að dóttir kæranda, sem fædd væri á árinu 2001, stundaði nám við framhaldsskóla og hefði hún haft 891.859 kr. í tekjur á árinu 2017.

Með bréfi, dags. 23. maí 2018, tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda með vísan til 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003 að embættið hefði fallist á umsókn kæranda og væri tekjuskatts- og útsvarsstofn hennar lækkaður um 71.714 kr. vegna menntunar dóttur hennar. Kom fram að niðurstaðan væri í samræmi við viðmiðunarreglur í auglýsingu nr. 495/2017 sem birtar hefðu verið í B-deild Stjórnartíðinda (sjá einnig rsk.is/reglur).

Með kæru til ríkisskattstjóra, dags. 31. ágúst 2018, mótmælti kærandi því að 1/3 af tekjum ólögráða einstaklings væri dreginn frá ívilnunarfjárhæð og fór fram á að kannað yrði hvort kærandi ætti rétt á óskertri ívilnun. Benti kærandi á að viðmiðunarreglur um ívilnun vegna ungmenna í námi væri ekki að finna í tilvísaðri auglýsingu ríkisskattstjóra nr. 495/2017 en reglurnar lægju þó fyrir í framtalsleiðbeiningum 2018. Óskaði kærandi eftir því að ríkisskattstjóri gerði grein fyrir lagagrundvelli þessara reglna. Þá fór kærandi fram á skýringar á því hvers vegna 16 og 17 ára unglingi væri ætlað að sjá um eigin framfærslu. Framfærsla foreldra næði lögum samkvæmt til 18 ára aldurs, og væri börnum heimilt að ráðstafa sjálfsafla- og gjafafé sínu. Ríkisskattstjóri ætlaði hins vegar ólögráða einstaklingi að ráðstafa fé sínu til eigin framfærslu. Óskaði kærandi eftir svörum við því hvort sú framsetning ríkisskattstjóra stæðist barnalög.

Með kæruúrskurði, dags. 3. október 2018, synjaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda um hækkun ívilnunar frá því sem ákvarðað var við álagningu. Tók ríkisskattstjóri fram að litið væri svo á að krafa kæranda væri sú að lækkun tekjuskattsstofns vegna útgjalda vegna menntunar 16 ára barns væri ekki skert vegna tekna barnsins. Vísaði ríkisskattstjóri til þess að í 4. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 kæmi fram að ríkisskattstjóri skyldi taka til afgreiðslu umsókn manns um lækkun tekjuskattsstofns ef maður hefði veruleg útgjöld vegna menntunar barna sinna, eldri en 16 ára. Heimild til lækkunar gjalda eða gjaldstofna vegna menntunarkostnaðar barna eldri en 16 ára virtist fyrst hafa komið fram í í íslenskum tekjuskattslögum með lögum nr. 70/1962, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 52. gr. laganna. Í 2. tölul. 49. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, sem ætti lagastoð í 54. gr. laga nr. 70/1962, væri að finna fyrirmæli um framkvæmd gjaldalækkunar vegna menntunarútgjalda barna eldri en 16 ára. Kæmi þar fram að skerða skuli skattalækkun við slík tilefni um 1.000 kr. fyrir hverjar heilar 3.000 kr. sem barnið hefði í tekjur. Sambærilega reglu væri að finna í ákvæðum um lækkun tekjuskattsstofns vegna menntunarkostnaðar barna 16 ára og eldri í reglum ríkisskattstjóra nr. 212/1996, um skilyrði fyrir ívilnun samkvæmt 66. og 80. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kæmi þar fram um lækkun samkvæmt 4. tölul. 1. gr. 66. gr. laga nr. 75/1981 að skerða skuli ívilnun um þriðjung af tekjum námsmanns. Umræddar reglur ættu lagastoð í þágildandi 66. gr. laga nr. 75/1981, sbr. nú lög nr. 90/2003. Heimild til lækkunar tekjuskattsstofns vegna menntunarkostnaðar barna eldri en 16 ára væri nú að finna í 4. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003. Með a-lið 8. gr. laga nr. 174/2006, um breytingu á lögum nr. 90/2003 og fleiri lögum, hefði aldur vegna greiðslu barnabóta verið hækkaður úr 16 árum í 18 og hefði sú breyting komið til framkvæmda við ákvörðun barnabóta á árinu 2007, sbr. 4. mgr. 10. gr. laganna. Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 174/2006 hefði upphaflega verið lagt til að hækka aldursmörk samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 úr 16 ár í 18 og hefði sú tillaga komið fram í 4. gr. frumvarpsins (þingskjal 286, 276. mál, lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006-2007). Þessi grein frumvarpsins hefði þó verið felld úr frumvarpinu í kjölfar álits meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar eftir fyrstu umræðu frumvarpsins á Alþingi. Hvergi í frumvarpi því sem orðið hefði að lögum nr. 174/2006 væri að finna ákvæði um að hreyfa við reglum um skerðingu lækkunar vegna námskostnaðar barna 16 ára og eldri eða miða ákvæði um skerðingu vegna tekna eingöngu við börn manns sem náð hafi 18 ára aldri. Að svo komnu máli yrði að telja að ákvæði reglna ríkisskattsstjóra nr. 212/1996, um að skerða skuli ívilnun vegna menntunarkostnaðar barns 16 ára og eldra um þriðjung tekna barnsins, stæðu óhögguð.

III.

Með kæru, dags. 3. janúar 2019, hefur kærandi skotið kæruúrskurði ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar. Í kærunni er gerð krafa um óskerta ívilnun vegna ungmennis í námi, þ.e. að tekjur ungmennis verði ekki dregnar frá ívilnunarfjárhæð. Er byggt á því að skerðing ívilnunar vegna tekna ólögráða ungmennis sé í andstöðu við lögræðislög nr. 71/1997 og barnalög nr. 76/2003. Í hinum kærða úrskurði sé tekjuskattslögum gerð skil en því ósvarað hvort reglur ríkisskattstjóra nr. 212/1996, um skilyrði fyrir ívilnun, séu í samræmi við lögræðislög og barnalög og hvort ekki beri að virða þau. Bendir kærandi á að í framtalsleiðbeiningum virðist gert ráð fyrir að ólögráða ungmenni sjái um eigin framfærslu, sem ekki verði annað séð en stangist m.a. á við lögræðislög nr. 71/1997 og barnalög nr. 76/2003.

Kærandi vísar til þess að fram komi í 1. mgr. 53. gr. barnalaga að foreldrum sé skylt að framfæra barn sitt. Einnig bendir kærandi á að í tilkynningu ríkisskattstjóra, dags. 23. maí 2018, sé vísað til viðmiðunarreglna í auglýsingu nr. 495/2017 en þar sé ekki getið um viðmiðunarreglur um ívilnun vegna ungmenna í námi. Ennfremur vekur kærandi athygli á því að fram komi á vef sýslumanns um ráðstöfun eigna ófjárráða í samræmi við 67. gr. lögræðislaga: „Óheimilt er að ráðstafa fjármunum hins ófjárráða til að greiða kostnað af framfærslu hans, námi eða öðru án fyrirfram fengins samþykkis yfirlögráðanda (sýslumanns).“ Jafnframt komi fram á vef umboðsmanns barna að foreldrum beri að leggja út fyrir skólabókum, sbr. tilvísun í kærunni til texta af vef umboðsmanns barna þar sem vísað er til þess að réttur til menntunar séu ein mikilvægustu grundvallarréttindi barns og sé réttur þessi m.a. verndaður af 28. gr. Barnasáttmála og íslenskri löggjöf um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Með vísan til framangreinds kveðst kærandi ekki fá annað séð en að reglur ríkisskattstjóra nr. 212/1996 séu ekki í samræmi við lögræðis- og barnalög.

IV.

Með bréfi, dags. 15. janúar 2019, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Tekur ríkisskattstjóri fram í umsögn sinni að embættið fjalli ekki um hvort einstaka lagabálkar, t.d. lögræðislög nr. 71/1997 og barnalög nr. 76/2003, séu í samræmi við tekjuskattslög nr. 90/2003.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 16. janúar 2019, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum og athugasemdum af því tilefni. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Kæra í máli þessu varðar kæruúrskurð ríkisskattstjóra, dags. 3. október 2018, þar sem hafnað var kröfu kæranda um hækkun ívilnunar gjaldárið 2018 vegna ungmennis í námi, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, frá því sem kæranda var ákvarðað við frumálagningu. Nánar tiltekið fór kærandi fram á að ekki yrði litið til tekna hlutaðeigandi ungmennis (dóttur kæranda) við ákvörðun ívilnunarfjárhæðar. Með kæru til yfirskattanefndar fer kærandi fram á að henni verði veitt óskert ívilnun vegna ungmennis í námi, enda sé skerðing ívilnunar vegna tekna ólögráða ungmennis í andstöðu við lögræðislög nr. 71/1997 og barnalög nr. 76/2003.

Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal ríkisskattstjóri taka til afgreiðslu umsókn manns um lækkun tekjuskattsstofns ef hann hefur veruleg útgjöld vegna menntunar barna sinna 16 ára og eldri. Lögin hafa ekki að geyma nánari ákvæði um ákvörðun ívilnunar við þessar aðstæður. Í reglum ríkisskattstjóra nr. 212/1996, um skilyrði fyrir ívilnun samkvæmt 66. og 80. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, kemur fram að skilyrði fyrir lækkun samkvæmt þessum tölulið sé að barnið sé orðið 16 ára og stundi nám a.m.k. þrjá mánuði á árinu. Kemur fram að hér sé fyrst og fremst átt við börn á aldrinum 16-21 árs sem stundi nám að loknu grunnskólanámi, þ.e. nám í mennta- eða fjölbrautaskólum, iðnnám o.þ.h. Er tekið fram að veiti námið rétt til námslána komi ívilnun ekki til álita. Tiltekin hámarksívilnun sé vegna náms sem stundað sé hér á landi. Sé sótt um hærri ívilnun vegna náms sem stundað sé erlendis þurfi að sýna fram á verulegan kostnað vegna námsins sem telja verði umfram venjulegan námskostnað, svo sem há skólagjöld, fargjöld o.þ.h. Þá er í reglum þessum mælt fyrir um takmarkanir á fjárhæð ívilnunar vegna menntunar barna og skerðingu fjárhæðar ívilnunar vegna tekna námsmanns. Segir nánar í reglunum um síðastnefnt atriði að hafi námsmaðurinn tekjur skerðist ívilnunin sem nemi þriðjungi af tekjum hans.

Í leiðbeiningum ríkisskattstjóra með skattframtali einstaklinga árið 2018 kemur fram að hægt sé að sækja um ívilnun samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 í lið 1.3 í skattframtali hafi framteljandi á framfæri sínu ungmenni sem séu við nám og skuli tilgreina þar tekjur og skóla ungmennis. Þá kemur fram í leiðbeiningunum að hámarkslækkun á tekjuskattstofni sé 369.000 kr. miðað við að ungmenni hafi engar tekjur haft. Frá þessari fjárhæð sé ella dreginn þriðjungur af tekjum ungmennisins. Sé um að ræða sérstök aukaútgjöld vegna náms barna umfram það sem venjulegt sé nægi þó ekki að fylla út umsókn í lið 1.3 í skattframtali, heldur þurfi að gera grein fyrir þessum kostnaði í umsókn RSK 3.05 og láta viðeigandi gögn fylgja.

Kærandi sótti um lækkun tekjuskattsstofns í lið 1.3 í skattframtali sínu árið 2018 vegna framfærslu dóttur sinnar sem væri við nám í framhaldsskóla og verður því að telja að kærandi hafi ekki sótt um lækkun á grundvelli sérstakra aukaútgjalda vegna náms ungmennisins umfram það sem venjulegt er. Þá upplýsti kærandi að dóttir hennar hefði haft tekjur samtals að fjárhæð 891.859 kr. á árinu 2017. Ríkisskattstjóri ákvarðaði ívilnunarfjárhæð 71.714 kr. sem var í samræmi við þá hámarksfjárhæð 369.000 kr. sem tiltekin er í framtalsleiðbeiningum ríkisskattstjóra að frádregnum þriðjungi tekna ungmennisins.

Ákvæði um heimild ríkisskattstjóra (áður skattstjóra) til að taka til greina umsókn skattþegns um lækkun tekjuskatts vegna verulegra útgjalda vegna menntunar barna sinna, eldri en 16 ára, var fyrst lögfest með lögum nr. 70/1962, um tekjuskatt og eignarskatt, og hefur ákvæðið haldist nánast óbreytt í lögum um tekjuskatt og eignarskatt síðan, sbr. nú 4. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Á grundvelli heimildar í lögum nr. 70/1962 var sett reglugerð nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt. Samkvæmt 2. tölul. A-liðar 49. gr. reglugerðarinnar var skattstjóra heimilt að taka til greina umsókn skattþegns um lækkun tekjuskatts ef skattþegn hefði haft veruleg útgjöld vegna menntunar barna sinna, eldri en 16 ára. Um ákvörðun lækkunarfjárhæðar sagði í ákvæðinu að skattlækkun mætti aldrei vera meiri en sem svaraði til þess að útgjöld skattþegns eða frádráttur sá sem barnið sjálft ætti rétt á vegna námskostnaðar, sbr. 35. gr. A reglugerðarinnar, hvort sem lægra væri, væri dregið frá tekjum skattþegns. Þá sagði: „Hafi barnið sjálft tekjur, þá skerðist sú skattlækkun, sem veita mætti skv. þegar sögðu, a. m. k. tilsvarandi við lækkaðan frádrátt hjá skattþegni um kr. 1000.00 fyrir hverjar fullar kr. 3000.00, sem barnið hefur í tekjur. Skatt­lækkun kemur ekki til greina, ef barnið hafði tekjur svo háar, sem nauð­syn krafði til menningar þess og framfæris að áliti skattstjóra.“

Vegna umfjöllunar í úrskurði ríkisskattstjóra um lagagrundvöll reglna embættisins nr. 212/1996 skal tekið fram að reglur þessar voru settar með stoð m.a. í upphafsákvæði 2. mgr. 66. gr. laga nr. 75/1981, þar sem var kveðið á um að nánari ákvæði um skilyrði fyrir ívilnunum skyldu sett af ríkisskattstjóra. Með 7. gr. laga nr. 136/2009, sbr. 1. gr. laga nr. 16/2010, var ákvæði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 breytt og féll þá úr lögum greint ákvæði um skyldu ríkisskattstjóra til að setja nánari ákvæði um skilyrði fyrir ívilnunum. Á hinn bóginn var ráðherra veitt heimild til að setja reglugerð um það efni, sbr. 3. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 með breytingu samkvæmt lögum nr. 136/2009. Sú heimild var ekki nýtt af hálfu ráðherra. Með 2. mgr. laga nr. 50/2018 var nefnd reglugerðarheimild ráðherra felld brott og þess í stað lögfest að í upphafi hvers árs skuli ríkisskattstjóri að fenginni staðfestingu ráðherra gefa út reglur um nánari skilyrði fyrir veitingu ívilnana samkvæmt lagagreininni. Fyrstu reglur ríkisskattstjóra á grundvelli þessa ákvæðis voru gefnar út 12. desember 2018, sbr. auglýsingu nr. 1145/2018, um viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra um ákvörðun á lækkun á skattstofnum (ívilnun) við álagningu opinberra gjalda 2019, í B-deild Stjórnartíðinda. Þrátt fyrir greindar lagabreytingar með lögum nr. 136/2009 hefur í samræmi við almennar skýringarreglur verið byggt á því í úrskurðaframkvæmd að reglur ríkisskattstjóra nr. 212/1996 hafi haldið gildi sínu að því leyti sem ekki hafi orðið efnisbreytingar á lagaákvæðum um ívilnun. Að öðru leyti má um lagastoð fyrir verklagsreglum ríkisskattstjóra vísa til 1. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003 þar sem mælt er almennt fyrir um skyldu ríkisskattstjóra til að setja framkvæmdar- og starfsreglur ásamt leiðbeiningum og verklagsreglum vegna álagningar opinberra gjalda.

Fyrir álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2018, sem mál þetta varðar, setti ríkisskattstjóri sér sérstakar viðmiðunarreglur um ákvörðun ívilnunar það gjaldár, sbr. auglýsingu nr. 495/2017 í B-deild Stjórnartíðinda. Er hér um að ræða reglur sem að formi og efni eru hliðstæðar reglum embættisins gjaldárið 2019 sem fyrr greinir. Til þessara reglna vísaði ríkisskattstjóri í tilkynningu sinni til kæranda, dags. 23. maí 2018, þar sem fram kom að lækkun tekjuskatts- og útvarsstofns um 71.714 kr. vegna dóttur kæranda væri ákvörðuð „í samræmi við viðmiðunarreglur í auglýsingu 495/2017 sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda“. Sá galli er á gjöf Njarðar að í nefndum reglum er ekkert fjallað um ákvörðun ívilnunar á grundvelli 4. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, þ.e. vegna menntunar barna 16 ára og eldri, og er raunar ekkert vikið að því ívilnunartilviki í þessum reglum. Að þessu leyti fékk tilvísun til réttarheimilda í tilkynningu ríkisskattstjóra ekki staðist. Í úrskurði ríkisskattstjóra er á hinn bóginn vísað til nefndra reglna embættisins nr. 212/1996 þar sem kemur fram í niðurlagi umfjöllunar um lækkun samkvæmt 4. tölul. (Menntunarkostnaður barna 16 ára og eldri) það ákvæði sem kærandi beinir spjótum sínum að: „Hafi námsmaðurinn tekjur skerðist ívilnunin sem nemur þriðjungi af tekjum hans.“

Vegna umfjöllunar kæranda um gildi þessa ákvæðis í reglum ríkisskattstjóra með tilliti til lagaákvæða um framfærsluskyldu foreldra er til þess að líta að við lögfestingu greindrar ívilnunarreglu á árinu 1962, sbr. nú 4. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, var foreldrum skylt að framfæra börn sín til 16 ára aldurs, sbr. þágildandi 10. gr. laga nr. 57/1921, um afstöðu foreldra til skilgetinna barna, sbr. og 5. gr. laga nr. 87/1947, um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna. Með lagabreytingum á árinu 1971 varð framfærsluskylda þó í raun til 17 ára aldurs, sbr. 1. gr. laga nr. 92/1971 og 3. gr. laga nr. 96/1971. Með barnalögum nr. 9/1981 varð sú breyting að foreldrum var gert að skyldu að framfæra börn sín þar til þau næðu 18 ára aldri, sbr. 17. gr. laganna. Hefur sú regla haldist óbreytt í yngri lögum um málefni barna, sbr. nú 1. mgr. 61. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Um ástæður fyrir tillögu um hækkun aldurs sem framfærsluskylda tæki mið af sagði í athugasemdum við 17. gr. frumvarps þess er varð að barnalögum nr. 9/1981: „Í reyndinni nýtur allur þorri unglinga, sem eru í skólum, 17 ára að aldri, framlaga frá foreldrum sínum, beint og óbeint, að svo miklu leyti sem tekjur unglinga hrökkva ekki til. Þegar þessi staðreynd er höfð í huga og svo hitt, hve geysimikill hluti 17 ára unglinga er á skólabraut, þykir réttmætt, að leggja til, að frumframfærsluskyldu foreldra ljúki ekki, fyrr en barn hefur náð 18 ára aldri.“ Skilja má þessar athugasemdir svo að eðlilegt hafi þótt að unglingar nýttu séraflafé til eigin framfærslu. Ganga verður út frá því að hliðstæðar ástæður búi að baki hinni umdeildu reglu ríkisskattstjóra um skerðingu ívilnunar vegna námskostnaðar með tilliti til tekna námsmanns. Eins og ríkisskattstjóri bendir á í úrskurði sínum hefur engin umræða verið um nauðsyn breytinga á þessu ákvæði reglna hans þrátt fyrir breytingar sem orðið hafa á lagaumhverfi barna á liðnum áratugum.

Samkvæmt framangreindu hefur allar götur frá lögfestingu ákvæðis um lækkun tekjuskattsstofns vegna kostnaðar við menntun barna 16 ára og eldri verið í gildi sú regla samkvæmt viðeigandi stjórnvaldsfyrirmælum að við ákvörðun lækkunarfjárhæðar skuli tekið tillit til tekna hlutaðeigandi ungmennis á tekjuári. Hefur þessi regla staðið óhögguð þrátt fyrir að foreldrar hafi allt frá árinu 1981 borið framfærsluskyldu gagnvart börnum sínum til 18 ára aldurs. Hefur þannig verið lagt til grundvallar í skattframkvæmd um árabil, í samræmi við reglur ríkisskattstjóra nr. 212/1996, að fjárhæð ívilnunar vegna menntunar barna nemi bæði ákveðinni fjárhæð að hámarki og taki með tilgreindum hætti mið af tekjum hlutaðeigandi námsmanns. Verður þessi framkvæmd að teljast bæði langvarandi og fastmótuð. Ekki verður talið að sú lagabreyting sem varð með gildistöku lögræðislaga nr. 71/1997 hinn 1. janúar 1998 og fól í sér hækkun sjálfræðisaldurs úr 16 árum í 18 ár, sbr. 1. mgr. 1. gr. nefndra laga, hafi þýðingu í þessu sambandi, enda voru engar breytingar gerðar á almennum aldursmörkum laga um tekjuskatt og eignarskatt með umræddum lögum nr. 71/1997.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verður að telja að ívilnun í skatti til handa kæranda vegna menntunar ungmennis hafi verið réttilega ákvörðuð við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2018. Kröfu kæranda í máli þessu er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja