Úrskurður yfirskattanefndar

  • Styrkur
  • Beinn kostnaður

Úrskurður nr. 206/2008

Gjaldár 2007

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 2. tölul., 30. gr. 2. mgr.  

Fallist var á kröfu kæranda um frádrátt aksturskostnaðar á móti tekjufærðum styrk frá X hf. vegna rannsóknarverkefnis kæranda í verkfræði. Um var að ræða kostnað vegna aksturs kæranda milli heimilis og starfsstöðvar X hf. þar sem kærandi sinnti rannsóknum.

I.

Kæruefnið í máli þessu er sú ákvörðun skattstjóra samkvæmt kæruúrskurði, dags. 10. janúar 2008, að synja kæranda um frádrátt aksturskostnaðar að fjárhæð 267.769 kr. á móti tekjufærðum styrk að fjárhæð 500.000 kr. frá X hf. vegna rannsóknarverkefnis í skattframtali árið 2007. Skattstjóri taldi að hér væri ekki um að ræða beinan kostnað við öflun styrksins, sbr. til hliðsjónar reglur fjármálaráðherra um skattmat vegna tekna manna tekjuárið 2006, sbr. auglýsingu nr. 1195, 28. desember 2005 sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda, þar sem fram kæmi að kostnaður vegna aksturs til og frá vinnu teldist vera í þágu launamanns.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 13. mars 2008, krefst kærandi þess að umræddur aksturskostnaður verði heimilaður til frádráttar styrknum, enda sé kostnaður hans við að komast á milli heimilis síns og starfsstöðvar styrkveitandans ekki í þágu styrkþega.

II.

Málavextir eru þeir að kærandi færði sér til tekna í reit 131 í skattframtali sínu árið 2007 styrk til rannsóknar- og vísindastarfa að fjárhæð 500.000 kr. frá X hf. Ekki færði kærandi neinn frádrátt á móti styrknum í reit 149 í skattframtalinu. Taldist styrkur þessi því með brúttófjárhæð sinni til tekjuskatts- og útsvarsstofns kæranda við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2007.

Með kæru, dags. 30. ágúst 2007, mótmælti kærandi álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2007. Í kærunni, sbr. og nánari upplýsingar í rekstraryfirliti frá 3. september 2007, kom fram að sumarið 2006 hefði kærandi unnið að verkefni í sex mánuði fyrir X hf. Um hefði verið að ræða lokaverkefni kæranda í verkfræði fyrir fyrirtækið. Hann hefði haft skrifstofuaðstöðu hjá X hf. og unnið þar að verkefninu vegna rannsókna, sem hann hefði þurft að gera í verksmiðju félagsins, og nálægðar við starfsfólk þess sem hann hefði unnið náið með. Þetta hefði þýtt að hann hefði þurft að aka samtals 45,4 km í þágu verkefnisins á dag á milli heimilis síns og starfsstöðvar X hf. og aftur til baka. Ef miðað væri við að hann hefði unnið að verkefninu í 20 daga í hverjum mánuði þýddi það að hann hefði ekið samtals 5.448 km þessa sex mánuði vegna verkefnisins. Hann hefði gleymt að telja fram frádrátt vegna þessa á móti „námsstyrk“ að fjárhæð 500.000 kr. í innsendu skattframtali sínu árið 2007. Styrkurinn hefði að stórum hluta verið hugsaður til að mæta þeim tilfallandi kostnaði sem hann yrði fyrir vegna vinnu við verkefnið. Óskaði kærandi eftir því að þetta yrði leiðrétt. Kærandi boðaði framlagningu rekstraryfirlits vegna kostnaðar á móti styrknum. Hinn 3. september 2007 lagði kærandi fram slíkt yfirlit, eins og fyrr greinir. Kom þar meðal annars fram að heildarakstur ökutækis kæranda á árinu 2006 (8. mars til 31. desember) hefði verið 16.302 km og heildarkostnaður numið 801.170 kr. og kostnaður pr. ekinn km því verið 49,15 kr. Samkvæmt þessu ætti frádráttur að móti styrknum að nema 267.769 kr. (5.448 km x 49,15 kr.). Meðfylgjandi voru gögn vegna aksturskostnaðar.

Skattstjóri tók kæru kæranda til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 10. janúar 2008, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og hafnaði henni. Tók skattstjóri fram að heimild til frádráttar á móti styrkjum væri að finna í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, en þar kæmi fram að ákvæði 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laganna, sem efni sínu samkvæmt ættu einungis við um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri, skyldu samt sem áður gilda um beinan kostnað við öflun annarra tekna en tekna samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna eftir því sem við ætti, þó ekki ákvæðin um vexti af skuldum, afföll, gengistöp og fyrningu eigna. Kostnaður þessi leyfðist eingöngu til frádráttar sams konar tekjum og hann gekk til öflunar á, og mætti frádráttur hvers árs ekki nema hærri fjárhæð en sem næmi þeim tekjum sem hann leyfðist til frádráttar. Skattstjóri tók fram að samkvæmt lýsingu kæranda virtist umræddum styrk hafa verið ætlað að mæta kostnaði kæranda við akstur á milli heimilis og starfsstöðvar styrkveitanda. Fram hefði komið hjá kæranda að mætingar hans á starfsstöðina hefðu verið „eins og um vinnu hefði verið að ræða“, eins og sagði í úrskurðinum. Kvaðst skattstjóri telja að kostnaður kæranda við að komast á milli heimilis og starfsstöðvar styrkveitanda væri í þágu styrkþega en ekki styrkveitanda. Miðað við lýsingu kæranda á mætingum í starfsstöð líkt og hjá launþegum þætti mega líta til ákvæðis a-liðar 2. tölul. 2. mgr. í kafla 3.1 í skattmatsreglum fjármálaráðherra fyrir tekjuárið 2006 sem birtar hefðu verið sem auglýsing nr. 1195, 28. desember 2005 í B-deild Stjórnartíðinda. Þar kæmi fram að akstur til og frá vinnu teldist vera í þágu launamannsins. Í samræmi við þetta yrði ekki fallist á með kæranda að kostnaður hans við akstur á milli heimilis hans og starfsstöðvar styrkveitanda hefði verið kostnaður við öflun styrks, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003. Kröfu kæranda um frádrátt á móti tekjufærðum styrk vegna kostnaðar við akstur á milli heimilis og starfsstöðvar styrkveitanda væri því hafnað.

III.

Með kæru, dags. 13. mars 2008, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 10. janúar 2008, til yfirskattanefndar. Krefst kærandi þess að aksturskostnaður að fjárhæð 267.769 kr. verði heimilaður til frádráttar fyrrgreindum styrk frá X hf. að fjárhæð 500.000 kr. vegna rannsóknarverkefnis kæranda, enda sé kostnaður hans við að komast á milli heimilis síns og starfsstöðvar styrkveitandans ekki í þágu styrkþega.

Rekur kærandi orðrétt rökstuðning skattstjóra í hinum kærða úrskurði og tekur fram að sú lýsing hans í kæru til skattstjóra að fyrirkomulagið á verkefnavinnu hans hefði verið eins og um vinnu væri að ræða hefði eingöngu þjónað þeim tilgangi að sýna fram á um hversu mikinn akstur hefði verið að ræða í þágu verkefnisins þessa sex mánuði sem það stóð yfir. Ályktun skattstjóra í hinum kærða úrskurði um að akstur kæranda á milli heimilis og starfsstöðvar styrkveitanda hafi verið í þágu styrkþega sé því algjörlega fráleit. Kærandi hefði unnið verkefnið sem hluta af námi sínu í háskóla og aðalhagur hans snúist um að ljúka verkefninu með sem vönduðustum hætti. Verkefnið hefði verið mjög flókið tölfræðilega og hefði aðallega þurft að vinna úr framleiðslugögnum úr verksmiðju X hf. Því hefði verið nauðsynlegt fyrir kæranda að vinna það á staðnum, en ekki sé með nokkru móti hægt að segja að það hafi verið hagur hans að aka svo mikið á hverjum degi meðan verkefnavinnan stóð yfir. Vinna við svona námsverkefni sé ekki launuð, en styrkur til hans að fjárhæð 500.000 kr. hafi fyrst og fremst verið hugsaður til að mæta kostnaði hans við verkið. Kærunni fylgdu m.a. kostnaðargögn vegna aksturs.

IV.

Með bréfi, dags. 16. maí 2008, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

V.

Fram er komið að kærandi taldi fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 2007 og var skattframtalið lagt óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda það ár. Í reit 131 í skattframtalinu tekjufærði kærandi styrk frá X hf. vegna rannsóknarverkefnis í tengslum við lokaverkefni sitt í verkfræði að fjárhæð 500.000 kr. Með kæru til skattstjóra, dags. 30. ágúst 2007, fór kærandi fram á að gerð yrði sú leiðrétting á skattskilum hans gjaldárið 2007 að aksturskostnaður hans að fjárhæð 267.769 kr. yrði leyfður til frádráttar styrkfjárhæðinni sem beinn kostnaður á móti styrknum. Um væri að ræða aksturs milli heimilis kæranda og starfsstöðvar X hf. þar sem vinna við verkefnið hefði farið fram. Skattstjóri synjaði þessari kröfu með hinum kærða úrskurði, dags. 10. janúar 2008, enda yrði að líta svo á að aksturskostnaðurinn væri í þágu kæranda sem styrkþega. Í því sambandi leit skattstjóri til skattmatsreglna varðandi frádrátt kostnaðar launamanna á móti tekjufærðum ökutækjastyrkjum, en samkvæmt þeim reglum væri kostnaður vegna aksturs til og frá vinnu ekki frádráttarbær.

Umræddur styrkur til kæranda frá X hf. telst til skattskyldra tekna samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og verður ekki séð að neinn ágreiningur sé um það. Um frádrátt frá þeim tekjum fer eftir 2. mgr. 30. gr. sömu laga. Samkvæmt því ákvæði skulu ákvæði 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laganna, sem efni sínu samkvæmt eiga einungis við um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, samt sem áður gilda eftir því sem við á um frádrátt beins kostnaðar við öflun annarra tekna en tekna samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr., þó ekki ákvæðin um vexti af skuldum, afföll, gengistöp og fyrningu eigna. Kemur fram að kostnaður þessi leyfist eingöngu til frádráttar sams konar tekjum og hann gekk til öflunar á og má frádráttur hvers árs ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur þeim tekjum sem hann leyfist til frádráttar. Samkvæmt fyrrgreindu ákvæði í 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 er heimilt að draga rekstrarkostnað frá tekjum af atvinnurekstri, þ.e. þann kostnað sem á árinu gengur til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við.

Eins og fyrr greinir var umræddur styrkur veittur kæranda í tengslum við lokaverkefni hans í verkfræði. Kærandi hefur upplýst að styrkurinn hafi að stórum hluta verið hugsaður til að mæta tilfallandi kostnaði hans við verkefnið. Samkvæmt þessu verður að telja að jöfnum höndum hafi verið um að ræða rannsóknar- og námsstyrk en þó fyrst og fremst rannsóknarstyrk. Telja verður að kæranda beri frádráttur beins kostnaðar samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 frá styrknum. Kærandi hefur engan annan kostnað tilgreint en umræddan aksturskostnað. Fram er komið að skattstjóri jafnaði aðstæðum í tilviki kæranda við aðstæður launamanns sem fær greiddan ökutækjastyrk, en í slíkum tilvikum er kostnaður vegna aksturs til og frá vinnu ekki frádráttarbær frá ökutækjastyrk, sbr. lið 3.1 í reglum fjármálaráðherra um skattmat vegna tekna manna tekjuárið 2006, sbr. auglýsingu nr. 1195 frá 28. desember 2005 sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda. Reglur þessar eiga ekki við með beinum hætti um tilvik kæranda og hefur kærandi mótmælt ályktun skattstjóra þar sem höfð er hliðsjón af reglum þessum. Samkvæmt skýringum kæranda, sem ekki er ástæða til að draga í efa, leiddi umræddur aksturskostnaður beint af starfi kæranda við umrætt rannsóknarverkefni vegna ferða á rannsóknarstað. Að því virtu og þar sem útreikningur kæranda á umræddum kostnaði hefur ekki verið vefengdur hvorki af hálfu skattstjóra né ríkisskattstjóra þykir mega fallast á kröfu kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja