Úrskurður yfirskattanefndar
- Virðisaukaskattur
- Ferðaþjónusta
Úrskurður nr. 232/2008
Lög nr. 50/1988, 2. gr. 3. mgr. 6. og 13. tölul., 4. gr. 1. tölul., 5. gr., 26. gr.
Kærandi, sem var einkahlutafélag, mótmælti þeirri ákvörðun skattstjóra að taka félagið af skrá yfir virðisaukaskattsskylda aðila. Yfirskattanefnd taldi ljóst að meginþáttur í starfsemi kæranda væri fólginn í endursölu farmiða með flugvélum auk markaðssetningar og skipulagningar ferða til Íslands fyrir erlenda ferðamenn. Að því leyti sem starfsemin væri gagngert fólgin í framangreindu yrði að telja að um milligöngu um ferðaþjónustu væri að ræða sem undanþegin væri virðisaukaskatti. Þá varð ekki ráðið af gögnum málsins að um hefði verið að ræða neina sölu kæranda á ráðgjöf til annarra aðila, en skráður tilgangur félagsins var m.a. ráðgjöf á sviði flugrekstrar. Var kröfum kæranda hafnað.
I.
Málavextir eru þeir að með bréfi til kæranda, dags. 9. nóvember 2006, greindi skattstjóri frá því að honum hefði borist frá kæranda leiðréttingarskýrsla virðisaukaskatts (RSK 10.26) vegna ársins 2005 þar sem gerð væri grein fyrir undanþeginni veltu að fjárhæð 201.503.480 kr. og innskatti að fjárhæð 1.356.325 kr. Vísaði skattstjóri til þess að í kjölfar bréfaskipta við kæranda á árinu 2005 hefði skattstjóri hafnað tilfærðum innskatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum félagsins fyrir uppgjörstímabilin mars-apríl, maí-júní og júlí-ágúst 2005 og viðbótarinnskatti samkvæmt leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts fyrir árið 2004 á þeim grundvelli að kærandi hefði með höndum starfsemi sem væri undanþegin virðisaukaskatti, þ.e. fólksflutninga, sbr. ákvæði 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og innskattsrétti væri þar af leiðandi ekki til að dreifa, sbr. 4. mgr. sömu lagagreinar, sbr. bréf skattstjóra, dags. 29. og 30. september og 16. nóvember 2005. Þá skírskotaði skattstjóri til þess að ríkisskattstjóri hefði með bréfi til kæranda, dags. 25. september 2006, hafnað beiðni félagsins um endurskoðun á ákvörðun skattstjóra um að hafna tilfærðum innskatti samkvæmt leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts fyrir árið 2004. Af þessum sökum og á sama grundvelli væri fyrirhugað að hafna endurgreiðslu innskatts samkvæmt innsendri leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts fyrir árið 2005. Þá væri af sömu ástæðum fyrirhugað að taka kæranda af skrá yfir virðisaukaskattsskylda aðila, sbr. 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Af hálfu kæranda urðu ekki viðbrögð við bréfi skattstjóra, dags. 9. nóvember 2006, og með úrskurði, dags. 8. janúar 2007, tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hefði hafnað endurgreiðslu innskatts samkvæmt innsendri leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts fyrir árið 2005 og jafnframt tekið kæranda af skrá yfir virðisaukaskattsskylda aðila, sbr. 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 515/1996. Í niðurlagi úrskurðarins kom fram að hin síðarnefnda ákvörðun skattstjóra um að taka kæranda af grunnskrá virðisaukaskatts væri kæranleg til skattstjóra og að kærufrestur væri 30 dagar frá dagsetningu úrskurðarins. Höfnun innskatts samkvæmt innsendri leiðréttingarskýrslu væri kæranleg til ríkisskattstjóra innan þriggja mánaða frá dagsetningu úrskurðarins, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
II.
Með kæru, dags. 4. apríl 2007, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði skattstjóra, dags. 8. janúar 2007, til yfirskattanefndar. Kemur fram í kærunni að kæruefnið sé ákvörðun skattstjóra að taka kæranda af skrá yfir virðisaukaskattsskylda aðila og höfnun hans á innsendri leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts fyrir árið 2005. Er þess aðallega krafist í kærunni að úrskurður skattstjóra verði ómerktur vegna tilgreindra annmarka á málsmeðferð skattstjóra en til vara að úrskurðurinn verði ómerktur þar sem ekki sé efnislegur grundvöllur fyrir ákvörðunum skattstjóra. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.
Í kæru umboðsmanns kæranda kemur fram að verulegir ágallar séu á rökstuðningi hins kærða úrskurðar skattstjóra, bæði að því er snerti forsendur ákvörðunar skattstjóra og tilvísun til réttarreglna. Engin afstaða sé tekin til fram kominna skýringa kæranda og ekki sé fullnægjandi að vísa einungis til fyrri bréfaskipta án þess að gera nokkra grein fyrir efni þeirra. Engin grein sé gerð fyrir lagagrundvelli ákvörðunar skattstjóra og óljóst sé hvort um sé að ræða ákvörðun eða endurákvörðun virðisaukaskatts. Þá hafi skattstjóri vanrækt leiðbeiningarskyldu sína með því að leiðbeina um kæruheimild til ríkisskattstjóra, enda sé vandséð á hvaða grundvelli sú kæruheimild sé byggð, sbr. 4. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988 þar sem kveðið sé á um kæruheimild til yfirskattanefndar. Loks sé þess að geta að hvergi komi fram í hinum kærða úrskurði skattstjóra frá hvaða tíma afskráning kæranda af grunnskrá virðisaukaskatts miðist við.
Þá kemur fram í kærunni að enginn efnislegur grundvöllur sé fyrir hinni umdeildu ákvörðun skattstjóra. Kærandi líti svo á að tekjur félagsins falli undir undanþegna veltu samkvæmt 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, enda sé seld þjónusta félagsins nýtt erlendis af aðilum sem hvorki hafi búsetu né starfsstöð hér á landi. Starfsemi kæranda sé fólgin í miðlun flugsæta til erlendra ferðaheildsala. Félagið hafi milligöngu um sölu á flugsætum og leigi í því skyni flugvélar, einkum af flugfélaginu Y, en um sé að ræða sölu á flugsætum til erlendra ferðamanna fyrir milligöngu erlendra ferðaheildsala. Tekjur kæranda séu þóknanir fyrir miðlun umræddra flugsæta, þ.e. þóknanir fyrir að koma á viðskiptum milli ferðaheildsala og ferðamanna. Af þessum sökum sé því vísað á bug að starfsemi félagsins falli undir ferðaþjónustu í skilningi 13. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Líkja megi starfsemi kæranda við starfsemi fasteignasala. Þá sé kærandi ekki ferðaskrifstofa þrátt fyrir að tekjur félagsins séu þóknanir fyrir að koma á viðskiptum milli neytenda og seljenda. Kærandi kaupi flugsæti af flugfélögum og endurselji til erlendra ferðaskrifstofa og sé ekki um að ræða leyfisskylda starfsemi, þ.e. ferðaþjónustu, heldur sölu á þjónustu sem nýtt sé erlendis og falli því undir 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988. Til stuðnings sjónarmiðum kæranda megi vísa til skattframkvæmdar, sbr. t.d. úrskurð yfirskattanefndar nr. 89/1998. Umræddur úrskurður styðji þau sjónarmið kæranda að verulega skorti á að málið hafi verið nægjanlega upplýst af hálfu skattstjóra með tilliti til eðlis starfsemi félagsins. Þá megi einnig skírskota til ákvarðandi bréfs ríkisskattstjóra nr. 1066/2006 varðandi upplýsingamiðlun á veraldarvefnum sem renni frekari stoðum undir afstöðu kæranda. Sé þess því krafist að innsend leiðréttingarskýrsla virðisaukaskatts (RSK 10.26) fyrir árið 2005 verði tekin til greina og að ákvörðun skattstjóra um að taka kæranda af skrá yfir virðisaukaskattsskylda aðila verði felld úr gildi.
Í niðurlagi kærunnar kemur fram að málskostnaðarkrafa kæranda sé gerð vegna 10 klukkustunda vinnu umboðsmanns kæranda við málið og nemi kostnaður vegna hennar 150.000 kr. að viðbættum virðisaukaskatti.
III.
Með bréfi, dags. 22. júní 2007, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.
IV.
Kærandi í máli þessu er einkahlutafélag. Varðar kæra félagsins úrskurð skattstjóra, dags. 8. janúar 2007, sem ber yfirskriftina „úrskurður samkvæmt 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila“. Með úrskurði þessum tók skattstjóri kæranda af skrá yfir virðisaukaskattsskylda aðila (grunnskrá virðisaukaskatts) sbr. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, frá og með 31. desember 2005. Voru forsendur skattstjóra þær að kærandi hefði með höndum starfsemi sem væri undanþegin virðisaukaskatti samkvæmt 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, þ.e. fólksflutninga. Með úrskurði þessum tók skattstjóri jafnframt til afgreiðslu leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts (RSK 10.26) vegna ársins 2005, sem barst skattstjóra hinn 27. september 2005, þar sem einungis var tilgreind undanþegin velta og innskattur. Hafnaði skattstjóri tilfærðum innskatti að fjárhæð 1.356.325 kr. samkvæmt leiðréttingarskýrslunni á sömu forsendum og hér að framan greinir varðandi afskráningu kæranda, þ.e. á þeim forsendum að starfsemi kæranda væri undanþegin virðisaukaskatti og því væri innskattsrétti ekki til að dreifa, sbr. 4. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, sem skattstjóri vísaði til í þessu sambandi. Þá skírskotaði skattstjóri til ákvarðana sinna frá 29. september og 16. nóvember 2005 þar sem hann hafnaði á sama grundvelli tilfærðum innskatti samkvæmt innsendum virðisaukaskattsskýrslum kæranda fyrir uppgjörstímabilin mars-apríl, maí-júní og júlí-ágúst 2005.
Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að ákvörðun skattstjóra um afskráningu kæranda af grunnskrá virðisaukaskatts verði felld úr gildi og að fallist verði á innsenda leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts vegna ársins 2005. Í tilefni af þessari kröfugerð skal tekið fram að líta verður svo á að erindi kæranda til skattstjóra, þ.e. framlagning leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts fyrir árið 2005, hafi efni sínu samkvæmt falið í sér beiðni um endurákvörðun virðisaukaskatts félagsins (skatterindi) á grundvelli heimilda ríkisskattstjóra samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Með bréfi, dags. 15. janúar 1999, hefur ríkisskattstjóri falið skattstjórum að afgreiða erindi af þessu tagi. Með hinni umdeildu afgreiðslu sinni synjaði skattstjóri erindi kæranda. Í úrskurðaframkvæmd hefur synjun ríkisskattstjóra um að neyta þeirrar sérstöku heimildar til breytinga á áður álögðum og ákvörðuðum gjöldum, sem embættinu er fengin í 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, sbr. hliðstæða heimild í 2. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, ekki verið talin kæranleg til yfirskattanefndar eftir reglum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Í lokamálslið hins fyrrnefnda ákvæðis er hins vegar sérstaklega tekið fram að skattaðila sé heimilt að kæra breytingar ríkisskattstjóra eða eftir atvikum skattstjóra til yfirskattanefndar.
Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að með hinni umdeildu synjun sinni, dags. 8. janúar 2007, hafi skattstjóri tekið neina þá ákvörðun um virðisaukaskatt kæranda árið 2005 sem kæranleg er til yfirskattanefndar eftir ákvæðum laga nr. 30/1992. Með vísan til þess og þar sem annarri málskotsheimild til yfirskattanefndar vegna umræddrar synjunar er ekki til að dreifa þykir bera að vísa þessum þætti í kæru kæranda frá yfirskattanefnd. Á hinn bóginn er ljóst að ákvörðun skattstjóra um afskráningu kæranda af grunnskrá virðisaukaskatts er kæranleg til yfirskattanefndar eftir reglum laga nr. 30/1992, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988. Víkur þá að þeim þætti málsins.
Aðalkrafa kæranda lýtur að því að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði ómerktur vegna ætlaðra annmarka á málsmeðferð skattstjóra. Í kærunni kemur fram í þeim efnum að rökstuðningi skattstjóra sé verulega áfátt þar sem skattstjóri hafi látið hjá líða að fjalla sjálfstætt og efnislega um ágreiningsefnið og skýringar kæranda og látið sitja við tilvísun til eldri bréfa auk þess sem skattstjóri hafi enga grein gert fyrir því á hvaða lagagrundvelli ákvörðun hans byggðist. Ekki verður fallist á þetta með kæranda, enda kom fram bæði í bréfi skattstjóra til kæranda, dags. 9. nóvember 2006, og í hinum kærða úrskurði, dags. 8. janúar 2007, að skattstjóri liti svo á, miðað við fram komna lýsingu á starfsemi kæranda, að félagið hefði með höndum fólksflutninga sem undanþegnir væru virðisaukaskatti samkvæmt 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Þá vísaði skattstjóri í úrskurði sínum til ákvæðis 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, með áorðnum breytingum, varðandi afskráningu kæranda af grunnskrá virðisaukaskatts. Eins og fram er komið urðu engin viðbrögð af hálfu kæranda við bréfi skattstjóra, dags. 9. nóvember 2006, þar sem skattstjóri tilkynnti kæranda um fyrirhugaða afskráningu. Verður ekki talið að neinir slíkir annmarkar séu á rökstuðningi skattstjóra sem leitt geti til ógildingar hins kærða úrskurðar, sbr. 3. og 4. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988 og ákvæði um efni rökstuðnings í 1. og 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Eins og fram er komið varðar sakarefnið í máli þessu niðurfellingu kæranda af grunnskrá virðisaukaskatts. Miðað við það verður að telja að skattstjóra hafi borið að fara með málið eftir 26. gr. laga nr. 50/1988 og að úrskurður skattstjóra um endurákvörðun, dags. 8. janúar 2007, sé kæranlegur til yfirskattanefndar samkvæmt ákvæðum laga nr. 30/1992, sbr. 4. mgr. fyrrnefndrar lagagreinar og umfjöllun hér að framan. Skattstjóri vísaði til 25. og 26. gr. laga nr. 50/1988 og tilgreindi kærurétt til sín samkvæmt 2. mgr. 29. gr. sömu laga í úrskurðinum. Verður því að fallast á með umboðsmanni kæranda að kæruleiðbeiningum í úrskurði skattstjóra sé áfátt, sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki verður þó talið að þar sé um verulegan annmarka að ræða á málsmeðferð skattstjóra sem leitt geti til ógildingar á ákvörðun hans. Sama máli þykir gegna um þann hnökra á málsmeðferð skattstjóra að tilgreina hvorki í bréfi sínu til kæranda, dags. 9. nóvember 2006, né í hinum kærða úrskurði við hvaða tímamark afskráning kæranda af grunnskrá virðisaukaskatts miðaðist við, svo sem rétt hefði verið, en eins og hér að framan er rakið miðaðist afskráningin við 31. desember 2005. Víkur þá að efnisatriðum málsins.
Kærandi í máli þessu er einkahlutafélag sem stofnað var á árinu 2003. Skráður tilgangur félagsins er miðlun, ráðgjöf og markaðssetning á sviði flugrekstrar, m.a. „með leigu og miðlun flugvéla og ferða milli Íslands og X-lands, ráðgjöf og miðlun á sviði sjávarútvegs, fjárfestingar í félögum, hlutabréfum, verðbréfum, rekstur fasteigna m.a. með kaupum og sölu og útleigu og tengdri starfsemi ásamt nauðsynlegri eignaumsýslu og lánastarfsemi auk skylds reksturs“, sbr. fyrirliggjandi tilkynningu um stofnun félagsins og stofnsamning þess. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi skráður á grunnskrá virðisaukaskatts frá og með 1. ágúst 2003 á grundvelli tilkynningar félagsins til skattstjóra um virðisaukaskattsskylda starfsemi, sbr. 5. gr. laga nr. 50/1988. Í tilkynningu félagsins, sem barst skattstjóra 17. nóvember 2003, kom fram að aðalatvinnugrein þess væri miðlun, ráðgjöf og markaðssetning á sviði flugrekstrar, en önnur starfsemi væri fólgin í rekstri fasteigna. Þá var tilgreint að helstu tegundir virðisaukaskattsskyldrar vöru, vinnu eða þjónustu sem fyrirtækið seldi eða innti af hendi væri „útleiga loftfara – ekki skattskyld velta, sbr. 12. gr.“, eins og þar stóð. Kom fram að kærandi hefði einnig með höndum undanþegna starfsemi, þ.e. fasteignaleigu. Þá liggur fyrir bréf umboðsmanns kæranda til skattstjóra, dags. 16. janúar 2004, vegna endurnýjaðrar umsóknar félagsins um virðisaukaskattsnúmer. Í því bréfi kemur fram að meginstarfsemi kæranda sé fólgin í markaðssetningu og leigu flugvéla, einkum til erlendra ferðaheildsala. Er tekið fram að á árinu 2003 hafi kærandi staðið fyrir þremur flugferðum með erlenda ferðamenn milli X-lands og Íslands. Við skráningu kæranda í grunnskrá virðisaukaskatts var miðað við að kærandi hefði með höndum starfsemi sem félli undir atvinnugrein 74.14.9 samkvæmt íslenskri atvinnugreinaflokkun – ÍSAT 95 („rekstrarráðgjöf, þó ekki í landbúnaði“) og var félagið skráð í ársskil virðisaukaskatts. Samkvæmt innsendum virðisaukaskattsskýrslum kæranda fyrir árið 2004 og uppgjörstímabilin mars-apríl, maí-júní og júlí-ágúst 2005 var ekki um að ræða neina skattskylda veltu heldur einungis undanþegna veltu og innskatt.
Eins og fram kemur í kafla I hér að framan á mál þetta sér þann aðdraganda að með bréfi til kæranda, dags. 20. júní 2005, fór skattstjóri m.a. fram á að kærandi legði fram gögn sem lægju að baki endurgerðri virðisaukaskattsskýrslu félagsins fyrir tímabilið mars-apríl 2005 og veitti nánari upplýsingar um starfsemi félagsins. Í svarbréfi kæranda, dags. 27. júní 2005, kom fram að starfsemi kæranda væri aðallega fólgin í miðlun flugvéla og ferða á milli Íslands og X-lands og rekstri og útleigu fasteignar. Með bréfi, dags. 7. júlí 2005, óskaði skattstjóri eftir því að kærandi gerði nánari grein fyrir starfseminni, þ.e. skýrði nánar í hverju tekjur félagsins væru fólgnar, „þ.e. hvaða þjónustu er verið að selja og hverjum“, og gerði grein fyrir notkun bifreiðar af gerðinni Ford F-350 sem félagið hefði keypt í mars 2005, en virðisaukaskattur af kaupverði bifreiðarinnar mun hafa verið færður til innskatts í virðisaukaskattsskilum kæranda umrætt uppgjörstímabil. Í svarbréfi kæranda, dags. 25. júlí 2005, var greint frá því að kærandi hefði ekki einungis með höndum miðlun flugvéla milli X-lands og Íslands heldur annaðist félagið einnig um skipulagningu ferða erlendra ferðamanna hingað til lands, bæði með leiguflugi og í áætlunarflugi. Kærandi væri því að veita umboðsaðila flugfélagsins Y í X-landi, Z Inc., þjónustu sem og „ferðaaðilum“ í X-landi. Kom fram að Z Inc. yrði gerður reikningur vegna þjónustu kæranda. Þá kom fram í bréfinu að starfsemi kæranda hér á landi, sem sinnt væri af framkvæmdastjóra kæranda og tilgreindum starfsmanni félagsins, færi vaxandi, en sú starfsemi væri fólgin í undirbúningi að komu leiguflugvéla hingað til lands og móttöku blaðamanna og fulltrúa ferðaheildsala í X-landi. Framkvæmdastjóri kæranda hefði „ekið þessu fólki um landið, sem er yfirleitt klyfjað farangri og myndavélum“, eins og sagði í bréfinu. Að því leyti kæmi umrædd bifreið að góðum notum.
Skattstjóri krafði kæranda enn um skýringar og gögn með bréfi til félagsins, dags. 11. ágúst 2005, þar sem skattstjóri benti m.a. á að fólksflutningar væru undanþegnir virðisaukaskatti samkvæmt ákvæði 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 og óskaði eftir rökstuðningi fyrir því að sala þjónustu að fjárhæð 75.455.340 kr. árið 2003 og að fjárhæð 117.271.152 kr. árið 2004 væri undanþegin skattskyldri veltu. Í svarbréfi kæranda, dags. 29. ágúst 2005, var m.a. gerð frekari grein fyrir notkun bifreiðar félagsins og tekið fram að bifreiðin væri notuð til kynninga á möguleikum Íslands sem ferðamannalands og við tilfallandi verkefni vegna móttöku erlendra ferðamanna á vegum kæranda. Þá kom fram að tekjur kæranda stöfuðu af „miðlun flugsæta vegna sölu á umræddum flugsætum til erlendra ferðaheildsala“, en kærandi hefði milligöngu um sölu flugsæta og leigði í því skyni flugvélar af flugfélaginu Y utan háannatíma á sumrin. Um væri að ræða sölu flugsæta til erlendra ferðamanna „í gegnum“ ferðaheildsala í X-landi og væru tekjur kæranda því þóknanir vegna miðlunar flugsæta. Væru umræddar tekjur undanþegnar skattskyldri veltu samkvæmt ákvæðum 1., sbr. 6. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 þar sem fram kæmi að vinna og þjónusta sem veitt væri erlendis væri undanþegin skattskyldri veltu, sbr. 1. tölul. ákvæðisins, sem og sala og útleiga loftfara og skipa, sbr. 6. tölul. þess. Þessi sjónarmið kæranda voru áréttuð í bréfum umboðsmanns félagsins til skattstjóra, dags. 22. september og 9. nóvember 2005, sem eru meðal gagna málsins, en í greindum bréfum var lögð áhersla á að starfsemi kæranda lyti að markaðssetningu Íslands sem ferðamannalands í X-landi. Hinu síðarnefnda bréfi fylgdu m.a. afrit af reikningum kæranda á hendur Z Inc. vegna skipulagningar ferða hingað til lands („Tour Coordination in Iceland“), flugvallargjalda o.fl. („Airport Service Charge, Passanger Service Fee, Insurance Fee“) og flugsæta vegna flugs milli X-lands og Íslands („Payment for Fares for 263 Seats“).
Samkvæmt 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, eru fólksflutningar undanþegnir virðisaukaskatti. Skýra verður ákvæði þetta í samræmi við tilgang sinn þannig að það taki til tiltekinnar atvinnustarfsemi, þ.e. þeirrar starfsemi að flytja fólk. Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar er því hafnað að starfsemi kæranda falli undir fólksflutninga þar sem einungis sé um að ræða milligöngu um sölu á flugsætum til ferðamanna, þ.e. kaup flugsæta af flugfélögum sem endurseld séu erlendum ferðaskrifstofum. Ljóst er af gögnum málsins að meginþáttur í starfsemi kæranda er fólginn í endursölu farmiða með flugvélum, þ.e. „miðlun flugsæta“ eins og það er nefnt í bréfi kæranda til skattstjóra, dags. 9. nóvember 2005, sbr. m.a. fyrrgreinda reikninga kæranda á hendur Z Inc. vegna flugs milli Íslands og X-lands, en af hálfu kæranda er m.a. litið svo á að umrædd starfsemi geti talist „útleiga loftfara“ í skilningi 6. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988. Þá er komið fram af hálfu kæranda að félagið hafi stundað markaðssetningu, þ.e. kynningu á Íslandi sem eftirsóknarverðum áfangastað erlendra ferðamanna, og í því skyni „þurft að koma með hópa frá X-landi og þá einkum ferðaþjónustuaðila“, eins og segir í bréfi kæranda til skattstjóra, dags. 9. nóvember 2005. Samkvæmt fyrrgreindum reikningum kæranda á hendur Z Inc. er m.a. um að ræða greiðslur fyrir skipulagningu ferða hingað til lands og í skýringum með ársreikningi kæranda fyrir árið 2005, sem er meðal gagna málsins, kemur fram að starfsemi kæranda sé m.a. fólgin í skipulagningu ferða til Íslands fyrir erlenda ferðamenn. Í sundurliðunum með ársreikningi kæranda kemur fram að tekjur af skipulögðum ferðum námu 675.910 kr. á árinu 2005.
Samkvæmt 13. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 er „þjónusta ferðaskrifstofa“ undanþegin skattskyldu. Í athugasemdum með frumvarpi því, er varð að lögum nr. 50/1988, kemur fram að með greindu ákvæði sé eingöngu verið að undanþiggja þá starfsemi ferðaskrifstofa sem felist í milligöngu um ferðaþjónustu en ekki aðra starfsemi sem ferðaskrifstofur kunni að hafa með höndum. Að því leyti sem starfsemi kæranda er gagngert fólgin í endursölu farmiða með flugvélum og skipulagningu ferða hingað til lands verður að telja að um milligöngu um ferðaþjónustu sé að ræða sem falli undir fyrrgreint ákvæði 13. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 og að tekjur (þóknanir) af slíkri þjónustu séu undanþegnar skattskyldu samkvæmt lögum um virðisaukaskatt, sbr. til hliðsjónar ákvæði 7. gr. laga nr. 73/2005, um skipan ferðamála, þar sem gefur að finna orðskýringar á ýmsum hugtökum sem notuð eru í þeim lögum, þar á meðal hugtökunum „ferðaskipuleggjandi“ og „ferðaskrifstofa“, sbr. 1. og 2. tölul. umræddrar lagagreinar, en í ákvæðum þessum er m.a. talin með leyfisskyldri starfsemi skipulagning ferða hópa og einstaklinga, innan lands og erlendis, og hvers konar umboðs- og endursala farmiða með flugvélum, sbr. a- og c-lið 1. tölul. og 6. tölul. umræddrar lagagreinar. Sú staðreynd, að kærandi mun ekki hafa fengið útgefið leyfi Ferðamálastofu samkvæmt III. kafla laga nr. 73/2005 til að starfa sem ferðaskipuleggjandi eða ferðaskrifstofa, getur ein og sér ekki skákað félaginu undir skattskyldu samkvæmt lögum nr. 50/1988, enda verður ávallt að viðhafa sjálfstætt mat á eðli starfsemi við mat á því í einstökum tilvikum hvort starfsemi sé virðisaukaskattsskyld ellegar undanþegin skattskyldu samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Rétt er að taka fram að engu getur breytt í þessum efnum hvort aðili yrði talinn ferðaskipuleggjandi eða ferðaskrifstofa eftir lögum nr. 73/2005, enda ræður hér úrslitum eðli þeirrar starfsemi sem viðkomandi aðili hefur með höndum.
Eins og hér að framan greinir er skráður tilgangur kæranda m.a. ráðgjöf á sviði flugrekstrar. Sala á ráðgjöf í atvinnuskyni er virðisaukaskattsskyld starfsemi samkvæmt meginreglum laga nr. 50/1988, sbr. 1. mgr. 2. gr. þeirra. Af gögnum málsins verður hins vegar ekki ráðið að um hafi verið að ræða neina sölu kæranda á ráðgjöf til annarra aðila, sbr. m.a. fyrirliggjandi ársreikninga félagsins fyrir árin 2004 og 2005, og enga grein hefur kærandi gert fyrir sölu félagsins á slíkri þjónustu.
Með vísan til þess, sem hér að framan er rakið, verður ekki annað séð en að starfsemi kæranda sé að öllu leyti undanþegin virðisaukaskatti samkvæmt 13. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Af því leiðir að skattstjóra var rétt og skylt að fella kæranda af grunnskrá virðisaukaskatts vegna starfseminnar, sbr. 1. tölul. 4. gr. sömu laga og 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 515/1996. Verður því að hafna kröfum kæranda í máli þessu. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna kröfu kæranda um að félaginu verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.