Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tryggingabætur
  • Álag

Úrskurður nr. 224/2008

Gjaldár 2006

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 2. tölul., 108. gr. 2. mgr.  

Skattstjóri færði kæranda til skattskyldra tekna tryggingabætur sem kærandi fékk greiddar vegna tjóns á bifreið hans á árinu 2005. Fallist var á kröfu kæranda um niðurfellingu 25% álags vegna þeirrar tekjufærslu og var m.a. bent á í því sambandi að kærandi hefði greint frá greiðslu bótanna í athugasemdadálki í skattframtali sínu árið 2006.

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi til kæranda, dags. 17. september 2007, óskaði skattstjóri eftir því að kærandi gerði m.a. grein fyrir því að tryggingabætur að fjárhæð 2.455.000 kr. frá Sjóvá-Almennum tryggingum hf., sem kærandi hefði fengið greiddar á árinu 2005 vegna tjóns á bifreiðinni K, væru ekki tekjufærðar í rekstrarreikningi með skattframtali árið 2006. Hefði umrædd bifreið verið eignfærð í rekstri kæranda undanfarin ár og því um rekstrartekjur að ræða. Vísaði skattstjóri til B-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, varðandi skattskyldu teknanna. Var kæranda veittur 15 daga frestur til að veita skýringar.

Með bréfi, dags. 8. nóvember 2007, boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 2006 með því að fyrirhugað væri að tekjufæra í skattframtali kæranda árið 2006 laun að fjárhæð 288.734 kr. samkvæmt innsendum launamiða frá H og hækka frádrátt vegna lífeyrissjóðsiðgjalda í reit 162 um 11.549 kr. Þá væri fyrirhugað að tekjufæra í rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 2005 1.902.040 kr. Tók skattstjóri fram að kærandi hefði á árinu 2005 fengið greiddar tryggingabætur frá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. að fjárhæð 2.455.000 kr. vegna tjóns á bifreiðinni K. Bókfært verð bifreiðarinnar hefði í upphafi árs 2005 numið 691.200 kr., en ekki væri heimilt að fyrna bifreiðina á árinu 2005, eins og kærandi hefði gert, sbr. almenna fyrningu 138.240 kr. þar sem hún hefði eyðilagst á því ári. Mismunur á greiddum tryggingabótum og bókfærðu verði yrði þá 1.902.040 kr., en þá hefði tilfærð fyrning bifreiðarinnar 138.240 kr. verið felld niður. Vísaði skattstjóri til fyrirspurnarbréfs síns, dags. 17. september 2007, og tók fram að engin svör hefðu borist frá kæranda innan veitts frests. Þá boðaði skattstjóri beitingu 25% álags og tók fram að heimilt væri að bæta 25% álagi við vantalda skattstofna, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, en það teldist annmarki á framtalsgerð þegar tekjur væru vantaldar.

Í svarbréfi kæranda, dags. 15. nóvember 2007, kom fram að laun frá H að fjárhæð 288.734 kr. hefðu verið vantalin og þau skyldi því tekjufæra í skattframtali kæranda árið 2006. Þá kom fram að það hefðu verið mistök að eignfæra bifreiðina K, en eignfærslan hefði verið forskráð í framtal kæranda. Tók kærandi fram að í reit 1.4 í framtalinu kæmi fram að hann hefði í mars 2005 keypt bifreiðina D og kæmi þar fram að kaupverð hefði numið 1.140.000 kr. „og greiddar tryggingabætur að upphæð 2.455.000 kr.“ Teldi kærandi að tekjur að fjárhæð 2.455.000 kr. hefði átt að færa í rekstrarreikning fyrir árið 2005, en á móti hefði átt að færa sem gjöld kaupverð bifreiðarinnar D 1.140.000 kr. Þegar tekið hefði verið tillit til bókfærðs verðs bifreiðarinnar M sem væri 691.200 kr. stæðu eftir 622.800 kr. (rétt fjárhæð 623.800 kr.) sem vantaldar tekjur sem ekki hefði verið greiddur skattur af.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 18. desember 2007, hratt skattstjóri boðaðri endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2006 í framkvæmd. Færði skattstjóri kæranda til skattskyldra tekna laun að fjárhæð 288.734 kr. og hækkaði frádrátt vegna lífeyrissjóðsiðgjalda í reit 162 um 11.549 kr. með vísan til svarbréfs kæranda, dags. 15. nóvember 2007. Þá færði skattstjóri kæranda til tekna í rekstrarreikningi bætur frá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. að fjárhæð 2.455.000 kr. Tók skattstjóri fram í því sambandi að bókfært verð bifreiðarinnar í upphafi árs 2005 hefði verið 691.200 kr. og næmi söluhagnaður því 1.763.800 kr. Kærandi hefði óskað eftir því að kaupverð bifreiðarinnar D yrði gjaldfært í rekstri á móti greindum söluhagnaði, en ekki væri heimild í lögum til þess að gjaldfæra eignir sem væru keyptar fyrir meira en 250.000 kr., sbr. 39. gr. laga nr. 90/2003. Því yrði bifreiðin D eignfærð í rekstri kæranda, eins og gert væri í skattframtali kæranda árið 2007. Í skattframtali árið 2007 væri bifreiðin fyrnd um 182.400 kr. Ekki væri heimilt að fyrna eign um hærri fjárhæð en næmi 10% af stofnverði, sbr. 42. gr. laga nr. 90/2003, og því yrði aukafyrning vegna söluhagnaðar bifreiðarinnar M 615.600 kr. Væri umrædd bifreið því „komin í niðurlagsverð“ í skattframtali árið 2007. Þá lækkaði skattstjóri gjaldfærðan bifreiðakostnað kæranda úr 611.193 kr. í 412.714 kr. sem leiddi af niðurfellingu fastrar afskriftar bifreiðarinnar D samkvæmt rekstraryfirliti bifreiðar (RSK 4.03) með skattframtali árið 2006. Kom fram að ekki væri heimilt að færa bæði fasta fyrningu á bifreið og eignfæra og fyrna sömu bifreið, eins og sagði í úrskurði skattstjóra. Nánar tiltekið fólust breytingar skattstjóra í greindri tekjufærslu söluhagnaðar 1.763.800 kr., lækkun bifreiðakostnaðar um 198.479 kr., hækkun almennrar fyrningar um 89.760 kr. og gjaldfærslu sérstakrar fyrningar 615.600 kr. Leiddu breytingar þessar til að hreinar tekjur í reit 4999 í rekstrarskýrslu urðu 1.174.741 kr. í stað taps áður að fjárhæð 82.178 kr. Hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns nam 1.451.926 kr. Við þá hækkun skattstofna kæranda, sem leiddi af framangreindum breytingum skattstjóra, bætti skattstjóri 25% álagi með vísan til 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 og tók fram að kærandi hefði ekki sýnt fram á að fella skyldi niður álag á grundvelli 3. mgr. 108. gr. laganna og ekki stæðu efni til annars en beitingar álags. Kom fram að álag á vantaldar tekjur yrði 362.981 kr., sbr. greinda hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns.

II.

Með kæru, dags. 8. febrúar 2008, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 18. desember 2007, til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur fram að með hinum kærða úrskurði hafi skattstjóri fært kæranda til skattskyldra tekna vanframtalin laun og tryggingabætur vegna bifreiðarinnar M, auk þess sem skattstjóri hafi fellt niður fasta afskrift bifreiðarinnar D og lækkað gjaldfærðan bifreiðakostnað til samræmis. Kemur fram að ekki þyki ástæða til efnislegra andmæla vegna tekjufærslu sem leitt hafi af framangreindum breytingum skattstjóra, enda sé ljóst að mistök hafi átt sér stað við framtalsgerð. Hins vegar sé þess krafist að nýtt verði heimild í 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 til þess að fella niður 25% álag sem skattstjóri hafi bætt við hækkun skattstofna sem leitt hafi af tekjufærslu tryggingabóta og lækkun fyrninga, enda sé ekki um eiginleg undanskot að ræða heldur mistök við framtalsgerð. Því til stuðnings megi benda á að tryggingabótanna hafi verið getið í lið 1.4 í skattframtali kæranda. Til vara sé þess krafist að álag verði fellt niður vegna umræddra tryggingabóta.

III.

Með bréfi, dags. 11. apríl 2008, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Gerð er krafa um staðfestingu á álagsbeitingu skattstjóra. Ekki hefur verið sýnt fram á að tilvik kæranda sé þess eðlis að 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, geti átt við.“

IV.

Með hinum kærða úrskurði sínum um endurákvörðun, dags. 18. desember 2007, gerði skattstjóri tilteknar breytingar á skattframtali kæranda árið 2006. Í fyrsta lagi færði skattstjóri kæranda til skattskyldra tekna í skattframtalinu vanframtalda launagreiðslu frá H að fjárhæð 288.734 kr., auk þess sem skattstjóri hækkaði frádrátt vegna lífeyrissjóðsiðgjalda í skattframtalinu um 11.549 kr. vegna launagreiðslu þessarar. Í öðru lagi færði skattstjóri kæranda til skattskyldra tekna í rekstrarreikningi fyrir árið 2005 söluhagnað bifreiðarinnar M að fjárhæð 1.763.800 kr., en fram er komið af hálfu kæranda að umrædd bifreið eyðilagðist í veltu á árinu 2005 og voru kæranda greiddar bætur vegna tjónsins frá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. að fjárhæð 2.455.000 kr. á árinu 2005. Er ljóst að greind tekjufærsla skattstjóra var byggð á ákvæðum 13. gr., sbr. 22. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og liggur fyrir að skattstjóri tók tillit til sérstakrar fyrningar bifreiðarinnar D sem kærandi keypti á árinu 2005, sbr. ákvæði 33. gr. laga nr. 90/2003. Þá gerði skattstjóri í þriðja lagi breytingar á skattframtalinu sem lutu að meðferð bifreiðarinnar D í skattskilum kæranda og gjaldfærðum bifreiðakostnaði í rekstrarreikningi kæranda sem leiddu af því að skattstjóri virti bifreiðina sem fyrnanlega eign, sbr. nánar I. kafla hér að framan. Við þá hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns kæranda gjaldárið 2006, sem leiddi af fyrrgreindum breytingum skattstjóra á skattframtali kæranda, bætti skattstjóri 25% álagi með vísan til heimildarákvæðis 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.

Eins og fram kemur í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 8. febrúar 2008, unir kærandi framangreindum breytingum skattstjóra að öllu leyti. Þá verður að telja ljóst að kærandi uni álagsbeitingu skattstjóra vegna vanframtalinna launatekna frá H. Aðalkrafa kæranda lýtur hins vegar að niðurfellingu 25% álags vegna annarra breytinga skattstjóra á skattframtali hans árið 2006. Fyrir liggur að kærandi greindi frá greiðslu Sjóvár-Almennra trygginga hf. að fjárhæð 2.455.000 kr. vegna tjóns á bifreiðinni M í athugasemdadálki í skattframtali sínu árið 2006. Að þessu athuguðu og að virtum málsatvikum að öðru leyti þykir mega taka kröfu kæranda um niðurfellingu álags vegna annarra breytinga til greina.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Krafa kæranda er tekin til greina. Álag á tekjuskatts- og útsvarsstofn verður 69.296 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja