Úrskurður yfirskattanefndar
- Takmörkuð skattskylda
- Tvísköttunarsamningur
- Tekjutímabil
Úrskurður nr. 177/2008
Gjaldár 2006
Lög nr. 90/2003, 3. gr. 1. tölul., 7. gr. A-liður 1. tölul. Tvísköttunarsamningur við Bretland, 15. gr.
Kærandi, sem flutti af landi brott til Bretlands vorið 2003, fékk greidd laun frá sveitarfélagi á Íslandi á árinu 2005. Var um að ræða leiðréttingu launa vegna starfa kæranda hér á landi á fyrri hluta ársins 2003. Talið var að skattlagning launanna hér á landi gjaldárið 2006 væri heimil samkvæmt tvísköttunarsamningi milli Íslands og Bretlands þar sem um væri að ræða laun fyrir starf sem kærandi innti af hendi hér á landi.
I.
Málavextir eru þeir að kærandi, sem er búsettur í Bretlandi, taldi ekki fram til skatts hér á landi innan tilskilins framtalsfrests árið 2006 og sætti áætlun skattstjóra á skattstofnum við álagningu opinberra gjalda það ár, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Skattframtal kæranda árið 2006, sem dagsett er 18. nóvember 2007, barst skattstjóra 26. sama mánaðar, samkvæmt áritun skattstjóra um móttöku þess. Í framtalinu færði kærandi til tekna laun að fjárhæð samtals 43.034 kr. vegna „leiðréttingar“. Að teknu tilliti til frádráttar lífeyrissjóðsiðgjalda 2.151 kr. nam tekjuskatts- og útsvarsstofn 40.883 kr. samkvæmt skattframtalinu. Skattstjóri tók skattframtal kæranda til meðferðar sem skatterindi samkvæmt ákvörðun ríkisskattstjóra, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, og með úrskurði, dags. 22. janúar 2008, féllst skattstjóri á að leggja innsent skattframtal kæranda til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2006 í stað áætlunar og án álags.
II.
Með ódagsettri kæru, sem barst yfirskattanefnd 27. mars 2008, hefur kærandi skotið úrskurði skattstjóra, dags. 22. janúar 2008, til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur fram að kærandi hafi búið í Bretlandi síðan í maí 2003 og að hann hafi fengið greidd laun frá sveitarfélagi vegna leiðréttingar á árinu 2005. Upplýsingar varðandi þetta í skattframtali kæranda árið 2006 hafi kærandi fengið frá skattstjóra. Vísar kærandi til meðfylgjandi afrita af breskum skattframtölum vegna áranna 2003, 2004 og 2005 „til að sýna að ég hef unnið á Bretlandi þegar ég fékk borgað frá [sveitarfélaginu]“, eins og segir í kærunni.
III.
Með bréfi, dags. 23. maí 2008, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Fram kemur í gögnum málsins að kærandi er búsettur í Bretlandi og sætir skattlagningu þar í landi. Í þjóðskrá kemur fram að hann hafi flutt úr landi í maí 2003. Samkvæmt framtali 2006 fékk kærandi laun frá sveitarfélagi að fjárhæð kr. 43.034 á tekjuárinu 2005, og er sú fjárhæð í samræmi við innsendan launamiða. Skattstjóri hefur lagt skatt á fyrrgreind laun.
Samkvæmt tvísköttunarsamningi milli Íslands og Bretlands frá 30. september 1991 ber að skattleggja starfslaun í því ríki sem gjaldandi hefur heimilisfesti, nema starfið sé innt af hendi í hinu aðildarríkinu, sbr. 1. mgr. 15. gr. samningsins. Í kæru kemur fram að kærandi hafi verið búsettur í Bretlandi þegar hann fékk fyrrgreind laun greidd. Hins vegar verður ekki ráðið af gögnum málsins hvort hann dvaldi hér á landi þegar þeirra var aflað.
Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 26. maí 2008, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
IV.
Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið búsettur í Bretlandi frá maí 2003, sbr. skráningu í Þjóðskrá. Samkvæmt skattframtali kæranda árið 2006, sem barst skattstjóra 26. nóvember 2007, fékk kærandi laun frá sveitarfélagi að fjárhæð 43.034 kr. á árinu 2005, sbr. launamiða, og verður ráðið af gögnum sem fylgja kæru kæranda til yfirskattanefndar að um sé að ræða leiðréttingu launa vegna starfsmats sem fram fór árið 2005, sbr. launaseðil, dags. 10. maí 2005. Verður og ráðið að um sé að ræða leiðréttingu á launum kæranda vegna starfa hans í þágu sjúkrastofnunar á fyrri hluta ársins 2003, sbr. m.a. upplýsingar í staðgreiðsluskrá. Verður að leggja til grundvallar að kærandi hafi borið takmarkaða skattskyldu hér á landi gjaldárið 2006 vegna launa fyrir störf hér á landi, sbr. ákvæði 1. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Við álagningu á kæranda bar hins vegar að gæta ákvæða samnings milli Lýðveldisins Íslands og Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands til að komast hjá tvísköttun og koma í veg fyrir undanskot frá skattlagningu á tekjur og söluhagnað af eignum, sbr. auglýsingu nr. 32, 20. desember 1991, um tvísköttunarsamning við Bretland, er birtist í C-deild Stjórnartíðinda árið 1991 þar sem samningur þessi er birtur sem fylgiskjal. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. umrædds tvísköttunarsamnings skulu starfslaun, vinnulaun og annað svipað endurgjald, sem aðili heimilisfastur í aðildarríki fær fyrir starf sitt, einungis skattskyld í því ríki, nema starfið sé innt af hendi í hinu aðildarríkinu. Ef starfið er innt af hendi þar má skattleggja endurgjaldið fyrir það í síðarnefnda ríkinu. Í 2. mgr. 15. gr. samningsins er mælt fyrir um undantekningar frá ákvæði 1. mgr. sömu greinar, en þau undantekningarákvæði eiga ekki við í tilviki kæranda. Samkvæmt framansögðu var heimilt samkvæmt 1. mgr. 15. gr. samningsins að skattleggja umræddar launatekjur kæranda frá sveitarfélagi, þ.e. vegna launaleiðréttingar á árinu 2005, hér á landi, enda er um að ræða laun fyrir starf sem kærandi innti af hendi hér á landi. Samkvæmt því og þar sem ekki verður séð að ágreiningur sé að öðru leyti um tilhögun álagningar opinberra gjalda kæranda hér á landi gjaldárið 2006 samkvæmt hinum kærða úrskurði skattstjóra, dags. 22. janúar 2008, er ekki tilefni til að hrófla við ákvörðun skattstjóra í úrskurðinum. Rétt þykir að vísa kærunni frá yfirskattanefnd að svo stöddu.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kærunni er vísað frá yfirskattanefnd.