Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 599/1990

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 68. gr. B-liður   Reglugerð nr. 79/1988 — II. kafli  

Sjómannaafsláttur — Sjómaður — Sjómannsstörf — Sjómennskudagar — Dagar við sjómannsstörf — Lögskráning — Lögskráningardagar — Ráðningarsamningur — Viðgerðartími skips — Sönnun

Málavextir eru þeir, að kærandi taldi sig eiga rétt á sjómannaafslætti fyrir lengri tíma en lögskráningartíma og skilaði því greinargerðum um sjómannaafslátt RSK 3.13 með skattframtali sínu árið 1989. Samkvæmt greinargerðum þessum, sbr. og reiti 9.2 og 9.3 í skattframtali kæranda árið 1989, færði kærandi 127 daga sem lögskráða daga og aðra daga við sjómannsstörf tímabilið 1. janúar 1988 til 30. júní 1988 og 117 slíka daga tímabilið 1. júlí 1988 til 31. desember 1988. Á dagafjölda þessum byggðist fjárhæð sjómannaafsláttar kæranda við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989. Í greinargerðum kæranda um sjómannaafslátt hafði komið fram, að skipið X, þar sem kærandi væri stýrimaður, hefði farið í miklar endurbætur og breytingar erlendis á árinu 1988. Þann tíma hefði kærandi verið bundinn ráðningarsamningi við útgerðina, verið í biðtíma og unnið einnig við skipið að nokkru leyti meðan á viðgerð stóð.

Í kæru, dags. 14. ágúst 1989, krafðist kærandi sjómannaafsláttar á tímabilinu 1. janúar 1988 til 30. júní 1988 182 daga og á tímabilinu 1. júlí 1988 til 31. desember 1988 184 daga eða alls 366 daga tekjuárið 1988 með þeim rökum, að kærandi hefði eingöngu unnið við sjómannsstörf á árinu 1988 og verið bundinn af ráðningarsamningi allt það ár. Með kæruúrskurði, dags. 20. október 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda og tók fram að ekki hefði verið sýnt fram á, að kæranda bæri sjómannaafsláttur nema fyrir 244 daga. Vísaði skattstjóri til 14. gr. laga nr. 79/1988.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 14. nóvember 1989, og krefst kærandi sjómannaafsláttar fyrir allt árið 1988. Rökstuðningur kæranda er svohljóðandi:

„Kröfu þessa byggi ég á því að undirritaður vann eingöngu við sjómannsstörf á árinu 1988 og var bundinn af ráðningarsamningi allt það ár sem slíkur. Legg ég fram því til sönnunar vottorð frá vinnuveitenda, A, og einnig uppgjör útgerðar, þ.e. ljósrit af launamiðum og ljósrit af hreyfingarlista 1988.

Kemur þar glögglega í ljós að undirritaður er á launum hjá áðurgreindu útgerðarfyrirtæki allt árið. Í júlímánuð og ágúst var undirritaður stýrimaður á m/b B (5 vikur).

Það skal ítrekað hér, að X fór í miklar endurbætur og breytingar erlendis á árinu, og þann tíma var undirritaður bundinn ráðningarsamningi og vann við útbúnað skipsins á meðan (sjá Greinargerð með skattframtali um sjómannaafslátt).

Við gerð skattframtals lét ég fylgja „Greinargerð með skattframtali um sjómannaafslátt“ og urðu mér á þau mistök að færa inn lögskráningardaga og aðra daga skv. launamiðum, vitandi að þeir voru rangir, en fara fram á fullan sjómannaafslátt í greinargerð.

Þess skal getið að undirritaður kærði álagningu gjalda gjaldárið 1989 til Skattstofu Vesturlands, en fékk villandi upplýsingar þar, sem leiddu til þess að kærunni var vísað frá vegna skorts á gögnum frá útgerð, sem auðveldlega gátu legið fyrir.

Með von um framlögð gögn sýni fram á réttmæti kröfu minnar um fullan sjómannaafslátt og verði til lækkunar gjalda gjaldárið 1989.“

Með bréfi, dags. 6. júní 1990, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Fallist er á að kærandi eigi rétt á sjómannaafslætti í 320 daga á árinu 1988.

Skv. greinargerð kæranda um sjómannaafslátt var hann stýrimaður á X en það skip var frá veiðum frá því um mánaðarmót apríl/maí 1988 til 1. október 1988. Á þessum tíma var kærandi skv. skilagrein hans skipverji á C frá 19. maí til 25. maí 1988 og á B frá 9. júlí til 17. ágúst.

Á tímabilunum 25. maí til 9. júlí og frá 17. ágúst til 1. október virðist kærandi ekki stunda sjómannsstörf eða í 89 daga. Þegar tekið hefur verið tillit til orlofs og annarra tilfallandi atvika þykir hæfilegt að áætla þann tíma sem kærandi á ekki rétt á sjómannaafslætti í 45 daga þó hann haldi launum skv. kjarasamningi þann tíma sem þó er ekki alveg ljóst sbr. yfirlit um skil á staðgreiðslu 1988.“

Þegar litið er til vottorðs útgerðar, sem kærandi hefur lagt fram í málinu, og virt eru önnur gögn málsins svo og skýringar kæranda, þykir kærandi hafa sýnt nægilega fram á að telja beri hann hafa stundað sjómannsstörf allt árið 1988 í skilningi B-liðs 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 8. gr. laga nr. 92/1987, um breyting á þeim lögum. Er krafa kæranda því tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja