Úrskurður yfirskattanefndar
- Aðflutningsgjöld
- Tollflokkun
- Berjasorbet
Úrskurður nr. 172/2019
Lög nr. 88/2005, 20. gr. Almennar reglur um túlkun tollskrár.
Deilt var um tollflokkun á berjasorbet. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að varan innhéldi ýmis bragð- og aukaefni og væri í skýringarriti Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO) sérstaklega talin með frostpinnum sem dæmi um vöru sem félli undir vörulið 2105 í tollskrá. Var fallist á með tollstjóra að varan félli undir þann vörulið, nánar tiltekið tollskrárnúmer 2105.0099 sem annar ís til manneldis.
Ár 2019, miðvikudaginn 6. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 109/2019; kæra A, dags. 2. júní 2019, vegna bindandi álits tollstjóra. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Kæra í máli þessu, dags. 2. júní 2019, varðar bindandi álit tollstjóra á tollflokkun Acai berja sorbet sem embættið lét uppi hinn 28. mars 2019 samkvæmt 21. gr. tollalaga nr. 88/2005. Í álitinu komst tollstjóri að þeirri niðurstöðu að varan félli undir vörulið 2105 í tollskrá, nánar tiltekið tollskrárnúmer 2105.0099 sem annar ís til manneldis. Í kærunni er þess krafist að niðurstaða tollstjóra verði endurskoðuð og umrædd vara talin falla undir tollskrárnúmer 0811.9001 sem ávöxtur með viðbættum sykri eða öðru sætiefni.
II.
Helstu málavextir eru þeir að með umsókn, dags. 12. mars 2019, óskaði kærandi eftir bindandi áliti tollstjóra á tollflokkun Acai berja sorbet, sbr. 21. gr. tollalaga nr. 88/2005. Í umsókninni kom fram að um væri að ræða maukuð acai-ber sem væru notuð í smoothie eða sem grunnur í smoothie-skál sem væri toppuð með t.d. ávöxtum, hnetum og fræjum. Var vísað til meðfylgjandi ljósmynda af „Acai-skálum“ og vörulýsingar framleiðanda. Tollstjóri lét uppi bindandi álit hinn 28. mars 2019 í tilefni af umsókn kæranda þar sem tollstjóri taldi að varan félli undir tollskrárnúmer 2105.0099 sem annar ís til manneldis.
III.
Í kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 2. júní 2019, kemur fram að varan sem um ræðir hafi ekki verið flutt til landsins áður og eigi að mati kæranda ekki heima í þeim tollflokki sem tollstjóri hafi úrskurðað um, þ.e. sem ís. Varan verði hvorki auglýst né seld sem ís og sé aðeins geymd frosin til þess að viðhalda ferskleika. Sé óheppilegt að vara, sem ekki innihaldi neinar dýraafurðir (vegan), rati í sama flokk og vörur sem innihaldi slíkar afurðir. Tollstjóri flokki vöruna sem ís og allur ís sem innihaldi minna en 3% af mjólkurfitu fari úr 11% skatti í 30% skatt eða 110 kr. á kíló.
IV.
Með bréfi, dags. 24. júlí 2019, hefur tollstjóri lagt fram umsögn í málinu. Fram kemur í umsögninni að í málinu sé deilt um tollflokkun á Acai berja sorbet. Um sé að ræða frosinn eftirrétt sem sé tilbúinn til neyslu og gerður úr vatni, maukuðum acai-berjum, sýrópi og ýmsum öðrum bragð- og aukaefnum. Vegna sjónarmiða kæranda um tollflokkun tekur tollstjóri fram að til þess að vara geti fallið undir 8. kafla tollskrár eða vörulið 0811 þurfi hún að vera ætur ávöxtur eða hneta. Smávægileg aðvinnsla sé þó leyfð, t.d. viðbættur sykur í litlu magni. Ekki komi til greina að fella hina innfluttu vöru undir 8. kafla tollskrár í ljósi þess að varan sé mikið unnin og innihaldi ýmis bragð- og aukaefni sem umbreyti vörunni úr því að vera einfaldur, ætur ávöxtur eða hneta í skilningi þess kafla. Samkvæmt skýringum Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO) sé vöruliður 2105 bæði fyrir rjómaís og annan ætan ís, þar með talið sorbet og frostpinna. Engu breyti um tollflokkun þótt varan sé án dýraafurða, enda sé ljóst að venjulegir frostpinnar, eingöngu gerðir úr vatni og bragðefnum, falli undir vörulið 2105. Að sama skapi skipti fyrirhuguð not vörunnar, þ.e. sem grunnur í ávaxtadrykk eða Acai-skálar, engu máli, enda sé varan framleidd og tilbúin til neyslu sem sorbet. Að framangreindu virtu og með hliðsjón af túlkunarreglum 1 og 6 við tollskrá sé það mat tollstjóra að Acai berja sorbet falli undir tollskrárnúmer 2105.0099 sem annar ætur ís, án bæði mjólkurfitu og kakóinnihalds og sem inniheldur ekki vínanda yfir 2,25% af rúmmáli. Sé þess því krafist að niðurstaða hins kærða bindandi álits tollstjóra verði staðfest.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 8. ágúst 2019, var kæranda sent ljósrit af umsögn tollstjóra í málinu og kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
V.
Kæra í máli þessu varðar bindandi álit tollstjóra samkvæmt 21. gr. tollalaga nr. 88/2005 sem embættið lét uppi 28. mars 2019 í tilefni af beiðni kæranda 12. sama mánaðar. Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu hér að framan óskaði kærandi eftir bindandi áliti tollstjóra um tollflokkun Acai berja sorbet. Í umsókninni kom fram að um væri að ræða maukuð acai-ber sem væru notuð í smoothie eða sem grunnur í smoothie-skál sem væri toppuð með ávöxtum, hnetum, fræjum eða öðru. Beiðninni fylgdu ljósmyndir af „Acai-skálum“ og vörulýsing (e. Product Specification) framleiðanda þar sem vörunni var lýst sem „Luscious acai berry flavor Organic Sorbet that´s 100% Vegan and Non-Dairy“. Í hinu kærða bindandi áliti sínu komst tollstjóri að þeirri niðurstöðu að umrædd vara félli undir tollskrárnúmer 2105.0099 í tollskrá sem annar ís til manneldis. Í kæru til yfirskattanefndar er byggt á því að varan geti fallið undir tollskrárnúmer 0811.9001 sem ávöxtur með viðbættum sykri eða öðru sætiefni.
Í almennum reglum um túlkun tollskrárinnar, sem lögfest var sem viðauki við tollalög nr. 88/2005, kemur fram að við flokkun samkvæmt tollskrá skuli fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum einungis vera til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skuli tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða og athugasemdum við tilheyrandi flokka eða kafla.
Í 2. mgr. 74. gr. reglugerðar nr. 1100/2006, um vörslu og tollmeðferð vöru, er vikið að skýringarriti Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO) um tollflokkun. Þar segir: „Fyrstu sex stafirnir í átta stafa tollskrárnúmerum tollskrárinnar eru í samræmi við vöruflokkunarkerfi Alþjóða tollastofnunarinnar sem Ísland er skuldbundið til að fylgja, sbr. auglýsingu nr. 25/1987. Skýringarritum og álitum Alþjóðatollastofnunarinnar um tollflokkun er ætlað að stuðla að samræmdri túlkun á flokkunarkerfi stofnunarinnar og geta verið til leiðbeiningar um tollflokkun samkvæmt íslensku tollskránni, enda þótt þau séu ekki bindandi að landsrétti.“ Með umræddri auglýsingu nr. 25/1987, sem birt var í C-deild Stjórnartíðinda, var almenningi gert kunnugt um aðild Íslands að alþjóðlegum samningi um samræmda vörulýsingar- og vörunúmeraskrá, sem gerður var í Brussel 14. júní 1983, sbr. einnig bókun við samninginn 24. júní 1986. Samkvæmt 1. tölul. 3. gr. alþjóðasamningsins skuldbinda samningsaðilar sig til þess að haga tollskrá sinni og skýrslugerð vegna inn- og útflutningsviðskipta í samræmi við hina samræmdu skrá, en í því felst m.a. að nota alla vöruliði og undirliði samræmdu skrárinnar án viðbóta eða breytinga ásamt tilheyrandi númeraskrá, og að fylgja númeraröð samræmdu skrárinnar. Jafnframt skuldbinda aðilar sig til þess að beita hinum almennu reglum um túlkun samræmdu skrárinnar og öllum athugasemdum við flokka, kafla og undirliði skrárinnar. Samkvæmt 7. gr. samningsins skal svonefnd samskrárnefnd, sbr. nánar 6. gr. samningsins, m.a. ganga frá skýrgreiningum, flokkunarúrskurðum og öðrum ráðgefandi ritum til túlkunar á samræmdu skránni, en rit þessi þurfa að hljóta samþykki Tollasamvinnuráðsins, nú Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO), eftir ákvæðum 8. gr. samningsins. Þess er að geta að litið hefur verið til skýringa í umræddum ritum WCO í langvarandi stjórnsýsluframkvæmd á sviði tollamála, sbr. t.d. úrskurði ríkistollanefndar nr. 2 og 8/2004, 9/2012 og 2/2013 og úrskurði yfirskattanefndar nr. 300/2015 og 67/2016.
Í 8. kafla tollskrár er fjallað um æta ávexti og hnetur og hýði af sítrusávöxtum eða melónum. Af athugasemdum við 8. kafla tollskrárinnar og umfjöllun í skýringarriti WCO (Explanatory Notes, sixth edition, 2017) verður ráðið að vara geti flokkast undir þann kafla þótt hún sé kæld, frosin eða þurrkuð og að ekki skipti máli þótt varan sé verkuð á tiltekinn hátt, t.d. skorin, rifin, maukuð o.s.frv., sbr. og heiti vöruliðar 0811 („ávextir og hnetur, ósoðið eða soðið í gufu eða vatni, fryst, einnig með viðbættum sykri eða öðru sætiefni“) sem kærandi telur eiga við um hina umþrættu vöru. Í skýringarriti WCO kemur fram að viðbættur sykur í litlu magni hafi ekki áhrif á flokkun ávaxtar undir 8. kafla („The addition of small quantities of sugar does not affect the classification of fruit in this chapter“).
Í 21. kafla tollskrár er fjallað um ýmsa matvælaframleiðslu. Undir vörulið 2105 í þessum kafla fellur rjómaís og annar ís til manneldis, einnig með kakaóinnihaldi. Skiptist sá vöruliður í þrjá jafnsetta undirliði og leit tollstjóri svo á að hin innflutta vara félli undir safnliðinn „Annar“ og tollskrárnúmer 2105.0099 („Annars“). Eins og rakið er í umsögn tollstjóra í málinu kemur fram í skýringarriti WCO (Explanatory Notes, sixth edition, 2017) að undir vörulið 2105 falli rjómaís, gerður úr mjólk eða rjóma, og annar ís til manneldis, en í dæmaskyni um ís af síðastgreindum toga tilgreinir skýringarritið sorbet og frostpinna (e. „sherbet, iced lollipops“).
Af innihaldslýsingu framleiðanda, sem fylgdi beiðni kæranda um bindandi álit, fer ekki á milli mála að varan sem um ræðir, þ.e. acai berja sorbet, inniheldur ýmis bragð- og aukaefni. Er varan að því leyti áþekk venjulegum frostpinnum og er sérstaklega talin með frostpinnum í skýringarriti WCO sem dæmi um vöru (annan ís til manneldis) sem fellur undir vörulið 2105. Að þessu athuguðu verður að fallast á með tollstjóra að varan falli undir tollskrárnúmer 2105.0099 í tollskrá. Með vísan til framanritaðs og reglu 1 og 6 í almennum reglum um túlkun tollskrár verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.