Úrskurður yfirskattanefndar

  • Aðflutningsgjöld
  • Sérsmíðuð keppnisbifreið
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 156/2019

Lög nr. 29/1993, 4. gr. (brl. nr. 156/2010, 2. gr.), 27. gr.   Lög nr. 88/2005, 109. gr., 110. gr.   Reglugerð nr. 331/2000, 16. gr., 21. gr.  

Deiluefni í máli þessu laut að því hvort sportbifreið, sem bifreiðaumboð flutti til landsins, væri undanþegin vörugjaldi sem sérsmíðuð keppnisbifreið. Í úrskurði yfirskattanefndar var rakið að það væri fortakslaust skilyrði fyrir undanþágu slíkra bifreiða að bifreiðin væri einungis notuð í skipulögðum keppnum og æfingum á vegum samtaka akstursíþróttamanna. Kom fram að miðað við skýringar kæranda í málinu yrði ekki eingöngu um keppnis- og æfinganot bifreiðarinnar að ræða heldur jafnframt óskyld not í auglýsingaskyni, þ.e. til kennslu og kynningar fyrir viðskiptavini félagsins, sem ekki yrði annað séð en að leggja mætti að jöfnu við not venjulegra sýningarbifreiða til reynsluaksturs og þess háttar. Var kröfum kæranda hafnað.

Ár 2019, miðvikudaginn 2. október, er tekið fyrir mál nr. 53/2019; kæra A ehf., dags. 7. mars 2019, vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæra í máli þessu, dags. 7. mars 2019, varðar ákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings kæranda á bifreiðinni X, sbr. kæruúrskurð tollstjóra, dags. 19. desember 2018. Með úrskurði þessum hafnaði tollstjóri kröfu kæranda þess efnis að bifreiðin yrði talin undanþegin vörugjaldi sem sérsmíðuð keppnisbifreið samkvæmt l-lið 1. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurður tollstjóra verði felldur úr gildi. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Hin umdeilda ákvörðun tollstjóra var byggð á því, sbr. hinn kærða úrskurð, að það væri skilyrði fyrir undanþágu frá vörugjaldi vegna sérsmíðaðra keppnisbifreiða samkvæmt l-lið 1. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993, sbr. og 16. gr. reglugerðar nr. 331/2000, um vörugjald af ökutækjum, að slíkar bifreiðar skyldu einungis notaðar í skipulögðum keppnum og æfingum á vegum samtaka akstursíþróttamanna, svo og til aksturs til og frá slíkum atburðum. Vísaði tollstjóri til þess að komið hefði fram af hálfu kæranda við meðferð málsins, sbr. tölvupóst starfsmanns kæranda 10. október 2018, að ekki væri fyrirhugað af hálfu kæranda að selja bifreiðina heldur nýta hana í auglýsinga- og kynningarskyni. Ákvæði 1-liðar 1. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993, sem væri undantekningarákvæði sem skýra bæri þröngri lögskýringu, væri sett til þess að einstaklingar, sem tækju þátt í akstursíþróttum, gætu notið ívilnunar vörugjalds. Sú ívilnun væri hvorki hugsuð fyrir bílaumboð til að kynna og auglýsa ökutæki né almennt fyrir lögaðila. Þá taldi tollstjóri að samanburður kæranda við önnur undanþáguákvæði 4. gr. laga nr. 29/1993, svo sem vegna dráttarvéla þar sem ekki væri litið til þess við mat á skilyrðum undanþágu hvernig notkun dráttarvélar yrði háttað, fengi ekki staðist þar sem skilyrði lagaákvæða fyrir undanþágu frá vörugjaldi væru ólík eftir því hvers konar ökutæki ættu í hlut, sbr. t.d. margháttuð skilyrði fyrir niðurfellingu gjaldsins vegna innflutnings leigubifreiða. Af sömu ástæðum yrði ekki fallist á með kæranda að um brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 væri að ræða í tilviki kæranda. Með vísan til framangreinds væri það niðurstaða tollstjóra að synja beiðni kæranda um eftirgjöf vörugjalds vegna innflutnings bifreiðarinnar X.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar kemur fram að krafa kæranda um ógildingu á úrskurði tollstjóra sé bæði byggð á formlegum og efnislegum rökum. Að því er formhlið málsins snertir er í fyrsta lagi byggt á því að kæranda hafi ekki borið að sækja sérstaklega um undanþágu frá vörugjaldi vegna innflutnings bifreiðarinnar X, enda feli ákvæði l-liðar 1. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993 ekki í sér heimild fyrir tollstjóra til að gefa eftir vörugjald heldur sé um að ræða bein ákvæði þess efnis að tiltekin ökutæki beri ekki vörugjald. Gert sé ráð fyrir því að slíkar bifreiðar séu sérstaklega skráðar og auðkenndar og þannig komið í veg fyrir að þær séu notaðar í almennum akstri, sbr. b-lið 2. mgr. 19. gr. reglugerðar nr. 751/2003, um skráningu ökutækja. Kærandi telji því vafalaust að tollstjóri hafi brotið gegn stjórnsýslulögum nr. 37/1993 þegar embættið hafnaði fyrirfram eftirgjöf vörugjalds vegna innflutningsins. Þá telji kærandi að tollstjóra hafi borið að afla frekari gagna og upplýsinga hafi embættið ekki talið skilyrði undanþágu uppfyllt í tilviki kæranda, sbr. 10. gr. laga nr. 37/1993, og tilkynna kæranda um fyrirhugaða álagningu vörugjalds eða synjun á umsókn um eftirgjöf vörugjalds þannig að andmælaréttar kæranda væri gætt, sbr. 13. gr. fyrrnefndra laga. Þar sem um alvarleg brot á stjórnsýslulögum nr. 37/1993 sé að ræða beri að ógilda ákvörðun tollstjóra. Engu máli geti skipt í þessu sambandi þótt kæranda hafi verið kunnugt um að málið hafi verið til meðferðar hjá tollstjóra, enda komi fram í athugasemdum með stjórnsýslulögum nr. 37/1993 að veita beri andmælarétt þegar um mál sé að ræða sem hefjist að frumkvæði aðila máls, sbr. t.d. SUA 1989:35.

Þá kemur fram í kærunni að í ákvörðun tollstjóra sé snúið út úr svörum starfsmanns kæranda, enda hafi komið skýrt fram af hálfu kæranda að fyrirhugað væri að nota bifreiðina í keppnum hérlendis, svo og til kennslu í kappakstri. Því sé rangt að megintilgangur kæranda sé að nýta bifreiðina í auglýsinga- og kynningarskyni, þvert á móti sé megintilgangurinn að nota bifreiðina til kappaksturs. Þátttaka í slíkum keppnum hérlendis og erlendis fari ávallt öðrum þræði fram í markaðsskyni. Engin rök séu færð fyrir því af hálfu tollstjóra að sú aðstaða, að kappakstursbifreið kunni jafnframt að vera notuð í markaðsskyni, girði fyrir rétt til niðurfellingar vörugjalds, enda séu engin slík skilyrði sett í lögum og reglum. Vegna sjónarmiða tollstjóra þess efnis, að undanþágan hafi verið sett til hagsbóta fyrir einstaklinga sem stundi kappakstur en ekki bílaumboð eða lögaðila, tekur kærandi fram að hvorki í ákvæðinu sjálfu né lögskýringargögnum að baki því sé að finna neina markmiðsyfirlýsingu með ákvæðinu. Ekki verði ályktað um slíkan tilgang af „anda laganna“ sem tollstjóri hafi vísað til. Ástæður að baki nánast öllum undanþágum frá vörugjaldi vegna innflutnings ökutækja séu þær að um atvinnutæki sé að ræða, sbr. t.d. undanþágu vegna dráttarvéla og leigubifreiða. Ástundun akstursíþrótta sé sjaldnast áhugamál heldur sé yfirleitt um að ræða útgerð bifreiða í atvinnuskyni með sölu auglýsinga o.fl. Í hinni alkunnu Formúlu 1 keppni séu bifreiðar þannig notaðar í auglýsinga- og markaðsskyni fyrir bifreiðaframleiðendur og bifreiðarnar sjálfar séu í eigu lögaðila en ekki ökumanna.

Kærandi bendir á í kærunni að bifreiðin X uppfylli öll skilyrði þess að njóta undanþágu frá vörugjaldi, sbr. l-lið 1. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993 og ákvæði reglugerðar nr. 331/2000. Tollstjóra sé ekki heimilt að bæta við skilyrðum með vísan til þess að þau séu í „anda laganna“, enda séu slíkir stjórnsýsluhættir algerlega ófyrirsjáanlegir og án heimilda í lögum. Því sé alfarið mótmælt að undanþágan sé bundin við einstaklinga og taki því ekki til lögaðila, enda hefði þá þurft að taka sérstaklega fram um það í lögunum. Ýmis ökutæki séu undanþegin vörugjaldi án tillits til þess tilgangs sem kunni að búa að baki innflutningi þeirra, sbr. t.d. dráttarvélar. Eignarhald dráttarvélarinnar skipti engu máli við úrlausn þess hvort undanþága h-liðar 1. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993 eigi við, þ.e. hvort eigandi sé lögaðili eða einstaklingur. Í reglugerð nr. 331/2000 séu engin slík skilyrði um eignarhald sett, nema í tilviki slökkviliðs- og sjúkrabifreiða af augljósum ástæðum þar sem aðeins hinu opinbera sé heimilt að eiga og reka slík ökutæki. Að því er snertir kappakstursbifreiðar standi engin málefnaleg rök til þess að tilgangur með þátttöku í aksturskeppni eigi að skipta máli við mat á skilyrði undanþágu – aðalatriðið sé að viðkomandi bifreið sé ekki notuð til annars en kappaksturs og æfinga.

Í niðurlagi kærunnar kemur fram að kostnaður kæranda af rekstri málsins nemi alls 358.360 kr. vegna tíu klukkustunda vinnu lögmanns félagsins.

II.

Með bréfi, dags. 23. maí 2019, hefur tollstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að ákvörðun embættisins verði staðfest. Í umsögninni er mótmælt þeim rökum að kærandi hafi ekki þurft að sækja um undanþágu frá vörugjaldi vegna innflutnings bifreiðarinnar X, sbr. 2. tölul. 16. gr. reglugerðar nr. 331/2000 sem sett sé á grundvelli 4. gr. og 28. gr. laga nr. 29/1993. Þá hafnar tollstjóri sjónarmiðum kæranda varðandi ágalla á málsmeðferð að öðru leyti, enda hafi umsókn félagsins ekki verið synjað fyrirfram heldur að undangengnu mati tollstjóra og upplýsingaöflun varðandi fyrirhuguð not ökutækisins. Í málinu sé deilt um túlkun undanþáguákvæða l-liðar 1. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993 og 16. gr. reglugerðar nr. 331/2000, en slík ákvæði beri að túlka þröngt. Við framkvæmd laga á sviði skattheimtu sé mikilvægt að gæta jafnræðis með borgurunum, sbr. 65. gr. stjórnarskrár. Skilyrði fyrir umræddri undanþágu sé að viðkomandi ökutæki sé einungis notað í skipulögðum keppnum og æfingum á vegum samtaka akstursíþróttamanna og þótt telja megi víst að bifreið kæranda verði notuð sem slík sé ljóst að tilgangur innflytjanda með innflutningi ökutækisins sé ekki einskorðaður við þau afmörkuðu not sem tilgreind séu í greindum ákvæðum heldur einnig til kennslu og markaðssetningar. Skilyrði fyrir undanþágu frá vörugjöldum sé að not ökutækis séu háð takmörkunum. Að öðru leyti séu áður fram komin rök tollstjóra í málinu áréttuð.

Með bréfi, dags. 20. júní 2019, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögn tollstjóra. Í bréfi kæranda eru sjónarmið félagsins ítrekuð og tekið fram að kærandi telji hina kærðu synjun brjóta gegn jafnræðisreglum, enda uppfylli bifreiðin X öll skilyrði þess að teljast undanþegin vörugjaldi sem kappakstursbifreið. Tollstjóra sé ekki heimilt að setja frekari skilyrði fyrir lögmæltri undanþágu frá gjöldum en tiltekin séu í lagaákvæðinu sjálfu. Bréfinu fylgja gögn um kostnað kæranda af rekstri málsins, þ.e. afrit af reikningum lögmannsstofu.

III.

Kæra í máli þessu varðar ákvörðun aðflutningsgjalda, nánar tiltekið vörugjalds, vegna innflutnings kæranda á bifreið á árinu 2018, sbr. úrskurð tollstjóra, dags. 19. desember 2018. Um er að ræða bifreið af tegundinni ... með fastnúmerið X. Af hálfu kæranda er byggt á því að bifreiðin sé undanþegin vörugjaldi sem sérsmíðuð keppnisbifreið samkvæmt l-lið 1. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., sbr. 16. gr. reglugerðar nr. 331/2000, um vörugjald af ökutækjum, með áorðnum breytingum. Því hafnaði tollstjóri á þeim forsendum að kærandi, sem væri bifreiðaumboð, hygðist nýta bifreiðina í auglýsinga- og kynningarskyni og því væri það skilyrði fyrir umræddri undanþágu, að keppnisbifreið væri einungis notuð í skipulögðum keppnum og æfingum á vegum samtaka akstursíþróttamanna, svo og til aksturs til og frá slíkum atburðum, ekki uppfyllt í tilviki kæranda. Kom m.a. fram af hálfu tollstjóra í því sambandi að tilgangur að baki eftirgjöf vörugjalds vegna sérsmíðaðra keppnisbifreiða væri sá að einstaklingar, er legðu stund á akstursíþróttir, nytu viðkomandi undanþágu „og að slík ívilnun [væri] ekki hugsuð fyrir bílaumboð til að kynna og auglýsa ökutæki né almennt fyrir lögaðila“, eins og sagði í hinum kærða úrskurði tollstjóra.

Af hálfu kæranda er þess krafist í kæru til yfirskattanefndar að ákvörðun tollstjóra verði hnekkt. Í kærunni eru gerðar athugasemdir við að kæranda hafi verið gert að sækja sérstaklega um undanþágu frá vörugjaldi vegna innflutnings bifreiðarinnar X. Af því tilefni skal tekið fram að í 21. gr. reglugerðar nr. 331/2000, um vörugjald af ökutækjum, sem sett er á grundvelli heimildar í 28. gr. laga nr. 29/1993, kemur fram að umsókn um lækkun eða niðurfellingu vörugjalds samkvæmt V. kafla reglugerðarinnar, sem m.a. varðar sérsmíðaðar keppnisbifreiðar, sbr. 16. gr. hennar, skuli beint til tollstjóra sem jafnframt annist framkvæmd lækkunar eða niðurfellingar, þar með talið tilkynningar til skráningaraðila, sbr. 3. mgr. 21. gr. reglugerðarinnar. Er tekið fram í 2. mgr. sömu greinar að aðili, sem nýtur lækkunar eða niðurfellingar vörugjalds samkvæmt 14.-17. gr. eða 2.-7. tölul. 1. mgr. 19. gr. skuli undirrita yfirlýsingu þar sem fram komi að hann skuldbindi sig til að hlíta þeim skilyrðum sem sett séu í fyrrgreindum ákvæðum um nýtingu ökutækis o.fl. Að þessu gættu, sbr. ennfremur 16. gr. reglugerðarinnar, verður ekki fallist á framangreind sjónarmið kæranda. Þá verður ekki fallist á með kæranda að málsmeðferð tollstjóra hafi að öðru leyti verið ábótavant, enda liggur fyrir að um var að ræða álagningu aðflutningsgjalda vegna innflutnings bifreiðarinnar X á grundvelli XIV. kafla tollalaga nr. 88/2005, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 29/1993 þar sem fram kemur að ákvæði tollalaga skuli gilda, eftir því sem við getur átt, um m.a. gjaldskyldu, álagningu og úrskurð um flokkun til gjaldskyldu samkvæmt hinum síðarnefndu lögum að því leyti sem ekki er kveðið á um þessi atriði í þeim. Um málsmeðferð við þessar aðstæður er fjallað í 109. og 110. gr. tollalaga nr. 88/2005. Með vísan til þessa verður ákvörðun tollstjóra ekki felld úr gildi á þeim forsendum að farið hafi verið á svig við lögmæltan andmælarétt kæranda.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 29/1993 skal greiða í ríkissjóð vörugjald af ökutækjum sem skráningarskyld eru samkvæmt umferðarlögum nr. 50/1987, svo sem nánar greinir í lögunum. Í 3. gr. laga þessara, sbr. 1. gr. laga nr. 156/2010, er mælt fyrir um álagningu vörugjalds á fólksbifreiðar og önnur vélknúin ökutæki, sem ekki eru sérstaklega tilgreind í 4. og 5. gr. laganna, svo sem nánar er útfært miðað við skráða losun koltvísýrings. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 29/1993 nær gjaldskyldan til allra vara, sbr. 1. gr., nýrra sem notaðra, sem fluttar eru til landsins eða eru framleiddar, unnið er að eða settar eru saman hér á landi. Í 4. og 5. gr. laganna, sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 156/2010, er kveðið á um undanþágu frá vörugjaldi eða lægra vörugjald en leiðir af reglum 3. gr. laganna vegna sérstakra flokka ökutækja. Samkvæmt 1-lið 1. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993 eru sérsmíðaðar keppnisbifreiðar og keppnisbifhjól sem eru skráð sem slík og einungis notuð í skipulögðum keppnum og æfingum á vegum samtaka akstursíþróttamanna, svo og til aksturs til og frá slíkum atburðum, undanþegin vörugjaldi. Er tekið fram að skráningarmerki bifreiðanna og bifhjólanna skuli auðkennd sérstaklega og að ráðherra setji nánari reglur um gerð og útbúnað þeirra, svo og til hvaða atburða akstursheimildin taki. Sé brotið í bága við þær reglur skuli vörugjald innheimt að fullu.

Fyrrgreint undanþáguákvæði vegna keppnisbifreiða og -bifhjóla var tekið upp með 11. gr. laga nr. 151/1998, um breyting á lögum nr. 29/1993 og fleiri lögum. Í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis var gerð sú grein fyrir laganýmæli þessu, sbr. þskj. nr. 557 á 123. löggjafarþingi 1998-99, að lagt væri til að sérsmíðaðar keppnisbifreiðar yrðu undanþegnar vörugjaldi. Var tekið fram að hér væri eingöngu átt við bifreiðar sem væru sérsmíðaðar frá grunni sem keppnisbifreiðar en ekki venjulegar fólksbifreiðar sem hefði verið breytt.

Um niðurfellingu vörugjalds af keppnisbifreiðum og -bifhjólum eru frekari ákvæði í 16. gr. fyrrnefndrar reglugerðar nr. 331/2000, um vörugjald af ökutækjum. Í 1. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 193/2008, segir að vörugjald skuli falla niður af sérsmíðuðum bifreiðum til keppni í rallakstri, sem skráðar eru sem slíkar, ökutækjum sem ekki eru skráningarskyld og sérsmíðuð eru til nota í kvartmílukeppni, torfærugrindum til nota í torfærukeppni og kappakstursbifreiðum til nota á lokuðum brautum til akstursíþrótta. Þá segir í 2. mgr. 16. gr. að niðurfelling vörugjalds samkvæmt 1. mgr. sé háð því skilyrði að næstu sjö ár eftir nýskráningu bifreiðar verði tiltekin skilyrði uppfyllt sem talin eru í fjórum töluliðum. Lúta þau skilyrði að ýmsum atriðum varðandi notkun, útbúnað og skráningu ökutækjanna. Samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. skal ökutæki ætlað til og einungis notað í aksturskeppnum sem haldnar eru í samræmi við reglur um akstursíþróttir og aksturskeppni og haldnar eru á ábyrgð og samkvæmt reglum samtaka um akstursíþróttir, svo sem nánar greinir. Verður að ætla að hér séu einkum höfð í huga ákvæði reglugerðar nr. 507/2007, um akstursíþróttir og aksturskeppni, með síðari breytingum. Í 4. tölul. 2. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 331/2000 kemur fram að ökutækjum sem njóta niðurfellingar samkvæmt greininni er óheimilt að aka á vegum. Þó sé heimilt að aka sérsmíðuðum rallbifreiðum á vegum vegna þátttöku í rallaksturskeppnum samkvæmt reglum um akstursíþróttir og aksturskeppni og til æfingaaksturs samkvæmt sömu reglum. Í 3. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar kemur fram að sé brotið gegn framangreindum skilyrðum gildi ákvæði 20. gr. reglugerðarinnar um greiðslu fulls vörugjalds og lögveð. Um greiðslu mismunar á niðurfelldu vörugjaldi og fullu vörugjaldi vegna sölu eða breyttrar nýtingar gildi ákvæði 22. gr.

Við meðferð máls kæranda hjá tollstjóra kom fram það sjónarmið embættisins, sbr. hér að framan, að tilgangur með undanþágu vörugjalds vegna keppnisbifreiða, sbr. ákvæði l-liðar 1. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993, væri sá að undanþágunnar nytu einstaklingar sem tækju þátt í akstursíþróttum en ekki bifreiðaumboð eða lögaðilar almennt. Í tilefni af þessari umfjöllun tollstjóra er rétt að taka fram að undanþágur 4. gr. laga nr. 29/1993 taka til tilgreindra ökutækja sem talin eru í einstökum töluliðum greinarinnar. Ráðast undanþágur laganna þannig fyrst og fremst af hlutrænum atriðum er varða ökutækin sjálf. Samkvæmt því og þar sem gjaldskylda eftir lögunum tekur jafnt til einstaklinga og lögaðila, sbr. 1. og 2. gr. þeirra, er ljóst að lögaðilar fá almennt notið undanþága samkvæmt ákvæðum 4. gr. laganna að uppfylltum þargreindum skilyrðum, nema annað sé sérstaklega tekið fram, sbr. t.d. ákvæði m-liðar 1. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993. Verður því að fallast á með kæranda að lögaðilar geti út af fyrir sig notið undanþágu samkvæmt l-lið 1. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993 vegna innflutnings sérsmíðaðra keppnisbifreiða, enda kemur ekkert annað fram hvorki í ákvæðinu sjálfu, ákvæði 16. gr. reglugerðar nr. 331/2000 né í lögskýringargögnum, sbr. það sem áður er rakið.

Ágreiningslaust er í málinu að bifreiðin X teljist sérsmíðuð keppnisbifreið í skilningi l-liðar 1. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993 að því er snertir gerð hennar og útbúnað, sbr. einkum ákvæði 2. tölul. 16. gr. fyrrnefndrar reglugerðar nr. 331/2000 og fyrirliggjandi yfirlýsingu Akstursíþróttasambands Íslands, dags. 20. september 2018, sem fylgdi kæru til tollstjóra. Deilt er hins vegar um hvort það skilyrði lagaákvæðisins, að bifreið sé eingöngu ætluð til nota í skipulögðum keppnum og æfingum á vegum samtaka akstursíþróttamanna, sé uppfyllt í málinu, en því hafnaði tollstjóri á þeim forsendum að megintilgangur kæranda væri sá að nýta bifreiðina í auglýsinga- og kynningarskyni. Vísaði tollstjóri í því sambandi til þeirra skýringa starfsmanns kæranda í tölvupósti 10. október 2018 að af hálfu kæranda væri ráðgert að nýta bifreiðina í keppnum „og til kynningar á því stórkostlegasta sem ... hefur upp á að bjóða hvað varðar aksturseiginleika og útlit sérsmíðaðra keppnistækja“, eins og segir í tölvupósti þessum. Kom fram að bifreiðin yrði notuð í þeim keppnum sem hún væri gjaldgeng í hér á landi sem og í því skyni að bjóða upp á kennslu í akstri á hringakstursbraut Kvartmíluklúbbsins í Kapelluhrauni undir leiðsögn þjálfaðs ökukennara. Væri sú kennsla hugsuð fyrir núverandi og verðandi viðskiptavini kæranda.

Samkvæmt ákvæði l-liðar 1. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993 er það fortakslaust skilyrði fyrir undanþágu frá vörugjaldi vegna sérsmíðaðra keppnisbifreiða að slík bifreið sé einungis notuð í skipulögðum keppnum og æfingum á vegum samtaka akstursíþróttamanna, svo og til aksturs til og frá slíkum atburðum. Sé um önnur not bifreiðar að ræða eru skilyrði fyrir undanþágu því brostin og skal vörugjald þá innheimt að fullu, sbr. niðurlag ákvæðisins. Fallast má á með kæranda að eins og skilyrði undanþágunnar eru mörkuð í greindu lagaákvæði, sbr. og 16. gr. reglugerðar nr. 331/2000, girði ekki fyrir undanþágu þótt áskilin not bifreiðar í aksturskeppni séu gerð í kynningar- eða auglýsingaskyni. Í tilviki kæranda liggur á hinn bóginn fyrir samkvæmt skýringum félagsins að bifreiðin X er jafnframt ætluð til annarra nota en til keppnisþátttöku, þ.e. til kennslu og kynningar fyrir viðskiptavini bifreiðaumboðsins, sbr. hér að framan. Miðað við þær skýringar kæranda verður því ekki eingöngu um keppnis- og æfinganot bifreiðarinnar að ræða heldur jafnframt óskyld not í auglýsingaskyni sem ekki verður annað séð en að leggja megi að jöfnu við not venjulegra sýningarbifreiða til reynsluaksturs og þess háttar. Með vísan til framanritaðs verður ekki talið að skilyrði l-liðar 1. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993 fyrir undanþágu frá vörugjaldi séu uppfyllt í tilviki bifreiðarinnar X, sbr. og ákvæði 1. tölul. 2. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 331/2000. Verður því að hafna kröfu kæranda í máli þessu. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna málskostnaðarkröfu kæranda, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja