Úrskurður yfirskattanefndar
- Skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar til greiðslu húsnæðislána
- Fyrstu kaup íbúðarhúsnæðis
Úrskurður nr. 131/2019
Lög nr. 111/2016, 5. gr. 1. mgr. (brl. nr. 63/2017, 3. gr.)
Umsókn kæranda í máli þessu um nýtingu og ráðstöfun séreignarsparnaðar vegna fyrstu kaupa íbúðarhúsnæðis var hafnað þar sem hún barst ríkisskattstjóra að liðnum lögboðnum tólf mánaða fresti frá undirritun kaupsamnings.
Ár 2019, miðvikudaginn 4. september, er tekið fyrir mál nr. 21/2019; kæra A, dags. 21. janúar 2019, vegna úttektar séreignarsparnaðar. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 21. janúar 2019, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra 8. desember 2018 um að hafna umsókn kæranda um nýtingu séreignarsparnaðar vegna kaupa á fyrstu íbúð, sbr. lög nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, með áorðnum breytingum. Var ákvörðun ríkisskattstjóra byggð á því að umsókn kæranda varðaði öflun íbúðarhúsnæðis að M sem kærandi hefði verið skráður eigandi að frá 13. september 2017 samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2016 skyldi sækja um úttekt á uppsöfnuðum iðgjöldum eigi síðar en tólf mánuðum frá undirritun kaupsamnings og gilti hið sama um umsókn um ráðstöfun iðgjalda inn á lán. Þar sem kaupsamningur vegna kaupa kæranda á íbúðarhúsnæði að M hefði verið undirritaður 13. september 2017 hefði umsóknarfrestur um útgreiðslu séreignarsparnaðar eða ráðstöfunar sparnaðarins inn á lán samkvæmt ofangreindu runnið út 13. september 2018. Umsókn kæranda hefði borist 27. september 2018 og teldist hún því of seint fram komin og væri henni því synjað.
Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að synjun ríkisskattstjóra verði hnekkt. Fram kemur að kærandi hafi byrjað á umsókn sinni þó nokkru áður en skilafrestur rann út, en vandræði hafi komið upp í sambandi við upplýsingar eignar og ráðstöfun. Hafi kærandi skilað umsókn fyrir skilafrest, en svo virtist sem villa hefði komið upp í kerfinu og kærandi því verið of seinn þegar hann skilaði umsókninni 27. september 2018.
II.
Með bréfi, dags. 28. maí 2019, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Í umsögn ríkisskattstjóra er rakið að kærandi hafi keypt fasteign að M þann 13. september 2017. Kærandi hafi skilað inn umsókn 27. september 2018 á vefsvæðinu skattur.is. Umsókn kæranda hafi verið synjað á þeirri forsendu að hún væri of seint fram komin. Í 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2016 segi að aðili skuli sækja um úttekt á uppsöfnuðum iðgjöldum eigi síðar en tólf mánuðum frá undirritun kaupsamnings. Í athugasemdum frumvarps til laga nr. 63/2017, sem hefðu breytt lögum nr. 111/2016, sbr. þskj. nr. 1059 á 146. löggjafarþingi, komi fram að tólf mánuðir þyki hæfilegur tími til að ganga frá umsókn. Almenna reglan sé sú að þegar veittur sé frestur í mánuðum talið þá skuli telja í mánuðum, óháð dagafjölda í viðkomandi mánuðum, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 282/2006. Umsækjendur hafi þannig ekki til mánaðarloka tólfta mánaðarins til að sækja um. Kærandi hefði því haft frest til og með 13. september 2018 til að sækja um. Rök kæranda fyrir því að samþykkja skuli kæru hans séu þau að hann hafi farið inn á vefsvæðið skattur.is, en lent í vandræðum með að ljúka við að senda inn umsókn áður en frestur rann út og því ekki getað lokið við að senda inn umsókn. Kæranda hafi verið í lófa lagið að hringja í þjónustuver ríkisskattstjóra og/eða senda tölvupóst og fá aðstoð eða frekari leiðbeiningar við að skila inn umsókn fyrir 13. september 2018. Sú staðreynd að kærandi kunni að hafa farið inn á vefsvæðið skattur.is fyrir 13. september 2018, að eigin sögn, breyti ekki þeirri staðreynd að umsókn hafi ekki borist innan umsóknarfrests. Ekki sé því hægt að taka efnislega afstöðu til umsóknar kæranda.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 13. júní 2019, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra og honum gefinn kostur á að tjá sig af því tilefni og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
III.
Um skattfrjálsa úttekt séreignarsparnaðar, sbr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, vegna kaupa á fyrstu íbúð gilda lög nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Samkvæmt 2. gr. laganna er rétthafa séreignarsparnaðar heimilt að nýta viðbótariðgjald, sem greitt er á samfelldu tíu ára tímabili, eftir gildistöku laganna að tilteknu hámarki á ári, sbr. 4. gr. þeirra, með því að a) verja uppsöfnuðu iðgjaldi til kaupa á fyrstu íbúð og/eða b) ráðstafa iðgjaldi inn á höfuðstól láns sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð. Þá er rétthafa heimilt að nýta iðgjald sem afborgun inn á óverðtryggt lán, sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð, og sem greiðslu inn á höfuðstól þess eftir því sem nánar er kveðið á um í 3. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2016 er skilyrði fyrir úttekt á séreignarsparnaði að rétthafi hafi ekki áður átt íbúð og að hann afli sér íbúðarhúsnæðis annaðhvort einn eða í félagi við annan einstakling. Þá skal rétthafi eiga að minnsta kosti 30% eignarhlut í þeirri íbúð sem aflað er. Í 1. mgr. 5. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 63/2017, kemur fram að umsókn rétthafa um nýtingu séreignarsparnaðar til kaupa á fyrstu íbúð samkvæmt 2. gr. skuli beint rafrænt til ríkisskattstjóra á því formi sem hann ákveður. Sækja skuli um úttekt á uppsöfnuðum iðgjöldum eigi síðar en tólf mánuðum frá undirritun kaupsamnings. Sama gildi um ráðstöfun iðgjalda inn á lán.
Ekki er ágreiningur um það í málinu að kaupsamningur vegna kaupa kæranda á íbúðarhúsnæðinu að M hafi verið undirritaður 13. september 2017, sbr. fyrirliggjandi afsal vegna viðskiptanna, dags. sama dag. Er því ljóst að umsókn kæranda um nýtingu og ráðstöfun séreignarsparnaðar vegna kaupanna á grundvelli laga nr. 111/2016 barst ríkisskattstjóra að liðnum lögboðnum tólf mánaða fresti samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 63/2017. Þykir kærandi með fram komnum skýringum ekki hafa sýnt fram á að afsakanlegar ástæður hafi legið að baki síðbúinni umsókn hans þannig að ríkisskattstjóra hafi verið rétt að taka umsóknina til efnislegrar meðferðar, sbr. til hliðsjónar ákvæði um afleiðingar þess er kæra til æðra stjórnvalds berst að liðnum kærufresti í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að framangreindu athuguðu verður að hafna kröfu kæranda um endurskoðun hinnar kærðu ákvörðunar ríkisskattstjóra.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.