Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Tapaðar útistandandi viðskiptaskuldir

Úrskurður nr. 778/1996

Virðisaukaskattur 1993

Lög nr. 50/1988, 13. gr. 5. mgr. 2. tölul.   Reglugerð nr. 483/1994, 14. gr.  

Í málinu var fjallað um heimild kæranda til að draga tapaðar viðskiptakröfur frá skattskyldri veltu við uppgjör hennar á árinu 1993. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að það bæri undir kæranda að sanna eða gera líklegt með gögnum að umræddar kröfur hefðu verið tapaðar. Þá yrðu slík gögn að liggja fyrir á því uppgjörstímabili sem krafa væri færð til frádráttar skattskyldri veltu. Samkvæmt þessu var kröfum kæranda hafnað að því leyti sem þær voru ekki studdar öðrum gögnum en upplýsingum um gjaldþrot viðskiptamanna á árinu 1994. Fallist var á aðrar kröfur kæranda.

I.

Málavextir eru þeir að samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu kæranda fyrir uppgjörstímabilið nóvember-desember 1993, sem hann stóð skil á hinn 7. febrúar 1994, var útskattur 2.584.928 kr. og innskattur 2.586.866 kr. Virðisaukaskattur til endurgreiðslu var því 1.938 kr. Fram er komið að til lækkunar á skattskyldri veltu við uppgjör virðisaukaskatts þetta uppgjörstímabil færði kærandi eftirfarandi kröfur þar sem hann taldi þær tapaðar, sbr. 2. tölul. 5. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt:

Aðili

Fjárhæð án vsk.

Vsk.

Samtals

G

28.814

7.060

35.874

H

210.221

51.507

261.728

I

245.696

60.199

305.895

J hf.

3.318.108

812.989

4.131.097

K hf.

600.131

147.042

747.173

L

80.320

19.680

100.000

M sf.

852.750

208.941

1.061.691

Samtals

5.336.040

1.307.418

6.643.458

Af tilgreindri tapaðri viðskiptaskuld vegna J hf. voru 33.475 kr. dráttarvextir og er ágreiningslaust að af þeim sökum hafi skattskyld velta verið vantalin um 26.887 kr. og útskattur um 6.588 kr. Þá er komið fram af hálfu kæranda að afskrift kröfu á hendur L hafi ekki verið á nægilega traustum grunni byggð. Við ákvörðun virðisaukaskatts kæranda, sbr. tilkynningu skattstjóra, dags. 26. apríl 1994, og kæruúrskurð, dags. 13. september 1994, féllst skattstjóri á að heimilt væri að færa kröfu á hendur M sf. til frádráttar skattskyldri veltu með 852.750 kr., svo og kröfu á G með 28.814 kr. Að öðru leyti taldi skattstjóri kæranda ekki hafa sýnt fram á að um tapaðar kröfur væri að ræða. Samkvæmt því ákvarðaði hann útskatt kæranda 3.676.345 kr. Að frádregnum innskatti nam virðisaukaskattur til greiðslu 1.089.479 kr. samkvæmt kæruúrskurði skattstjóra. Jafnframt ákvarðaði skattstjóri kæranda álag skv. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 að fjárhæð 217.896 kr.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 12. október 1994, sbr. kröfugerð og rökstuðning kæranda í bréfi, dags. 20. mars 1995, er þess krafist að „breytingar skattstjóra á virðisaukaskattsskyldri veltu … verði felldar úr gildi ásamt hækkun virðisaukaskatts og álagi skv. 27. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sem af þeim breytingum leiddi“. Krafa kæranda er í fyrsta lagi studd því að skattstjóri hafi látið afskrift umræddra krafna standa óhaggaða og án athugasemda í skattframtali kæranda árið 1994, en kærandi hafi skilað „skattframtali sínu fyrir rekstrarárið 1993 í framtalsfresti 1994 og gjaldfærði í ársreikningi sínum sem fylgdi með skattframtalinu, með skýrum hætti þær kröfur sem hér um ræðir og skv. viðtali við skattstjóra er alveg ljóst að skattstjóri gerði sér fulla grein fyrir að kröfurnar hefðu verið gjaldfærðar í skattframtali umbj. okkar 1994“. Telur umboðsmaður kæranda að í málsmeðferð skattstjóra komi fram slík mismunun á skattalegri meðferð á afskrift umræddra krafna að þegar af þeirri ástæðu varði það ógildingu á þeirri endurákvörðun sem hér um ræðir. Í öðru lagi mótmælir umboðsmaður kæranda sem röngum forsendum skattstjóra um að engin gögn liggi til grundvallar á afskrift krafnanna og færir nánari rök fyrir því.

Með bréfi, dags. 12. maí 1995, gerir ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjanda þá kröfu í máli þessu að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

II.

1. Mál þetta varðar ákvörðun virðisaukaskatts kæranda uppgjörstímabilið nóvember-desember 1993, sbr. tilkynningu skattstjóra, dags. 26. apríl 1994, sem hann tók til endurskoðunar með kæruúrskurði hinn 23. september 1994. Í rekstarreikningi kæranda fyrir árið 1993, sem fylgdi skattframtali kæranda árið 1994, dags. 20. júní 1994, eru „afskrifaðar viðskiptakröfur“ færðar til gjalda með 5.228.781 kr. og kemur fram í kæru til yfirskattanefndar að þar á meðal séu þær kröfur sem um ræðir í kærumáli þessu. Fjárhæðin er hins vegar ekki sundurliðuð í fylgigögnum með skattframtali kæranda. Skattstjóri lagði skattframtalið óbreytt til grundvallar frumálagningu opinberra gjalda kæranda árið 1994. Þótt á það megi fallast með kæranda að skattstjóra beri að gæta samræmis í ákvörðunum sínum varðandi virðisaukaskatt og álagningu opinberra gjalda, eftir því sem við á, verður ekki talið að neitt tilefni sé að svo stöddu til athugasemda við málsmeðferð skattstjóra af þessum sökum í tilviki kæranda.

2. Samkvæmt 2. tölul. 5. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er skattskyldum aðila heimilt að draga 80,32% af töpuðum útistandandi viðskiptaskuldum frá skattskyldri veltu, enda hafi hin tapaða fjárhæð áður verið talin til skattskyldrar veltu. Það ber undir kæranda að sanna eða gera líklegt með gögnum að umræddar kröfur hafi verið tapaðar. Leiðir af þeirri meginreglu, sem fram kemur um uppgjör skattskyldrar veltu í 13. gr. laga nr. 50/1988, sbr. til hliðsjónar 3. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. einnig ákvæði C-liðar 1. mgr. 29. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. nú 14. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, að slík gögn verða að liggja fyrir á því uppgjörstímabili þegar krafa er færð til frádráttar skattskyldri veltu.

Rekstraraðilar H voru samkvæmt því sem fyrir liggur í málinu úrskurðaðir gjaldþrota 3. febrúar 1994. Kærandi styður kröfu um afskrift viðskiptakröfu á hendur þessum aðila ekki við önnur atvik eða gögn en gjaldþrotaúrskurðinn að því frátöldu að versluninni hafi verið lokað á árinu 1993 og gjaldþrot orðið ljóst áður en gengið var frá virðisaukaskattsskýrslu síðasta uppgjörstímabils ársins. Með því að hvorugt þeirra atriða þykja geta ráðið úrslitum í málinu þykir með vísan til almennra athugasemda að framan bera að hafna kröfu kæranda um þetta kæruatriði.

Krafa kæranda um afskrift kröfu á I hf. er rökstudd með skírskotun til gjaldþrots þess félags 2. maí 1994 og nauðungarsölu fasteignar félagsins í desember 1993. Síðarnefnt atvik, sem að vísu er ekki stutt gögnum en á hinn bóginn ekki vefengt af hálfu gjaldkrefjanda, er til stuðnings staðhæfingu kæranda um að fullvíst hafi verið að krafan fengist ekki greidd. Er því fallist á kröfu kæranda varðandi þetta kæruatriði.

Að því er varðar kröfu um frádrátt frá skattskyldri veltu vegna skuldar J hf. hefur kærandi lagt fram endurrit úr dómabók Héraðsdóms …, dags. 16. desember 1993, þar sem úrskurðað er um beiðni hlutafélagsins til greiðslustöðvunar og greiðslustöðvun heimiluð til 6. janúar 1994. Í úrskurðinum segir að svo sé komið fyrir félaginu að því hafi reynst ófært að standa í skilum við lánardrottna sína um nokkra hríð og ekki séu horfur á því að bati verði án fjárhagslegrar endurskipulagningar. Þá kemur einnig fram í úrskurðinum að samkvæmt milliuppgjöri 30. nóvember 1993 nemi heildarskuldir 100.650.575 kr. og þar af skammtímaskuldir 95.864.022 kr. og þar af séu um 74.600.000 kr. komnar í vanskil. Bókfærðar eignir félagsins séu aftur á móti 30.932.674 kr. Í öðru lagi hefur kærandi lagt fram ljósrit af fundargerð aðstoðarmanns J hf. á greiðslustöðvunartímanum vegna fundar sem hann hélt með lánardrottnum félagsins hinn 29. desember 1993. Í fundargerðinni kemur fram að ætlun félagsins sé að leita eftir framlengingu á greiðslustöðvuninni og fáist hún muni verða leitað eftir nauðasamningum og að á fundinum hafi verið kynnt rekstraráætlun þar sem byggt sé á því að 80% af kröfum fáist niðurfelldar. Ekkert mun hafa orðið úr framlengingu greiðslustöðvunarinnar og með úrskurði 13. janúar 1994 var félagið úrskurðað gjaldþrota í Héraðsdómi ... Af hálfu kæranda er komið fram að tilfærð töpuð viðskiptakrafa á J hf. nemi um 63% af heildarskuld félagsins við kæranda. Með vísan til nefndra gagna er fallist á kröfu kæranda varðandi þetta kæruatriði með 3.318.108 kr. að frádregnum vöxtum 26.887 kr. eða 3.291.221 kr.

K hf. var úrskurðað gjaldþrota 26. maí 1994 samkvæmt því sem fram kemur í málsgögnum, en ekkert þykir liggja ekki fyrir af hálfu kæranda til stuðnings kröfu um leiðréttingu skattskyldrar veltu uppgjörstímabilið nóvember-desember 1993 vegna kröfu hans á hlutafélagið. Kröfu kæranda er því hafnað að þessu leyti.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á frádrátt að fjárhæð 3.536.917 kr. frá skattskyldri veltu kæranda uppgjörstímabilið nóvember-desember 1993.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja