Úrskurður yfirskattanefndar

  • Aðflutningsgjöld
  • Tollflokkun
  • Álag á aðflutningsgjöld

Úrskurður nr. 173/2019

Lög nr. 88/2005, 20. gr., 180. gr. b (brl. nr. 112/2016, 20. gr.).   Lög nr. 29/1993, 3. gr., 4. gr.   Almennar reglur um túlkun tollskrár.  

Kærandi sætti endurákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings þriggja pallbifreiða á árinu 2018. Leit tollstjóri svo á að við innflutning bifreiðanna hefði ranglega verið lagt til grundvallar af hálfu kæranda að þær féllu undir tollskrárnúmer 8704.3191 í tollskrá sem ökutæki til vöruflutninga með vörurými. Vegna kröfu kæranda um niðurfellingu 50% álags á aðflutningsgjöld tók yfirskattanefnd fram að þar sem undirliðir vöruliðar 8704 í tollskrá greindu skýrlega á milli annars vegar bifreiða, sem búnar væru vörupalli, og hins vegar bifreiða með vörurými, þætti einsýnt að tollskrárnúmer 8704.3191 hefði ekki komið til álita við tollflokkun. Var kröfu kæranda um niðurfellingu álags hafnað.

Ár 2019, miðvikudaginn 6. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 106/2019; kæra A ehf., dags. 16. maí 2019, vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæra í máli þessu, dags. 16. maí 2019, varðar úrskurð tollstjóra, dags. 14. sama mánaðar, um endurákvörðun aðflutningsgjalda kæranda vegna innflutnings félagsins á þremur ökutækjum á árinu 2018. Var endurákvörðunin byggð á því að við innflutning ökutækjanna hefði ranglega verið lagt til grundvallar að þau féllu undir tollskrárnúmer 8704.3191 í tollskrá sem „ökutæki til vöruflutninga: önnur, með stimpilbrunahreyfli með neistakveikju: að heildarþyngd 5 tonn eða minna: með vörurými: ný“. Samkvæmt úrskurði tollstjóra voru ökutækin talin falla undir tollskrárnúmer 8704.3140 í tollskrá sem „ökutæki til vöruflutninga: önnur, með stimpilbrunahreyfli með neistakveikju: að heildarþyngd 5 tonn eða minna: með vörupalli: önnur ný: skráð koltvísýringslosun (CO2) yfir 250 g/km“. Benti tollstjóri á að um væri að ræða pallbifreiðar sem búnar væru vörupalli og því kæmi ekki annað tollskrárnúmer til álita en númerið 8704.3140. Að því er snertir ákvörðun vörugjalds kom fram af hálfu tollstjóra að þar sem engar upplýsingar lægju fyrir um skráða koltvísýringslosun ökutækjanna kæmi til kasta reiknireglu 2. mgr. 6. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Samkvæmt þeirri reglu ákvarðaðist losun koltvísýrings á bilinu 272-345 g/km vegna allra umræddra ökutækja, sbr. tollskrárnúmer 8704.3140. Þá hafnaði tollstjóri því að undanþáguákvæði vegna sendibifreiða í g-lið 2. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993 gæti tekið til ökutækjanna þar sem þau væru ekki með sambyggt stýrishús og flutningsrými, svo sem áskilið væri í ákvæðinu. Leiddu breytingar tollstjóra til hækkunar aðflutningsgjalda um samtals 13.138.558 kr. að meðtöldu 50% álagi samkvæmt 180. gr. b tollalaga nr. 88/2005. Til stuðnings beitingu álags tók tollstjóri fram að samkvæmt fyrrnefndu ákvæði væri tollstjóra skylt að beita álagi ef röng upplýsingagjöf innflytjanda hefði áhrif á álagningu aðflutningsgjalda. Ekkert í fyrirliggjandi gögnum málsins benti til þess að óviðráðanleg atvik hefðu hamlað réttri upplýsingagjöf. Þá gæti röng tollflokkun kæranda eða annarra aðila ekki réttlætt áframhaldandi ranga framkvæmd. Að þessu virtu væri tollstjóra rétt og skylt að beita álagi.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að 50% álag verði fellt niður. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Í kærunni er tekið fram að kærandi uni ákvörðun tollstjóra varðandi tollflokkun hinna innfluttu bifreiða með fyrirvara um lögmæti hennar, en áskilji sér rétt til að fá leyst úr vafa þar að lútandi fyrir æðra stjórnvaldi eða fyrir dómstólum. Þá kemur fram að því sé hafnað að skilyrði 180. gr. b tollalaga nr. 88/2005 fyrir beitingu álags séu uppfyllt í málinu, enda hafi kærandi verið í góðri trú um tollflokkun þar sem aðrir aðilar hefðu flutt inn sambærilegar bifreiðar miðað við 13% vörugjald. Aðflutningsskýrslur hefðu verið sendar tollstjóra og hann því haft öll tök til þess að sinna eftirliti vegna innflutningsins, en engar athugasemdir hefðu borist vegna tollflokkunarinnar. Þá hafi kærandi komið á framfæri leiðréttingu að eigin frumkvæði með bréfi til tollstjóra, dags. 25. mars 2019. Kærandi hafi því ekki hagað upplýsingagjöf á skjön við ábyrgð sína. Kærandi sé reynslumikill innflytjandi sem aldrei hafi gerst brotlegur við lög og ávallt átt í góðum samskiptum við tollyfirvöld. Tollyfirvöldum hafi verið í lófa lagið að hafa samband við kæranda vegna málsins og beita vægari úrræðum en beitingu harkalegs 50% álags. Tollstjóra beri að sinna lögbundnu eftirliti með innflutningi burtséð frá því hvort vörur séu tollafgreiddar með rafrænum hætti eða á annan máta. Líta beri til þess að kærandi hljóti að byggja ákvarðanir sínar á því sem fyrirsvarsmenn félagsins telji rétt að lögum hverju sinni.

II.

Með bréfi, dags. 25. júní 2019, hefur tollstjóri lagt fram umsögn í málinu. Í umsögn tollstjóra er þess krafist að niðurstaða embættisins um beitingu álags verði staðfest. Er greint frá atvikum málsins og sjónarmið kæranda í kæru til yfirskattanefndar reifuð. Í tilefni af þeim er bent á að álagsákvæði 180. gr. b tollalaga nr. 88/2005 sé í samræmi við ábyrgð innflytjenda samkvæmt 32. gr. sömu laga, sbr. og 20. gr. laganna varðandi tollflokkun. Að mati tollstjóra séu lög þannig skýr um ábyrgð innflytjenda á allri upplýsingagjöf, ekki síst þeirra innflytjenda sem undirgengist hafi þau skilyrði sem sett séu fyrir rafrænni afgreiðslu (SMT- eða VEF-tollafgreiðslu), sbr. 24. gr. tollalaga. Þegar tollafgreiðsla sé rafræn berist tollstjóra engin bókhaldsgögn, en um 2.600 skýrslur fari beint í gegnum rafræna afgreiðslu á degi hverjum og því ógerningur að ætla tollstjóra að fara yfir hverja og eina skýrslu. Geti innflytjandi því ekki talist vera í góðri trú af þeirri ástæðu einni að ekki séu gerðar neinar athugasemdir við tollafgreiðslu af hálfu tollstjóra. Þá verði ekki séð að óviðráðanleg atvik í skilningi 180. gr. b tollalaga séu fyrir hendi í tilviki kæranda. Vegna athugasemda kæranda um innflutning annarra aðila er tekið fram í umsögn tollstjóra að röng framkvæmd í einu tilviki réttlæti hvorki áframhaldandi ranga framkvæmd né geti haft í för með sér afléttingu ábyrgðar innflytjanda á réttri upplýsingagjöf. Að öðru leyti sé vísað til sjónarmiða í hinum kærða úrskurði tollstjóra.

Með bréfi, dags. 6. september 2019, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögn tollstjóra. Í bréfinu eru áður fram komin sjónarmið kæranda áréttuð, m.a. þess efnis að félagið hafi verið í góðri trú um réttmæti tollflokkunar ökutækjanna miðað við 13% vörugjald. Þá er tekið fram að tilvitnuð lagaákvæði feli ekki í sér skyldu til slíkrar álagningar heldur heimildir sem tollstjóri geti gripið til að uppfylltum tilteknum skilyrðum sem kærandi telji ekki fyrir hendi í málinu.

III.

Kæra í máli þessu varðar úrskurð tollstjóra, dags. 14. maí 2019, um endurákvörðun aðflutningsgjalda kæranda, sbr. 111. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, vegna innflutnings þriggja ökutækja á árinu 2018. Var endurákvörðun tollstjóra byggð á því að við innflutning ökutækjanna hefði ranglega verið lagt til grundvallar tollafgreiðslu að þau féllu undir tollskrárnúmer 8704.3191 í tollskrá, en tollstjóri leit svo á að ökutækin féllu undir tollskrárnúmer 8704.3140. Kom fram af hálfu tollstjóra að ökutæki, sem féllu undir tollskrárnúmer 8704.3140, þ.e. pallbifreiðar búnar vörupalli, skyldu greiða vörugjald miðað við skráða losun koltvísýrings (CO2) samkvæmt lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með áorðnum breytingum, sbr. 3. gr. þeirra laga, en ökutæki sem féllu undir tollskrárnúmer 8704.3191 bæru 13% vörugjald samkvæmt ákvæði g-liðar 2. tölul. 4. gr. sömu laga, en síðastnefnt ákvæði tekur til sendibifreiða með sambyggðu stýrishúsi og flutningsrými, svo sem nánar greinir. Leiddi ákvörðun tollstjóra til hækkunar vörugjalds vegna innflutnings bifreiðanna um samtals 13.138.558 kr. að meðtöldu 50% álagi samkvæmt 180. gr. b laga nr. 88/2005. Eins og fram kemur í kæru til yfirskattanefndar er kæruefni málsins bundið við álagsbeitingu tollstjóra þar sem kærandi unir ákvörðun embættisins varðandi tollflokkun og álagningu vörugjalds. Er þess krafist af hálfu kæranda að álag verði fellt niður þar sem kærandi hafi verið í góðri trú um tollflokkun bifreiðanna, svo sem frekar er rökstutt í kærunni.

Samkvæmt fyrrgreindu ákvæði 180. gr. b tollalaga nr. 88/2005, sbr. 20. gr. laga nr. 112/2016, um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl., er innflytjanda vöru skylt að greiða 50% álag til viðbótar við þá tolla og önnur aðflutningsgjöld sem honum bar með réttu að greiða hafi rangar eða villandi upplýsingar verið veittar um tegund, magn eða verðmæti vöru við innflutning eða upplýsingagjöf innflytjanda hefur að öðru leyti verið svo áfátt að áhrif hafi haft við álagningu. Fella skal álagið niður ef innflytjandi færir rök fyrir því að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann veitti réttar upplýsingar eða kæmi leiðréttingu á framfæri við tollstjóra. Þó skal ekki fella álagið niður ef annmarki á upplýsingagjöf á rætur sínar að rekja til aðgerða eða aðgerðaleysis tollmiðlara, seljanda eða sendanda.

Samkvæmt framansögðu ber innflytjanda vöru að greiða 50% álag á tolla og önnur aðflutningsgjöld hafi upplýsingagjöf hans verið svo áfátt að áhrif hafi haft við álagningu. Tollflokkun vöru við innflutning er liður í lögbundinni upplýsingagjöf innflytjanda, sbr. 1. mgr. 20. gr. tollalaga nr. 88/2005 þar sem fram kemur að innflytjendur skuli færa vöru til tollflokks í viðeigandi tollskjölum samkvæmt almennum reglum um túlkun tollskrárinnar í viðauka I við tollalög. Getur því komið til beitingar álags samkvæmt 180. gr. b tollalaga vegna rangrar tollflokkunar innflytjanda sem leitt hefur til vanálagðra aðflutningsgjalda, sbr. t.d. úrskurð yfirskattanefndar nr. 9/2019. Í tilviki kæranda verður því að leggja mat á hvort félagið hafi fært rök fyrir því að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að félagið veitti réttar upplýsingar eða kæmi leiðréttingu á framfæri við tollstjóra. Fram er komið í málinu að hinar innfluttu bifreiðar eru búnar vörupalli, en samkvæmt gögnum málsins er um að ræða pallbifreiðar af gerðinni Dodge Ram 1500, Ford F-150 og Toyota Tacoma. Að þessu athuguðu og þar sem undirliðir vöruliðar 8704 í tollskrá greina skýrlega á milli annars vegar bifreiða, sem búnar eru vörupalli, og hins vegar bifreiða með vörurými, þykir einsýnt að tollskrárnúmer 8704.3191 hafi ekki komið til álita varðandi tollflokkun hinna innfluttu bifreiða. Að þessu athuguðu verður ekki talið að skilyrði fyrir niðurfellingu álags samkvæmt 180. gr. b tollalaga nr. 88/2005 séu fyrir hendi í tilviki kæranda. Er kröfu félagsins um niðurfellingu álags því hafnað. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna kröfu félagsins um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja