Úrskurður yfirskattanefndar

  • Olíugjald
  • Sekt

Úrskurður nr. 245/2008

Lög nr. 87/2004, 4. gr. 1. mgr. 7. tölul. (brl. nr. 136/2005, 1. gr., sbr. brl. nr. 169/2006, 1. gr.), 3. og 4. mgr., 19. gr. 5., 6. og 8. mgr.   Reglugerð nr. 274/2006, 1. gr. B-liður 3. tölul.  

Ríkisskattstjóri gerði A ehf. sem skráðum eiganda tveggja körfubifreiða sekt vegna brota á reglum um olíugjald þar sem í ljós kom við sýnatöku úr eldsneytisgeymum bifreiðanna í júní 2007 að lituð olía var notuð á bifreiðarnar. Talið var ófrávíkjanlegt lagaskilyrði fyrir undanþágu frá gjaldskyldu til olíugjalds vegna ökutækja af umræddum toga að þau hefðu verið skráð hjá Umferðarstofu sem ökutæki til sérstakra nota, en slíkrar skráningar hafði ekki verið aflað vegna ökutækja A ehf. Vegna þeirrar viðbáru fyrirsvarsmanns A ehf., að honum hefði ekki verið kunnugt um að þörf væri á að afla sérstakrar skráningar vegna bifreiðanna, kom fram í úrskurði yfirskattanefndar að breyttar reglur um gjaldskyldu vegna ökutækja til sérstakra nota hefðu gilt um alllangt skeið þegar athugun eftirlitsmanna vegna ökutækja A ehf. fór fram í júní 2007. Var kröfum félagsins um niðurfellingu eða lækkun sektar hafnað.

I.

Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 10. janúar 2008, hefur kærandi mótmælt ákvörðunum ríkisskattstjóra, dags. 12. október 2007, að gera kæranda sektir að fjárhæð samtals 980.479 kr. samkvæmt 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, á þeim grundvelli að notkun litaðrar gjaldfrjálsrar olíu á ökutæki kæranda, L annars vegar og M hins vegar, hefði verið andstæð lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald. Af hálfu kæranda er þess aðallega krafist að sektarákvarðanir ríkisskattstjóra verði felldar niður, en til vara að sektir verði lækkaðar. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.

II.

Málavextir eru þeir að samkvæmt skýrslum eftirlitsmanna Vegagerðarinnar, dags. 11. júní 2007, kom í ljós við sýnatöku úr eldsneytisgeymi ökutækjanna L og M að lituð olía hefði verið notuð á ökutækin. Kom fram í skýrslunum að ökumenn hefðu talið að heimilt væri að nota gjaldfrjálsa litaða olíu á körfubíla.

Í framhaldi af fyrrnefndum skýrslum sendi ríkisskattstjóri kæranda bréf, dags. 31. júlí 2007, með yfirskriftinni „Boðun sektar vegna brots á reglum um olíugjald.“ Í bréfum þessum vísaði ríkisskattstjóri til þess að embættið hefði móttekið skýrslur, dags. 11. júní 2007, frá eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar um brot á reglum um olíugjald vegna ökutækisins L, er væri 7.600 kg að heildarþyngd, og ökutækisins M, er væri 14.000 kg að heildarþyngd. Kom fram að sýni hefðu verið tekin úr eldsneytistanki bifreiðanna og sjónræn niðurstaða gefið til kynna að um litaða olíu væri að ræða. Sýnin hefðu verið send til Efnagreiningar Keldnaholti til athugunar og samkvæmt skýrslum þess aðila, dags. 12. júlí 2007, hefði hlutfall litarefnis í olíunni verið 74,9% í tilviki L og 78,6% í tilviki M, en færi hlutfall litarefnis í ólitaðri olíu yfir 3% teldist olía lituð, sbr. 4. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 283/2005, um litun á gas- og díselolíu. Fylgdu umræddar skýrslur eftirlitsmanna Vegagerðarinnar og Efnagreiningar bréfi ríkisskattstjóra. Þá vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, varðaði það sektum ef lituð olía væri notuð á skráningarskylt ökutæki, sbr. 3. mgr. 4. gr. sömu laga, og næmi sekt 500.000 kr. ef heildarþyngd ökutækis væri á bilinu 3.501 til 10.000 kg og 750.000 kr. ef heildarþyngd þess væri á bilinu 10.001 til 15.000 kg. Tók ríkisskattstjóri ákvæði 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 orðrétt upp í bréfinu. Í ljósi framangreinds og með vísan til 5. mgr. 19. gr. og 4. mgr. 20. gr. laga nr. 87/2004 væri fyrirhugað að ákvarða kæranda sekt að fjárhæð 250.000 kr. vegna ökutækisins L og sekt að fjárhæð 730.479 kr. vegna ökutækisins M, þ.e. 50% af sektarfjárhæð 500.000 kr. samkvæmt 5. mgr. 19. gr. nefndra laga í tilviki L að teknu tilliti til umráðatíma bifreiðarinnar, sem skráður væri frá 25. janúar 2007, og 97,40% af sektarfjárhæð 750.000 kr. samkvæmt sömu lagagrein í tilviki M að teknu tilliti til umráðatíma bifreiðarinnar, en kærandi hefði haft umráð hennar frá gildistöku laga nr. 87/2004 hinn 1. júlí 2005. Var kæranda veittur 15 daga frestur til að koma á framfæri athugasemdum vegna hinna boðuðu sektarákvarðana.

Með bréfi, dags. 6. september 2007, mótmælti umboðsmaður kæranda hinum boðuðu sektarákvörðunum ríkisskattstjóra. Í bréfinu kom fram að kærandi hefði haft fulla heimild til að nota litaða olíu á bifreiðar félagsins, þ.e. bifreiðarnar uppfylltu öll skilyrði um notkun litaðrar olíu. Hins vegar hefði fyrirsvarsmaður félagsins ekki gert sér grein fyrir því að uppfylla þyrfti það formskilyrði fyrir notkun litaðrar olíu að skrá bifreiðarnar sérstaklega, enda hefði hann ekki verið upplýstur um nauðsyn þess við skráningu eða skoðun bifreiðanna hjá Aðalskoðun ehf. Væri því um afsakanlega vanþekkingu á lagareglum að ræða. Í kjölfar sýnatöku hinn 11. júní 2007 hefði fyrirsvarsmaður kæranda strax hafist handa um sérskráningu bifreiðanna og notkunarflokki þeirra hefði síðan verið breytt hinn 20. júlí 2007. Bréfi umboðsmanns kæranda fylgdi bréf fyrirsvarsmanns félagsins, dags. 5. september 2007, þar sem fram kom að ástæða þess að skráning ökutækjanna L og M hefði verið röng væri vanþekking kæranda og rangar upplýsingar sem hann hefði fengið hjá Aðalskoðun ehf. Þegar fyrirsvarsmaður kæranda hefði tekið eftir gulum skráningarnúmerum á bifreiðum í umferðinni hafi hann farið að grafast fyrir um þetta og fengið þær upplýsingar að þar sem bifreiðar hans væru skráðar með körfubúnaði þyrfti ekki að breyta skráningu þeirra. Áður en olíugjald hefði verið tekið upp á árinu 2005 hefði kærandi kannað rækilega hvort heimilt væri að nota litaða olíu á bifreiðar félagsins og öllum borið saman um að svo væri. Enginn hefði greint kæranda frá því að breyta þyrfti skráningu ökutækjanna. Nú hefði skráningu þeirra hins vegar verið breytt. Svo virtist sem þeir aðilar sem hefðu með þessi málefni að gera hjá Vegagerðinni þekktu ekki reglur um olíugjald nægilega vel. Fyrirhugaðar sektir væru því afar harkalegar, enda bæri að taka tillit til þess að körfubílar væru mjög lítið keyrðir og því ekki eftir miklu að slægjast með rangri skráningu. Þá hefði ekkert komið fram um ranga skráningu ökutækja í tilkynningum frá ríkisskattstjóra varðandi olíugjald, sbr. t.d. orðsendingar þess embættis nr. 1 og 2/2007.

Með úrskurðum, dags. 12. október 2007, hratt ríkisskattstjóri hinum boðuðu sektarákvörðunum í framkvæmd og ákvað kæranda sektir að fjárhæð samtals 980.479 kr. á framangreindum grundvelli, þ.e. sekt að fjárhæð 250.000 kr. vegna ökutækisins L og sekt að fjárhæð 730.479 kr. vegna ökutækisins M. Vegna athugasemda í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 6. september 2007, tók ríkisskattstjóri fram að samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 væri óheimilt að nota litaða olíu á skráningarskyld ökutæki, önnur en dráttarvélar, námuökutæki, beltabifreiðar, bifreiðar í eigu björgunarsveita og ökutæki sem ætluð væru til sérstakra nota. Í 5. mgr. 4. gr. laganna væri síðan kveðið á um heimild fjármálaráðherra til að ákveða skilyrði fyrir undanþágu í reglugerð. Í reglugerð nr. 274/2006, um skilyrði undanþágu frá greiðslu olíugjalds og um greiðslu sérstaks kílómetragjalds, væru talin þau skilyrði sem ökutæki í sérstökum notum þyrftu að uppfylla til að heimilt væri að nota litaða gjaldfrjálsa olíu. Umrædd ökutæki kæranda L og M hefðu ekki uppfyllt skilyrði reglugerðar nr. 274/2006 nema að hluta, enda væri heimild til að aka ökutækjunum á litaðri olíu háð því að ökutækin væru skráð í sérstök not í ökutækjaskrá Umferðarstofu og að greitt væri af þeim sérstakt kílómetragjald. Sérstök athygli hefði verið vakin á þessum reglum í tveimur tilkynningum ríkisskattstjóra frá nóvember 2006 og maí 2007. Þegar ökutækin L og M hefðu verið stöðvuð af eftirlitsmönnum hefðu þau verið að nota litaða olíu án þess að vera skráð í sérstök not og því ekki verið greitt af þeim kílómetragjald. Þá kvaðst ríkisskattstjóri ekki geta fallist á með fyrirsvarsmanni kæranda að um afsakanlega vanþekkingu á lögum væri að ræða í hans tilviki, enda yrði í ljósi þess hve mikill verðmunur væri á gjaldskyldri olíu annars vegar og litaðri olíu hins vegar, þ.e. um 60% verðmunur, að gera þá kröfu til þeirra sem notuðu litaða olíu á ökutæki að þeir hefðu kynnt sér til hlítar þær reglur sem giltu um notkun gjaldfrjálsrar olíu. Ekki væru því efni til að fella niður sekt í heild eða að hluta á grundvelli 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004. Kom fram í framhaldinu að sekt kæranda yrði 250.000 kr. vegna ökutækisins L og 730.479 kr. vegna ökutækisins M og væru þær fjárhæðir reiknaðar út með þeim hætti sem komið hefði fram í boðunarbréfi, sbr. og útreikning sektarfjárhæða í úrskurðunum.

III.

Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 10. janúar 2008, er þess aðallega krafist að sektarákvarðanir ríkisskattstjóra, dags. 12. október 2007, verði felldar úr gildi, en til vara að sektir verði lækkaðar til muna. Í kærunni eru áréttuð þau sjónarmið sem fram komu í bréfi umboðsmanns kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 6. september 2007, og lutu að því að í tilviki kæranda sé um að ræða afsakanlega vanþekkingu á lögum og reglum um olíugjald. Er ítrekað að skráningu ökutækja kæranda L og M hafi nú verið breytt í ökutækjaskrá. Þá kemur fram í kærunni að körfubifreiðum sé lítið ekið þar sem þær séu staðsettar á vinnustað langtímum saman. Þannig hafi bifreiðinni L einungis verið ekið 1.186 km á tímabilinu frá 1. febrúar 2007 til 11. júní sama ár og bifreiðinni M verið ekið 1.389 km á tímabilinu frá 30. júní 2005 til 11. júní 2007. Ef bifreiðarnar hefðu verið réttilega skráðar í ökutækjaskrá á greindum tíma hefði þannig aðeins þurft að greiða 12.809 kr. í kílómetragjald vegna L og 18.197 kr. vegna M. Sé því ljóst að „hagnaður“ kæranda vegna vanþekkingar fyrirsvarsmanns félagsins á reglum um olíugjald sé óverulegur eða 31.006 kr. og augljóst sé að auðgunartilgangur sé ekki fyrir hendi vegna þess brots sem um ræði. Bæði ökutækin hafi auk þess uppfyllt öll skilyrði fyrir notkun litaðrar olíu og sektarákvörðun ríkisskattstjóra sé því afar ranglát og a.m.k. allt of harkaleg miðað við tilefni. Ekki sé því um það að ræða í málinu að notuð hafi verið lituð olía á ökutæki sem ekki hafi mátt nota slíka olíu.

Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 22. janúar 2008, fór umboðsmaður kæranda fram á að kæranda yrði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

IV.

Með bréfi, dags. 22. febrúar 2008, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestir með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðunum ríkisskattstjóra.“

V.

Í máli þessu eru til umfjöllunar ákvarðanir ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurðum, dags. 12. október 2007, um að gera kæranda sektir að fjárhæð samtals 980.479 kr. eftir ákvæðum 5. mgr., sbr. 6. og 8. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, með áorðnum breytingum, fyrir að hafa notað litaða olíu á ökutækin L og M, sbr. skýrslur eftirlitsmanna Vegagerðarinnar, dags. 11. júní 2007, um brot á reglum um olíugjald, og skýrslu Efnagreiningar Keldnaholti, dags. 12. júlí 2007, vegna athugunar á litarefni í olíu. Sekt vegna ökutækisins L nam 250.000 kr. og sekt vegna ökutækisins M nam 730.479 kr. Umrædd ökutæki eru vörubifreiðar samkvæmt skilgreiningu reglugerðar um gerð og búnað ökutækja, sbr. reglugerð nr. 822/2004 um það efni, en um er að ræða svonefndar körfubifreiðar. Ríkisskattstjóri taldi að skilyrði fyrir undanþágu frá olíugjaldi samkvæmt 7. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004, sbr. 1. gr. laga nr. 136/2005 og 1. gr. laga nr. 169/2006, um breyting á hinum fyrstnefndu lögum, væru ekki uppfyllt í tilviki kæranda þar sem umrædd ökutæki hefðu ekki verið skráð hjá Umferðarstofu sem ökutæki til sérstakra nota, sbr. áskilnað þar að lútandi í 4. mgr. 4. gr. greindra laga. Óumdeilt er í málinu að slíkrar skráningar hafði ekki verið aflað vegna ökutækjanna þegar eftirlitsmenn Vegagerðarinnar tóku sýni úr eldsneytisgeymi þeirra hinn 11. júní 2007, en í kjölfar þess hlutaðist kærandi til um slíka skráningu, sbr. kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar þar sem fram kemur að notkunarflokki hafi verið breytt þann 20. júlí 2007 í „sérstök not“. Af hálfu kæranda er þess krafist að sektarákvarðanir ríkisskattstjóra verði felldar niður eða lækkaðar, sbr. heimild í 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 87/2004 skal greiða í ríkissjóð vörugjald af gas- og dísilolíu sem flokkast í tollskrárnúmer 2710.1930 og nothæf er sem eldsneyti á ökutæki. Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 kemur fram að gjaldskyldum aðilum samkvæmt 3. gr. sömu laga sé heimilt að selja eða afhenda olíu samkvæmt 1. gr. án innheimtu olíugjalds í tilgreindum tilvikum sem talin eru upp í einstökum töluliðum málsgreinarinnar. Samkvæmt 7. tölul. málsgreinarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 136/2005 og 1. gr. laga nr. 169/2006, er heimilt að selja olíu án innheimtu olíugjalds til nota á ökutæki sem ætluð eru til sérstakra nota og eru með varanlegum áföstum búnaði til þeirra nota og brenna að meginhluta til dísilolíu í kyrrstöðu, t.d. kranabifreiðar, vörubifreiðar með krana yfir 25 tonnmetrum, steypuhræribifreiðar, götuhreinsibifreiðar, holræsabifreiðar, borholu­mælingabifreiðar og úðunarbifreiðar, sbr. og ákvæði 3. tölul. B-liðar 1. gr. reglugerðar nr. 274/2006, um skilyrði undanþágu frá greiðslu olíugjalds og um greiðslu sérstaks kílómetragjalds. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 kemur fram að skilyrði sölu eða afhendingar olíu án innheimtu olíugjalds samkvæmt 2.-9. tölul. 1. mgr. sé að í olíuna hafi verið bætt litar- og merkiefnum, sbr. 5. gr. laganna. Litaða olíu megi ekki nota sem eldsneyti í öðrum tilvikum en lýst sé í 1. mgr. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laganna er óheimilt að nota litaða olíu á skráningarskyld ökutæki, sbr. 63. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, önnur en dráttarvélar samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. og ökutæki samkvæmt 6., 7. og 8. tölul. 1. mgr. Þá segir í 4. mgr. sömu lagagreinar, sbr. 1. gr. laga nr. 136/2005 og 2. gr. laga nr. 162/2007, að eigendum ökutækja samkvæmt 7. tölul. 1. mgr. sé heimilt að skrá umrædd ökutæki hjá Umferðarstofu sem ökutæki til sérstakra nota og öðlist þar með rétt á gjaldfrjálsri litaðri olíu samhliða því að þeir greiði sérstakt kílómetragjald samkvæmt 6. mgr. 13. gr. laganna. Í fyrrgreindu ákvæði 3. tölul. B-liðar 1. gr. reglugerðar nr. 274/2006 kemur fram að heimilt sé að selja eða afhenda olíu án innheimtu olíugjalds til nota á þargreind ökutæki, sem talin eru upp í einstökum stafliðum töluliðarins, „sem ætluð eru til sérstakra nota og hafa verið skráð sem slík í ökutækjaskrá sbr. 2. gr., eru með varanlegum áföstum búnaði til þeirra nota (ekki með útskiptanlegri yfirbyggingu), brenna að meginhluta dísilolíu í kyrrstöðu og eru merkt með sérstökum skráningarmerkjum samkvæmt reglugerð nr. 751/2003, um skráningu ökutækja“, eins og segir í ákvæðinu. Tekur ákvæðið m.a. til körfubifreiða sem ekki eru ætlaðar til fólks- eða farmflutninga „enda eingöngu skráð með körfu sem yfirbyggingu og aðeins nýtt sem slík“, sbr. d-lið 3. tölul. B-liðar 1. gr. reglugerðarinnar.

Lög nr. 87/2004 gerðu upphaflega ráð fyrir því að ökutæki, sem ætluð væru til sérstakra nota, væru undanþegin gjaldskyldu til olíugjalds, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 eins og lögin hljóðuðu við setningu þeirra. Ákvæði um þessi efni komust hins vegar í núverandi horf með 1. gr. laga nr. 136/2005, um breyting á hinum fyrrnefndu lögum. Með breytingalögum þessum var tekin upp sú tilhögun að eigendum ökutækja til sérstakra nota var gert kleift að velja um hvort þeir greiddu olíugjald og kílómetragjald samkvæmt lögum nr. 87/2004 ellegar skráðu ökutæki sín hjá Umferðarstofu sem ökutæki til sérstakra nota og ættu þar með rétt á að fá afgreidda litaða gjaldfrjálsa olíu samhliða því að þeim væri þá skylt að greiða sérstakt kílómetragjald sem tekið var upp með 4. gr. umræddra laga nr. 136/2005, sbr. nú 2. mgr. 13. gr. laga nr. 87/2004. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 136/2005, var upptöku hins sérstaka kílómetragjalds vegna ökutækja til sérstakra nota ætlað að stuðla að samræmi í skattlagningu vegna slíkra ökutækja og annarra ökutækja svipaðrar gerðar, sem einnig greiddu olíugjald, miðað við sambærilegan akstur í almenna vegakerfinu. Er tekið fram í athugasemdum með frumvarpinu að með því að hafa skráninguna valkvæða, og með hliðsjón af hinu sérstaka kílómetragjaldi, væri út frá jafnræðissjónarmiðum leitast við að tryggja að eingöngu eigendur ökutækja til sérstakra nota, sem sannanlega brenndu dísilolíu við vinnslu á verkstað, teldu hagkvæmt að fá afhenta gjaldfrjálsa olíu.

Samkvæmt 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 varðar það sektum sé lituð olía notuð á skráningarskylt ökutæki, sbr. 3. mgr. 4. gr. sömu laga, og ræðst sektarfjárhæð af heildarþyngd ökutækis, svo sem nánar er tilgreint í ákvæðinu. Sé heildarþyngd ökutækis á bilinu 3.501-10.000 kg skal fjárhæð sektar nema 500.000 kr. og sé heildarþyngd þess á bilinu 10.001-15.000 kg skal fjárhæð sektar nema 750.000 kr. Sektarfjárhæðina skal lækka hlutfallslega þegar fyrir liggur að ekki hafi verið unnt að nota litaða olíu á skráningarskylt ökutæki, sbr. 3. mgr. 4. gr., á tveggja ára tímabili, talið frá þeim tíma er brot liggur fyrir. Sektarfjárhæð skal að hámarki lækkuð um helming. Við sérstakar aðstæður er heimilt að lækka eða fella niður sekt samkvæmt ákvæðinu, sbr. niðurlag 5. mgr. 19. gr. laganna. Í 6. mgr. 19. gr. kemur fram að skráðum eiganda ökutækis verði gerð sekt samkvæmt 4. og 5. mgr. óháð því hvort brot megi rekja til saknæmrar háttsemi hans. Hafi umráðamaður ökutækis gerst sekur um brot samkvæmt 4. og 5. mgr. sé hann ábyrgur fyrir greiðslu sektarinnar ásamt skráðum eiganda. Í 8. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 segir að gera megi lögaðila sekt fyrir brot á lögum þessum óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans.

Samkvæmt framansögðu er ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir undanþágu frá gjaldskyldu til olíugjalds vegna ökutækja af þeim toga sem greinir í 7. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 að umrædd ökutæki hafi verið skráð hjá Umferðarstofu sem ökutæki til sérstakra nota, sbr. 4. mgr. sömu lagagreinar og 3. tölul. B-liðar 1. gr. reglugerðar nr. 274/2006. Voru því lagaskilyrði til beitingar sektar samkvæmt 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004, með áorðnum breytingum, sbr. 6. og 8. mgr. sömu lagagreinar, í tilviki kæranda. Af hálfu kæranda er sem fyrr greinir byggt á því að skilyrði séu til að lækka eða fella niður hina umdeildu sekt á grundvelli lokamálsliðar 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 þar sem fyrirsvarsmanni félagsins hafi ekki verið kunnugt um að þörf væri á því að afla sérstakrar skráningar hjá Umferðarstofu. Til þess er að líta að lög nr. 136, 20. desember 2005 tóku þegar gildi og voru birt í Stjórnartíðindum hinn 29. desember sama ár. Höfðu hinar breyttu reglur um gjaldskyldu til olíugjalds vegna ökutækja til sérstakra nota því gilt um alllangt skeið þegar athugun eftirlitsmanna vegna ökutækjanna L og M fór fram hinn 11. júní 2007. Þá er ekki hægt að fallast á með kæranda að leiðbeiningum ríkisskattstjóra vegna olíugjalds hafi verið áfátt að því er varðar ökutæki til sérstakra nota og nauðsyn skráningar í þessu sambandi, sbr. m.a. orðsendingu embættisins nr. 1/2006 frá maí 2006 vegna álestrartímabilsins 1.-15. júní 2006 þar sem fram kemur að skilyrði þess að ökutæki til sérstakra nota megi nota litaða olíu sé að þau hafi verið skráð til sérstakra nota í ökutækjaskrá og beri sérstök skráningarmerki (olíumerki) með svörtum stöfum á dökkgulum grunni. Þykja fram komnar viðbárur kæranda ekki geta leitt til niðurfellingar eða lækkunar hinnar umdeildu sektarákvörðunar ríkisskattstjóra, sbr. lækkunarheimild 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004. Þá er niðurstaða þeirrar efnagreiningar, sem fram fór, óumdeild. Verður því að hafna kröfu kæranda um niðurfellingu eða lækkun sektar. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna kröfu kæranda um að félaginu verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja