Úrskurður yfirskattanefndar

  • Styrkur
  • Beinn kostnaður
  • Endurupptaka máls

Úrskurður nr. 442/1996

Gjaldár 1993

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 2. tölul., 30. gr. 2. mgr.  

Í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis var fallist á endurupptöku úrskurðar yfirskattanefndar í máli kæranda. Málið varðaði frádrátt húsnæðiskostnaðar á móti námsstyrk sem kærandi fékk vegna framhaldsnáms í Kanada. Yfirskattanefnd tók fram að miða yrði við að húsnæðiskostnaður manna sem stunduðu framhaldsnám félli að jafnaði einungis til á dvalarstað viðkomandi, og bæri að telja slíkan kostnað ófrádráttarbæran. Atvik gætu þó verið með þeim hætti að telja yrði húsnæðiskostnað á námsstað umfram almennan kostnað við rekstur heimilis, einkum ef námsdvöl væri til styttri tíma. Ekki væri deilt um að kærandi hefði þurft að halda heimili á Íslandi jafnframt því að leigja húsnæði á námsstað. Með vísan til þessa þótti nægjanlega fram komið að kærandi hefði haft þann kostnað á móti umræddum styrk að ekki kæmi til skattlagningar hans.

I.

Með bréfi, dags. 5. apríl 1995, hefur kærandi farið fram á endurupptöku úrskurðar yfirskattanefndar nr. 75/1994, að því er varðar frádrátt húsnæðiskostnaðar að fjárhæð 146.508 kr. á móti námsstyrk frá M að fjárhæð 172.440 kr. sem færður var kæranda til tekna á skattframtali 1993. Forsendur úrskurðarins voru svohljóðandi:

„Námsstyrkir þeir er í málinu greinir teljast til skattskyldra tekna samkvæmt 2. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í málinu er aðeins ágreiningur um frádrátt á móti námsstyrk frá M. Er þess krafist að til frádráttar komi annars vegar skólagjald 32.372 kr. og hins vegar húsaleiga 146.508 kr. Fallist er á að skólagjald komi til frádráttar hinum fengna styrk, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, en húsnæðiskostnaður getur ekki komið til álita í þessu sambandi. Tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda lækkar því um 32.372 kr.“

Í endurupptökubeiðni er vísað til þess að umboðsmaður Alþingis hafi hinn 10. mars 1995, eftir að kærandi hafði kvartað til hans, gefið álit sitt á ofangreindum úrskurði yfirskattanefndar. Þar sé því beint til yfirskattanefndar að endurupptaka úrskurðinn, komi fram beiðni um það. Fer kærandi fram á að yfirskattanefnd kveði upp nýjan úrskurð þar sem bætt verði úr þeim annmörkum sem umboðsmaður Alþingis taldi vera á úrskurði nr. 75/1994. Verði þá fallist alfarið á kröfur kæranda með þeim rökstuðningi eða forsendum sem umboðsmaður Alþingis geri grein fyrir í áliti sínu. Vísar kærandi til greinargerða þeirra og ganga sem hún hafi lagt fram við meðferð málsins fyrir yfirskattanefnd og umboðsmanni Alþingis.

Með bréfi, dags. 2. júní 1995, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Með hliðsjón af tilurð endurupptökubeiðninnar hefur ríkisskattstjóri ákveðið að ítreka áður gerða kröfu í málinu.“

II.

Fallist er á endurupptöku úrskurðar yfirskattanefndar nr. 75/1994.

Námsstyrkur kæranda frá M telst til skattskyldra tekna kæranda skv. 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Um frádrátt frá þeim tekjum fer eftir 2. mgr. 30. gr. sömu laga. Samkvæmt því ákvæði skulu ákvæði 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laganna, sem efni sínu samkvæmt eiga einungis við um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, samt sem áður gilda eftir því sem við á um frádrátt beins kostnaðar við öflun annarra tekna en tekna skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr., þó ekki ákvæðin um vexti af skuldum, afföll, gengistöp og fyrningu eigna. Kemur fram að kostnaður þessi leyfist eingöngu til frádráttar sams konar tekjum og hann gekk til öflunar á og má frádráttur hvers árs ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur þeim tekjum sem hann leyfist til frádráttar. Samkvæmt fyrrgreindu ákvæði í 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981 er heimilt að draga rekstrarkostnað frá tekjum af atvinnurekstri, þ.e. þann kostnað sem á árinu gengur til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við. Persónulegur kostnaður rekstraraðila, þar með talinn almennur kostnaður við rekstur heimilis, er ekki frádráttarbær, sbr. m.a. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur 26. febrúar 1996 í málinu nr. E-2525/1995.

Tekjufærður hluti námsstyrks vegna framhaldsnáms kæranda í Kanada nam 172.440 kr. á skattframtali hennar árið 1993. Frá þeim tekjum er heimilt að draga beinan kostnað eins og að framan greinir og hefur þegar verið fallist á frádrátt vegna skólagjalda og fargjalds til Kanada, samtals 87.820 kr. Miða verður við að húsnæðiskostnaður manna, sem framhaldsnám stunda, falli að jafnaði einungis til á dvalarstað viðkomandi. Ber að telja slíkan kostnað ófrádráttarbæran, sbr. að framan. Atvik geta þó verið með þeim hætti að telja verði húsnæðiskostnað á námsstað vera umfram almennan kostnað við rekstur heimilis, einkum ef námsdvöl er til styttri tíma. Í bréfi til umboðsmanns Alþingis hefur kærandi upplýst að hún hafi þurft að halda heimili á Íslandi jafnframt því að leigja húsnæði á námsstað. Kröfugerð ríkisskattstjóra í máli þessu þykir bera að skilja á þann veg að þessi staðhæfing sé óumdeild. Með vísan til þessa þykir nægjanlega fram komið að kærandi hafi haft þann kostnað á móti umræddum styrk að ekki komi til skattlagningar hans, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, og lækkar því tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda um sem nemur fjárhæð eftirstöðva styrksins eða 84.620 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Úrskurður nr. 75/1994 er endurupptekinn. Tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda lækkar um 84.620 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja