Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattskylda
  • Einkahlutafélag
  • Almenningsheill
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 127/2019

Gjaldár 2018

Lög nr. 90/2003, 4. gr. 4. tölul., 99. gr.   Reglugerð nr. 483/1994, 16. gr.  

Kærandi í máli þessu var einkahlutafélag í eigu félagasamtakanna X. Var tilgangur kæranda að annast leiðbeiningarþjónustu og faglega fræðslu í þágu tiltekinnar atvinnugreinar. Ekki var fallist á með kæranda að félagið væri undanþegið tekjuskatti á grundvelli 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003 þar sem félagið ræki ekki atvinnu og ráðstafaði hagnaði sínum einungis til almenningsheilla og hefði það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum. Var bent á að í dóma- og úrskurðaframkvæmd hefði starfsemi félaga og samtaka, sem hefðu að meginmarkmiði að vinna að hagsmunamálum tiltekinna starfsstétta, ekki verið talin miða að almenningsheill í skilningi fyrrnefnds ákvæðis, sbr. m.a. H 1989:298. Var kröfu kæranda hafnað.

Ár 2019, miðvikudaginn 4. september, er tekið fyrir mál nr. 50/2019; kæra A ehf., dags. 26. febrúar 2019, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2018. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 26. febrúar 2019, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 11. janúar 2019, vegna álagningar opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2018. Er kæruefni málsins sú ákvörðun ríkisskattstjóra að hafna því að kærandi væri undanþeginn skattskyldu á grundvelli ákvæðis 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Er þess krafist í kærunni að ákvörðun ríkisskattstjóra verið hnekkt og fallist á að kærandi sé undanþeginn tekjuskatti á framangreindum grundvelli. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.

II.

Hinn kærði úrskurður ríkisskattstjóra var kveðinn upp í framhaldi af bréfi kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 5. júlí 2018, þar sem óskað var eftir leiðréttingu á skattframtali árið 2018 vegna tekjuársins 2017 á þeim forsendum að kærandi félli undir 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003 sem lögaðili er ráðstafaði hagnaði einungis til almenningsheilla og hefði það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum. Í erindi kæranda kom fram að samkvæmt samþykktum félagsins væri tilgangur félagsins að annast leiðbeiningarþjónustu og faglega fræðslu í þágu tilgreindrar atvinnugreinar. Félagið væri alfarið í eigu X sem væru frjáls félagasamtök. Væri m.a. fjallað um hlutverk og skyldur X í samþykktum samtakanna. Um hlutverk kæranda væri sömuleiðis fjallað í samþykktum X. Fram kom í bréfi kæranda að yrði um hagnað að ræða af starfsemi kæranda yrði honum varið til verkefna fyrirtækisins eins og þau væru skilgreind í samþykktum þess og X. Kæmi til greiðslu arðs eða lækkunar hlutafjár rynnu þær greiðslur alfarið til X, sbr. 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003. Sama máli gegndi um afdrif eigna við slit kæranda, þ.e. eignir umfram skuldir myndu þá renna til X sem væru samtök á sviði almenningsheilla. Kærandi uppfyllti því öll skilyrði þess að teljast undanþeginn tekjuskatti. Bréfinu fylgdi afrit af samþykktum kæranda og X.

Ríkisskattstjóri tók erindi kæranda til meðferðar sem kæru á álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2018, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003, og með hinum kærða úrskurði hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda um breytingar á skattframtali félagsins árið 2018 þar sem kærandi gæti ekki talist falla undir undanþáguákvæði 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003. Í úrskurðinum fjallaði ríkisskattstjóri almennt um umrætt undanþáguákvæði tekjuskattslaga og gerði grein fyrir meginsjónarmiðum að baki ákvæðinu sem væru þau að veita aðilum, sem hefðu með höndum starfsemi sem miðaði að almannaheill, undanþágu frá greiðslu skatts til ríkisins. Afstaða til þess, hvort tiltekinn lögaðili félli undir ákvæðið, yrði ekki tekin fyrirfram í eitt skipti fyrir öll, enda væri skilyrði skattfrelsis að hagnaði hvers árs skyldi einungis ráðstafað til almenningsheilla. Við skýringu ákvæðisins yrði ennfremur að hafa í huga að um undantekningu frá meginreglu um skattskyldu væri að ræða auk þess sem hafa yrði í huga jafnræðis- og samkeppnisrök, sbr. samkeppnislög nr. 44/2005.

Í úrskurðinum benti ríkisskattstjóri á að kærandi í málinu væri einkahlutafélag í eigu eins aðila, þ.e. samtakanna X sem væru undanþegin tekjuskatti á grundvelli 5. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003. Þá rakti ríkisskattstjóri ákvæði í samþykktum kæranda um tilgang félagsins og ráðstöfun eigna og skulda við slit þess og taldi ljóst að í samþykktunum væri ekki í neinu vikið að almannahagsmunatilgangi með starfsemi félagsins eða að eignum þess skyldi ráðstafað í þágu slíkra hagsmuna við slit félagsins. Að svo búnu tiltók ríkisskattstjóri upplýsingar um rekstur kæranda í skattframtölum félagsins og benti á að tap hefði orðið á rekstri kæranda á árunum 2013 og 2014, en eftir það væri hagnaður af starfseminni sem leitt hefði til eignaaukningar, sbr. tilfærða eignastöðu í árslok 2017 í skattframtali árið 2018. Sala á vöru eða þjónustu á samkeppnisgrundvelli við einstakar atvinnugreinar í landinu eða meðlimi þeirra yrði samkvæmt eðli sínu ekki talin fela í sér þjónustu í þágu almannahags. Starfsemi kæranda yrði því ekki felld undir skilgreiningu þess að teljast til almenningsheilla sem slík. Kæmi þá til skoðunar hvort hagnaði af starfsemi félagsins væri einungis ráðstafað til almenningsheilla.

Fram kom í úrskurði ríkisskattstjóra að skattframtöl og ársreikningar kæranda bæru ekki með sér að hagnaði hefði verið varið til málefna sem teldust til almenningsheilla, sbr. til hliðsjónar 15. og 16. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Samkvæmt framansögðu væri kærandi einkahlutafélag í óskoraðri eigu X sem stundaði atvinnurekstur, m.a. í formi viðskiptaráðgjafar og annarrar ráðgjafar, og sem bæri fulla og ótakmarkaða skattskyldu samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003. Í samþykktum kæranda, skattframtölum félagsins og ársreikningum væri ekki að finna ákvæði eða vísbendingar um slíka ráðstöfun fjármuna er skapað gæti félaginu skilyrði skattfrelsis á grundvelli 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003. Beiðni kæranda um undanþágu frá tekjuskatti á þeim forsendum væri því hafnað.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 26. febrúar 2019, er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði hnekkt og að fallist verði á beiðni kæranda um leiðréttingu á álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2018. Í kærunni er fyrst vikið að málsmeðferð ríkisskattstjóra og bent á að erindi kæranda til embættisins, dags. 5. júlí 2018, hafi ekki hlotið neina afgreiðslu af hendi ríkisskattstjóra fyrir álagningu opinberra gjalda lögaðila á árinu 2018 þrátt fyrir hagsmuni kæranda. Hafi ríkisskattstjóri kosið að fara með erindið sem kæru á álagningu, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003, þrátt fyrir að erindi kæranda hafi verið sent um þremur mánuðum áður en auglýsing hafi birst um lok álagningar umrætt gjaldár þann 28. september 2018. Ekki hafi verið rétt að fara með erindið sem kæru vegna mistaka ríkisskattstjóra á að taka erindið til afgreiðslu í tæka tíð. Þá sé álitamál hvort afgreiðsla ríkisskattstjóra hafi verið í samræmi við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og góða stjórnsýsluhætti, enda hafi afgreiðslan dregist í rúma sjö mánuði.

Um efnishlið málsins kemur fram í kærunni að kærandi sé að fullu í eigu frjálsra félagasamtaka, þ.e. X, og hlutverki kæranda sé lýst í samþykktum X svo að félagið skuli annast leiðbeiningaþjónustu og faglega fræðslu í þágu atvinnugreinarinnar. Verði um hagnað af starfseminni að ræða sé honum varið til verkefna fyrirtækisins eins og þau séu skilgreind í samþykktum og komi til útgreiðslu hagnaðarins þá renni hann að öllu leyti til X. Skilyrði skattfrelsis samkvæmt 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003 séu því uppfyllt. Umrætt ákvæði nái til allra lögaðila sem falli undir 2. gr. sömu laga, þar með talið einkahlutafélaga, sbr. m.a. úrskurð ríkisskattanefndar nr. 407/1984 þar sem fram komi að félagaform skipti ekki máli varðandi undanþágu frá tekjuskatti svo lengi sem tekjuafgangi sé varið til almennra þarfa eða almenningsheilla. Hafa beri í huga að fella megi starfsemi kæranda undir starfsemi sem ríkinu eða stofnunum þess bæri ella að sinna.

Í kærunni er vikið að ákvæðum 16. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, og tekið fram að kærandi telji augljóst að starfsemi félagsins falli undir menningarmálastarfsemi sem talin sé í a-lið 16. gr. umræddrar reglugerðar. Markmið félagsins sé fyrst og fremst að tryggja framfarir og hagsæld í þeirri atvinnugrein sem um ræðir. Auk þess sinni kærandi vísindalegri starfsemi sem tiltekin sé í b-lið 16. gr. reglugerðarinnar.

Vegna sjónarmiða ríkisskattstjóra varðandi tekjuöflun kæranda, þ.e. sölu á vöru eða þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki, kemur fram í kærunni að þau séu ekki í samræmi við þá staðreynd að mörg félög sem miði að almenningsheill afli tekna með sölu á vöru eða þjónustu. Ekki sé áskilið í 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003 að lögaðili hafi ekki með höndum atvinnurekstur, sbr. hins vegar ákvæði 5. tölul. sömu lagagreinar. Ekki sé gerð krafa um að lögaðili ráðstafi öllum hagnaði jafnóðum til almenningsheilla til að fá notið skattundanþágu 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 689/1997. Ítrekað sé að kærandi hafi ekki frjálsar hendur um ráðstöfun hagnaðar þar sem félagið sé alfarið í eigu X. Í fyrrnefndum úrskurði yfirskattanefndar nr. 689/1997 hafi verið talið óyggjandi að hagnaði yrði einungis ráðstafað í þágu markmiðs viðkomandi sjálfseignarstofnunar, þ.e. til útgáfu fræði- og handbóka, og skipti þá ekki máli þótt skipulagsskrá hefði ekki haft að geyma sérstök ákvæði um ráðstöfun hagnaðar. Hvergi í samþykktum kæranda sé vikið að því að félaginu sé heimilt að ráðstafa hagnaði í öðrum tilgangi en tiltekið sé í 3. gr. samþykkta fyrir félagið. Þá sé í samþykktunum ekki vikið að neinu öðru markmiði félagsins en hinu faglega markmiði þess, þ.e. að annast leiðbeiningaþjónustu og faglega fræðslu. Óljóst sé því af hvaða ástæðum ríkisskattstjóri telji það markmið ekki lýsandi fyrir markmið á sviði almannahagsmuna. Kærandi hafi ekki ráðstafað hagnaði í neinum öðrum tilgangi en í þágu faglegrar fræðslu, menningar- og vísindastarfa, að undanskildum þeim hagnaði sem færður hafi verið á milli ára á sérstakan eiginfjárlið sem ekki feli í sér eiginlega ráðstöfun fjármuna.

IV.

Með bréfi, dags. 9. apríl 2019, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Í umsögninni er gangur málsins rakinn. Þá er tekið fram að kærandi sé einkahlutafélag sem stofnað hafi verið á grundvelli laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, og beri réttindi og skyldur sem slíkt. Einkahlutafélag, starfsemi þess og skattaðild verði ekki skilgreind út frá starfsemi, samþykktum eða lagafyrirmælum er varði aðra lögaðila eða hluthafa sem í tilviki kæranda séu félagasamtök sem undanþegin séu tekjuskatti samkvæmt 5. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003 þar sem þau reki ekki atvinnu. Sú fullyrðing, að starfsemi eina hluthafa kæranda sé í almannaheillaskyni, hafi því enga þýðingu í málinu eða möguleg útvistun samtakanna á verkefnum til kæranda. Forsenda fyrir skattundanþágu samkvæmt 4. tölul. fyrrnefndrar lagagreinar sé að fyrir liggi að skráður tilgangur lögaðila sé til almenningsheilla samkvæmt samþykktum eða skipulagsskrá þar sem jafnframt komi fram að hagnaði verði einungis varið til skilgreindrar starfsemi og að við slit lögaðilans skuli eignum ráðstafað til aðila eða málefna sem uppfylli skilyrði um starfsemi og ráðstöfun fjármuna til almenningsheilla. Uppsöfnun hagnaðar sé því í andstöðu við skilyrði fyrir undanþágunni og sama sé að segja um útgreiðslu arðs þótt sjóðsmyndun geti verið eðlileg. Útgreiðsla uppsafnaðs og óskattaðs hagnaðar félags, sem njóti undanþágu samkvæmt 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, sé í andstöðu við forsendur að baki ákvæðinu um að hagnaði sé ráðstafað í þágu almannahagsmuna eða að hagnaði sé safnað umfram það sem telja megi eðlilegt í öryggisskyni til að viðhalda starfsemi viðkomandi félags.

Í umsögn ríkisskattstjóra er tekið fram að ekki verði ráðið af samþykktum kæranda að félagið hafi við skráningu tiltekið að markmið með starfsemi sé ekki að afla hluthöfum fjárhagslegs ávinnings og að nánar væri tilgreint hvernig ráðstafa bæri hagnaði og hvernig fara skyldi með eignir félagsins við slit, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 138/1994. Samkvæmt því beri að líta á kæranda sem hvert annað einkahlutafélag sem ekki hefði aðrar heimildir til að ráðstafa tekjum sínum til almenningsheilla en fram kæmu í 2. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 eða 0,75% af tekjum. Um væri að ræða almenna heimild félaga sem ekki hefðu í samþykktum sínum tilgreint að hagnaði skuli varið til almenningsheilla á grundvelli 4. mgr. 7. gr. laga nr. 138/1994, sbr. 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003. Sé þannig ekki bundið í samþykktum einkahlutafélags við skráningu eða síðari breytingum þar á að slík ráðstöfun hagnaðar sé heimil og að félagið starfi í samræmi við samþykktir sínar til almenningsheilla þá verði að telja úthlutun hagnaðar á þessum forsendum óheimila að félagarétti. Framsetta kröfu kæranda um undanþágu frá skattskyldu verði því að telja þversagnakennda og vart fá staðist. Framlögð viðbótargögn með kæru til yfirskattanefndar hafi ekki þýðingu þegar komi að ákvörðun um skattaðild kæranda sem sé sjálfstæð lögpersóna með skilgreinda starfsemi samkvæmt samþykktum sínum.

Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 29. apríl 2019, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögn ríkisskattstjóra. Í bréfinu eru áður fram komin sjónarmið og rök kæranda áréttuð. Þá kemur fram að forsendur sem ríkisskattstjóri telji að eigi við um skattundanþágu 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003 eigi sér naumast stoð í lögum, reglugerðum, verklagsreglum eða leiðbeiningum. Kærandi líti svo á að ráðstöfun fjármuna félagsins við slit þess til eina hluthafans, X, myndi teljast vera til almenningsheilla þar sem samtökin miði að almenningsheill í skilningi 4. tölul. eða 5. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 23. gr. samþykkta fyrir kæranda og ákvæði XIII. kafla laga nr. 138/1994. Ekki skipti máli þótt nánari ákvæði um ráðstöfun hagnaðar eða eigna við félagsslit, sbr. 4. mgr. 7. gr. síðastnefndra laga, sé ekki að finna í samþykktunum. Sé í því sambandi vísað til fyrri umfjöllunar í kæru, sbr. og úrskurð yfirskattanefndar nr. 698/1997. Þá geri ákvæði 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003 engan áskilnað um ráðstöfun hagnaðar innan tiltekins tíma. Órökstutt sé af hendi ríkisskattstjóra að hvaða leyti uppsöfnun hagnaðar stríði gegn forsendum að baki skattundanþágunni. Kærandi verji hagnaði sínum einungis til X sem séu frjáls félagasamtök sem vinni að framförum í landinu, og gagnist því ótilteknum fjölda manna eða almenningi.    Með bréfi, dags. 3. júlí 2019, hefur kærandi lagt fram gögn til stuðnings kröfu um greiðslu málskostnaðar, þar með talið afrit málskostnaðarreikninga.

V.

Kærandi í máli þessu er einkahlutafélag, sbr. lög nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Í skýrslu stjórnar með ársreikningi kæranda fyrir árið 2017 kemur fram að félagið var stofnað af samtökunum X sem eru jafnframt eigendur alls hlutafjár í félaginu. Samkvæmt félagssamþykktum kæranda er tilgangur félagsins að annast leiðbeiningarþjónustu og faglega fræðslu í þágu tiltekinnar atvinnugreinar. Fram er komið að um kæranda eru jafnframt ákvæði í samþykktum X sem fylgdu bréfi kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 5. júlí 2018. Segir þar að einkahlutafélag, sem alfarið sé í eigu X, annist leiðbeiningarþjónustu og faglega fræðslu í þágu atvinnugreinarinnar, svo sem nánar greinir. X eru heildarsamtök í atvinnugreininni og aðild að samtökunum geta átt félög einstaklinga og lögaðilar sem stunda viðkomandi rekstur í atvinnuskyni eða vegna eigin nota, sbr. samþykktir X. Þar kemur og fram að samtökin skulu vinna að framförum og hagsæld í atvinnugreininni. Skulu samtökin m.a. beita sér fyrir bættum kjörum á öllum sviðum innan greinarinnar og gæta hagsmuna stéttarinnar, sbr. nánari ákvæði í samþykktunum.

Ljóst er að kærandi fellur undir skattskylda lögaðila samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Ágreiningur málsins lýtur á hinn bóginn að því hvort félagið uppfylli skilyrði 4. tölul. 4. gr. sömu laga fyrir skattfrelsi, en í umræddri lagagrein er fjallað um þá aðila sem eru undanþegnir skattskyldu til tekjuskatts. Í 4. tölul. 4. gr. er tekið fram að undanþegnir séu skattskyldu „þeir lögaðilar sem um ræðir í 2. gr. og hér eiga heimili, ef þeir verja hagnaði sínum einungis til almenningsheilla og hafa það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum“. Með hinum kærða úrskurði sínum hafnaði ríkisskattstjóri því að skilyrði ákvæðisins væru uppfyllt í tilviki kæranda með því að hvorki gæti starfsemi kæranda talist miða að almenningsheill né hefði kærandi ráðstafað hagnaði af starfsemi félagsins til málefna er vörðuðu almannahag. Rétt er að taka fram að af hálfu kæranda er því ekki haldið fram í málinu að félagið geti losnað undan skattskyldu á grundvelli ákvæðis 5. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003 með því að félagið reki ekki atvinnu, en fyrir liggur í málinu að félagið hefur með höndum sölu á margvíslegri þjónustu og ráðgjöf í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. m.a. fyrirliggjandi ársreikning.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er fundið að því að ríkisskattstjóri hafi tekið erindi kæranda, dags. 5. júlí 2018, sem laut að leiðréttingu á innsendu skattframtali félagsins árið 2018, til meðferðar sem kæru á álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2018, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003. Af þessu tilefni skal tekið fram að erindi kæranda mun hafa borist ríkisskattstjóra að liðnum framtalsfresti lögaðila vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2018, sbr. 2. mgr. 93. gr. laga nr. 90/2003 og auglýsingu ríkisskattstjóra nr. 114, 31. janúar 2018. Í 2. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003 kemur fram að skattframtal, sem berst eftir lok framtalsfrests en áður en álagningu er lokið samkvæmt 1. mgr. 98. gr. laganna, skuli tekið sem kæra til ríkisskattstjóra hvort sem skattaðili kærir skattákvörðun eða ekki. Að þessu gættu þykja engin efni til athugasemda við þá ákvörðun ríkisskattstjóra að taka umrætt erindi kæranda til meðferðar sem kæru á álagningu opinberra gjalda. Þá var hinn kærði úrskurður ríkisskattstjóra kveðinn upp innan lögboðins tveggja mánaða frests samkvæmt 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003. Þykir ekkert tilefni til frekari umfjöllunar um málsmeðferð ríkisskattstjóra.

Samkvæmt 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003 eru þeir lögaðilar, sem um ræðir í 2. gr. laganna og hér eiga heimili, undanþegnir skattskyldu ef þeir verja hagnaði sínum einungis til almenningsheilla og hafa það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum. Svipað ákvæði var að finna í eldri lögum, sbr. 2. málsl. A-liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Það ákvæði tók þó samkvæmt orðan sinni einungis til hlutafélaga og annarra félaga með takmarkaðri ábyrgð félagsaðila. Núgildandi ákvæði, sem upphaflega var lögtekið með 4. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 7/1980, um breyting á þeim lögum, tekur hins vegar til allra þeirra lögaðila sem tilgreindir eru í 2. gr. laganna, uppfylli þeir þau skilyrði sem sett eru í 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003.

Hugtakið almenningsheill er ekki skilgreint í 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003. Á þetta hugtak hefur reynt í nokkrum úrlausnum dómstóla. Þá er víða í skattalöggjöf að finna dæmi þess að almenningsheill leiði til skattfrelsis, undanþágu frá skattskyldu eða heimildar til skattfrádráttar. Samkvæmt 3. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 má draga frá tekjum manna samkvæmt II. kafla laganna, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi tekjur samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. sem skattfrjálsar eru samkvæmt sérlögum eða vinninga í happdrættum sem fengið hafa leyfi viðeigandi ráðuneytis, enda sé öllum ágóða af þeim varið til menningarmála, mannúðarmála eða kirkjulegrar starfsemi. Nefna má einnig þá frádráttarheimild gjafa er um ræðir í 2. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, en samkvæmt ákvæði þessu má draga frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi eða eru tengdar slíkum rekstri einstakar gjafir eða framlög til kirkjufélaga, viðurkenndrar líknarstarfsemi, menningarmála, stjórnmálaflokka og vísindalegra rannsóknarstarfa svo sem nánar greinir. Málaflokkar sem geta fallið undir þessa frádráttarheimild eru nánar skilgreindir í 16. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Einnig má geta 2. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, þar sem kveðið er á um heimild sveitarstjórnar til að veita styrki til greiðslu fasteignaskatts af fasteignum þar sem fram fari starfsemi sem ekki sé rekin í ágóðaskyni, svo sem menningar-, íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfsemi og mannúðarstörf. Þá skal hér getið 5. mgr. 1. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, þar sem fram kemur að ekki skuli greiða erfðafjárskatt af gjöfum sem falla til félagasamtaka og sjálfseignarstofnana sem starfa að almannaheillum.

Eins og fram er komið er kærandi einkahlutafélag og hafa félagssamþykktir fyrir kæranda, sem liggja fyrir í málinu, að geyma hefðbundin ákvæði um meðferð hagnaðar og taps af starfsemi félagsins og ráðstöfun eigna við slit þess, sbr. einkum 14. og 23. gr. samþykktanna. Samkvæmt 3. gr. samþykktanna er tilgangur kæranda að annast leiðbeiningarþjónustu og faglega fræðslu í þágu viðkomandi atvinnugreinar. Samkvæmt þessu er tilgangur félagins einskorðaður við hagsmuni einnar starfsstéttar, sbr. og fyrrgreind ákvæði í samþykktum X þar sem verkefni kæranda eru nánar tilgreind. Það skilyrði um ráðstöfun hagnaðar til almenningsheilla sem um getur í 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003 verður ekki túlkað svo að það nái til félaga sem afmarka tilgang sinn með þeim hætti og svo þröngt sem hér um ræðir. Í dóma- og úrskurðaframkvæmd hefur starfsemi félaga og samtaka, sem hafa að meginmarkmiði að vinna að hagsmunamálum tiltekinna starfsstétta, ekki verið talin miða að almenningsheill í skilningi fyrrnefnds ákvæðis. Má í þessu sambandi vísa til dóms Hæstaréttar Íslands 2. mars 1989 í máli nr. 234/1987 (H 1989:298), þar sem því var hafnað að Búnaðarsamband Suðurlands væri undanþegið tekjuskatti á grundvelli þágildandi 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og úrskurðar yfirskattanefndar nr. 1041/1996 sem varðaði sjálfseignarstofnun hvers tilgangur var talinn miðast við hagsmuni tiltekinnar starfsstéttar. Þá má hér jafnframt vísa til dóms Hæstaréttar 16. febrúar 1995 í máli nr. 256/1992 (H 1995:435) þar sem talið var að sá tilgangur minningarsjóðs, að stuðla að aukinni verkmenntun starfsmanna fyrirtækis, gæti ekki fallið undir ákvæði 31. gr. þágildandi laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, um frádrátt vegna gjafa til menningarmála o.fl., sbr. nú 2. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003.

Þegar af þeim ástæðum, sem hér að framan eru raktar, verður kærandi ekki talinn undanþeginn skattskyldu samkvæmt 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003. Er kröfu kæranda því hafnað. Af þeim úrslitum málsins leiðir jafnframt að hafna verður málskostnaðarkröfu kæranda, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja