Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 607/1990
Gjaldár 1987
Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl. — 95. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml. — 100. gr. 3. og 8. mgr. — 106. gr. 1. mgr. — 112. gr.
Vaxtagjöld — Vaxtafrádráttur — Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Gjaldfallin vaxtagjöld — Vaxtagjöld, gjaldfallin — Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar — Álag — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Vítaleysisástæður — Rökstuðningur — Rökstuðningur ákvarðana skattstjóra — Rökstuðningi áfátt — Málsmeðferð áfátt — Frávísun — Frávísun vegna vanreifunar — Vanreifun — Framsending — Framsending ríkisskattanefndar til skattstjóra — Endurupptaka úrskurðar ríkisskattanefndar — Endurupptaka máls — Dráttarvextir — Dráttarvextir af vangreiddum opinberum gjöldum — Innheimta opinberra gjalda — Valdsvið ríkisskattanefndar — Frávísun, mál utan valdsviðs
Málavextir eru þeir, að kærendur töldu ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1987 og sættu því áætlun skattstjóra á skattstofnum við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1987 að viðbættu 25% álagi á skattstofna skv. heimildarákvæðum 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Af hálfu umboðsmanns kærenda var álagningunni mótmælt í kæru, dags. 19. ágúst 1987, og boðað, að skattframtal yrði sent síðar. Með kæruúrskurði, dags. 20. nóvember 1987, vísaði skattstjóri kærunni frá, þar sem enginn rökstuðningur hefði borist í framhaldi af henni. Af hálfu umboðsmanns kærenda var frávísunarúrskurði skattstjóra skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 27. nóvember 1987, og boðað, að greinargerð yrði send síðar. Ekki barst sú greinargerð og með úrskurði nr. 285 frá 1. júní 1988 vísaði ríkisskattanefnd kærunni frá, þar sem boðaður rökstuðningur hefði ekki borist. Með bréfi, dags. 21. janúar 1989, fór umboðsmaður kærenda fram á endurupptöku fyrrnefnds frávísunarúrskurðar og lagði loksins fram skattframtal kærenda árið 1987, sem hann fór fram á, að lagt yrði til grundvallar álagningu opinberra gjalda þeirra gjaldárið 1987 án álags. Með úrskurði nr. 62 frá 10. febrúar 1989 féllst ríkisskattanefnd á endurupptöku áður uppkveðins úrskurðar síns, neytti heimildar 8. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og vísaði kærunni og framkomnu skattframtali kærenda árið 1987 til skattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.
Áður en skattstjóri kvað upp kæruúrskurð að nýju, krafði hann kærendur með bréfi, dags. 14. mars 1989, um ítarlegan útreikning á vaxtagjöldum af láni nr. ... hjá Sparisjóði Mýrasýslu ásamt afriti af skuldabréfinu svo og um það, hvernig lán þetta tengdist öflun íbúðarhúsnæðis til eigin nota og önnur lán frá Sparisjóði Mýrasýslu og Sparisjóði Reykjavíkur. Þá var óskað upplýsinga um það, hvenær íbúð að A, hefði verið keypt og hvert kaupverðið hefði verið. Með bréfi, dags. 1. apríl 1989, gerði umboðsmaður kærenda grein fyrir umspurðum atriðum og lagði fram ljósrit greiðslukvittana vegna umrædds láns frá Sparisjóði Mýrasýslu. Greiðslur höfðu farið fram skv. kvittunum þessum 3. febrúar 1987 eins og þær voru útreiknaðar 20. janúar 1987. Að svarbréfi þessu fengnu kvað skattstjóri þann 14. apríl 1989 upp nýjan kæruúrskurð, þar sem hann féllst á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda kærenda gjaldárið 1987 með svofelldum breytingum:
„1. Einungis er heimilt að færa vaxtagjöld sem gjaldfalla á árinu til frádráttar, og á það sama við um dráttarvexti. Vextir og verðbætur af láni hjá Sparisjóði Mýrasýslu vegna gjalddaga á árinu 1986 eru samkvæmt kvittunum kr. 48.674. Dráttarvextir v/sama láns vegna ársins 1986 eru áætlaðir kr. 34.500. Vaxtagjöld til frádráttar af ofangreindu láni eru því lækkuð úr kr. 201.438 í kr. 83.174. Einnig eru vaxtagjöld til Veðdeildar Landsbanka Íslands lækkuð um kr. 2.319, sbr. bréf umboðsmanns yðar dags. 1. apríl sl. Vaxtagjöld til frádráttar í reit 87 á skattframtalinu verða þá kr. 160.421.
2. Vegna mjög síðbúinna framtalsskila er 25% álagi bætt við skattstofna sbr. heimild í 106. gr. laga nr. 75/1981. Í kæru koma engar ástæður fram er gefa tilefni til að falla frá beitingu álagsheimildarinnar. Kærandi færir engin rök fyrir að 3. mgr. 106. gr. eigi hér við.“
Með kærum, dags. 10. maí 1989, hafa kærendur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Krafist er niðurfellingar álags vegna síðbúinna framtalsskila, þar sem kærendur beri ekki sök á þeim drætti, sem varð á framtalsskilunum, heldur hafi annir þess aðila, sem sá um framtalsgerðina, valdið honum. Þá er lækkun vaxtagjalda til frádráttar mótmælt, þar sem kærendur hafi aldrei nýtt sér vexti af umræddu láni á hverjum tíma vegna vanskila og því ekki haft vitneskju um hverjir gjaldfallnir vextir væru á hverjum tíma. Telja kærendur vaxtafærslu sína samrýmast leiðbeiningum ríkisskattstjóra á eyðublaðinu RSK 3.09. Með bréfi, dags. 11. september 1989, fóru kærendur fram á niðurfellingu dráttarvaxta af skattskuld.
Með bréfi, dags. 13. júní 1990, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:
„Gerð er krafa um staðfestingu á úrskurði skattstjóra bæði hvað varðar álagsbeitingu og vaxtagjöld til frádráttar.
Kærendur hafa ekki sýnt fram á að síðbúin framtalsskil þeirra séu vegna óviðráðanlegra atvika er hömluðu réttum skilum og er framkomin skýring, um annir á skrifstofu umboðsmanns, ekki meðal þeirra tilvika er átt gætu undir 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981. Þá vísast til forsendna skattstjóra varðandi vaxtagjöldin.“
Skattframtal kærenda árið 1987 var að sönnu mjög síðbúið, en það barst eigi fyrr en 21. janúar 1989 með endurupptökubeiðni til ríkisskattanefndar. Til þess er hins vegar að líta, að hin kærða álagsbeiting þykir eigi nægilega rökstudd af hálfu skattstjóra í hinum kærða úrskurði, dags. 14. apríl 1989. M.a. eru fyrri framtalsskil kærenda ekkert reifuð þar. Um það atriði verður það eitt ráðið af gögnum málsins, að framtal árið 1986 hafi borist innan tilskilins frests. Þá hefur framtal árið 1988 einnig borist innan framtalsfrests. Að þessu virtu þykir rétt að fella hið kærða álag niður gjaldárið 1987. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum gjaldféll hluti hinna umdeildu vaxtagjalda á árinu 1985 og er eigi út af fyrir sig deilt um það. Byggðist lækkun skattstjóra á vaxtagjöldum á framtali árið 1987 á þessu og verður eigi við henni haggað. Kröfu kærenda um niðurfellingu dráttarvaxta er vísað frá, þar sem ágreiningur um innheimtu, sbr. XIII. kafla laga nr. 75/1981, verður eigi borinn undir ríkisskattanefnd.