Úrskurður yfirskattanefndar
- Duldar arðgreiðslur
- Tekjutímabil
- Málsmeðferð
Úrskurður nr. 115/2019
Gjaldár 2013 og 2014
Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul., 11. gr. 2. mgr., 59. gr., 96. gr. Lög nr. 37/1993, 10. gr., 22. gr. Lög nr. 138/1994, 73. gr.
Kærandi var eigandi alls hlutafjár í X ehf. Athugun ríkisskattstjóra leiddi í ljós að greiðslur frá erlendum kaupendum þjónustu X ehf. höfðu verið lagðar inn á bankareikning kæranda. Var ágreiningur um þá ákvörðun ríkisskattstjóra að færa kæranda umrædda fjármuni til tekna sem laun í skattframtölum hans árin 2013 og 2014 á þeim grundvelli að um væri að ræða greiðslur frá X ehf. sem ekki hefðu farið fram sem lögmæt úthlutun af fjármunum félagsins. Við ákvörðun tekjufærslu tók ríkisskattstjóri eingöngu mið af mismun tilgreinds handbærs fjár og bankainnstæðna X ehf. í lok áranna 2012 og 2013, þ.e. sjóðseign á þessum tímapunktum, án þess að litið væri til hliðstæðrar stærðar í upphafi þessara ára. Í úrskurði yfirskattanefndar var ekki talið fá staðist í tilvikum sem þessum að horfa eingöngu til stöðu tilgreinds sjóðs samkvæmt ársreikningum félags í árslok, þótt því yrði slegið föstu að hluthafi félagsins hefði á þeim tíma umráð fjármunanna og að fram hefði farið afhending þeirra til hans. Yrði ekki upplýst um peningalegar úttektir ársins nema taka einnig tillit til sjóðsstöðu í upphafi ársins auk þess sem uppruni fjármuna og atvik varðandi einstakar greiðslur á árinu kynnu einnig að skipta máli. Þar sem talið var að verulegir annmarkar hefðu verið á meðferð ríkisskattstjóra á málinu voru hinar umdeildu tekjufærslur felldar úr gildi.
Ár 2019, miðvikudaginn 3. júlí, er tekið fyrir mál nr. 8/2019; kæra A, dags. 9. janúar 2019, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2013 og 2014. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 9. janúar 2019, sbr. greinargerð fyrir kæruatriðum, dags. 26. febrúar 2019, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 9. október 2018, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2013 og 2014. Kæruefnið er sú ákvörðun ríkisskattstjóra að hækka tekjur um 14.535.837 kr. í skattframtali kæranda árið 2013 og um 9.928.064 kr. í skattframtali árið 2014 vegna meintrar óheimillar úthlutunar af fjármunum X ehf., sbr. 1. og 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, sem skattleggja bæri hjá kæranda sem launatekjur samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. nefndra laga.
Af hálfu kæranda er gerð krafa um að hækkun skattstofna kæranda samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra gjaldárin 2013 og 2014 verði felld niður. Þá er krafist málskostnaðar fyrir yfirskattanefnd, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.
Tekið skal fram að með hinum kærða úrskurði tilkynnti ríkisskattstjóri jafnframt eiginkonu kæranda, B, um breytingar á áður álögðum opinberum gjöldum hennar gjaldárin 2013 og 2014 vegna þeirra breytinga sem leiddu af framangreindum tekjuviðbótum í skattskilum eiginmanns hennar. Kæra í máli þessu er sett fram í nafni beggja hjóna, þó ekki sé vikið sérstaklega að breytingum er varða B í kærunni. Ljóst er að kæruefnið varðar ekki B með öðrum hætti en sem leiðir af lagareglum um skattlagningu hjóna og sambýlisfólks. Tekur framsetning í úrskurði þessum mið af því.
II.
Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 2. janúar 2015, lagði ríkisskattstjóri fyrir kæranda að gera grein fyrir tilefni innborgana á bankareikninga kæranda að fjárhæð 24.643.607 kr. á árinu 2012 og 14.508.160 kr. á árinu 2013 frá erlendum aðilum. Í svarbréfi kæranda, dags. 5. janúar 2015, kom fram að um væri að ræða greiðslur vegna þjónustu einkahlutafélags kæranda, X ehf. Bankareikningur kæranda hefði verið gefinn upp til erlendra viðskiptavina einkahlutafélagsins fyrir mistök. Á tímabilinu febrúar 2015 til janúar 2018 áttu sér stað tölvupóstssamskipti milli ríkisskattstjóra og umboðsmanns kæranda og X ehf., sem lutu einkum að framtalsskilum einkahlutafélagsins, en eftir því sem þar kom fram mun félagið hafa verið fellt úr hlutafélagaskrá á árinu 2008 á grundvelli 83. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, en skráð að nýju á árinu 2016.
Ríkisskattstjóri boðaði kæranda með bréfi, dags. 11. apríl 2017, endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárin 2013 og 2014 vegna fyrirhugaðrar tekjufærslu dulins arðs frá X ehf. Bréf þetta afturkallaði ríkisskattstjóri með bréfi, dags. 13. febrúar 2018, þar sem ríkisskattstjóri fór jafnframt fram á skýringar viðvíkjandi tilteknum liðum í skattframtölum kæranda og eiginkonu hans árin 2013 og 2014, svo og fór ríkisskattstjóri fram á skýringar X ehf. vegna gjaldaliða í innsendum skattframtölum félagsins árin 2013 og 2014. Fyrirspurnarbréfum ríkisskattstjóra var svarað af hálfu kæranda og X ehf. með bréfi umboðsmanns félagsins, dags. 14. apríl 2018. Í kjölfar þessa boðaði ríkisskattstjóri kæranda og eiginkonu hans með bréfi, dags. 18. maí 2018, endurákvörðun opinberra gjalda þeirra gjaldárin 2013 og 2014, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Kom fram að m.a. væri fyrirhugað að færa kæranda til tekna sem skattskyld laun 14.535.837 kr. í skattframtali árið 2013 og 9.928.064 kr. í skattframtali árið 2014. Jafnframt boðaði ríkisskattstjóri að breytingar á tekjuframtölum eiginkonu kæranda árin 2013 og 2014. Þá kvaðst ríkisskattstjóri hafa í hyggju að bæta 25% álagi við þá hækkun skattstofna sem af þessum breytingum myndi leiða, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.
Af hálfu kæranda og eiginkonu hans var boðaðri endurákvörðun ríkisskattstjóra mótmælt með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 26. júní 2018. Þar á meðal var fyrirhugaðri álagsbeitingu ríkisskattstjóra mótmælt, m.a. með vísan til veikinda kæranda, sbr. meðfylgjandi læknisvottorð.
Með úrskurði, dags. 9. október 2018, endurákvarðaði ríkisskattstjóri opinber gjöld kærenda gjaldárin 2013 og 2014. Með vísan til fram kominna andmæla féll ríkisskattstjóri frá boðuðum breytingum á skattframtali eiginkonu kæranda. Þá féll ríkisskattstjóri frá boðaðri 25% álagsbeitingu. Að öðru leyti var boðuðum breytingum ríkisskattstjóra hrundið í framkvæmd á þeim forsendum sem fram komu í boðunarbréfi, dags. 18. maí 2018.
Í úrskurði sínum rakti ríkisskattstjóri bréfaskipti í málinu og gerði grein fyrir lagagrundvelli málsins. Hvað snerti breytingar á skattskilum kæranda kom fram að hann hefði fengið greiðslur frá erlendum aðilum inn á bankareikning sinn, samtals að fjárhæð 24.643.607 kr. á árinu 2012 og 14.508.169 kr. á árinu 2013. Af hálfu kæranda væri komið fram um uppruna greiðslnanna að þær væru vegna seldrar þjónustu X ehf. sem væri í eigu kæranda. Samkvæmt skattframtölum X ehf. árin 2013 og 2014 næmi handbært fé 14.920.770 kr. í lok árs 2012 og 27.799.830 kr. í lok árs 2013. Inneignir samkvæmt bankareikningum félagsins væru 384.933 kr. í lok árs 2012 og 17.871.766 kr. í lok árs 2013. Við athugun á bankareikningum kæranda kæmi í ljós að umræddar innborganir hefðu að litlu leyti verið millifærðar á bankareikninga X ehf. Á árinu 2012 hefðu samtals 4.200.000 kr. verið millifærðar á bankareikninga félagsins og kærandi hefði fengið greitt 1.346.000 kr. frá félaginu á sama ári. Á árinu 2013 hefði kærandi millifært samtals 600.000 kr. á reikninga félagsins. Engin gögn hefðu verið lögð fram til staðfestingar á því að X ehf. hefði fengið þær greiðslur sem málið varðaði. Framkomnar skýringar um ætlaða sjóðseign X ehf. í lok áranna 2012 og 2013 þættu ótrúverðugar. Fjármunir félagsins virtust hafa verið kæranda til frjálsrar ráðstöfunar af eigin bankareikningi þar sem þeir hefðu ekki verið millifærðir á bankareikninga félagsins og ekkert lægi fyrir um að þeir hefðu runnið til félagsins með öðrum hætti. Í þessu sambandi yrði jafnframt að líta til stöðu kæranda gagnvart umræddu einkahlutafélagi, en hann væri eigandi að öllu hlutafé félagsins og hefði haft full umráð yfir fjármunum þess. Var það mat ríkisskattstjóra að um væri að ræða óheimila úttekt hluthafa á fjármunum X ehf. sem skattleggja bæri sem laun í hendi kæranda, sbr. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 2. mgr. 11. gr. sömu laga, enda yrði ekki séð að um heimilaða úthlutun verðmæta hefði verið að ræða, sbr. ákvæði 74. gr. laga nr. 138/1994. Tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda gjaldárin 2013 og 2014 yrði samkvæmt framansögðu hækkaður um fjárhæð sem næmi mismun á handbæru fé X ehf. samkvæmt skattframtölum félagsins árin 2013 og 2014 og inneignum á bankareikningum þess í lok áranna 2012 og 2013.
III.
Í kafla I hér að framan er greint frá kröfugerð kærenda í kæru til yfirskattanefndar, dags. 9. janúar 2019. Í kærunni er tekið fram að óvéfengt sé að inn á persónulegan bankareikning kæranda hafi komið greiðslur erlendis frá vegna sölu á þjónustu X ehf. Af misgáningi hafi verið gefinn upp gjaldeyrisreikningur kæranda en ekki félagsins. Allar þessar greiðslur hafi verið taldar fram í skattframtali X ehf. Það hafi legið fyrir allan tímann að þessir fjármunir hafi verið og séu í eigu félagsins. Ekki skipti máli hver hafi vörslur peninganna, heldur hver sé eigandi þeirra. Nefna megi að alþekkt sé að lögmenn taki við fjármunum annarra og hafi vörslur þeirra án þess að þeir fjármunir séu tekjufærðir hjá lögmanninum eða taldir eign hans. Þá megi nefna til dæmis að hafi kærandi tekið að sér að geyma bækur í eigu félagsins þá yrðu bækurnar ekki talin ólögmæt úttekt hans úr félaginu. Sama eigi við um húsnæði, sem félag kaupi og hluthafi búi í. Um þetta er vísað til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 73/2017. Kærandi hafi ekki slegið eign sinni á umrædda peninga þótt hann hafi tekið að sér að varðveita þá fyrir félagið. Innstæður á bankareikningum séu ekki eina sönnun þess að peningar eða fjármunir séu til.
Friðhelgi eignaréttar sé varin af 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Skattyfirvöld geti ekki svipt eiganda, þ.e. X ehf., fjármunum með því að ákvarða að tiltekinn aðili, þ.e. kærandi, sé eigandi þeirra. X ehf. sé hinn lagalegi rétti eigandi. Mikið þurfi til að koma til að skattyfirvöld geti ákveðið á sitt eindæmi hver sé eigandi fjármuna. Rökstuðningi ríkisskattstjóra fyrir þeirri ákvörðun hans sé áfátt. Ríkisskattstjóri hafi sönnunarbyrði fyrir því að um vantaldar tekjur kæranda sé að ræða. Staðreynd teljist sönnuð þegar svo góð rök hafi verið leidd að staðhæfingu eða staðreynd eftir heilbrigðri skynsemi og mannlegri reynslu, að menn hljóti almennt að líta svo á að staðhæfing sé rétt. Ríkisskattstjóra hafi ekki tekist að sanna að um vantaldar tekjur sé að ræða samkvæmt þessu mati. Skýrlega sé greint frá handbæru fé í ársreikningi félagsins og ekki dugi að segja að ekki hafi verið sýnt fram á að peningar séu í höfuðstöðvum félagsins. Fulltrúum ríkisskattstjóra hafi verið velkomið að koma í vettvangsskoðun hjá félaginu, en kosið að gera það ekki. Ríkisskattstjóri bæri hallann af þessu. Ríkisskattstjóra hafi ekki tekist að sanna að kærandi hafi slegið eign sinni á umrædda fjármuni og að þá sé ekki að finna á starfsstöð X ehf., svo sem skýrt hafi verið í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 14. apríl 2018. Fullt tilefni hafi verið fyrir ríkisskattstjóra að bregðast við með viðeigandi hætti ef embættið taldi skýringar kæranda ótrúverðugar. Með vísan til framangreinds er þess krafist að yfirskattanefnd felli niður hækkun tekjuskattsstofns kæranda þar sem ekki sé um ólögmæta úttekt að ræða af hálfu kæranda.
IV.
Með bréfi, dags. 5. apríl 2019, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og gert þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Af hálfu kæranda hafa ekki verið gerðar efnislegar athugasemdir við umsögn ríkisskattstjóra, sbr. tölvupóst umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 8. apríl 2018, þar sem þess er óskað að málið verði tekið til úrskurðar.
V.
Mál þetta varðar ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurði um endurákvörðun, dags. 9. október 2018, að færa kæranda til tekna 14.535.837 kr. í skattframtali árið 2013 og 9.928.064 kr. í skattframtali árið 2014 sem laun samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Byggði ríkisskattstjóri á því að um væri að ræða greiðslur frá X ehf., einkahlutafélagi í eigu kæranda, sem bæri að virða sem tekjur kæranda af hlutareign hans í félaginu (duldar arðgreiðslur), sbr. upphafsákvæði 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, og skattleggja eftir þeim reglum sem fram koma í 2. mgr. sömu lagagreinar. Fjárhæðir þessar leiddi ríkisskattstjóri fram á grundvelli mismunar á tilgreindu handbæru fé X ehf. í skattframtölum og ársreikningum félagsins fyrir rekstrarárin 2012 og 2013 og innstæðum á bankareikningum félagsins í lok þessara ára.
Samkvæmt upphafsákvæði 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 telst til arðs af hlutum og hlutabréfum í félögum, sem um ræðir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna, auk venjulegrar arðgreiðslu „sérhver afhending verðmæta til hlutareiganda með takmarkaða eða ótakmarkaða ábyrgð eða hluthafa er telja verður sem tekjur af hlutareign þeirra í félaginu“. Arður af hlutum og hlutabréfum telst til skattskyldra tekna, sbr. 4. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 er tekið fram að úthlutun verðmæta samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar til hluthafa eða hlutareiganda sem jafnframt sé starfsmaður félags, eða tengds félags, teljist vera laun samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna ef hún er óheimil samkvæmt lögum um hlutafélög eða lögum um einkahlutafélög. Ef úthlutun til annarra en starfsmanna er óheimil samkvæmt lögum um hlutafélög eða lögum um einkahlutafélög skal skattleggja úthlutunina sem tekjur samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laganna. Samkvæmt 73. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, er óheimilt að úthluta af fjármunum einkahlutafélags til hluthafa nema það fari fram eftir reglum um úthlutun arðs, sem endurgreiðsla vegna lækkunar hlutafjár eða varasjóðs eða vegna félagsslita. Í lögunum eru sérstakar reglur um þessi efni, sbr. VII., XII. og XIII. kafla þeirra, sbr. sambærilega kafla í lögum nr. 2/1995, um hlutafélög.
Kærandi var eigandi alls hlutafjár í X ehf. á þeim tíma sem málið varðar og verður að ganga út frá því að hann hafi ráðið fyrir félaginu að öllu leyti. Gat því komið til þess að upphafsákvæði 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 tækju til greiðslna einkahlutafélagsins í þágu kæranda þannig að telja yrði þær sem tekjur af hlutareign hans í félaginu, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 13. febrúar 1997 í máli nr. 88/1996 (H 1997:602).
Þess er að geta að fyrir liggur að á árunum 2012 og 2013 voru lagðar inn á gjaldeyrisreikning kæranda hjá Y-banka allmargar greiðslur frá einstaklingum og erlendum fyrirtækjum að fjárhæð samtals 24.643.607 kr. fyrra árið og 14.508.169 kr. síðara árið. Samkvæmt skýringum kæranda er um að ræða greiðslur erlendra viðskiptavina X ehf. fyrir þjónustu einkahlutafélagsins. Af hálfu ríkisskattstjóra hefur ekki verið vefengt að greiðslur þessar tilheyri X ehf. svo og hefur ríkisskattstjóri ekki dregið í efa þá skýringu kæranda að allar þessar greiðslur hafi verið taldar fram í skattframtölum félagsins. Í boðunarbréfi ríkisskattstjóra, dags. 11. apríl 2017, sem ríkisskattstjóri afturkallaði með bréfi, dags. 13. febrúar 2018, var rakið að kærandi hefði ekki endurgreitt móttekna fjármuni til félagsins nema að litlu leyti eða með 2.854.000 kr. á árinu 2012 og 600.000 kr. á árinu 2013. Auk þess tiltók ríkisskattstjóri að kærandi hefði tekjufært í skattframtölum sínum laun frá félaginu að fjárhæð 7.200.000 kr. hvort tekjuáranna 2012 og 2013. Í boðunarbréfinu var byggt á því að nefndar greiðslur frá erlendum viðskiptavinum X ehf. – að því leyti sem þær voru umfram endurgreiðslur kæranda til félagsins og tekjufærð laun frá því – hefðu farið fram í þágu kæranda og með þeim hætti að virða yrði þær sem duldar arðgreiðslur samkvæmt upphafsákvæði 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003. Námu boðaðar tekjuviðbætur í skattskilum kæranda 14.592.607 kr. gjaldárið 2013 og 6.708.169 kr. gjaldárið 2014.
Samkvæmt hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra, sbr. og boðunarbréf embættisins frá 18. maí 2018, byggði ríkisskattstjóri ákvörðun sína á sama lagagrundvelli og fyrr er getið. Hins vegar hvarf ríkisskattstjóri frá ákvörðun tekjuviðbótar eftir þeim tölulegu viðmiðunum sem lagðar voru í hinu fyrra boðunarbréfi. Þess í stað beindi ríkisskattstjóri sjónum sínum að mismun tilgreinds handbærs fjár í skattframtölum og ársreikningum X ehf. fyrir rekstrarárin 2012 og 2013 annars vegar og innstæðna á bankareikningum félagsins í lok hlutaðeigandi ára hins vegar.
Ársreikningar X ehf. fyrir rekstrarárin 2012 og 2013, sem fyrir liggja í málinu, eru báðir dagsettir 14. september 2014 og virðist a.m.k. ársreikningur fyrir fyrra árið hafa borist ríkisskattstjóra 20. október 2014 ásamt skattframtali félagsins árið 2013 og skattframtölum nokkurra fyrri ára. Umboðsmaður félagsins sendi ársreikning félagsins fyrir rekstrarárið 2013 til ríkisskattstjóra með tölvupósti 5. mars 2015 eftir að ríkisskattstjóri greindi umboðsmanninum frá því að skattframtal félagsins árið 2014 fyndist ekki hjá embættinu. Skattframtalið mun hafa borist ríkisskattstjóra í kjölfar þessa en ekki kemur fram í gögnum málsins hvenær það var. Í nefndum ársreikningum eru rekstrartekjur tilgreindar 25.504.535 kr. rekstrarárið 2012 og 41.097.353 kr. rekstrarárið 2013. Meðal veltufjármuna í ársreikningunum er tilgreindir án frekari sundurliðunar liðurinn „Sjóður og bankainnstæður“ að fjárhæð 14.920.770 kr. í árslok 2012 og 27.799.830 kr. í árslok 2013, sbr. og reit 5160 (Handbært fé) í skattframtölum félagsins árin 2013 og 2014. Við athugun ríkisskattstjóra á bankareikningum X ehf. kom fram að innstæður námu 384.933 kr. í árslok 2012 og 17.871.766 kr. í árslok 2013.
Samkvæmt framansögðu voru tekjufærslur ríkisskattstjóra ákvarðaðar á grundvelli nefnds mismunar, þ.e. með 14.535.837 kr. (14.920.770 kr. – 384.933 kr.) tekjuárið 2012 og 9.928.064 kr. (27.799.830 kr. – 17.871.766 kr.) tekjuárið 2013. Af hálfu kæranda er byggt á því að þessir fjármunir hafi verið í sjóði félagsins í lok umræddra ára.
Út af fyrir sig má taka undir með ríkisskattstjóra að hafi hluthafi einkahlutafélags í vörslu sinni fjármuni, sem samkvæmt bókum félagsins teljast liggja í sjóði þess, kann að vera tilefni ályktunar um slíka afhendingu verðmæta til hluthafans sem um ræðir í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003. Til hliðsjónar um þetta má vísa til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 168/2018. Við ákvörðun skattskyldra tekna við þessar aðstæður verður sem endranær að gæta að reglum um tekjutímabil í 59. gr. laga nr. 90/2003 og leiða fram fjárhæð ætlaðra greiðslna til hluthafa á hlutaðeigandi tekjuári. Í tilvikum sem þessum fær því ekki staðist að horfa eingöngu til stöðu tilgreinds sjóðs samkvæmt ársreikningum félags í árslok, þótt því yrði slegið föstu að hluthafi félagsins hefði á þeim tíma umráð fjármunanna og að fram hefði farið afhending þeirra til hans. Verður ekki upplýst um peningalegar úttektir ársins nema taka einnig tillit til sjóðsstöðu í upphafi ársins auk þess sem uppruni fjármuna og atvik varðandi einstakar greiðslur á árinu kunna einnig að skipta máli.
Fjárhæðir sem ríkisskattstjóri leiddi fram í tilviki kæranda tóku eingöngu mið af mismun tilgreinds handbærs fjár og bankainnstæðna X ehf. í lok áranna 2012 og 2013, þ.e. sjóðseign á þeim tímapunktum, án þess að litið væri til hliðstæðrar stærðar í upphafi þessara ára. Svo hagar til að greind fjárhæð var hærri í lok fyrra ársins en þess síðara. Má ljóst vera að miðað við forsendur ríkisskattstjóra var því ekki um að ræða greiðslur félagsins til kæranda á árinu 2013 og frekar hið gagnstæða. Er þá gengið út frá því að allar hinar erlendu greiðslur hafi verið tekjufærðar í skattskilum félagsins, svo sem virðist óumdeilt. Hvað snertir greiðslur til kæranda á árinu 2012 er þess að geta að ríkisskattstjóri hefur ekkert leitt fram í málinu um sundurliðun handbærs fjár X ehf. í lok árs 2011 (upphafi árs 2012), sem er tilfært með 10.512.838 kr. í ársreikningi félagsins fyrir rekstrarárið 2011, og þá hvort vörslur fjármuna, sem kunna að hafa verið færðar í þessum ársreikningi sem sjóðseign, hafi verið með sama hætti og ríkisskattstjóri telur gilda um sjóð í lok árs 2012. Verður því ekkert staðhæft um fjárhæð greiðslna til kæranda á árinu 2012 á grundvelli gagna málsins og eftir þeirri reikniaðferð sem ríkisskattstjóri byggir á, en þar getur í öllu falli ekki verið um að ræða hærri fjárhæð en 4.022.999 kr. Ástæða er til að taka fram að aðferðafræði ríkisskattstjóra í máli þessu er ekki í samræmi við það sem tíðkast hefur í hliðstæðum málum, sbr. m.a. fyrrnefndan úrskurð yfirskattanefndar nr. 168/2018, sbr. og úrskurð nr. 197/2012, án þess að neitt sé vikið að því í úrskurði ríkisskattstjóra hverju þetta sætir.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður ekki talið að forsendur séu til þess að ákvarða kæranda skattskyldar tekjur gjaldárið 2014 vegna meintrar afhendingar verðmæta til hans frá X ehf. á tekjuárinu 2013. Þá þykir ríkisskattstjóri ekki hafa lagt fullnægjandi grundvöll að ákvörðun sinni um tekjuviðbót í skattframtali kæranda árið 2013 vegna meintra greiðslna til kæranda á árinu 2012, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda hefur ríkisskattstjóri ekki séð til þess að upplýst væri um fjárhæð þeirra greiðslna. Jafnframt verður naumast séð að rökstuðningur ríkisskattstjóra hafi verið fullnægjandi, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 og 1. og 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar sem verulegir annmarkar voru þannig á meðferð ríkisskattstjóra á málinu hvað snerti hinar umdeildu breytingar ber að ómerkja þær. Með úrskurði þessum er þá engin efnisafstaða tekin til ágreiningsefnisins.
Af hálfu kæranda er gerð krafa um að honum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Í ákvæði þessu kemur fram að falli úrskurður yfirskattanefndar skattaðila í hag, að hluta eða öllu leyti, geti yfirskattanefnd úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, að hluta eða öllu leyti, enda hafi skattaðili haft uppi slíka kröfu við meðferð málsins, um sé að ræða kostnað sem eðlilegt var að hann stofnaði til vegna meðferðar málsins og ósanngjarnt væri að hann bæri þann kostnað sjálfur. Af hálfu kæranda hafa engin gögn verið lögð fram um útlagðan kostnað hans vegna meðferðar málsins þrátt fyrir ábendingu þar að lútandi í bréfi yfirskattanefndar, dags. 28. febrúar 2019, þar sem móttaka kærunnar var staðfest. Með vísan til framanritaðs, sbr. og starfsreglur yfirskattanefndar um ákvörðun málskostnaðar frá 21. nóvember 2014, sem birtar eru á vef nefndarinnar, er málskostnaðarkröfu kæranda hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Hinar kærðu breytingar ríkisskattstjóra eru felldar úr gildi. Málskostnaðarkröfu kæranda er hafnað.