Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 610/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl.  

Rekstrarkostnaður — Málskostnaður — Lögmannsaðstoð — Lögfræðikostnaður — Atvinnuhúsnæði — Útleiga — Útleiga atvinnuhúsnæðis — Ófrádráttarbær kostnaður — Frádráttarheimild — Arfur — Erfðaskrá — Lögfræðikostnaður vegna vefengingar erfðaskrár — Óvígð sambúð — Sambýlisfólk — Eignarréttur — Persónulegur kostnaður

Málavextir eru þeir, að á rekstrarreikningi fyrir árið 1987 vegna útleigu atvinnuhúsnæðis gjaldfærði kærandi 1.535.647 kr. sem var lögfræðikostnaður vegna málflutnings fyrir héraðsdómi og Hæstarétti svo og vegna eignaumsjónar.

Með bréfi, dags. 13. september 1988, krafði skattstjóri kæranda um sundurliðun á þessum gjaldalið svo og greinargerðar um það, hvernig lögfræðikostnaður þessi væri tilkominn og í hverju eignaumsjón væri fólgin. Svarbréfi kæranda, dags. 29. september 1988, fylgdi greinargerð A, hrl., og málskostnaðarreikningur í hæstaréttarmálinu nr. 291/1986. Í gögnum þessum kom fram, að kostnaður þessi var annars vegar vegna málareksturs út af vefengingu erfðaskrár sambýlismanns kæranda og hins vegar vegna allra annarra starfa, er lutu að dánarbúi hans og öðrum málum, m.a. frágangur ýmissa verkefna lögmannsstofu hins látna svo sem nánar var lýst. Af hinni umdeildu fjárhæð nam kostnaður vegna hæstaréttarmálsins 1.035.647 kr. og kostnaður vegna málareksturs í undirrétti 500.000 kr. Kom fram í greinargerð lögmannsins, að hann hefði talið aðra vinnu innifalda í kostnaðarreikningi vegna hæstaréttarmálsins, er hefði verið umtalsverð og gæti áætlast 1/3 af reikningi. Í svarbréfinu kom fram, að kærandi hefði aldrei haldið hlutdeild sinni í hinu arðberandi atvinnuhúsnæði, ef hún hefði ekki sótt málið um gildi erfðaskrárinnar fyrir skiptarétti. Félli málskostnaðurinn því undir 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981. Að vísu hefði málsóknin tryggt kæranda einnig eignarrétt yfir íbúðarhúsnæði og væri því rétt að lækka gjaldaliðinn um 166.118 kr. þ.e. um 16,04%, sem væri hlutfall íbúðarhúsnæðis í heildarbrunabótaverðmæti fasteigna búsins.

Með bréfi, dags. 14. október 1988, boðaði skattstjóri kæranda niðurfellingu umrædds gjaldaliðs 1.535.647 kr. að öllu leyti, þar sem um væri að ræða einkaútgjöld en ekki útgjöld vegna rekstrar. Kostnaður vegna málareksturs fyrir skiptarétti teldist ekki rekstrarútgjöld heldur einkaútgjöld eins ef menn þyrftu að sækja mál vegna sinna hagsmuna. Af hálfu kæranda var hinni fyrirhuguðu breytingu mótmælt í bréfi, dags. 4. nóvember 1988, með sömu rökum og áður voru fram komin. Kærandi hefði orðið að viðhalda eignarrétti sínum í fasteignum dánarbúsins með málsóknum og verulegur hluti teknanna hefðu verið leigutekjur af atvinnuhúsnæði að X, Kópavogi. Með bréfi, dags. 9. desember 1988, endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1988 vegna niðurfellingar umrædds gjaldaliðs. Segir svo í endurákvörðuninni:

„Forsenda ofangreindrar ákvörðunar er sú að umgetnum kostnaði var varið til að gæta persónulegra hagsmuna yðar, þ.e. til sóknar og varnar í erfðamáli. Slíkur kostnaður getur eigi talist til rekstrarútgjalda samkvæmt 31. gr. laga nr. 75/1981 og á það jafnt við þó að eignir þær sem til erfða koma séu notaðar í atvinnurekstri. Þá er ljóst af ljósriti framlagðs reiknings að hann er allur vegna flutnings erfðamálsins og að engu leyti vegna annarra starfa.“

Af hálfu umboðsmanns kæranda var breytingunni mótmælt í kæru, dags. 28. desember 1988, og þess krafist að 1.369.529 kr. af hinum umdeilda kostnaði yrðu leyfðar til frádráttar í rekstri, sbr. svarbréf, dags. 29. september 1988. Ítrekaðar voru sömu röksemdir og áður. Með kæruúrskurði, dags. 1. febrúar 1989, ákvað skattstjóri, að hin kærða breyting skyldi óbreytt standa.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 6. febrúar 1989. Er kæran svohljóðandi:

„Málavextir eru þeir, að B hafði verið í óvígðri sambúð með D í u.þ.b. 30 ár er hann lést á árinu 1984. Hafði verulegur hluti tekna þeirra verið í formi leigutekna af atvinnuhúsnæði X, Kópavogi. Við fráfall D gerðu lögerfingjar hans, þ.e. móðir hans og systkini, tilkall í eignir dánarbúsins. Varð B að sækja málið fyrir héraðsdómi og hæstarétti til að viðhalda eignarrétti sínum í fasteignum dánarbúsins. Þar sem hér var um að ræða beinan kostnað við að viðhalda eignarrétti yfir hinum tekjuaflandi fasteignum og þar með kostnað til að tryggja og halda við rekstrartekjum, var það túlkun mín, að gjaldaliður þessi félli undir 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981 og væri þar með frádráttarbær frá rekstrartekjum ársins. Þessum rökum hefur skattstjóri nú hafnað og vil ég því leggja málið fyrir hæstvirta ríkisskattanefnd.

Ég vek athygli á því, að umbjóðandi minn hefði aldrei haldið eignarhlutdeild í hinu tekjuaflandi atvinnuhúsnæði ef hann hefði ekki sótt málið fyrir skiptarétti. Málskostnaður var því óumflýjanlegur til að tryggja þessar eignir og tekjur. Málssóknin tryggði umbjóðanda mínum að vísu einnig eignarrétt yfir íbúðarhúsnæði og því taldi ég rétt að lækka áðurnefndan gjaldalið úr kr. 1.535.647 í kr. 1.369.529, eða um kr. 166.118. Þessi lækkun um 16,04% svarar til hlutfalls íbúðarhúsnæðis í heildarbrunabótaverðmæti fasteigna búsins, en á því grundvallaðist þóknun A hrl. sbr. meðfylgjandi afrit málskostnaðarreiknings.

Hjálagt fylgir afrit af greinargerð frá A hrl. um þennan gjaldalið. Vil ég fara þess á leit við ríkisskattanefnd, að hún leggi mat á ágreiningsmál þetta og kveði upp rökstuddan úrskurð svo fljótt sem verða má.“

Með bréfi, dags. 30. maí 1990, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Á það er eigi fallist að um sé að ræða rekstrarkostnað í skilningi 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981.“

Af hálfu kæranda þykir eigi hafa verið sýnt fram á, að hinn umdeildi lögfræðikostnaður sé að neinu leyti frádráttarbær rekstrarkostnaður skv. 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Að svo vöxnu máli og þar sem lagaheimild skortir að öðru leyti fyrir frádráttarbærni kostnaðarins þykir bera að staðfesta hina kærðu breytingu skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja