Úrskurður yfirskattanefndar

  • Auðlegðarskattur
  • Viðbótarauðlegðarskattur
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 158/2019

Gjaldár 2014

Lög nr. 90/2003, 72. gr., 73. gr. 5. tölul., bráðabirgðaákvæði XXXIII og XLVII.  

Kæruefnið í máli þessu var sú ákvörðun ríkisskattstjóra að hækka stofn kærenda til viðbótarauðlegðarskatts gjaldárið 2014 vegna hlutafjáreignar í M ehf. Voru forsendur þeirrar ákvörðunar þær að vegna breytinga, sem ríkisskattstjóri hefði gert á skattframtali M ehf. árið 2013 með úrskurði þar um, hefði hlutafjáreign kærenda í M ehf. verið færð til eignar við of lágu verði í skattskilum þeirra umrætt ár. Yfirskattanefnd taldi ekki skilyrði til þess í máli kærenda að fjalla sérstaklega um formleg atriði í tengslum við úrskurð ríkisskattstjóra í máli M ehf., m.a. í ljósi dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 763/2017. Þá var talið að kærendur hefðu átt þess kost að koma á framfæri efnislegum athugasemdum vegna þeirrar ályktunar ríkisskattstjóra að þau hefðu vantalið viðbótarstofn til auðlegðarskatts í skattframtali árið 2014. Var kröfum kærenda hafnað.

Ár 2019, miðvikudaginn 2. október, er tekið fyrir mál nr. 48/2019; kæra A og B, dags. 20. febrúar 2019, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2014. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 20. febrúar 2019, hafa kærendur skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 20. nóvember 2018, um endurákvörðun opinberra gjalda kærenda gjaldárið 2014. Kæruefni málsins er sú ákvörðun ríkisskattstjóra að hækka stofn kærenda til viðbótarauðlegðarskatts um 184.675.675 kr. hjá hvoru þeirra um sig gjaldárið 2014. Voru forsendur þessara breytinga ríkisskattstjóra þær að vegna breytingar, sem ríkisskattstjóri hefði gert á skattframtali M ehf. árið 2013, hefði stofn kærenda til viðbótarauðlegðarskatts verið vantalinn í skattframtali þeirra árið 2014.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi. Þá er þess krafist að kærendum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Helstu málavextir eru þeir að skattframtali kærenda árið 2014 fylgdu greinargerðir um viðbót við auðlegðarskattsstofn, endurreikningur vegna hlutabréfaeignar í árslok 2012, RSK 3.23. Kom fram í greinargerðunum að kærendur væru eigendur að hlutabréfum í M ehf. hvort um sig að nafnverði 250.000 kr. í árslok 2012. Raunvirði hlutabréfanna hjá hvoru kærenda um sig næmi 306.881.550 kr. miðað við stuðul 1.227,5262 og var mismunur á raunvirði hlutabréfanna og nafnverði þeirra í árslok því tilfærður 306.631.550 kr. í tilviki hvors kærenda um sig.

Í framhaldi af bréfaskiptum, sbr. bréf ríkisskattstjóra, dags. 27. mars 2018, sem ítrekað var með bréfi, dags. 26. apríl 2018, og svarbréfi umboðsmanns kærenda, dags. 4. júní 2018, boðaði ríkisskattstjóri kærendum með bréfi, dags. 19. september 2018, endurákvörðun opinberra gjalda þeirra árið 2014 þar sem fyrirhugað væri að hækka stofn kærenda til viðbótarauðlegðarskatts um 184.675.675 kr. hjá hvoru kærenda. Tók ríkisskattstjóri fram að í framhaldi af breytingum sem gerðar hefðu verið á skattframtali M ehf. árið 2013 þætti þurfa að hækka raunvirði hlutabréfanna í skattframtali kærenda árið 2014. Um væri að ræða skattlagningu viðbótarauðlegðarskatts á hlutabréfaeign, sbr. bráðabirgðaákvæði XXXIII, XXXIX og XLVII í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þar sem M ehf. hefði ekki verið skráð í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði hefði kærendum borið að telja fram til auðlegðarskatts hlutdeild sína í skattalegu bókfærðu eigin fé félagsins eins og það hefði verið talið fram í skattframtali félagsins árið á undan. Í ljósi þess að sú fjárhæð sem kærendur hefðu miðað við sem raunvirði hlutafjáreignar sinnar í M ehf. væri ekki rétt þætti verða að leiðrétta skattframtal þeirra árið 2014. Stuðull til útreiknings á viðbótarauðlegðarskatti vegna eignarhlutar kærenda í M ehf. hefði verið 1.227,5262 í skattframtali kærenda. Skattalegt eigið fé félagsins vegna auðlegðarskatts hefði numið 1.107.028.561 kr. samkvæmt innsendu skattframtali félagsins árið 2013. Eftir leiðréttingu á því skattframtali næmi skattalegt eigið fé félagsins vegna auðlegðarskatts 1.773.218.023 kr. Um væri að ræða afleidda breytingu vegna hækkunar ríkisskattstjóra á raunvirði D ehf. sem að hluta hefði verið í eigu M ehf. í lok árs 2012, en breyting á skattframtali D ehf. árið 2013 hefði falist í leiðréttingu á fjárhæð í reit 7090 „leiðrétting á eignarhluta í öðrum félögum“ sem hefði leitt til hækkunar á skattalegu eigin fé félagsins vegna auðlegðarskatts um 4.212.193.253 kr. í reit 7995. Samkvæmt þessu ætti stuðull vegna útreiknings viðbótarauðlegðarskatts vegna hlutabréfaeignar í M ehf. að vera 1.966,2289 í skattframtali kærenda árið 2014.

Af hálfu kærenda var fyrirhuguðum breytingum ríkisskattstjóra mótmælt með bréfi, dags. 22. október 2018. Var m.a. vísað til þess í bréfinu að M ehf. hefði verið slitið á árinu 2016 og það afskráð á árinu 2017. Fyrirliggjandi tilkynning ríkisskattstjóra um heimild til slita á félaginu yrði ekki túlkuð öðru vísi en að þeim málum sem opin hefðu verið gagnvart félaginu hjá ríkisskattstjóra hefði verið lokið, sbr. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hefði ríkisskattstjóri því ekki verið heimilt að gera breytingar á skattalegu eigin fé M ehf. vegna auðlegðarskatts. Þá voru gerðar athugasemdir við að kærendur hefðu ekki fengið aðild að máli M ehf. hjá ríkisskattstjóra, en kærendur hefðu haft hagsmuni af því. Einnig var bent á að kærendur hefðu haft takmarkaða skattskyldu hér á landi í lok árs 2013, enda hefðu þau flutt til útlanda í september það ár. Þar sem ríkisskattstjóra hefði verið óheimilt að endurákvarða opinber gjöld M ehf. væri ríkisskattstjóra ekki heimilt að endurákvarða opinber gjöld kærenda gjaldárið 2014.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 20. nóvember 2018, hratt ríkisskattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd og endurákvarðaði opinber gjöld kærenda gjaldárið 2014 til samræmis. Með úrskurðinum hækkaði stofn kærenda til viðbótarauðlegðarskatts um 184.675.675 kr. hjá hvoru kærenda um sig. Í úrskurðinum tók ríkisskattstjóri afstöðu til andmæla kærenda frá 22. október 2018 en taldi þau ekki gefa tilefni til að falla frá boðuðum breytingum. Vegna athugasemda um slit M ehf. og heimildir ríkisskattstjóra til endurákvörðunar að þeim loknum tók ríkisskattstjóri fram að með bréfi, dags. 24. ágúst 2017, hefði félaginu verið tilkynnt að það hefði lokið sínum skattalegu skyldum og því mætti slíta félaginu. Ekki hefði verið um að ræða tilkynningu til félagsins um að þau mál sem til vinnslu væru hjá embættinu og snertu félagið hefðu verið felld niður. Hins vegar hefði legið fyrir að það mál sem enn væri til vinnslu hjá ríkisskattstjóra myndi ekki leiða til gjaldabreytinga hjá félaginu. Vegna athugasemda kærenda um að ríkisskattstjóra hefði verið rétt að veita þeim andmælarétt vegna breytinga á skattalegu eigin fé M ehf. vísaði ríkisskattstjóri til þess að yfirskattanefnd hefði í úrskurði sínum nr. 37/2017 staðfest að kærandi í því máli hefði ekki átt kröfu um aðild í máli félags sem hann átti eignarhlut í og verið hafi til grundvallar álagningu viðbótarauðlegðarskatts hans. Umrætt mál væri sambærilegt máli kærenda. Vegna þeirra athugasemda kærenda að þau hefðu borið takmarkaða skattskyldu á Íslandi í lok árs 2013 tók ríkisskattstjóri fram að álagning viðbótarauðlegðarskatts gjaldárið 2014 miðaðist við stöðu eigna í lok árs 2012, en fyrir lægi að kærendur hefðu borið fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi af tekjum og eignum í lok árs 2012. Á þessum tíma hefði mönnum samkvæmt bráðabirgðaákvæði XLVII í lögum nr. 90/2003, sbr. a-lið 14. gr. laga nr. 164/2011, sbr. einnig ákvæði til bráðabirgða XXXIII í sömu lögum, sbr. d-lið 24. gr. laga nr. 128/2009, verið skylt að greiða auðlegðarskatt hér á landi bæru þeir ótakmarkaða skattskyldu hér á landi á grundvelli 1. gr. laga nr. 90/2003 og takmarkaða skattskyldu á grundvelli 4.-9. tölul. 1. mgr. 3. gr. sömu laga. Skyldi miða við auðlegðarskattsstofn í árslok, sbr. d-lið ákvæðisins, en til skattstofns teldust framtalsskyldar eignir samkvæmt 72. gr. laga nr. 90/2003 að frádregnum skuldum eftir því sem nánar væri kveðið á um í a-, b- og c-liðum bráðabirgðaákvæðisins. Væri því ekki ástæða til að falla frá boðuðum breytingum.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 20. febrúar 2019, er gerð grein fyrir forsögu málsins sem hafi verið hækkun ríkisskattstjóra á skattalegu eigin fé D ehf. í skattframtali félagsins árið 2013 með úrskurði, dags. 17. febrúar 2016. Í kjölfar þeirrar breytingar hafi ríkisskattstjóri hækkað skattalegt eigin fé M ehf. í skattframtali þess félags árið 2013 með úrskurði, dags. 6. febrúar 2018, vegna eignarhluta félagsins í D ehf. Með fyrirspurnarbréfi til kærenda, dags. 27. mars 2018, hafi kærendur verið upplýst um að ríkisskattstjóri væri með skattframtal þeirra árið 2014 til skoðunar og hafi máli kærenda lokið með hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 20. nóvember 2018, þar sem skattstofn kærenda til viðbótarauðlegðarskatts hafi verið hækkaður sökum hækkunar á stuðli vegna eignarhluta þeirra í M ehf.

Krafa kærenda um að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi byggir annars vegar á því að endurákvörðun opinberra gjalda kærenda fái ekki staðist þar sem M ehf. hafi verið slitið með ákvörðun hluthafafundar haustið 2016 og ríkisskattstjóra hafi því verið óheimilt að endurákvarða opinber gjöld M ehf. gjaldárið 2013. Hins vegar byggja kærendur á því að þau hefðu átt að eiga aðild að málum D ehf. og M ehf. frá upphafi málareksturs ríkisskattstjóra á hendur þeim félögum. Sé hér um að ræða verulegan annmarka á málsmeðferð ríkisskattstjóra og beri því að ómerkja úrskurð hans í máli kærenda.

Um hina fyrri málsástæðu kærenda er rakið kærunni að ríkisskattstjóra hafi verið tilkynnt um slit M ehf. haustið 2016, en með bréfi ríkisskattstjóra, dags. 9. febrúar 2017, hafi félaginu verið tilkynnt að ekki væri unnt að heimila slit félagsins á meðan fyrir hendi væru opin mál á hendur félaginu hjá ríkisskattstjóra. Um hafi verið að ræða mál sem snérist um hugsanlega breytingu á skattalegu eigin fé M ehf. vegna fyrirhugaðrar breytingar ríkisskattstjóra á skattalegu eigin fé D ehf., sem M ehf. væri hluthafi í. Með tölvupósti 24. ágúst 2017 hafi ríkisskattstjóri tilkynnt að M ehf. hefði lokið sínum skattalegu skyldum svo slíta mætti félaginu. Hafi félagið verið afskráð í kjölfar þess, enda hafi ríkisskattstjóri þá staðfest að engin mál væru opin á hendur félaginu hjá ríkisskattstjóra. Þrátt fyrir að félaginu hafi verið slitið og það afskráð á árinu 2017 hafi ríkisskattstjóri ákveðið að breyta skattframtali M ehf. árið 2013 með úrskurði, dags. 6. febrúar 2018, og hækka skattalegt eigið fé vegna auðlegðarskatts. Að mati kærenda sé engin heimild til staðar í lögum nr. 90/2003 sem heimili ríkisskattstjóra endurákvörðun opinberra gjalda eða breytingar á skattframtali félags sem hafi verið slitið. Ekki skipti máli þótt endurákvörðun ríkisskattstjóra hafi ekki leitt til gjaldabreytinga. Í öðru lagi telji kærendur að með því að heimila afskráningu M ehf. hafi ríkisskattstjóri verið búinn að fella niður það mál sem hafi verið opið og hafi því þar með lokið. Samkvæmt 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 geti stjórnvald afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila eða þegar ákvörðun er ógildanleg. Þar sem máli M ehf. hafi verið lokið hafi ríkisskattstjóra verið óheimilt að taka stjórnvaldsákvörðun með úrskurði um endurákvörðun opinberra gjalda kærenda. Loks er byggt á því að ríkisskattstjóra hafi skort lögvarða hagsmuni til þess að taka ákvörðun um endurákvörðun opinberra gjalda hjá félögum sem búið væri að slíta og afskrá og sem hefði ekki gjaldabreytingar í för með sér. Hafi fyrri úrskurðir ríkisskattstjóra og málarekstur í reynd verið gerður til að undirbyggja endurákvörðun opinberra gjalda kærenda.

Til stuðnings því að ríkisskattstjóri hefði átt að veita kærendum aðild að máli M ehf. og eftir atvikum D ehf. í upphafi er vísað til þess að ríkisskattstjóri hafi árum saman undirbúið íþyngjandi ákvörðun sem hafi lotið að endurákvörðun opinberra gjalda kærenda gjaldárið 2014. Hafi kærendur átt afleiddra, verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta af ákvörðun ríkisskattstjóra við breytingar á skattalegu eigin fé D ehf. og M ehf. Hefðu þau því átt að eiga kost á að gæta hagsmuna sinna frá upphafi við rekstur þeirra mála og hefði átt að veita þeim aðild að þeim málum. Kærendum hafi hins vegar fyrst verið veitt málsaðild þegar ríkisskattstjóri sendi þeim fyrirspurnarbréf 27. mars 2018, þó fyrir hafi legið árum saman að ríkisskattstjóri hygðist endurákvarða opinber gjöld þeirra. Sé óeðlilegt að stjórnvald sé árum saman að undirbyggja stjórnsýslumál gagnvart einstaklingum án þess að þeim sé veittur möguleiki á því að gæta réttinda sinna. Rétt hefði verið að veita kærendum aðild að málum sem leiddu til íþyngjandi ákvörðunar í máli þeirra.

IV.

Með bréfi, dags. 5. apríl 2019, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafðist þess að úrskurður embættisins yrði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 8. apríl 2019, var kærendum sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og þeim gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Kæra í máli þessu varðar hækkun ríkisskattstjóra á stofni til viðbótarauðlegðarskatts kærenda í skattframtali þeirra árið 2014 um 184.675.675 kr. hjá hvoru kærenda um sig vegna hlutafjáreignar þeirra í M ehf. í lok árs 2012, sbr. úrskurð ríkisskattstjóra um endurákvörðun opinberra gjalda árið 2014, dags. 20. nóvember 2018. Um heimild til álagningar viðbótarauðlegðarskatts var vísað til bráðabirgðaákvæða XXXIII, XXXIX og XLVII í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt. Byggði ríkisskattstjóri á því að kærendur hefðu vantalið raunvirði eignarhluta sinna í M ehf. en skattalegt eigið fé félagins hefði verið vantalið í skattframtali þess árið 2013, sbr. úrskurð ríkisskattstjóra í máli félagsins, dags. 6. febrúar 2018. Undanfari þess úrskurðar var hækkun ríkisskattstjóra á skattalegu eigin fé D ehf., sbr. úrskurð ríkisskattstjóra í máli þess félags, dags. 17. febrúar 2016, og úrskurð yfirskattanefndar nr. 194/2016 þar sem kröfu félagsins um niðurfellingu ákvörðunar ríkisskattstjóra var hafnað. Af hálfu D ehf. var ákvörðun ríkisskattstjóra borin undir dómstóla, en héraðsdómur vísaði málinu frá og var sá úrskurður héraðsdóms staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands 13. desember 2017 í máli nr. 763/2017. Í dómi Hæstaréttar kom fram að breyting ríkisskattstjóra á skattalegu eigin fé D ehf. hefði engin áhrif haft á gjöld félagsins og var því fallist á þá niðurstöðu úrskurðar héraðsdóms að D ehf. hefði ekki sýnt fram á að félagið hefði lögvarða hagsmuni af því að fá efnisdóm um kröfu sína á hendur íslenska ríkinu. Var talið að engu breytti þótt hluthafar D ehf. kynnu að telja sig hafa lögvarinna hagsmuna að gæta.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra um hækkun á stofni kærenda til viðbótarauðlegðarskatts gjaldárið 2014 verði felldur úr gildi. Er sú krafa annars vegar byggð á því að breyting ríkisskattstjóra á skattframtali M ehf. árið 2013, sem liggi til grundvallar endurákvörðun opinberra gjalda kærenda, hafi verið andstæð lögum. Þessu til stuðnings er vísað til þess að félaginu hafi verið slitið með ákvörðun hluthafafundar haustið 2016 og það afskráð á árinu 2017. Með því að heimila afskráningu félagsins hafi ríkisskattstjóri jafnframt fellt niður mál á hendur því sem hafi verið til meðferðar, en þá ákvörðun hefði ríkisskattstjóri aðeins getað afturkallað að uppfylltum skilyrðum 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hafi úrskurður ríkisskattstjóra í máli félagsins ekki leitt til gjaldabreytinga hjá félaginu og hafi ríkisskattstjóri ekki haft lögvarða hagsmuni af ákvörðuninni. Í öðru lagi er krafa kærenda byggð á því að ríkisskattstjóri hefði átt að veita þeim aðild að máli M ehf. og eftir atvikum D ehf. strax í upphafi, enda hafi kærendur átt afleiddra, verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta af ákvörðunum ríkisskattstjóra um breytingar á skattalegu eigin fé einkahlutafélaganna. Hefðu kærendur því átt að eiga kost á að gæta hagsmuna sinna frá upphafi við rekstur þeirra mála og hefði átt að veita þeim aðild að þeim málum.

Eins og fram er komið áttu þær breytingar sem kærendur sættu með hinum kærða úrskurði um endurákvörðun í máli þeirra, dags. 20. nóvember 2018, sér þann aðdraganda að ríkisskattstjóri gerði tilteknar breytingar á skattframtali M ehf. árið 2013 með úrskurði sínum, dags. 6. febrúar 2018. Málatilbúnaður kærenda í kæru til yfirskattanefndar gengur fyrst og fremst út á að kippa stoðum undan greindum úrskurði ríkisskattstjóra vegna M ehf. Ekki eru þó gerðar efnislegar athugasemdir við niðurstöðu ríkisskattstjóra í þeim úrskurði, en heimild ríkisskattstjóra til breytinga á skattskilum félagsins dregin í efa auk þess sem byggt er á meintum annmörkum á meðferð ríkisskattstjóra á máli félagsins, svo sem rakið hefur verið. M ehf. var sjálfstæður skattaðili, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003. Úrskurður ríkisskattstjóra í máli félagsins hefur ekki sætt kæru til yfirskattanefndar og stendur hann því óhaggaður. Forsendur í dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 763/2017, sem fyrr greinir, verður raunar að skilja þannig að við þær aðstæður sem hér um ræðir teljist ekki hafa farið fram skattákvörðun gagnvart hlutaðeigandi félagi.

Að þessu virtu verður ekki talið að skilyrði séu til þess í máli kærenda, sem hér er til úrlausnar, að fjalla sérstaklega um formleg atriði í tengslum við fyrrgreindan úrskurð ríkisskattstjóra í máli M ehf. Krafa kærenda verður því ekki tekin til greina á grundvelli málsástæðna er lúta að formlegri heimild ríkisskattstjóra til þeirrar ákvörðunar sem fólst í úrskurði embættisins í máli M ehf. frá 6. febrúar 2018. Vegna röksemda kærenda skal hins vegar almennt tekið fram að ekkert er því til fyrirstöðu að skattákvörðun sé beint að hlutafélagi eða einkahlutafélagi sem hefur verið slitið, hvort heldur um ræðir almenna álagningu samkvæmt 95. gr. laga nr. 90/2003, sbr. til hliðsjónar úrskurð yfirskattanefndar nr. 332/2011 og H 1992:1314, eða endurákvörðun eftir ákvæðum 96. gr. nefndra laga vegna starfstíma félagsins, sbr. t.d. úrskurð yfirskattanefndar nr. 187/2015. Þá verður ekki séð að neinu skipti hvort slit félags hafi farið fram eftir ákvæðum um félagsslit í XIII. kafla laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, og hliðstæðs kafla í lögum nr. 2/1995, eða félagi slitið án skuldaskila, eftir atvikum með samruna við annað félag, þótt ljóst megi vera að örðugt væri að koma fram innheimtu á skattkröfu sem kynni að leiða af endurákvörðun í hinu fyrrnefnda tilviki. Á það reyndi ekki í máli M ehf., enda leiddi úrskurður ríkisskattstjóra frá 6. febrúar 2018 ekki til hækkunar gjalda hjá félaginu.

Í annan stað er krafa kærenda um niðurfellingu hins kærða úrskurðar byggð á því að ríkisskattstjóri hefði átt að veita þeim aðild að máli M ehf./D ehf. vegna þeirra hagsmuna sem þau höfðu af ákvörðun skattalegs eigin fjár félaganna. Með hliðsjón af því sem að framan segir um úrskurð ríkisskattstjóra frá 6. febrúar 2018 í ljósi niðurstöðu í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 763/2017 verður ekki séð að þetta sjónarmið fái staðist, enda verður sem fyrr segir að byggja á því að engri eiginlegri skattákvörðun samkvæmt 96. gr. laga nr. 90/2003 sé til að dreifa í tilviki nefndra einkahlutafélaga um ágreiningsefnið. Hitt er annað mál að telja verður að af þessu leiði að ríkisskattstjóra hafi ekki einasta verið rétt að gera kærendum grein fyrir annmörkum sem hann taldi hafa verið á skattframtölum félaganna, hvort heldur var um að ræða beina eða óbeina eignaraðild kærenda, heldur einnig að veita úrlausn efnislegum viðbárum sem kærendur kynnu að hafa fram að færa varðandi hina meintu annmarka á skattskilum félaganna.

Í fyrirspurnarbréfi ríkisskattstjóra, dags. 27. mars 2018, boðunarbréfi, dags. 19. september 2018, og hinum kærða úrskurði var gerð grein fyrir lagagrundvelli málsins og tekið fram að stofn kærenda til viðbótarauðlegðarskatts í skattframtali þeirra árið 2014, vegna hlutdeildar í skattalegu eigin fé M ehf. vegna auðlegðarskatts, hefði verið miðaður við skattalegt eigið fé M ehf. eins og það hefði verið tilgreint í skattframtali félagsins árið 2013 áður en ríkisskattstjóri hefði breytt skattframtalinu og hækkað skattalegt eigið fé félagsins. Lýsti ríkisskattstjóri því yfir að félagið hefði vantalið skattalegt eigið fé í skattframtali sínu og bar tölulega saman stofn félagsins til skattalegs eigin fjár fyrir og eftir breytingu á skattframtali þess. Þá gerði ríkisskattstjóri grein fyrir ástæðum þessarar breytingar sem væru breyting sem gerð hefði verið á skattframtali D ehf. árið 2013 svo og rakti ríkisskattstjóri ástæður þeirrar breytingar.

Samkvæmt framansögðu voru forsendur til þess að kærendur gætu komið á framfæri efnislegum athugasemdum vegna þeirrar ályktunar ríkisskattstjóra að þau hefðu vantalið stofn til auðlegðarskatts (viðbótarstofn) í skattframtali sínu árið 2014. Hvorki við meðferð mál kærenda hjá ríkisskattstjóra né í kæru til yfirskattanefndar hafa komið fram efnislegar athugasemdir af þessu tagi. Rétt er að taka fram að yfirskattanefnd hefur þegar tekið efnislega afstöðu til breytingar ríkisskattstjóra á skattframtali D ehf. árið 2013, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 194/2016, þar sem fjallað var um viðbárur félagsins þar að lútandi. Vísast til niðurstöðu í þeim úrskurði að því leyti sem kærendur kunna að halda fram sömu efnislegu röksemdum og þar var um fjallað gagnvart hinum kærðu breytingum.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður ekki fallist á kröfu kærenda um ómerkingu eða breytingu á úrskurði ríkisskattstjóra um hækkun á stofni til auðlegðarskatts kærenda á grundvelli þeirra málsástæðna sem fram eru færðar í kæru. Þá þykir ekkert hafa komið fram í málinu sem gefur tilefni til að ætla annað en að ákvörðun ríkisskattstjóra hafi verið í samræmi við lög. Að svo vöxnu er kröfum kærenda í máli þessu hafnað, þar á meðal kröfu um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kærenda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja