Úrskurður yfirskattanefndar
- Skattsekt
- Skattrannsókn
- Veðmál
Úrskurður nr. 175/2019
Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 4. tölul., 109. gr. 1. mgr. Lög nr. 4/1995, 22. gr. 2. mgr.
A var með úrskurði yfirskattanefndar gerð sekt vegna vanrækslu á að telja fram til skatts í skattframtölum sínum tekjur af veðmálum á erlendum veðmálasíðum. Var í því sambandi miðað við fjárhæð vanframtalinna tekna samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins sem byggði á upplýsingum um greiðslur Y Ltd. inn á bankareikning A og úttektir af erlendu greiðslukorti sem m.a. var notað til að greiða fyrir sölureikninga sem stílaðir voru á A.
Ár 2019, miðvikudaginn 6. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 122/2019; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með bréfi, dags. 1. júlí 2019, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna tekjuáranna 2014, 2015 og 2016.
Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:
„A er gefið að sök eftirfarandi:
Skil á efnislega röngum skattframtölum. Vanframtaldar skattskyldar tekjur.
A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattyfirvöldum skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2015, 2016 og 2017, vegna tekjuáranna 2014, 2015 og 2016, með því að vanframtelja tekjur sínar sem til eru komnar vegna veðmála, samtals að fjárhæð 13.448.780 kr., sem skattleggja beri samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
Leiddi háttsemi A til ákvörðunar lægri tekjuskatts- og útsvarsstofns hans en vera bar gjaldárin 2015, 2016 og 2017, vegna tekjuáranna 2014, 2015 og 2016, og þar með til ákvörðunar lægri tekjuskatts og útsvars, svo sem hér greinir:
Tekjuár Vanframtaldar tekjur Tekjuskattur Útsvar
2014 4.260.552 1.013.194 (1 616.928 (2
2015 7.438.716 1.848.294 (3 1.077.126 (4
2016 1.749.512 0 (5 62.184 (6
Samtals kr. 13.448.780 2.861.488 1.756.238
Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 90. gr., sbr. 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 22. gr. og 19. gr. og 1. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, beggja með áorðnum breytingum.
Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, beggja með áorðnum breytingum.
Við væntanlega endurákvörðun skattstofna opinberra gjalda A vegna tekjuáranna 2014, 2015 og 2016 mun A að líkum verða gert að sæta álagningu tekjuskatts og útsvars á álag á vanframtalda skattstofna samkvæmt 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum, er komi til frádráttar við ákvörðun sektarfjárhæðar.
Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“
Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 1. júlí 2019, sem fylgdi kröfugerðinni.
II.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 3. júlí 2019, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.
III.
1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 1. júlí 2019, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.
2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á skattskilum gjaldanda vegna tekjuáranna 2014, 2015 og 2016, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 7. desember 2018. Rannsókn þessi hófst formlega hinn 17. ágúst 2018. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 23. ágúst 2018. Var rannsókn í máli gjaldanda byggð á upplýsingum sem fram komu við skýrslutöku þessa, svo og var byggt á gögnum frá fjármálastofnunum, gögnum frá greiðslukortafyrirtækjum og upplýsingum úr upplýsingakerfum skattyfirvalda. Með bréfum, dags. 6. nóvember 2018, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda og tilnefndum verjanda hans skýrslu um rannsóknina, dags. 5. nóvember 2018, og gaf þeim kost á að tjá sig um efni hennar áður en ákvörðun yrði tekin um framhald málsins. Hinn 4. desember 2018 lagði tilnefndur verjandi gjaldanda fram bréflegar athugasemdir við skýrsluna. Í framhaldi af þessu tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman nýja skýrslu um rannsóknina, dags. 7. desember 2018, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar þar sem tekið var fram að framkomin andmæli þættu ekki gefa tilefni til breytinga á skýrslunni.
Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 7. desember 2018, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman með svofelldum hætti:
„Niðurstöður rannsóknar skattrannsóknarstjóra á tekjum og skattskilum skattaðila vegna tekjuáranna 2014 til og með 2016 eru eftirfarandi:
Skattaðili hefur staðið skil á efnislega röngum skattframtölum.
Skattaðili hefur vanframtalið tekjur vegna veðmála á innsendum skattframtölum. Samkvæmt 4. tl. A-liðar 1. mgr. 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003 teljast vinningar í veðmáli til skattskyldra tekna.
Skattaðili vanrækti að gera grein fyrir erlendum bankareikningi á innsendum skattframtölum.“
Samkvæmt tölulegum niðurstöðum skýrslunnar, sem gerð var grein fyrir í töflu í niðurstöðukafla skýrslunnar, voru vanframtaldar tekjur gjaldanda taldar nema 4.260.552 kr. tekjuárið 2014, 7.438.716 kr. tekjuárið 2015 og 1.749.512 kr. tekjuárið 2016, eða samtals 13.448.780 kr.
Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 6. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 1. júlí 2019.
3. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 7. desember 2018, kemur fram að gjaldandi hafi staðið skil á skattframtölum árin 2015, 2016 og 2017 vegna tekjuáranna 2014, 2015 og 2016. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins kvaðst gjaldandi aðspurður hafa útbúið skattframtöl vegna tekjuáranna 2015 og 2016 en sagði M hafa útbúið skattframtal vegna tekjuársins 2014.
Í kafla um rannsókn á tekjum gjaldanda kemur fram að gjaldandi hafi gegnt ýmsum störfum á rannsóknartímabilinu. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins staðfesti gjaldandi að hafa verið eigandi bankareiknings nr. ... Þá voru lögð fyrir gjaldanda yfirlit yfir úttektir á Íslandi með erlendu greiðslukorti með númeraendinguna ... Kannaðist gjaldandi við að hafa verið með erlent greiðslukort á rannsóknartímabilinu en gat ekki staðfest að yfirlitið sýndi kortið hans. Kemur fram í skýrslunni að umrætt greiðslukort hafi verið notað til að greiða reikninga í nafni gjaldanda, þ.e. annars vegar reikning, dags. 30. nóvember 2015, vegna viðgerðar á bifreið og hins vegar reikning, dags. 15. júní 2015, vegna trygginga hjá X hf. Við skýrslutökuna kannaðist gjaldandi við að hafa átt umrædda bifreið og að hafa verið með tryggingar hjá X hf. Þá er rakið í skýrslunni að gjaldandi hafi fengið greiðslur inn á bankareikning sinn frá Y Ltd. Við skýrslutöku bar gjaldandi því við að um væri að ræða vinningsfé vegna veðmála í gegnum erlendar veðmálasíður á netinu. Viðurkenndi gjaldandi við skýrslutökuna að hafa verið með erlendan bankareikning sem hefði verið notaður í tengslum við veðmál á netinu. Kvaðst gjaldandi aðspurður ekki geta afhent yfirlit yfir reikninginn, en hann væri búinn að „slaufa“ þessu öllu. Játaði gjaldandi því að hafa verið með erlent greiðslukort sem hefði verið tengt umræddum bankareikningi og að tekjurnar sem hefðu komið inn á bankareikninginn hefðu verið ávinningur af fjárhættuspilum. Aðspurður hvers vegna gjaldandi hefði ekki gert grein fyrir umræddum tekjum í skattframtölum sínum sagði gjaldandi að hann hefði talið að um skattfrjálsar tekjur væri að ræða. Er rakið í skýrslunni að gjaldandi hafi fengið greiddar 3.704.164 kr. árið 2014 og 925.773 kr. árið 2015, eða samtals 4.629.937 kr., frá Y Ltd. inn á bankareikning sinn. Þá hafi gjaldandi tekið út 556.388 kr. með erlendu greiðslukorti á Íslandi á árinu 2014, 6.512.943 kr. á árinu 2015 og 1.749.512 kr. á árinu 2016, eða samtals 8.818.843 kr.
4. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins er sem fyrr segir reist á því að gjaldandi hafi vanrækt að gera grein fyrir í skattframtölum sínum árin 2015, 2016 og 2017 tekjum vegna veðmála á erlendum veðmálasíðum sem hann hafi haft tekjuárin 2014, 2015 og 2016, en skattrannsóknarstjóri byggði í þessu sambandi á yfirliti yfir greiðslur inn á bankareikning gjaldanda og yfirliti yfir úttektir af erlendu greiðslukorti. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins staðfesti gjaldandi að greiðslur frá Y Ltd. inn á bankareikning hans væru tekjur vegna veðmála sem gjaldandi hefði ekki gert grein fyrir í skattframtölum sínum greind ár. Þá staðfesti gjaldandi að hafa verið með erlent greiðslukort sem tengt var við erlendan bankareikning þar sem ávinningur gjaldanda af veðmálastarfsemi var lagður inn. Hefur gjaldandi ekki vefengt að hafa notað umrætt greiðslukort til að greiða fyrir vörur og þjónustu á Íslandi á rannsóknartímanum.
Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldanda í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.
Eins og fram er komið byggja tölulegar niðurstöður skattrannsóknarstjóra ríkisins á vantöldum tekjum gjaldanda árin 2014, 2015 og 2016 á yfirlitum yfir greiðslur Y Ltd. inn á bankareikning kæranda árin 2014 og 2015 og yfirliti yfir úttektir af erlendu greiðslukorti með númeraendinguna ... á Íslandi árin 2014, 2015 og 2016, sem m.a. var notað til að greiða fyrir sölureikninga sem stílaðir voru á gjaldanda, sbr. fskj. 4.1-4.15 og 7.1-7.24 með skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Á þessum grundvelli er í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins gerð grein fyrir vantöldum tekjum gjaldanda að fjárhæð 4.260.552 kr. árið 2014, 7.438.716 kr. árið 2015 og 1.749.512 kr. árið 2016. Gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Samkvæmt þessu og að virtum gögnum málsins að öðru leyti þykir ekkert komið fram sem gefur tilefni til annars en að miða við fjárhæð vanframtalinna tekna samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið og að öðru leyti með stoð í gögnum málsins þykir bera að fallast á ályktun skattrannsóknarstjóra ríkisins um að gjaldandi hafi með saknæmum hætti staðið skil á efnislega röngum skattframtölum árin 2014, 2015 og 2016 með því að vanrækja að telja fram tekjur með fyrrgreindum fjárhæðum sem skattskyldar voru samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Telst vanálagður tekjuskattur samkvæmt framansögðu nema 1.013.194 kr. gjaldárið 2015 og 1.848.294 kr. gjaldárið 2016, eða samtals 2.861.488 kr. Vanálagt útsvar nam 616.928 kr. gjaldárið 2014, 1.077.126 kr. gjaldárið 2015 og 62.184 gjaldárið 2016, eða samtals 1.756.238 kr. Hinar röngu upplýsingar í skattframtölum gjaldanda gjaldárin 2015, 2016 og 2017 leiddu til lægri álagningar opinberra gjalda hans en vera bar umrædd gjaldár, svo sem greinir í kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins, þannig að brot gjaldanda varða við 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.
Ákvarða ber gjaldanda, A, sekt samkvæmt framangreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Fram er komið að vanálagður tekjuskattur hafi numið samtals 2.861.488 kr. og vanálagt útsvar samtals 1.756.238 kr. Að þessu virtu og málsatvikum að öðru leyti og að teknu tilliti til mögulegs álags samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 5.100.000 kr. til ríkissjóðs og 3.100.000 kr. til bæjarsjóðs Kópavogs.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 5.100.000 kr. til ríkissjóðs og 3.100.000 kr. til bæjarsjóðs Kópavogs.
1) Vanframtalinn tekjuskattur í 22,86% þrepi: 1.905.935 * 0,2286 = 435.697 kr. Að teknu tilliti til ónýtts persónuafsláttar að fjárhæð 18.221 kr.: 435.697 - 18.221 = 417.476 kr.
Vanframtalinn tekjuskattur í 25,30% þrepi: 2.354.617 * 0,2530 = 595.718 kr.
Vanframtalinn tekjuskattur samtals: 417.476 + 595.718 = 1.031.194 kr.
2) Útsvar 14,48%: 4.260.552 * 0,1448 = 616.928 kr.
3) Vanframtalinn tekjuskattur í 22,86% þrepi: 1.381.200 * 0,2286 = 315.742 kr.
Vanframtalinn tekjuskattur í 25,30% þrepi: 6.057.516 * 0,2530 = 1.532.552 kr.
Vanframtalinn tekjuskattur samtals: 315.742 + 1.532.552 = 1.848.294 kr.
4) Útsvar 14,48%: 7.438.716 * 0,1448 = 1.077.126 kr.
5) Vanframtalinn tekjuskattur í 22,68% þrepi: 1.749.512 * 0,2268 = 396.789 kr. Að teknu tilliti til ónýtts persónuafsláttar að fjárhæð 587.934 kr.: 396.789 – 587.934 = -191.145 kr.
6) Útsvar 14,48%: 1.749.512 * 0,1448 = 253.329 kr. Að teknu tilliti til ónýtts persónuafsláttar að fjárhæð 191.145 kr.: 253.392 – 191.145 = 62.184 kr.