Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tvísköttunarsamningur
  • Valdsvið yfirskattanefndar

Úrskurður nr. 167/2019

Lög nr. 90/2003, 3. gr. 4. tölul.   Lög nr. 30/1992, 2. gr.   Reglugerð nr. 630/2013.  

Kærandi, sem var félag skráð í Póllandi, hafði með höndum byggingarframkvæmdir hér á landi. Sú ákvörðun ríkisskattstjóra, að synja kæranda um undanþágu frá skattskyldu hér á landi vegna ákvæða tvísköttunarsamnings milli Íslands og Póllands, var ekki talin fela í sér slíka ákvörðun skatta sem félli undir úrskurðarvald yfirskattanefndar, enda hefði afgreiðsla ríkisskattstjóra ekki tengst með neinum hætti álagningu tekjuskatts kæranda vegna liðins tímabils. Samkvæmt því og þar sem aðrar málskotsheimildir skattalaga voru ekki taldar geta átt við um ákvörðun ríkisskattstjóra var kæru kæranda vísað frá yfirskattanefnd.

Ár 2019, miðvikudaginn 6. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 92/2019; kæra A, dags. 10. maí 2019, vegna synjunar á umsókn um undanþágu frá skattskyldu. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 10. maí 2019, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 12. febrúar 2019, um að synja kæranda um undanþágu frá skattskyldu vegna byggingarframkvæmda við H á árinu 2018. Er þess krafist í kærunni að ákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi í heild eða að hluta. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Aðdragandi að hinni kærðu ákvörðun ríkisskattstjóra er sá að kærandi, sem er félag skráð í Póllandi, leitaði til ríkisskattstjóra á árinu 2017 með umsókn um undanþágu frá skattskyldu (RSK 5.42 - Application under Double Taxation Agreement for an Exemption or partial relief from Icelandic Taxation) vegna byggingarframkvæmda við H á sama ári, sbr. tvísköttunarsamning milli Íslands og Póllands frá árinu 1999. Mun kæranda í kjölfar þess hafa verið veitt undanþága frá greiðslu tekjuskatts hér á landi vegna tímabilsins frá 1. júlí 2017 til 31. mars 2018. Kærandi leitaði síðan að nýju til ríkisskattstjóra með hliðstæðar umsóknir dagana 12. september og 10. október 2018 vegna sama verkefnis. Í framhaldi af bréfaskiptum, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 22. nóvember 2018, og svarbréf kæranda, dags. 4. desember sama ár, hafnaði ríkisskattstjóri beiðni kæranda um undanþágu frá skattskyldu vegna framkvæmdanna með hinni kærðu ákvörðun, dags. 12. febrúar 2019. Voru forsendur þeirrar ákvörðunar þær að kærandi hefði með höndum atvinnurekstur frá fastri starfsstöð hér á landi í skilningi tvísköttunarsamnings milli Íslands og Póllands vegna umræddra byggingarframkvæmda, enda hefðu þær staðið yfir í lengri tíma en tólf mánuði, sbr. ákvæði 3. mgr. 5. gr. og 7. gr. tvísköttunarsamningsins, sem ríkisskattstjóri vísaði til. Kom fram í ákvörðun ríkisskattstjóra að kæranda bæri af þessum sökum að standa skil á skattframtali hér á landi vegna ársins 2017 og jafnframt hlutast til um skráningu á launagreiðendaskrá vegna staðgreiðslu opinberra gjalda af launagreiðslum, sbr. lög nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Yrði því að hafna umsókn kæranda um undanþágu frá skattskyldu vegna framkvæmdanna. Í niðurlagi ákvörðunarinnar vakti ríkisskattstjóri athygli á ákvæðum 25. gr. tvísköttunarsamningsins varðandi framkvæmd gagnkvæms samkomulags. Þá leiðbeindi ríkisskattstjóri um kærurétt til yfirskattanefndar vegna ákvörðunar sinnar og tók fram að kærufrestur væri þrír mánuðir frá dagsetningu ákvörðunarinnar.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er sjónarmiðum ríkisskattstjóra í hinni kærðu ákvörðun mótmælt. Er lögð áhersla á að í tilviki kæranda sé um að ræða tvö aðskilin verk í tíma og rúmi samkvæmt tveimur sjálfstæðum samningum milli kæranda annars vegar og X ehf. hins vegar, þ.e. annars vegar samningi um nýbyggingu og hins vegar samningi um endurnýjun annars húsnæðis. Starfsmenn, sem unnið hafi að hinu fyrra verki, hafi horfið af landi brott að því loknu og aðrir starfsmenn unnið að hinu síðara verki. Verði kærandi því ekki talinn hafa haft með höndum starfsemi hér á landi frá fastri starfsstöð í skilningi laga um tekjuskatt nr. 90/2003 eða tvísköttunarsamnings milli Íslands og Póllands. Þá sé skattlagningarréttur vegna launa til starfsmanna kæranda í Póllandi en ekki hér á landi samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 15. gr. tvísköttunarsamningsins, svo sem nánar er rökstutt í kærunni.

II.

Með bréfi, dags. 25. júní 2019, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Er ítrekað í umsögninni að kærandi hafi myndað fasta starfsstöð hér á landi vegna verkefna félagsins við byggingu H á grundvelli útboðs, enda hafi vinna við verkið staðið lengur en í tólf mánuði á byggingarsvæðinu, sbr. 3. mgr. 5. gr. tvísköttunarsamnings milli Íslands og Póllands. Þá kemur fram í umsögninni, vegna umfjöllunar í kæru um skattlagningarrétt af launum til starfsmanna, að álitaefni þar að lútandi muni eingöngu verða kæranleg til yfirskattanefndar þegar fram hafi farið endurákvörðun opinberra gjalda þeirra einstaklinga sem um ræðir. Í hinum kærða úrskurði hafi ríkisskattstjóri eingöngu verið að sinna upplýsingaskyldu sinni og upplýsa kæranda um skyldur félagsins sem leiddu af þeirri ákvörðun að kærandi teldist hafa með höndum rekstur frá fastri starfsstöð hér á landi.

Með bréfi, dags. 20. ágúst 2019, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögn ríkisskattstjóra og ítrekað áður fram komin rök og sjónarmið.

III.

Kæra í máli þessu varðar ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt bréfi, dags. 12. febrúar 2019, sem ber yfirskriftina „Application for an exemption on taxes paid in Iceland“, um að synja kæranda um undanþágu frá skattskyldu vegna byggingarframkvæmda á árinu 2018. Umrædd ákvörðun ríkisskattstjóra var tekin í kjölfar þess að kærandi leitaði til ríkisskattstjóra í september 2018 með umsókn á eyðublaði RSK 5.42 („Application under Double Taxation Agreement for an Exemption or partial relief from Icelandic Taxation“), en kæranda mun áður eða á árinu 2017 hafa verið veitt slík undanþága vegna framkvæmda við byggingu H. Samkvæmt því sem fram kemur á umræddu eyðublaði RSK 5.42 er um að ræða ósk um undanþágu frá skattskyldu hér á landi á grundvelli tvísköttunarsamnings vegna ýmissra greiðslna til erlendra aðila, svo sem nánar er rakið („[...] exemption or partial relief from Icelandic Taxation concerning payments or commissions to foreign parties for services or other activities, the utilisation of property rights or interests, sales profits/capital gains or dividend payments“). Í umsókn kæranda kom fram að umsóknin varðaði þjónustu félagsins sem undirverktaka, sbr. 7. gr. í tvísköttunarsamningi milli Íslands og Póllands sem birtur er sem fylgiskjal með auglýsingu nr. 13/1999 í C-deild Stjórnartíðinda.

Ekki kemur fram í hinni kærðu ákvörðun ríkisskattstjóra á hvaða lagagrundvelli hún er tekin. Efnislega er um að ræða synjun ríkisskattstjóra á að veita kæranda undanþágu frá skattskyldu vegna greiðslna til félagsins í tengslum við fyrrgreint verkefni þess hér á landi og er ljóst, m.a. af skýringum með eyðublaði RSK 5.42, að grundvöllur slíkrar undanþágu eru ákvæði viðeigandi tvísköttunarsamnings, þ.e. í tilviki kæranda tvísköttunarsamnings milli Íslands og Póllands. Er tiltekið í fyrrgreindum skýringum með eyðublaði RSK 5.42 að undanþágan taki til aðila sem bera takmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 3., 6. og 7. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þ.e. aðila sem fá greiðslu fyrir þjónustu eða starfsemi innta af hendi hér á landi, hafa hér á landi tekjur af leigu, afnotum eða rétti til hagnýtingar á lausafé, einkaleyfum, hvers konar réttindum eða sérþekkingu, svo og af söluhagnaði vegna slíkra eigna, og sem hafa tekjur, þar með talinn söluhagnað, af íslenskum hlutabréfum, stofnbréfum eða öðrum réttindum til hlutdeildar í hagnaði eða af rekstri íslenskra fyrirtækja. Um slíkar undanþágur og meðferð umsókna um þær er m.a. fjallað í reglugerð nr. 630/2013, um tekjuskatt og staðgreiðslu af vöxtum og söluhagnaði hlutabréfa þeirra aðila sem bera takmarkaða skattskyldu, en samkvæmt 1. gr. þeirrar reglugerðar tekur hún til aðila sem bera takmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 7. og 8. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003 vegna söluhagnaðar hlutabréfa og vaxtatekna.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, skulu ágreiningsmál um ákvörðun skatta, gjalda og skattstofna, þar með talin rekstrartöp, úrskurðuð af sérstakri, óháðri nefnd, yfirskattanefnd. Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 30/1992 kemur fram að úrskurðarvald yfirskattanefndar taki til kærumála vegna skatta og gjalda sem lögð eru á eða ákvörðuð af ríkisskattstjóra. Jafnframt tekur úrskurðarvald yfirskattanefndar til annarra ákvarðana ríkisskattstjóra eftir því sem mælt er fyrir um í lögum. Ekki verður talið að fyrrgreind ákvörðun ríkisskattstjóra um að synja umsókn kæranda um undanþágu frá skattskyldu hér á landi vegna ákvæða tvísköttunarsamnings feli í sér slíka ákvörðun skatta samkvæmt lögum nr. 30/1992 sem fellur undir úrskurðarvald yfirskattanefndar samkvæmt 1. mgr. 2. gr. þeirra laga, enda er ljóst að afgreiðsla málsins tengdist ekki með neinum hætti álagningu tekjuskatts kæranda vegna liðins tímabils, sbr. 95. og 96. gr. laga nr. 90/2003. Þá verður ekki séð að aðrar málskotsheimildir laga nr. 90/2003 eða annarra laga á sviði skatta og gjalda, sbr. lög nr. 30/1992, geti átt við um ákvörðunina. Rétt er að taka fram að fyrrnefnd reglugerð nr. 630/2013 hefur ekki að geyma neinar málskotsheimildir vegna ákvarðana er þar greinir. Samkvæmt framansögðu þykir bera að vísa kæru kæranda frá yfirskattanefnd. Er ljóst að ríkisskattstjóri hefur ranglega leiðbeint um kærurétt til yfirskattanefndar í máli þessu. Samkvæmt þessum úrslitum málsins verður ennfremur að hafna málskostnaðarkröfu kæranda, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kærunni er vísað frá yfirskattanefnd. Málskostnaðarkröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja