Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 608/1990

Gjaldár 1987–1988

Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl. — 51. gr. 2. mgr.   Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða I.  

Vaxtagjöld — Vaxtaafsláttur — Vaxtafrádráttur — Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Eigin notkun — Íbúðarhúsnæði, eigin notkun — Eigin notkun íbúðarhúsnæðis — Íbúðarhúsnæði, öflun — Öflun íbúðarhúsnæðis — Útleiga — Útleiga íbúðarhúsnæðis — Starfslok — Verðbætur — Verðbætur, greiddar — Greiddar verðbætur — Gjaldfallnar verðbætur — Verðbætur, gjaldfallnar — Gjaldfallnar verðbætur gagnvart seljanda — Uppfærsla lána — RIS 1983.471 — RIS 1983.799 — Lögskýring — Sönnun — Búferlaflutningur innanlands — Fordæmisgildi stjórnvaldsákvörðunar

Málavextir eru þeir, að í framhaldi af bréfi sínu, dags. 9. febrúar 1989, felldi skattstjóri niður vaxtagjöld til frádráttar í reitum 87 í skattframtölum kærenda árin 1987 og 1988 77.004 kr. á fyrra framtalinu og 347.689 kr. á hinu síðara, sbr. endurákvörðun skattstjóra, dags. 24. febrúar 1989. Byggði skattstjóri þessa niðurfellingu á því, að ekki yrði séð, að kærendur hefðu átt íbúðarhúsnæði til eigin nota á þeim árum, sem um ræddi. Kærendur hefðu hvorki búið í fyrri íbúð sinni að A né núverandi íbúð að B.

Af hálfu kærenda var þessum breytingum mótmælt í kæru til skattstjóra, dags. 22. mars 1989. Kom þar fram, að kærendur hefðu selt íbúð sína á Akureyri og fest kaup á íbúð í Reykjavík í staðinn, enda hefðu þau áformað flutning til Reykjavíkur. Af persónulegum ástæðum hefði það dregist. Því hefði verið tekið á leigu húsnæði á Akureyri af sama aðila og haft hefði húsnæði kærenda í Reykjavík á leigu. Bæri því að taka tillit til þessara sérstöku aðstæðna og líta á húsnæðið sem íbúðarhúsnæði til eigin nota. Í bréfi, dags. 28. mars 1989, gerði umboðsmaður kærenda nánari grein fyrir málavöxtum og lagarökum. Segir þar m.a.:

„Samkvæmt úrskurði þínum er frádráttur þessara gjalda ekki heimill. Forsendur eru þær, að ekki sé um íbúð til eigin nota að ræða. Ég vil kæra þessa niðurstöðu með eftirfarandi skýringum. Umbjóðendur mínir seldu fyrir fáeinum árum raðhús sitt á Akureyri með það fyrir augum að flytjast til Reykjavíkursvæðisins. Þau keyptu íbúð að A, sem þau selja síðan 1987 og kaupa síðan sama ár íbúð að B, Reykjavík. Báðar þessar íbúðir hafa verið í útleigu og á meðan hafa hjónin leigt á Akureyri, þar sem börn þeirra eru búsett.

Aldrei hefur annað staðið til en, að þau flytji í eigin íbúð, þó það hafi dregist á langinn.

Ég vil vísa til úrsk. R.sk.n. nr. 271/1983, þar sem túlkun á E-lið 1. mgr. 30. gr. l. nr. 75/1981 er afdráttarlaust á þann veg, að lagaákvæðið gefi ekki tilefni til, að skattaðili verði að búa sjálfur í hlutaðeigandi íbúðarhúsnæði, til að njóta frádráttarbærni vaxta. Auk þess vil ég benda á, að umrædd íbúð er eina fasteignin í eigu umbjóðenda minna og keypt í þeim tilgangi að vera eigið húsnæði.

Ég vil ennfremur vísa til úrsk. R.sk.n. nr. 471/1983, þar sem málsatvik eru áþekk og vaxtafrádráttur heimilaður, þrátt fyrir búsetu í leiguhúsnæði af hálfu eigenda. Að lokum vil ég svo f.h. umbjóðenda minna, ítreka, að þú heimilir frádrátt ofangreindra vaxtagjalda, enda er hér um réttlætismál að ræða, þannig að gjaldendum sé ekki mismunað eftir hagnýtingu íbúðarhúsnæðis.“

Með kæruúrskurði, dags. 10. apríl 1989, synjaði skattstjóri kröfu kærenda. Tók skattstjóri fram, að íbúðin að A hefði verið keypt árið 1984 og seld 1987 án þess að kærendur hefðu flutt í íbúðina. Hún hefði hins vegar verið leigð út. Íbúðin að B hefði verið sett í útleigu, þegar hún hefði verið keypt árið 1987. Kærendur væru enn í mars 1989 með heimili á Akureyri, þannig að ekki yrði séð að íbúð í útleigu í Reykjavík gæti verið til eigin nota.

Með kæru, dags. 8. maí 1989, hafa kærendur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Eru kröfur ítrekaðar um, að vaxtagjöld til frádráttar standi óbreytt með vísan til rökstuðnings í kæru til skattstjóra. Lögð er áhersla á það, að kærendur hafi ávallt búið í leiguhúsnæði, meðan þau hafi beðið þess að flytja í eigið húsnæði á Reykjavíkursvæðinu. Umræddar íbúðir hafi að stofni til verið keyptar fyrir andvirði raðhúss kærenda á Akureyri og hafi sömu veðlán fylgt eignum þessum æ síðan þannig að frádráttarbærni vaxtagjalda vegna eigin íbúðarhúsnæðis hljóti að haldast órofin. Af frádráttarbærum vaxtagjöldum skv. framtali 1988 séu verðbætur 229.670 kr. sbr. úrskurð ríkisskattanefndar nr. 799/1983, vegna sölu eigin íbúðarhúsnæðis. Þá barst bréf umboðsmanns kærenda, dags. 9. maí 1990, þar sem lögð er áhersla á það, að um sé að ræða tímabundið ástand. Það hafi alltaf verið ætlun kærenda að flytja suður og búa sér ævikvöld í húsnæðinu við B. Hafi kærandi, K, þegar hætt störfum. Honum hafi verið sagt upp starfi hjá X hf., nú í vor 1990. Líkindi séu því til þess, að kærendur flytjist búferlum þegar á þessu ári.

Með bréfi, dags. 21. maí 1990, gerir ríkisskattstjóri þá kröfu í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Umræddum íbúðarviðskiptum er lýst í málinu að því undanskildu að skv. fyrirliggjandi málsgögnum hafa kærendur selt íbúð sína að B með kaupsamningi, dags. 20. maí 1988, og keypt íbúðarhúsnæði að D með kaupsamningi, dags. 10. júní 1988. Út af fyrir sig þykir þetta eigi fá breytt neinu um niðurstöðu málsins. Sá skilningur verður eigi lagður í 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að skattaðilar verði undantekningarlaust að búa sjálfir í hlutaðeigandi íbúðarhúsnæði til þess að njóta frádráttarbærni vaxtagjalda af skuldum til öflunar þess, enda gefur lagaákvæðið eigi tilefni til slíkrar túlkunar. Óumdeilt er í málinu að um sé að ræða vaxtagjöld af skuldum til öflunar íbúðarhúsnæðis. Að virtum öllum atvikum og þegar litið er til skýringa kærenda og eindreginna staðhæfinga þeirra, að um tímabundna ráðstöfun íbúðarhúsnæðisins hafi verið að ræða til útleigu frá því þau seldu eigið íbúðarhúsnæði á Akureyri, uns þau flyttust til Reykjavíkursvæðisins við starfslok, þykir mega taka kröfu kærenda til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja