Úrskurður yfirskattanefndar

  • Söluhagnaður
  • Teknategund
  • Sumarhús

Úrskurður nr. 296/1996

Gjaldár 1994

Lög nr. 75/1981, 7. gr. C-liður 8. tölul., 14. gr. 3. mgr., 63. gr. 1. mgr. 2. tölul.  

Kærendur, sem voru hjón, ráðstöfuðu sumarhús sínu til einkarekstrar síns og seldu það nokkru síðar til Z hf. fyrir hærra verð. Yfirskattanefnd tók fram að sumarhúsið hefði ekki verið nýtt til öflunar tekna í atvinnurekstrinum. Söluhagnaður sumarhússins teldist því ekki til atvinnurekstrartekna. Væri um að ræða tekjur samkvæmt C-lið 7. gr. laga nr. 75/1981 sem kæmu til skattlagningar hjá því hjóna sem hærri hefði launatekjur. Fallist var á varakröfu kærenda um að helmingur söluverðs yrði talinn söluhagnaður.

I.   

Málavextir eru þeir að kærendur töldu ekki fram til skatts árið 1994 innan tilskilins framtalsfrests og sættu því áætlun skattstjóra á skattstofnum við álagningu opinberra gjalda það ár. Ódagsett skattframtal var móttekið af skattstjóra 27. júní 1994 samkvæmt móttökustimplun hans á framtalið. Með kæru, dags. 17. ágúst 1994, fór umboðsmaður kærenda fram á að framtalið yrði tekið til álagningar án álags vegna síðbúinna skila. Áður en skattstjóri tók kæruna til afgreiðslu reit hann kærendum bréf, dags. 28. september 1994. Þar óskaði hann m. a. skýringa á sölu sumarhúss kærenda í Grímsnesi til einkafirma þeirra, X, og sölu hússins frá X til Z hf. tveimur mánuðum síðar fyrir verulega hærra verð. Í svarbréfi umboðsmanns kærenda, dags. 7. október 1994, kom fram að Z hf. seldi aðföng til fyrirtækis kærenda og hefði skuld vegna viðskiptanna verið orðin veruleg. Þá hefði komið fram að Z hf. væri reiðubúið að taka við sumarhúsi kærenda sem innborgun á skuldina. Kærendur hefðu af þeim sökum lagt X til húsið á 2.200.000 kr., sem hefði verið framreiknað stofnverð hússins 1.710.079 kr. auk 489.921 kr. sem hefði verið talið jafngilda viðbótarkostnaði á síðustu árum. Tveimur mánuðum síðar hefði náðst samkomulag við Z hf. um sölu hússins fyrir 3.800.000 kr.

Með kæruúrskurði, dags. 24. október 1994, féllst skattstjóri á að leggja innsent skattframtal til grundvallar álagningu að gerðum breytingum. Taldi hann sölu kærenda á sumarhúsinu til einkarekstrar síns ekki fá staðist. Húsið hefði verið einkaeign kærenda og bæri að fara með sölu þess til Z hf. samkvæmt því. Tekjufærsla söluhagnaðar 2.089.921 kr. yrði því öll í reit 77 á skattframtalinu en tekjufærsla söluhagnaðar að fjárhæð 1.600.000 kr. félli af rekstrarreikningi þannig að rekstrartap ársins hækkaði í 3.596.668 kr.

Umboðsmaður kærenda hefur með kæru, dags. 15. nóvember 1994, skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar og ítrekað fyrri rök sín og kröfur. Þá telur hann kærendur hafa allan rétt til að leggja umrætt sumarhús inn í atvinnurekstur sinn og selja það þaðan. Umrædd ráðstöfun hefði að líkindum ekki verið gerð nema vegna þess að kærendur hefðu talið líklegt að þau kæmust hjá eða fengju frestað skattgreiðslum vegna sölunnar. Kærendur gera þá varakröfu að helmingur söluandvirðis verði tekjufærður sem söluhagnaður, sbr. 3. mgr. 14. gr. laga nr. 75/1981.

Með bréfi, dags. 21. júlí 1995, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.

II.

Umræddur söluhagnaður er vegna sölu sumarbústaðar sem kærendur hafa áður fært til eignar á persónulegu framtali sínu. Kærendur hafa fært hluta söluhagnaðarins á persónulegt framtal sitt, en hluta hans hafa þau fært til tekna í einkarekstri sínum. Sumarbústaður þessi hefur ekki verið nýttur til öflunar tekna í atvinnurekstrinum. Samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skal telja allar tekjur, þ.m.t. tekjur samkvæmt 8. tölul. C-lið sömu lagagreinar, sem fjallar um tekjur af eignum, til atvinnurekstrartekna ef þær eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Þær tekjur sem hér eru til umfjöllunar, söluhagnaður vegna sumarbústaðar, eru ekki tengdar atvinnurekstri og teljast því ekki til tekna skv. B-lið tilvitnaðrar lagagreinar. Um er að ræða tekjur samkvæmt C-lið sömu lagagreinar sem færa skal því hjóna til tekna sem hærri hefur tekjur samkvæmt A-lið 7. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. sömu laga. Aðalkröfu kærenda er því hafnað.

Fallist er á varakröfu kærenda, þ.e. söluhagnaður verður helmingur söluverðs, sbr. 3. mgr. 14. gr. laga nr. 75/1981.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Aðalkröfu kærenda er hafnað. Fallist er á varakröfu kærenda. Söluhagnaður verður 1.900.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja