Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattsekt
  • Skattrannsókn
  • Endurupptaka máls

Úrskurður nr. 139/2019

Lög nr. 37/1993, 24. gr.   Lög nr. 88/2008, 228. gr. 1. mgr.  

Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 308/2015 í máli A var honum gerð sekt vegna vanrækslu á að telja fram í skattframtölum sínum tekjur sem til voru komnar vegna starfa fyrir X hf. og Y ehf. á árunum 2006 til 2009. A óskaði eftir endurupptöku málsins með vísan til þess að honum hefði verið refsað tvívegis fyrir sama brot, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu frá 18. maí 2017 og dóm Landsréttar í máli nr. 4/2018. Yfirskattanefnd taldi atvik í dómum þessum í ýmsum atriðum frábrugðin atvikum í máli A, einkum hvað snerti tímaþátt málsmeðferðar. Þar sem ekki varð annað talið en að hinn umdeildi sektarúrskurður í máli A hefði grundvallast á gildandi réttarreglum og að hvorki hefði neitt komið fram um að ákvörðunin hefði byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum né að atvik hefðu breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin var beiðni A um endurupptöku málsins hafnað.

Ár 2019, miðvikudaginn 4. september, er tekið fyrir mál nr. 95/2019; beiðni A um endurupptöku á úrskurði yfirskattanefndar nr. 308/2015. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 16. maí 2019, hefur gjaldandi farið þess á leit við yfirskattanefnd að nefndin endurupptaki úrskurð sinn nr. 308/2015, sem kveðinn var upp 18. nóvember 2015, vegna kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda vegna meintra brota á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Með nefndum úrskurði var gjaldanda gert að sæta sekt að fjárhæð 10.700.000 kr. til ríkissjóðs og 6.000.000 kr. til bæjarsjóðs X-bæjar samkvæmt greindum lögum vegna vanrækslu á að telja fram í skattframtölum sínum tekjur sem til væru komnar vegna starfa hans fyrir X hf. og Y ehf. tekjuárin 2006, 2007, 2008 og 2009. Af hálfu gjaldanda er þess krafist, með vísan til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar o.fl. gegn Íslandi frá 18. maí 2017 og dóms Landsréttar í máli nr. 4/2018, að yfirskattanefnd taki mál gjaldanda til nýrrar meðferðar og hafni sektarkröfu á hendur honum, enda hafi gjaldanda verið refsað tvívegis fyrir sama brot.

II.

Tildrög málsins eru þau að skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf 19. desember 2012 rannsókn á skattskilum gjaldanda tekjuárin 2006 til og með 2009. Vegna rannsóknarinnar var hinn 21. ágúst 2013 tekin skýrsla af gjaldanda, en skýrslur voru einnig teknar af B, C og D vegna málsins. Með bréfi, dags. 5. nóvember 2013, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina, dags. sama dag, sem þá lá fyrir, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar. Athugasemdir voru gerðar af hálfu gjaldanda með tölvupósti 10. desember 2013 og með bréfi dagsettu sama dag. Í framhaldi af þessu tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman lokaskýrslu sína um rannsókn á máli gjaldanda, dags. 17. desember 2013, sem var samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar þar sem tekið var fram að framkomin andmæli þættu ekki gefa tilefni til breytinga á skýrslunni.

Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 4. desember 2014, gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins þá kröfu að gjaldanda yrði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þar sem hann hefði staðið skil á röngum skattframtölum árin 2007, 2008, 2009 og 2010 með því að vanrækja að telja fram í skattframtölum sínum tekjur sem til væru komnar vegna starfa hans fyrir X hf. og Y ehf. tekjuárin 2006, 2007, 2008 og 2009. Nánar tiltekið var þess krafist að gjaldanda yrði ákvörðuð sekt vegna vantalinn tekna að fjárhæð samtals 26.018.524 kr. greind tekjuár. Næmi vangoldinn tekjuskattur 6.065.549 kr. og útsvar 3.411.344 kr.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 9. desember 2014, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins. Með bréfi, dags. 23. mars 2015, tilkynnti gjaldandi að hann væri þess samþykkur að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans en krefðist þess að yfirskattanefnd frestaði meðferð málsins ótímabundið, eða þar til dómur gengi í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar o.fl. gegn íslenska ríkinu hjá Mannréttindadómstól Evrópu. Beiðni gjaldanda um frestun málsmeðferðar var hafnað með bréfi formanns yfirskattanefndar, dags. 2. september 2015, þar sem frestur til að skila vörn í málinu var ennfremur framlengdur til og með 9. nóvember 2015. Ekki bárust frekari athugasemdir frá gjaldanda.

Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 308/2015, sem kveðinn var upp 18. nóvember 2015, var gjaldanda gert að greiða sekt að fjárhæð 10.700.000 kr. til ríkissjóðs og 6.000.000 kr. til bæjarsjóðs X-bæjar. Byggði sektarákvörðun á hendur gjaldanda á því að á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins væri fullsannað að gjaldandi hefði ekki gert grein fyrir skattskyldum tekjum samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 að fjárhæð 3.223.041 kr. í skattframtali árið 2007, 5.441.551 kr. í skattframtali árið 2008, 8.901.796 kr. í skattframtali árið 2009 og 8.452.136 kr. í skattframtali árið 2010. Hefðu hinar röngu upplýsingar í skattframtölum gjaldanda leitt til lægri álagningar opinberra gjalda hans en vera bar gjaldárin 2007, 2008, 2009 og 2010, þannig að brot gjaldanda vörðuðu við 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995. Samkvæmt því sem fram kom í úrskurðinum nam vanálagður tekjuskattur 765.472 kr. gjaldárið 2007, 1.237.953 kr. gjaldárið 2008, 2.025.159 kr. gjaldárið 2009 og 2.036.965 kr. gjaldárið 2010, og vanálagt útsvar 419.962 kr. fyrsta árið, 709.034 kr. annað árið, 1.159.904 kr. þriðja árið og 1.122.444 kr. fjórða árið.

III.

Í endurupptökubeiðni gjaldanda, dags. 16. maí 2019, er rakið að áður en úrskurður yfirskattanefndar nr. 308/2015 í máli gjaldanda hafi verið kveðinn upp hafi gjaldandi farið þess á leit við yfirskattanefnd að nefndin frestaði máli gjaldanda þar til Mannréttindadómstóll Evrópu hefði kveðið upp sinn dóm í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar o.fl. gegn Íslandi, en í málinu hefði verið til úrlausnar það álitaefni hvort íslenskar reglur um beitingu skattálags og refsingar samræmdust reglum um bann við endurtekinni málsmeðferð eða endurtekinni refsingu fyrir sömu háttsemi. Hafi beiðni gjaldanda verið hafnað. Mannréttindadómstóll Evrópu hafi síðan komist að þeirri niðurstöðu í máli Jóns Ásgeirs o.fl. að brotið hefði verið gegn 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu við meðferð máls Jóns Ásgeirs o.fl. Reynt hafi á það í allmörgum málum fyrir íslenskum dómstólum hvernig túlka skyldi og yfirfæra niðurstöður Mannréttindadómstólsins yfir í íslenskan rétt, þar á meðal í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 283/2016 og í fjölmörgum málum fyrir Landsrétti. Væri búið að slá því föstu að hið íslenska viðurlagakerfi væri nægilega samþætt að efni til, en sjónir hefðu beinst að því hvort hin tvíþætta málsmeðferð væri nægilega samþætt í tíma. Eins og rakið væri í dómi Landsréttar í máli nr. 4//2018 skipti þar mestu að sá tími sem rekstur beggja mála hefði tekið væri ekki úr hófi, að rekstur málanna færi að töluverðu leyti fram samtímis og að ekki liði nema tiltölulega skammur tími frá lokum stjórnsýslumálsins til útgáfu ákæru og öfugt.

Er vísað til þess í endurupptökubeiðninni að skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi sent mál gjaldanda til ríkisskattstjóra 19. desember 2013. Hafi ríkisskattstjóri endurákvarðað opinber gjöld gjaldanda 18. ágúst 2014 og ákvarðað gjaldanda við það tilefni 25% álag. Þá hafi gjaldandi ekki kært ákvörðunina til yfirskattanefndar og hafi máli gjaldanda á stjórnsýslustigi því lokið 18. ágúst 2014. Hafi skattrannsóknarstjóri síðan sent málið til sektarmeðferðar fyrir yfirskattanefnd 4. desember 2014. Samkvæmt þessu liggi fyrir að rannsókn málsins með tilliti til fésektarákvörðunar hafi ekki hafist fyrr en eftir að málsmeðferð fyrir skattyfirvöldum var lokið. Hafi málin þannig aldrei verið rekin samhliða. Telji gjaldandi með vísan til fyrirliggjandi dóma Mannréttindadómstóls Evrópu og dóms Landsréttar í máli nr. 4/2018 að með úrskurði yfirskattanefndar nr. 308/2015 í máli gjaldanda hafi verið brotið gegn ákvæði 4. gr. 7. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Með vísan til þessa sé farið fram á að yfirskattanefnd endurupptaki mál gjaldanda.

Að því er snertir lagaskilyrði til endurupptöku málsins byggir gjaldandi á því að sú grunnregla um endurupptöku óáfrýjaðs máls sem kveðið sé á um í 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, eigi að breyttu breytanda við um endurupptöku sektarúrskurðar stjórnsýslunefndar sem ekki hafi verið áfrýjað til dómstóla. Telji gjaldandi að verulegir gallar hafi verið á meðferð máls hans fyrir yfirskattanefnd þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess. Þá telji gjaldandi að færa megi rök fyrir því að þeir dómar Hæstaréttar og Landsréttar sem gjaldandi hafi vísað til og gengið hafi eftir að úrskurður yfirskattanefndar í máli gjaldanda hafi verið kveðinn upp teljist ný gögn sem hefðu miklu skipt ef þau hefðu komið fram áður en úrskurður yfirskattanefndar var kveðinn upp. Telji yfirskattanefnd ekki skilyrði til endurupptöku málsins samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 krefjist gjaldandi þess að nefndin afturkalli umræddan sektarúrskurð í máli gjaldanda á grundvelli 25. gr. sömu laga.

IV.

Mál þetta varðar beiðni samkvæmt bréfi umboðsmanns gjaldanda, dags. 16. maí 2019, um endurupptöku á úrskurði yfirskattanefndar nr. 308/2015, sem kveðinn var upp 18. nóvember 2015 vegna kröfu skattrannsóknarstjóra um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda vegna meintra brota á skattalögum. Með úrskurði þessum var gjaldanda gert að greiða sekt að fjárhæð 10.700.000 kr. til ríkissjóðs og 6.000.000 kr. til bæjarsjóðs X-bæjar með því að hann hefði vantalið tekjur í skattframtölum sínum vegna tekjuáranna 2006 til og með 2009. Voru brot gjaldanda talin varða við 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál hans sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða ef íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í 2. mgr. sömu lagagreinar er kveðið á um tímafresti endurupptöku en í 1. málsl. ákvæðisins kemur fram að mál verði ekki tekið til meðferðar að nýju ef liðnir eru þrír mánuðir frá því að aðila var tilkynnt um viðkomandi stjórnvaldsákvörðun, er byggðist á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum, eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem stjórnvaldsákvörðun var byggð á. Þá segir í 2. málsl. ákvæðisins að mál verði ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Hin umþrætta ákvörðun í máli gjaldanda var sem fyrr segir tekin með sektarúrskurði yfirskattanefndar nr. 308/2015, sem kveðinn var upp 18. nóvember 2015. Því er ljóst að beiðnin er borin fram að löngu liðnum þeim almennu tímaskorðum sem endurupptöku stjórnsýslumáls eru settar í stjórnsýslulögum, svo sem greinir hér að framan. Af hálfu gjaldanda er sem fyrr segir byggt á því að með úrskurði yfirskattanefndar nr. 308/2015 í máli gjaldanda hafi verið brotið gegn ákvæði 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Vísar gjaldandi í þessu sambandi einkum til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar o.fl. gegn Íslandi, og dóms Landsréttar í máli nr. 4/2018. Að því er þessar viðbárur snertir er ljóst að mál þessi varða ekki mál kæranda með beinum hætti. Þá eru atvik í málum þessum í ýmsum atriðum frábrugðin atvikum í máli gjaldanda, einkum hvað snertir tímaþátt málsmeðferðar. Ekki verður heldur fallist á það með gjaldanda að mál hans hafi ekki verið til meðferðar með tilliti til ákvörðunar skattsektar fyrr en skattrannsóknarstjóri ríkisins vísaði því til yfirskattanefndar 4. desember 2014, enda laut rannsókn skattrannsóknarstjóra í málinu, sem stóð frá 19. desember 2012, jöfnum höndum að undirbúningi að endurákvörðun opinberra gjalda og því að hefja refsimeðferð á hendur gjaldanda.

Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á með gjaldanda að telja megi umræddar dómsúrlausnir sem ný gögn í máli gjaldanda svo sem borið er við í endurupptökubeiðni hans til yfirskattanefndar. Þá verður ekki annað talið en að hinn umdeildi sektarúrskurður í máli gjaldanda hafi grundvallast á gildandi réttarreglum og hefur hvorki neitt komið fram um að ákvörðunin hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum né að atvik hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin. Verður því ekki talið að skilyrði séu til endurupptöku málsins á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Gjaldandi byggir á því í endurupptökubeiðni sinni að ákvæði 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, eigi að breyttu breytanda við um endurupptöku sektarúrskurðar stjórnsýslunefndar sem ekki hafi verið áfrýjað til dómstóla. Í ákvæði þessu er kveðið á um að þegar héraðsdómur hefur gengið í sakamáli sem ekki hefur verið áfrýjað og áfrýjunarfrestur er liðinn, getur endurupptökunefnd, sem skipuð er samkvæmt lögum um dómstóla, orðið við beiðni manns, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, um að málið verði endurupptekið í héraði að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Ljóst er að ákvæði þetta á samkvæmt efni sínu ekki við um mögulega endurupptöku stjórnvaldsákvarðana stjórnvalda heldur aðeins úrlausn héraðsdóms í sakamáli að undangenginni umfjöllun sérstakrar endurupptökunefndar. Verður því ekki fallist á með gjaldanda að skilyrði séu til að beita ákvæði þessu um beiðni gjaldanda um endurupptöku þess sektarúrskurðar yfirskattanefndar sem beiðnin snýr að.

Með sömu rökum og að ofan greinir verður ekki séð að tilefni sé til að afturkalla hinn umrædda sektarúrskurð yfirskattanefndar á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, svo sem gjaldandi fer fram á í niðurlagi endurupptökubeiðni sinnar.

Miðað við þá stöðu mála, sem að framan er rakin, verður ekki talið að neitt það sé fram komið, sem gefi tilefni til endurupptöku úrskurðar nr. 308/2015, hvorki samkvæmt ákvæðum 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né öðrum réttarreglum eða að öðru leyti sé tilefni fram komið til endurupptöku. Verður því að synja beiðni gjaldanda um endurupptöku.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Beiðni um endurupptöku úrskurðar yfirskattanefndar nr. 308/2015 er hafnað.

 

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja