Úrskurður yfirskattanefndar

  • Greiðslur til fósturforeldra
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 137/2019

Gjaldár 2018

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 2. tölul., 96. gr.   Lög nr. 37/1993, 10. gr., 22. gr.   Skattmat fyrir tekjuárið 2017.  

Endurákvörðun ríkisskattstjóra á opinberum gjöldum kæranda vegna meintra vantalinna greiðslna frá sveitarfélagi vegna fósturbarna á árinu 2017 var felld úr gildi þar sem verulegir ágallar þóttu vera á rannsókn málsins af hendi ríkisskattstjóra og rökstuðningi hans.

Ár 2019, miðvikudaginn 4. september, er tekið fyrir mál nr. 107/2019; kæra A, dags. 27. maí 2019, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2018. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 27. maí 2019, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 11. mars 2019, um endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2018. Með úrskurði þessum færði ríkisskattstjóri kæranda til tekna vanframtaldar greiðslur vegna tveggja fósturbarna að fjárhæð samtals 1.932.426 kr. frá Félagsþjónustunni í X-bæ. Kærandi mótmælir því að ríkisskattstjóri hafi ekki fært heimilaðan frádrátt á móti tekjunum. Kveðst kærandi hafa skilið bréf ríkisskattstjóra þannig að færður yrði fastur frádráttur ef athugasemdir yrðu ekki gerðar. En annað hafi komið í ljós. Sé það ósk kæranda að umræddur fastur frádráttur að fjárhæð 1.028.448 kr. með hvoru barni verði dreginn frá vistunargjöldum.

II.

Með bréfi, dags. 25. júní 2019, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna. Í umsögn ríkisskattstjóra kemur fram að með hliðsjón af þeim lagarökum er búi að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sé rétt að vísa kærunni til ríkisskattstjóra til uppkvaðningar nýs úrskurðar. Er bent á að kærandi hafi lagt fram ný gögn og rökstuðning í málinu.

III.

Ekki er um það deilt í máli þessu að greiðslur sveitarfélags til kæranda vegna vistunar barna á árinu 2017 námu samtals 1.932.426 kr. Í úrskurði ríkisskattstjóra er um skattskyldu greiðslnanna almennt vísað til 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Telja verður að hér eigi við ákvæði 2. tölul. A-liðar lagagreinar þessarar. Tekið skal fram að hvorki kærandi né ríkisskattstjóri hafa byggt á því að um sé að ræða tekjur af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi kæranda, sbr. B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, hvað sem líður orðfæri ríkisskattstjóra um „verktakagreiðslur“. Fóstursamningar liggja ekki fyrir í málinu nema vegna tímabilsins 24. febrúar til 24. maí 2017, en samkvæmt því sem komið hefur fram af hálfu kæranda stóð vistun til 20. desember 2017.

Úrskurður ríkisskattstjóra á sér þann aðdraganda að með bréfi, dags. 5. desember 2018, óskaði ríkisskattstjóri skýringa frá kæranda vegna verktakagreiðslu að fjárhæð 1.932.426 kr. sem ekki væri gerð grein fyrir í skattframtali kæranda árið 2018. Ríkisskattstjóri tók fram að væri greiðsla þessi vegna eigin atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi væri um skattskyldu að ræða samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og kynni kærandi þá að eiga frádráttarrétt vegna kostnaðar við öflunar teknanna, sbr. 31. gr. sömu laga. Í því tilviki þyrfti eftir atvikum að leggja fram rekstrarskýrslu (RSK 4.11) eða rekstraryfirlit (RSK 4.10). Í svari kærandi, sbr. tölvupóst 28. desember 2018, kom fram að um væri að ræða greiðslu frá X-bæ vegna tveggja barna kæranda sem hann hefði tekið í fóstur að tilstuðlan barnaverndarnefndar og hefði svo staðið þar til úrskurður gekk í héraðsdómi á árinu 2017 um að kærandi fengi forsjá barnanna. Kærandi hefði ekki vitað að litið væri á greiðslurnar sem verktakagreiðslur og kynni ekki skil á því hvernig ætti að skila skýrslu RSK 4.11. Af þessu tilefni tók ríkisskattstjóri fram í tölvupósti til kæranda 7. janúar 2019 að vistunargreiðslu frá X-bæ væri hægt að setja í lið 2.3 í skattframtali og færa leyfðan frádrátt, tvöfaldan barnalífeyri að fjárhæð 760.296 kr. með hvoru barni eða samtals 1.520.592 kr., í lið 2.6 í framtalinu. Nægilegt væri að kærandi svaraði pósti ríkisskattstjóra „og óskir eftir að ég leiðrétti framtalið til samræmis við þetta“, svo sem þar sagði. Hinn 8. febrúar 2019 ritaði ríkisskattstjóri kæranda bréf þar sem honum var tilkynnt að fyrirhugað væri að endurákvarða opinber gjöld hans gjaldárið 2018 vegna tekjufærslu verktakagreiðslu að fjárhæð 1.932.426 kr. á árinu 2017 sem ekki hefði verið talin fram í skattframtali árið 2018. Með bréfi, dags. 5. desember 2018, hefði verið óskað skýringa á greiðslunni og skattaðila bent á að réttur til frádráttar kostnaðar kynni að vera fyrir hendi samkvæmt 31. gr. laga nr. 90/2003 og veittur 15 daga frestur til að leggja fram gögn og/eða skýringar. Svar hefði ekki borist. Með hliðsjón af þessu væri fyrirhugað að færa umrædda greiðslu til tekna í reit 196 í skattframtali. Teldi kærandi breytinguna rétta eða hefði þegar fallist á hana væri ekki þörf frekari viðbragða og myndi ríkisskattstjóri þá gera breytinguna að 15 dögum liðnum og tilkynna í sérstökum úrskurði. Ekki var í þessu bréfi ríkisskattstjóra vikið að skýringum kæranda frá 28. desember 2018 eða tölvupósti ríkisskattstjóra frá 7. janúar 2019 og raunar ranglega tekið fram að svar hefði ekki borist við fyrirspurnarbréfi embættisins frá 5. desember 2018. Kærandi svaraði ekki boðunarbréfi ríkisskattstjóra og hratt ríkisskattstjóri boðaðri breytingu í framkvæmd með hinum kærða úrskurði, dags. 11. mars 2019, og endurákvarðaði opinber gjöld kæranda til samræmis.

Þegar þessi atvik eru virt og sérstaklega að ríkisskattstjóri tilkynnti kæranda um fyrirhugaða endurákvörðun opinberra gjalda eftir að embættið hafði með tölvupósti gefið honum vilyrði um ákveðna úrlausn málsins, þ.e. að greiðslan frá X-bæ yrði tekjufærð að frádregnum ætluðum föstum kostnaði 1.520.592 kr., án þess að kæranda hafi verið settur ákveðinn svarfrestur í því sambandi, verður kæranda naumast talið til hnjóðs að hafa skilið boðunarbréf ríkisskattstjóra þannig að afgreiðsla málsins yrði með þeim hætti sem reifað var í tölvupósti embættisins. Verður ekki annað séð en að þau áform ríkisskattstjóra hafi verið í samræmi við ákvæði í lið 4 í reglum embættisins um skattmat vegna tekna manna tekjuárið 2017, sbr. auglýsingu nr. 1260/2016 í B-deild Stjórnartíðinda, þar sem er að finna ákvæði um frádrátt vegna fósturs barna. Eins og fyrr segir er í boðunarbréfi ríkisskattstjóra litið með öllu framhjá skýringum kæranda í tölvupósti til ríkisskattstjóra 28. desember 2018 og er hið sama að segja um úrskurð ríkisskattstjóra. Hefur þannig ekkert komið fram um það af hálfu ríkisskattstjóra hvers vegna ekki var byggt á skýringum kæranda og farið með tekjufærslu og frádrátt í samræmi við það sem áður hafði verið ráðgert.

Að þessu athuguðu og þar sem skýringar kæranda vörðuðu grundvöll hinnar kærðu tekjufærslu verður að byggja á því að þar sem þær fengu enga rökstudda úrlausn af hendi ríkisskattstjóra hafi rökstuðningur ríkisskattstjóra, bæði í boðunarbréfi og í úrskurði hans um endurákvörðun, verið ófullnægjandi í þeim mæli að um verulegan annmarka hafi verið að ræða, sbr. 4. og 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 um skyldu til samhliða rökstuðnings og 1. og 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um efni rökstuðnings. Þá verður einnig að gera þá athugasemd við rökstuðning ríkisskattstjóra að hvorki í boðunarbréfi hans né úrskurði um endurákvörðun er með fullnægjandi hætti vísað til þeirra réttarreglna sem ákvörðun hans var byggð á. Samkvæmt þessu var ákvörðun ríkisskattstjóra ekki rökstudd með fullnægjandi hætti að þessu leyti, sbr. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem m.a. er boðið að í rökstuðningi skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á. Þá er til þess að líta að þrátt fyrir skýringar kæranda í tölvupósti hans frá 28. desember 2018 var tilefni til að upplýsa nánar um hvað byggi að baki greiðslum frá X-bæ, þar á meðal um tímalengd þjónustusamninga sem um ræddi. Samkvæmt þessu verður að telja að bréf kæranda hafi gefið ríkisskattstjóra tilefni til að upplýsa málið nánar, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt framansögðu voru verulegir ágallar bæði á rannsókn málsins af hendi ríkisskattstjóra og rökstuðningi hans. Af þeim sökum verður að ómerkja hina kærðu tekjufærslu ríkisskattstjóra. Með úrskurði þessum er þá engin efnisafstaða tekin til ágreiningsefnisins.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hin kærða tekjufærsla 1.932.426 kr. í skattframtali kæranda árið 2018 er ómerkt.

 

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja