Úrskurður yfirskattanefndar

  • Söluhagnaður fyrnanlegra eigna
  • Frestun skattlagningar
  • Fyrning

Úrskurður nr. 166/2008

Gjaldár 2007

Lög nr. 90/2003, 13. gr., 14. gr., 33. gr.  

Kröfu kæranda í máli þessu um sérstaka fyrningu keyptrar lóðar á móti tekjufærslu frestaðs söluhagnaðar var hafnað þar sem lóðir væru ekki fyrnanlegar eignir. Kröfu hans um frekari frestun á skattlagningu söluhagnaðarins var sömuleiðis hafnað þar sem skattalög heimiluðu einungis frestun um tvenn áramót frá söludegi.

I.

Málavextir eru þeir að skattframtali kæranda árið 2007 fylgdi rekstrarskýrsla (RSK 4.11) þar sem kærandi færði til tekna í reit 4040 frestaðan söluhagnað frá fyrri árum að fjárhæð 4.000.864 kr. Var skattframtalið lagt óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2007.

Með kæru til skattstjóra, dags. 25. ágúst 2007, óskaði umboðsmaður kæranda eftir leiðréttingu á innsendu skattframtali kæranda árið 2007. Í kærunni kom fram að við gerð skattframtals kæranda hefði láðst að greina frá kaupum kæranda á iðnaðarlóð fyrir 1.623.000 kr. Fór umboðsmaður kæranda fram á að kaupverð lóðarinnar yrði dregið frá frestuðum söluhagnaði og að ekki kæmi til skattlagningar á eftirstöðvum söluhagnaðarins „þar sem [kærandi] er að fara að byggja iðnaðarhúsnæði“, en framkvæmdir myndu hefjast á haustmánuðum. Kærunni fylgdi ljósrit af kaupsamningi og afsali, dags. 20. september 2006, vegna kaupa kæranda á lóð fyrir 1.623.420 kr.

Með kæruúrskurði, dags. 18. október 2007, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda. Kom fram í úrskurðinum að ekki yrði fallist á að draga kaupverð lóðar frá tekjufærðum söluhagnaði þar sem ekki væri heimilt að fyrna lóð, sbr. ákvæði 33. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þá vísaði skattstjóri til ákvæðis 14. gr. laga nr. 90/2003 þar sem fram kæmi að á því ári sem skattskyldur söluhagnaður eigna samkvæmt 13. gr. sömu laga færðist til tekna væri skattaðila heimilt að fyrna eignir, sem fyrnanlegar væru samkvæmt 33. gr. laganna, um fjárhæð sem næmi hinum skattskylda söluhagnaði. Ætti skattaðili ekki eignir, sem hann gæti fyrnt á þennan hátt á því ári þegar sala færi fram, gæti hann farið fram á frestun skattlagningar á söluhagnaði. Ef eignanna væri ekki aflað innan tilskilins tíma teldist söluhagnaðurinn með skattskyldum tekjum á öðru ári frá því er hann myndaðist að viðbættu 10% álagi. Fyrning eða frestun tekjufærslu samkvæmt þessari málsgrein kæmi því aðeins til greina að yfirfæranleg rekstrartöp hefðu verið jöfnuð. Tók skattstjóri fram að söluhagnaður sá, sem kærandi hefði frestað tekjufærslu á tekjuárið 2004 á grundvelli 14. gr. laga nr. 90/2003, hefði verið tekjufærður þar sem ekki hefði verið aflað fyrnanlegra eigna innan tilskilins frests. Ekki væri heimilt að fresta skattlagningu söluhagnaðarins til gjaldársins 2008, sbr. framangreint lagaákvæði. Yrði því að hafna kröfum kæranda í málinu.

II.

Með kæru, dags. 17. janúar 2008, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 18. október 2007, til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur fram að kæruefnið sé synjun skattstjóra um frádrátt frá frestuðum söluhagnaði vegna kaupa kæranda á iðnaðarlóð. Ætlun kæranda hafi alltaf verið sú að byggja iðnaðar- eða verslunarhúsnæði á hinni keyptu lóð, m.a. til þess að geta fyrnt eignina á móti frestuðum söluhagnaði frá árinu 2004. Eftir kaup lóðarinnar hafi verið unnið í því að afla samþykkis fyrir byggingu húss á lóðinni, en það hafi tekið afar langan tíma þar sem sveitarfélagið hafi dregið lappirnar í málinu. Sé þeirri þrautagöngu ekki enn lokið, en þó sjái fyrir endann á henni. Sé því farið fram á að söluhagnaði, sem koma hafi átt til skattlagningar á árinu 2007, verði frestað um ein áramót enn með hliðsjón af þeim drætti sem orðið hafi á því að fá samþykki fyrir byggingarrétti á lóðinni.

III.

Með bréfi, dags. 14. mars 2008, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

IV.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, telst hagnaður af sölu eigna, sem heimilt er að fyrna samkvæmt 33. gr. laganna, og af sölu réttinda, sem tengd eru þessum eignum, að fullu til skattskyldra tekna á söluári og skiptir ekki máli hve lengi skattaðili hefur átt hina seldu eign. Á því ári sem skattskyldur söluhagnaður eigna samkvæmt 13. gr. laga nr. 90/2003 færist til tekna er skattaðila heimilt samkvæmt 14. gr. laganna að fyrna eignir, sem fyrnanlegar eru samkvæmt 33. gr. sömu laga, um fjárhæð sem nemur hinum skattskylda söluhagnaði. Eigi skattaðili ekki eignir, sem hann getur fyrnt á þennan hátt á því ári þegar sala fer fram, getur hann farið fram á frestun skattlagningar á söluhagnaði um tvenn áramót, enda afli hann sér eigna sem fyrna má samkvæmt 33. gr. innan þess tíma og fyrni þær um fjárhæð sem nemur hinum skattskylda söluhagnaði. Ef eignanna er ekki aflað innan tilskilins tíma telst söluhagnaðurinn með skattskyldum tekjum á öðru ári frá því er hann myndaðist að viðbættu 10% álagi. Fyrning eða frestun tekjufærslu á þessum grundvelli kemur því aðeins til greina að yfirfæranleg rekstrartöp hafi verið jöfnuð, sbr. niðurlag greinarinnar. Samkvæmt 33. gr. laga nr. 90/2003 eru fyrnanlegar eignir varanlegir rekstrarfjármunir sem notaðir eru til öflunar tekna í atvinnurekstri eða í sjálfstæðri starfsemi og rýrna að verðmæti við eðlilega notkun eða aldur, sbr. nánari upptalningu á helstu flokkum fyrnanlegra eigna í lagagreininni.

Ágreiningsefni máls þessa varðar skattalega meðferð söluhagnaðar sem myndaðist á árinu 2004 vegna sölu kæranda á ótilgreindum fyrnanlegum eignum og frestað var skattlagningu á í skattframtali kæranda árið 2005, sbr. fyrrgreinda heimild í 14. gr. laga nr. 90/2003. Ekki er deilt um að fjárhæð söluhagnaðarins nam 4.000.864 kr. Kærandi færði umræddan söluhagnað til skattskyldra tekna í skattframtali sínu árið 2007 án gjaldfærslu sérstakra fyrninga (aukafyrninga), sbr. reit 4070 í rekstrarskýrslu, enda hafði kærandi ekki aflað sér fyrnanlegra eigna í stað hinna seldu eigna samkvæmt því sem skattframtalið bar með sér. Af hálfu kæranda er hins vegar komið fram að láðst hafi að greina frá kaupum kæranda á lóð á árinu 2006 fyrir 1.623.420 kr. í skattframtali hans árið 2007. Samkvæmt kæru kæranda til yfirskattanefndar lýtur krafa kæranda annars vegar að því að heimiluð verði sérstök fyrning hinnar keyptu lóðar á móti tekjufærslu hins skattskylda söluhagnaðar og hins vegar að skattlagningu á eftirstöðvum söluhagnaðarins að fjárhæð 2.377.444 kr. verði frestað um ein áramót, þ.e. komi til tekjufærslu í skattframtali kæranda árið 2008. Vegna hinnar fyrrnefndu kröfu kæranda skal tekið fram að lóðir eru ekki fyrnanlegar eignir í skilningi 33. gr. laga nr. 90/2003, sbr. skilgreiningu ákvæðisins sem áskilur að um sé að ræða eignir sem rýrna að verðmæti við eðlilega notkun eða aldur. Verður því að hafna þessari kröfu kæranda. Vegna kröfu kæranda um frekari frestun á skattlagningu greinds söluhagnaðar en þegar hefur verið fallist á skal tekið fram að ákvæði 14. gr. laga nr. 90/2003 heimilar einungis frestun á skattlagningu um tvenn áramót frá söludegi. Samkvæmt því og þar sem ekki er annarri lagaheimild til að dreifa í þessu sambandi verður sömuleiðis að hafna þeirri kröfu kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja