Úrskurður yfirskattanefndar

  • Styrkur
  • Beinn kostnaður
  • Námsferð

Úrskurður nr. 618/1996

Gjaldár 1994

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 2. mgr., 31. gr. 1. tölul.  

Í málinu var deilt um heimild kæranda til frádráttar á móti styrk sem kærandi hlaut úr endurmenntunarsjóði vegna námsferðar til útlanda. Ekki var fallist á með kæranda að líta bæri á greiðslu endurmenntunarsjóðsins sem dagpeninga og að kærandi ætti rétt á frádrætti á móti greiðslunni á þeim grundvelli. Hins vegar var fallist á frádrátt að álitum vegna kostnaðar kæranda af námsferðinni.

I.

Málavextir eru þeir að í athugasemdadálki skattframtals síns árið 1994 gat kærandi þess að hún hefði fengið styrk frá Fræðsluskrifstofu R-umdæmis 270.000 kr., styrk að fjárhæð 35.000 kr. frá BHMR og styrk frá Vísindasjóði Sálfræðingafélags Íslands að fjárhæð 19.500 kr. til greiðslu ferðakostnaðar, dagpeninga og útlagðs kostnaðar vegna endurmenntunar og námskeiða. Ekki tekjufærði kærandi styrki þessa að neinu leyti í skattframtali sínu árið 1994.

Með bréfi, dags. 14. nóvember 1994, óskaði skattstjóri eftir því að kærandi gerði nánari grein fyrir styrkjum 270.000 kr. frá Fræðsluskrifstofu R-umdæmis og 35.000 kr. úr Starfsmenntunarsjóði BHMR og legði fram gögn í því sambandi. Þá tók skattstjóri fram í bréfinu að samkvæmt launamiðum hefði kærandi fengið verktakagreiðslu að fjárhæð 6.000 kr. frá Fræðsluskrifstofu R-umdæmis og verktakagreiðslu að fjárhæð 16.000 kr. frá I-skóla sem ekki hefðu verið tekjufærðar í skattframtali árið 1994. Fram kom í bréfi skattstjóra að hann hygðist færa kæranda þessa styrki og verktakagreiðslur alls að fjárhæð 327.000 kr. til tekna í skattframtali hennar árið 1994 og endurákvarða áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1994 í samræmi við þá tekjuhækkun. Þá boðaði skattstjóri beitingu 25% álags á vantalda skattstofna, sbr. heimildarákvæði 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með bréfi, dags. 23. nóvember 1994, svaraði umboðsmaður kæranda bréfi skattstjóra og fylgdu því ýmis gögn. Að því er snertir verktakagreiðslur samtals að fjárhæð 22.000 kr. fylgdi rekstraryfirlit þar sem gjaldfærður var kostnaður vegna endurmenntunar 17.900 kr. á móti tekjum þessum. Farið var fram á að hreinar tekjur að fjárhæð 4.100 kr. yrðu tekjufærðar í skattframtali. Þá fylgdi bréfinu staðfesting Fræðsluskrifstofu R-umdæmis, dags. 18. nóvember 1994, þess efnis að kærandi hefði fengið styrk 270.000 kr. í júlí 1993 til þess að fara í námsferð til Slóvakíu. Þess var getið að gögn vegna þess kostnaðar sem kærandi hefði lagt í og endurgreiddur væri með styrknum hefðu verið send fræðsluskrifstofunni á sínum tíma og lægju þar. Ennfremur fylgdu bréfinu afrit af ferðareikningum sem endurgreiddir voru af Starfsmenntunarsjóði BHMR samtals með 35.000 kr., ásamt bréfi frá J College í Glasgow vegna námsheimsóknar, svo og ljósrit kvittana vegna þátttöku í námskeiðum.

Með bréfi, dags. 8. mars 1995, boðaði skattstjóri kæranda hækkun tekna í skattframtali árið 1994 um 283.440 kr. auk 25% álags eða um 354.300 kr. alls. Skattstjóri tók fram að líta bæri á verktakagreiðslur 22.000 kr. sem tekjur samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Um frádrátt frá þeim tekjum færi eftir 2. mgr. 29. gr., sbr. 1. tölul. 31. gr. laga þessara. Kærandi hefði ekki gert grein fyrir kostnaði á móti tekjum þessum. Þá benti skattstjóri á að umbeðin gögn vegna námsferðar til Slóvakíu hefðu ekki verið lögð fram eða gerð nauðsynleg grein fyrir kostnaði á móti styrk 270.000 kr. til þeirrar ferðar. Styrkir teldust til skattskyldra tekna samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981. Hins vegar kynni að vera frádráttarmöguleiki kostnaðar á móti styrknum samkvæmt 1. og 2. málsl. 2. mgr. 30. gr. sömu laga, er þó kæmi ekki til greina nema fullnægjandi grein væri gerð fyrir kostnaðinum og fyrir lægi að styrkurinn hefði verið veittur og nýttur til að standa straum af þeim kostnaði. Gera þyrfti slíka grein fyrir styrknum, þar á meðal með staðfestingu á skólavist eða námskeiðssókn, og kostnaðinum og sundurliða á yfirliti. Skattstjóri taldi að eins og málið lægi fyrir kæmi einungis til greina til frádráttar þessum styrk sá kostnaður vegna flugfars til Vínarborgar sem endurgreiðsla Starfsmenntunarsjóðs BHMR hefði ekki hrokkið fyrir eða 10.160 kr. Að því er varðar styrk frá þeim sjóði 35.000 kr. taldi skattstjóri að fullnægjandi gögn hefðu verið lögð fram um frádrátt kostnaðar á móti allri styrkfjárhæðinni. Þá taldi skattstjóri að lögð hefðu verið fram gögn um kostnað að fjárhæð 17.900 kr. sem viðurkenna mætti til frádráttar styrk að fjárhæð 19.500 kr. frá Vísindasjóði Sálfræðingafélags Íslands. Ekki var hinum boðuðu breytingum andmælt af hálfu kæranda. Með bréfi, dags. 27. mars 1995, hratt skattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1994 í samræmi við tekjuhækkunina.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var endurákvörðun skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 4. apríl 1995. Í kærunni var tekið fram að greiðsla að fjárhæð 6.000 kr. frá Fræðsluskrifstofu R-umdæmis hefði verið vegna endurmenntunarnámskeiða, er kærandi hefði sótt 1992 og 1993, sbr. kvittanir er lagðar voru fram. Var farið fram á að kostnaður kæmi til frádráttar greiðslunni. Þá sagði svo í kærunni:

„Fræðsluskrifstofa R-umdæmis styrkti framteljanda til námsferðar til Slóvakíu. Um var að ræða annars vegar námskeið í „School Psychology“ við P.J. Safarík háskólann í Kosice. Þetta námskeið stóð yfir dagana 23. - 27. júlí 1993. Hins vegar var um að ræða ráðstefnu „XVI. International School Psychology Colloquium“ sem stóð yfir dagana 30. júlí til 3. ágúst 1993 og fór fram í Matej Bel University í Banska Bystrica í Slóvakíu. Meðfylgjandi eru staðfestingar vegna þátttöku í þessu hvoru tveggja.

Sá kostnaður sem við teljum augljóslega eiga að koma til frádráttar styrknum (sem að frádregnum þegar samþykktum kostnaði er kr. 259.840) er eftirfarandi:

Innritunargjald ISPA í Banska Bystrica (USD 280) kr. 19.600, ferðakostnaður Vín til Kosice (AST 462) kr. 2.900, ferðakostnaður Kosice-Banska Bystrica kr. 2.000, innritunargjald P.J. Safarík (USD 102,46) kr. 7.172, dagpeningar 22. júlí til 4. ágúst (14 d. eða 2.282 SDR) kr. 228.200, þ.e. samtals kr. 259.872.

Meðfylgjandi eru ljósrit af kvittunum vegna útlagðs kostnaðar, staðfestingar frá ISPA og P.J. Safarík um þátttöku framteljanda, auk staðfestingar fræðslustjóra R-umdæmis.“

Í staðfestingu Fræðsluskrifstofu R-umdæmis, dags. 31. mars 1995, sem fylgdi kærunni, kom fram að kærandi hefði fengið styrk úr Endurmenntunarsjóði sálfræðinga að fjárhæð 270.000 kr. til að fara í námsferð til Slóvakíu í júlí 1993. Staðfest var að kærandi hefði farið þessa ferð og flutt erindi fyrir samstarfsfólk sitt á stofnuninni um það efni sem hún hefði kynnt sér í ferðinni. Styrkfjárhæðin hefði aðeins verið fyrir fargjöldum (flugfari og lestarferðum), námskeiðsgjöldum og dagpeningum. Ekki væri um launagreiðslu að ræða. Fram kom að úthlutun styrkjanna væri í höndum nefndar er skipuð væri þremur fulltrúum, þ.e. fulltrúa menntamálaráðuneytisins, fulltrúa Fræðsluskrifstofu R-umdæmis og fulltrúa stéttarfélags sálfræðinga.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 4. maí 1995. Féllst skattstjóri á að greiðsla frá Fræðsluskrifstofu R-umdæmis 6.000 kr. gengi á móti kostnaði vegna endurmenntunar. Skattstjóri tók til greina til frádráttar á móti tekjufærðum styrk 270.000 kr. frá Fræðsluskrifstofu R-umdæmis kostnað að fjárhæð 31.672 kr. vegna innritunargjalda og ferða, sbr. sundurliðun í kæru hér að framan, en hafnaði frádrætti vegna dagpeninga. Þá féll skattstjóri frá álagsbeitingu. Í úrskurði skattstjóra segir svo:

„Fallist er á að til frádráttar styrk frá Fræðsluskrifstofu R-umdæmis komi kostnaður vegna innritunargjalda og ferða alls kr. 31.672. Skv. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 takmarkast frádráttur vegna annarra tekna en tekna skv. 1. tl. A-liðar 7. gr. við beinan kostnað við öflun þeirra. Ekki er því heimilt skv. ákvæðum laga nr. 75/1981 að færa til frádráttar mótteknum styrk reiknaðan kostnað þar með talda reiknaða dagpeninga. Vakin er athygli á því að frádráttur vegna móttekinna dagpeninga takmarkast við greiðslur atvinnurekanda til launþega vegna ferða þeirra á vegum atvinnurekandans, sbr. 1. tl. A-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981, með síðari breytingum. Engin grein hefur verið gerð fyrir mögulegum beinum kostnaði kæranda vegna dvalar hennar í Slóvakíu og verður því ekki fallist á frekari frádrátt vegna námsferðar.“

II.

Með kæru, dags. 31. maí 1995, hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til yfirskattanefndar af hálfu umboðsmanns kæranda. Er þess krafist aðallega að frádráttur dagpeninga 228.200 kr., sbr. sundurliðun í kæru til skattstjóra, dags. 4. apríl 1995, verði heimilaður á móti styrk að fjárhæð 270.000 kr. úr Endurmenntunarsjóði sálfræðinga. Til vara er þess krafist að til frádráttar á móti styrknum komi „… sannanlega greiddur kostnaður skv. meðfylgjandi ljósritum samtals kr. 44.971, auk eðlilegs tilkostnaðar vegna uppihalds í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra ...“ Í kærunni er tekið fram að ferð kæranda til Slóvakíu hafi verið á vegum Fræðsluskrifstofu R-umdæmis. Styrkur til fararinnar 270.000 kr. hafi verið greiddur úr Endurmenntunarsjóði sálfræðinga í samræmi við bókun í kjarasamningi milli Sálfræðingafélags Íslands og fjármálaráðherra, dags. 14. apríl 1987. Styrkurinn hafi átt að nægja til greiðslu ferðakostnaðar, námskeiðsgjalda og greiðslu dagpeninga samkvæmt reglum ferðakostnaðarnefndar, eins og tekið væri fram í reglum um endurmenntunarsjóðinn. Í kærunni er gerð grein fyrir námskeiðunum í Slóvakíu, sbr. og kæruna til skattstjóra, dags. 4. apríl 1995. Skattstjóri hafi viðurkennt allan kostnað vegna ferðarinnar annan en dagpeninga. Þá hafi skattstjóri viðurkennt ferðakostnað vegna námskeiðs á vegum J College í Glasgow í júnímánuði 1993, en ekki tekið tillit til dvalar- og uppihaldskostnaðar.

Umboðsmaður kæranda telur augljóst að að dagpeningar þeir 228.200 kr., sem reiknaðir hafi verið til frádráttar styrknum úr endurmenntunarsjóðnum, eigi að teljast frádráttarbær kostnaður vegna ferðarinnar þar sem um sé að ræða ferð á vegum vinnuveitanda kæranda og greiðslan séu í samræmi við kjarasamning Sálfræðingafélags Íslands og fjármálaráðherra. Greiðslan sé því skattskyld samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Kærunni fylgdu reglur um endurmenntunarkostnað sálfræðinga, undirritaðar af fulltrúum fjármálaráðherra og Sálfræðingafélags Íslands hinn 30. mars 1988. Þá fylgdi kærunni staðfesting Fræðsluskrifstofu R-umdæmis, dags. 29. maí 1995, á námsferð kæranda til Slóvakíu sama efnis og staðfesting sú sem lögð var fram við meðferð málsins hjá skattstjóra. Ennfremur fylgdu ljósrit hótelreiknings frá Hótel L í Banska Bystrica, reikningsyfirlits frá Visa Ísland, reiknings frá Ferðaskrifstofu Íslands hf., reiknings frá P Hotel í Glasgow svo og dagskrár vegna námsferðanna.

III.

Með bréfi, dags. 21. júlí 1995, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu fyrir hönd gjaldkrefjenda að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

IV.

Eins og fram kemur í I. kafla hér að framan móttók kærandi styrki samtals að fjárhæð 324.500 kr. frá þremur aðilum tekjuárið 1993, þ.e. 270.000 kr. úr Endurmenntunarsjóði sálfræðinga, 35.000 kr. úr Starfsmenntunarsjóði BHMR og 19.500 kr. úr Vísindasjóði Sálfræðingafélags Íslands. Þá móttók kærandi verktakagreiðslur samtals að fjárhæð 22.000 kr., þ.e. 6.000 kr. frá Fræðsluskrifstofu R-umdæmis og 16.000 kr. frá I-skóla. Kærandi tekjufærði hvorki styrkina né verktaka­greiðslurnar.

Skattstjóri féllst á að kostnaður vegna endurmenntunar gengi á móti síðastnefndri greiðslu frá Fræðsluskrifstofu R-umdæmis, en færði vegna verktakagreiðslna 16.000 kr. til tekna sem reiknað endurgjald í reit 24 í skattframtali kæranda árið 1994. Er þetta atriði ágreiningslaust. Kostnað að fjárhæð 17.900 kr. vegna námskeiðs á vegum J College samkvæmt kvittunum …, er fylgdu bréfi kæranda til skattstjóra, dags. 23. nóvember 1994, leyfði skattstjóri til frádráttar styrk frá Vísindasjóði Sálfræðingafélags Íslands að fjárhæð 19.500 kr. Til tekna af þeim styrk komu því 1.600 kr. Ekki liggur sérstaklega fyrir í málinu hvaða þörfum kæranda styrknum frá Starfsmenntunarsjóði BHMR var ætlað að mæta. Samkvæmt ljósritum fargjaldakvittana … hefur styrkurinn samkvæmt áritunum starfsmenntunarsjóðsins gengið til greiðslu fargjaldakostnaðar til Glasgow 17.950 kr. og afgangurinn 17.050 kr. runnið upp í fargjaldakostnað að fjárhæð 27.210 kr. vegna ferðar til Vínarborgar. Eftirstöðvar þess reiknings 10.160 kr. hefur skattstjóri látið mæta styrk frá Endurmenntunarsjóði sálfræðinga 270.000 kr., sbr. bréf skattstjóra, dags. 8. mars 1995. Þykir út af fyrir sig ekki tilefni til að hagga við þessu, enda er þessi tilhögun ágreiningslaus. Að auki hefur skattstjóri leyft til frádráttar þeim styrk 31.672 kr. vegna innritunargjalda og ferða vegna námskeiða í Slóvakíu, sbr. úrskurð skattstjóra, dags. 4. maí 1995, og sundurliðun í kæru til skattstjóra, dags. 4. apríl 1995, og gögn er henni fylgdu. Samkvæmt þessu stendur í ágreiningi í málinu frádráttur á móti eftirstöðvum styrksins 228.168 kr. sem kærandi vill mæta með frádrætti dagpeninga 228.200 kr. Þá verður að líta svo á að tekjufærðar eftirstöðvar að fjárhæð 1.600 kr. af styrk að fjárhæð 19.500 kr. úr Vísindasjóði Sálfræðingafélags Íslands séu í ágreiningi.

Í 2. gr. reglna um endurmenntunarkostnað sálfræðinga frá 30. mars 1988 segir svo:

„Reglur þessar miðast við að allt að fjórði hluti sálfræðinga í starfsheitunum deildarsálfræðingur I og deildarsálfræðingur II, helmingur sálfræðinga í starfsheitunum deildarsálfræðingur III, deildarsálfræðingur IV og yfirsálfræðingur I og þeir sem eru í starfsheitunum yfirsálfræðingur II og forstöðusálfræðingur, fái greiddan námsferða og dvalarkostnað í allt að 15 daga ár hvert. Um er að ræða greiðslu hagkvæmustu fargjalda miðað við Evrópu eða Bandaríkin, greiðslu dagpeninga skv. reglum ferðakostnaðarnefndar og greiðslu eðlilegs námskeiðsgjalds, sé um slíkt að ræða. Greiðsla fargjalds svo og námskeiðsgjalda fer fram samkvæmt framlögðum reikningum og staðfestum kvittunum, nema um annað sé samið. Greiðslur endurmenntunarkostnaðar eru háðar því almenna skilyrði að hlutaðeigandi þiggi hvorki laun né styrki vegna starfs eða náms frá öðrum opinberum aðila meðan á endurmenntun stendur.“

Í 3. gr. fyrrgreindra reglna er meðal annars kveðið á um það að þeir, sem njóta endurmenntunar samkvæmt reglunum, skuldbindi sig til þess að vinna sálfræðistörf í tvö ár hjá ríkinu eða við starfsemi sem rekin er fyrir almannafé, ella geti vinnuveitandi krafist endurgreiðslu á áður greiddum endurmenntunarkostnaði samkvæmt reglunum öðrum en launum.

Í samræmi við framangreindar reglur voru kæranda greiddar 270.000 kr. úr Endurmenntunarsjóði sálfræðinga vegna umræddrar ferðar til Slóvakíu. Í málinu liggja fyrir fjórar staðfestingar vinnuveitanda kæranda, Fræðsluskrifstofu R-umdæmis, um styrkveitinguna, tildrög fararinnar til Slóvakíu og árangur hennar, sbr. staðfestingar, dags. 18. nóvember 1994, 31. mars 1995, 18. maí 1995 og 29. maí 1995. Í staðfestingunni frá 18. maí 1995 segir meðal annars: „Það staðfestist hér með að A, sálfræðingur ... fór í námsferð til Slóvakíu í júlí 1993 á vegum Fræðsluskrifstofunnar.“ Þá segir svo: „Þessi ferð var farin í þágu Fræðsluskrifstofunnar og er liður í endurmenntun starfsmanna. Slíkt er afar brýnt þar sem þeir þurfa að kljást við flókin og vandmeðfarin mál tengd börnum og fjölskyldum þeirra.“ Í staðfestingunum kemur fram að styrkfjárhæð sé miðuð við fargjöld (flug- og lestafargjöld), námskeiðsgjöld og dagpeninga.

Í athugasemdadálki skattframtals síns árið 1994 gat kærandi greiðslunnar frá Endurmenntunarsjóði sálfræðinga sem styrks. Verður ekki betur séð en við alla meðferð málsins hjá skattstjóra hafi viðhorf kæranda verið það að um styrk væri að ræða sem skattskyldur sé samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og grundvöllur frádráttar væru ákvæði 1. og 2. málsl. 2. mgr. 30. gr. sömu laga. Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 31. maí 1995, verður ekki betur séð en umboðsmaður kæranda hafi snúið við blaðinu að þessu leyti og telji nú að líta eigi á greiðsluna til kæranda frá Endurmenntunarsjóði sálfræðinga sem greidda dagpeninga vegna ferðar á vegum vinnuveitanda er skattskyldir séu á grundvelli 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 og um frádrátt fari þá eftir ákvæðum 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. sömu laga, eins og þessum tölulið var breytt með 2. gr. laga nr. 92/1987. Ekki hefur þó verið gerð grein fyrir greiðslunni og frádrætti á móti henni í samræmi við það viðhorf, sbr. eyðublað vegna dagpeninga (RSK 3.11).

Enda þótt staðfest sé að ferð kæranda hafi verið í þágu vinnuveitanda, verður ekki talið að nein rök standi til að líta á greiðslu þessa sem dagpeninga, einkum þegar litið er til sjónarmiða og framtalsskila kæranda sjálfrar samkvæmt framansögðu og þess að samkvæmt launauppgjöf er greiðslan tilgreind sem styrkur. Er frádrætti á þeim grundvelli að um dagpeninga sé að ræða því hafnað. Kemur þá til skoðunar hvort efni séu til að heimila kæranda, á grundvelli ákvæða 1. og 2. málsl. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, frekari frádrátt beins kostnaðar á móti styrknum en skattstjóri hefur ákveðið. Í tilefni af því, sem fram kemur í kæru, að skattstjóri hafi ekki tekið tillit til dvalar- og upphaldskostnaðar vegna ferðar á námskeið hjá J College í Glasgow og beri kæranda frádráttur af þeim sökum á móti styrknum frá Endurmenntunarsjóði sálfræðinga, skal tekið fram að samkvæmt staðfestingum Fræðsluskrifstofu R-umdæmis var sá styrkur bundinn við námsferðina til Slóvakíu. Kemur kostnaður vegna Skotlandsferðar því ekki til álita til frádráttar á móti þeim styrk. Eins og fyrr segir hefur skattstjóri jafnað kostnaði vegna námsferðar til Glasgow á móti styrk úr Vísindasjóði Sálfræðingafélags Íslands. Að því virtu og með tilliti til framlagðs gagns með kæru um frekari kostnað vegna þeirrar ferðar þykir mega jafna þeim styrk að fullu á móti kostnaði þannig að tekjufærsla á 1.600 kr. falli niður.

Kærandi hefur í varakröfu sinni farið fram á að sannanlega greiddur kostnaður 44.971 kr. samkvæmt nótum verði leyfður til frádráttar auk eðlilegs tilkostnaðar vegna uppihalds í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra. Meðal gagna um kostnað er reikningur frá P Hotel í Glasgow vegna námskeiðs við J College. Kemur sá reikningur ekki til álita til frádráttar styrknum samkvæmt framansögðu. Þykir ekki rétt að binda frádrátt kæranda við þá reikninga eina, sem þá standa eftir, enda er ljóst að kostnaður kæranda hefur verið verulega hærri en þeir gefa til kynna. Óvefengt er að námsferð kæranda til Slóvakíu tók 14 daga og fyrir liggja staðfestingar vinnuveitanda um gildi ferðarinnar. Hins vegar hefur kærandi ekki lagt fram gögn um kostnað sinn vegna dvalarinnar nema að takmörkuðu leyti. Eins og málið liggur fyrir þykir því verða áætla kostnað kæranda vegna dvalarinnar að álitum. Við þá áætlun þykir rétt að taka mið af reglum þeim, sem gilda um dagpeninga, sérstaklega með skírskotun til tilvísunar 1. málsl. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 til 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. sömu laga og þess að undir almennar reglur um dagpeninga falla meðal annars dagpeningar vegna náms, sbr. lið 4.1. í auglýsingu ríkisskattstjóra um skattmat í staðgreiðslu á árinu 1993, dags. 4. janúar 1993. Hins vegar þykir kærandi að nokkru eiga að bera hallann af því að gögn hennar og greinargerð um kostnaðinn eru ekki svo skilmerkileg sem skyldi. Samkvæmt þessu þykir viðbótarfrádráttur kæranda á móti styrknum frá Endurmenntunarsjóði sálfræðinga umfram það, sem skattstjóri leyfði, hæfilega ákveðinn 90.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Aðalkröfu kæranda í máli þessu er hafnað. Varakrafa kæranda er tekin til greina með 90.000 kr. jafnframt því að skattlagning eftirstöðva að fjárhæð 1.600 kr. af styrk frá Vísindasjóði Sálfræðingafélags Íslands er felld niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja