Úrskurður yfirskattanefndar

  • Vörubirgðir

Úrskurður nr. 205/2008

Gjaldár 2007

Lög nr. 90/2003, 73. gr. 4. tölul.  

Fallist var á kröfu kæranda, sem hafði með höndum sjálfstæða starfsemi, um gjaldfærslu úrelts bókalagers. Var vísað til þeirra skýringa hans að um væri að ræða eldri útgáfu bókar sem hefði verið endurútgefin síðar með þeim afleiðingum að hin eldri útgáfa hefði orðið einskis virði.

I.

Málavextir eru þeir að skattframtali kæranda árið 2007 fylgdi rekstrarskýrsla þar sem rekstrartekjur voru tilgreindar 2.113.000 kr. og rekstrargjöld samtals 2.713.162 kr. Tap ársins nam samkvæmt þessu 599.662 kr. Í rekstrarskýrslunni voru birgðir í upphafi árs taldar 400.000 kr., sbr. reit 3013, vörukaup á árinu 0 kr., sbr. reit 2153, og birgðir í lok árs 0 kr., sbr. reit 3023. Samkvæmt þessu nam gjaldfærð vörunotkun 400.000 kr., sbr. reit 3028.

Með bréfi, dags. 22. maí 2007, óskaði skattstjóri eftir skýringum frá kæranda á niðurfærslu að fjárhæð 400.000 kr. á vörulager í rekstrarreikningi fyrir árið 2006, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í 4. tölul. 73. gr. laga nr. 90/2003 væri að finna heimild til að draga frá vörubirgðum afföll á gölluðum og úreltum vörum, en ríkisskattstjóri hefði talið að skattaðili yrði að færa sönnur á að vörur væru gallaðar eða úreltar. Það myndi meðal annars teljast fullnægjandi sönnun ef vöru væri fargað undir eftirliti opinbers aðila og staðfesting á því væri geymd í bókhaldi skattaðila, staðfesting lægi fyrir frá sorpeyðingarstöð um förgun vöru eða fyrir lægi að vara hefði verið afhent líknar- eða góðgerðarfélagi. Ævinlega skyldi þó liggja fyrir í bókhaldi skattaðila greinargerð um tímasetningu gernings, tegund og magn vörunnar, lýsing á henni og bókfært kostnaðarverð eða útsöluverð hennar. Skoraði skattstjóri að endingu á kæranda að færa sönnur fyrir heimild til „afskriftar“, eins og þar sagði.

Umboðsmaður kæranda svaraði fyrirspurnarbréfi skattstjóra með bréfi, dags. 24. maí 2007, þar sem fram kom að kærandi hefði á árinu 1999 gefið út bók í samvinnu við útgefendur. Nokkrum árum síðar hefði bókin verið endurbætt og endurútgefin, en sú útgáfa hefði eingöngu verið seld í tiltekinni heilsuræktarstöð. Með því hefði eldri útgáfan orðið úrelt, en skylt væri að færa niður birgðir og afskrifa ef svo væri. Ársreikningur skyldi enda ekki sýna meiri birgðir en til staðar væru í rekstri samkvæmt lögum um ársreikninga, en þar kæmi fram að eign skyldi færð á efnahagsreikning þegar líklegt væri að félagið hefði af henni fjárhagslegan ávinning í framtíðinni og virði hennar mætti meta með áreiðanlegum hætti. Þá rakti umboðsmaðurinn efni 4. tölul. 73. gr. laga nr. 90/2003 og tók fram að með hliðsjón af framangreindu hefðu birgðir kæranda verið niðurfærðar þar sem þær hefðu verið óseljanlegar.

Með bréfi, dags. 26. júlí 2007, tilkynnti skattstjóri kæranda með vísan til 96. gr. laga nr. 90/2003 að frádráttur á móti vörubirgðum vegna affalla á gölluðum eða úreltum vörum að fjárhæð 400.000 kr. í rekstrarskýrslu kæranda fyrir árið 2006 hefði verið felldur niður. Vísaði skattstjóri til fyrirspurnarbréfs, dags. 22. maí 2007, og svarbréfs umboðsmanns kæranda, dags. 24. maí 2007. Tók skattstjóri fram að skattframtali kæranda árið 2007 hefði fylgt rekstrarskýrsla (RSK 4.11) vegna tekjuársins 2006 og samkvæmt henni hefði birgðastaða í upphafi árs verið 400.000 kr., en tilgreint hefði verið að birgðir hefðu engar verið í lok árs. Teldi skattstjóri kæranda enga sönnun hafa fært fyrir því að vörulager hefði verið fargað eða hann afhentur sorpeyðingarstöð. Væri ekki hægt að fallast á gjaldfærslu á afskrifuðum birgðum og hefði hún því verið felld niður. Af þeim breytingum leiddi að tap ársins lækkaði úr 599.662 kr. í 199.662 kr. eða um þá fjárhæð sem numið hefði afskrifuðum birgðum 400.000 kr. Þá tók skattstjóri fram að reiknað endurgjald kæranda hefði verið lækkað vegna taps á tekjuárinu 2006, en með þessum breytingum hefði það verið hækkað aftur. Hækkaði reiknað endurgjald kæranda gjaldárið 2007 úr 1.200.338 kr. í 1.600.338 kr.

Umboðsmaður kæranda mótmælti fyrrgreindum breytingum skattstjóra með kæru, dags. 27. júlí 2007, er barst skattstjóra hinn 31. júlí 2007. Ítrekaði umboðsmaðurinn málavexti og lagatilvísanir og tók fram að niðurstaða skattstjóra hefði byggst á því að kærandi hefði ekki fært fram nein gögn sem sönnuðu að vörulager hefði verið fargað eða hann afhentur sorpeyðingarstöð. Þessum rökstuðningi skattstjóra væri mótmælt og skipti þar mestu að hvergi hefði komið fram að vörulager hefði verið fargað eða hann afhentur sorpeyðingarstöð. Það atriði skipti heldur ekki máli, að mati umboðsmannsins, enda snerist málið um úreltan lager sem bæri að afskrifa og telja ekki til eignar þar sem hann myndi ekki skila tekjum í framtíðinni. Rakti umboðsmaðurinn síðan ákvæði 4. tölul. 73. gr. laga nr. 90/2003 og 2. mgr. 14. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga. Tók umboðsmaðurinn fram að kærandi hefði farið að tilmælum framangreindra lagaákvæða og hefðu gamlar og úreltar vörubirgðir verið afskrifaðar í samræmi við skattalög og lög um ársreikninga. Væri þess krafist að skattstjóri félli frá þeirri breytingu, sem varðaði afskrift vörubirgða, og ákvarðaði jafnframt reiknað endurgjald 1.200.338 kr. í samræmi við innsent skattframtal.

Skattstjóri tók kæru kæranda til afgreiðslu með kæruúrskurði, dags. 18. október 2007. Rakti skattstjóri málavexti í úrskurðinum og tók fram að ekki væri hægt að fallast á kröfu kæranda um gjaldfærslu á afskrifuðum vörulager þar sem engin gögn hefðu verið lögð fram sem sönnuðu að lagernum hefði verið fargað eða hann afhentur sorpeyðingarstöð. Þá teldi skattstjóri engan veginn liggja fyrir að útgáfa bókar yrði úrelt eða einskis virði þó að ný útgáfa væri gefin út.

II.

Með kæru, dags. 15. janúar 2008, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 18. október 2007, til yfirskattanefndar. Krefst hann þess að breytingar skattstjóra á skattframtali kæranda árið 2007, sem hann tilkynnti með bréfi, dags. 26. júlí 2997, og staðfesti með greindum kæruúrskurði, verði felldar úr gildi. Rekur umboðsmaðurinn málavexti og ítrekar fyrri tilvísun til 4. tölul. 73. gr. laga nr. 90/2003 og 2. mgr. 14. gr. laga nr. 3/2006. Umboðsmaðurinn tekur fram að skattstjóri hafi strikað út gjaldfærslu vegna „ókúrant“ bókalagers að fjárhæð 400.000 kr. Skattstjóri byggi á því að ekki hafi verið lögð fram gögn er sanni að vörulagernum hafi verið fargað eða hann afhentur sorpeyðingarstöð. Ekki verði fallist á þessi rök skattstjóra, enda sé um að ræða „ósöluhæfan bókalager frá árinu 1999 sem var orðinn úreltur“, eins og þar segir.

III.

Með bréfi, dags. 14. mars 2008, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 17. mars 2008, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

IV.

Samkvæmt rekstrarskýrslu sem fylgdi skattframtali kæranda árið 2007 nam verðmæti birgða í upphafi árs 400.000 kr., en í lok árs voru þær engar. Engin vörukaup voru á árinu. Fram er komið að um bókalager var að ræða. Samkvæmt þessu gjaldfærði kærandi bókalagerinn með öllu í skattskilum sínum rekstrarárið 2006.

Í 72. gr. laga nr. 90/2003 segir að framtalsskyldar eignir séu allar fasteignir, lausafé og hvers konar önnur verðmæt eignarréttindi, með þeim takmörkunum sem um ræðir í 74. gr., og skiptir ekki máli hvort eignirnar gefa af sér arð eða ekki. Í 4. tölul. 73. gr. laga nr. 90/2003 segir síðan að vörubirgðir verslana og framleiðsluaðila, þar með taldar rekstrarvörubirgðir, svo sem hráefni, eldsneyti, veiðarfæri og vörur á framleiðslustigi, skuli telja til eignar á kostnaðar- eða framleiðsluverði eða dagverði í lok reikningsárs, að frádregnum afföllum á gölluðum og úreltum vörum. Þó skuli heimilt að draga allt að 5% frá þannig reiknuðu matsverði. Af eðli málsins þykir leiða að skattaðila beri að sýna fram á að vörur séu gallaðar eða úreltar og hver afföll þeirra séu af þeim sökum.

Kærandi hefur gefið þær skýringar, sbr. bréf umboðsmanns hans, dags. 24. maí 2007, og kæru til skattstjóra, dags. 27. júlí 2007, að bók sem gefin var út árið 1999 hafi myndað greindan bókalager. Nokkrum árum síðar hafi endurbætt útgáfa verið gefin út, merkt heilsuræktarstöð og eingöngu seld þar. Þá hafi eldri útgáfan orðið úrelt og einskis virði. Ekkert þykir hafa komið fram í málinu sem gefur tilefni til að draga þessar skýringar kæranda í efa. Að svo vöxnu er krafa kæranda tekin til greina, sbr. greint ákvæði í 4. tölul. 73. gr. laga nr. 90/2003. Það leiðir af þessari niðurstöðu að reiknað endurgjald kæranda lækkar um 400.000 kr. eða í 1.200.338 kr., en tekið skal fram að sú breyting leiðir ekki til breytingar á tryggingagjaldsstofni kæranda, enda breytti skattstjóri ekki gjaldstofni til tryggingagjalds í samræmi við hækkun sína á reiknuðu endurgjaldi.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja