Úrskurður yfirskattanefndar

  • Söluhagnaður fyrnanlegra eigna
  • Frestun skattlagningar
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 249/2008

Gjaldár 2007

Lög nr. 90/2003, 13. gr., 14. gr., 33. gr., 96. gr., 99. gr.   Lög nr. 37/1993, 10. gr., 13. gr., 22. gr.  

Skattstjóri synjaði beiðni kæranda, sem var einkahlutafélag, um frestun á skattlagningu söluhagnaðar vegna sölu fasteignar um tvenn áramót þar sem skattstjóri taldi að fasteignin gæti ekki talist fyrnanleg eign, enda hefði kærandi selt fasteignina örfáum dögum eftir að félagið keypti hana. Að virtum atvikum málsins og skýringum kæranda, sem lutu að því að tilgangur kaupanna hefði verið útleiga fasteignarinnar til langs tíma, en þau áform hefðu breyst er borist hefði hagstætt kauptilboð í eignina, taldi yfirskattanefnd ekki ástæðu til að vefengja að kaupin hefðu verið gerð með það fyrir augum að nýta húsnæðið til öflunar tekna í atvinnurekstri kæranda. Var krafa kæranda því tekin til greina.

I.

Kærð er sú ákvörðun skattstjóra að synja kæranda um frestun skattlagningar hagnaðar að fjárhæð 22.521.321 kr. vegna sölu fasteignar að K í Reykjavík á árinu 2006, sbr. tilkynningu skattstjóra, dags. 29. október 2007, og kæruúrskurð, dags. 7. mars 2008. Niðurstöðu sína byggði skattstjóri á því að sala umræddrar fasteignar félli undir atvinnurekstur kæranda og þar af leiðandi væri ekki um fyrnanlega eign að tefla samkvæmt 33. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Af því leiddi að ekki væru uppfyllt skilyrði 14. gr. laga nr. 90/2003 fyrir frestun skattlagningar á söluhagnaði um tvenn áramót.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 29. maí 2008, er þess krafist af hálfu umboðsmanns kæranda að umrædd breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 2007 verði felld úr gildi „og ákvæði 33. gr. laga um tekjuskatt gildi um eignfærslu eignarinnar og við meðhöndlun söluhagnaðarins, kr. 22.521.321, gildi ákvæði 14. gr. skattalaga“, eins og þar segir. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Málavextir eru þeir að í reit 4030 í skattframtali sínu árið 2007 tilgreindi kærandi frestun annars söluhagnaðar að fjárhæð 22.521.321 kr. Í eignaskrá með skattframtalinu kom fram að um var að ræða söluhagnað vegna sölu fasteignar að K í Reykjavík. Fasteignin hefði verið keypt og seld á árinu 2006 og kaupverð numið 490.000.000 kr. og söluverð 527.500.000 kr. Söluhagnaður hefði numið 37.500.000 kr. og af þeirri fjárhæð hefði skattlagningu á 22.521.321 kr. verið frestað. Var umrædd fjárhæð söluhagnaðar 37.500.000 kr. tekjufærð í reit 1050 í skattframtali kæranda, en með umræddri frestunarfjárhæð söluhagnaðar var hagnaður í reit 3990 að fjárhæð 18.665.923 kr., að frádreginni sérstakri fyrningu að fjárhæð 242.000 kr. í reit 4070 og að viðbættum ófrádráttarbærum opinberum gjöldum að fjárhæð 4.097.398 kr., sbr. reit 4140, jafnaður út.

Með bréfi, dags. 24. september 2007, óskaði skattstjóri eftir því, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, að kærandi léti meðal annars í té skýringar á því að fasteignin að K í Reykjavík hefði verið tilgreind í eignaskrá meðfylgjandi skattframtali kæranda árið 2007, en eignarinnar virtist kærandi hafa aflað til að selja hana aftur. Skattstjóri tók fram að fyrnanlegar eignir samkvæmt 33. gr. laga nr. 90/2003 væru varanlegir rekstarfjármunir sem notaðir væru til öflunar tekna í atvinnurekstri og rýrnuðu að verðmæti við eðlilega notkun og aldur. Í framhaldi af því og með vísan til ákvæðis 21. gr. laga nr. 90/2003, sem skattstjóri rakti orðrétt, væri kærandi beðinn um að rökstyðja kröfu um frestun skattlagningar á söluhagnaði að fjárhæð 22.521.321 kr. í reit 4030 í skattframtali árið 2007.

Með bréfi, dags. 4. október 2007, svaraði umboðsmaður kæranda fyrirspurnarbréfi skattstjóra, dags. 24. september 2007. Hvað snerti kaup og sölu á fasteigninni að K í Reykjavík tók umboðsmaðurinn fram að eignin hefði verið keypt í því skyni að eiga hana til frambúðar og leigja hana út. Kærandi hefði keypt eignina hinn 30. maí 2006 og búið hefði verið að leigja hana til 10 ára. Nokkrum dögum eftir að gengið hefði verið frá leigusamningum, sem hefðu verið mjög hagstæðir húseiganda, hefði kærandi fengið kauptilboð í eignina. Eigendur kæranda hefðu talið tilboðið mjög hagstætt og því afráðið að taka því. Allt hefði þetta gerst mjög hratt og hefði verið gengið frá kaupsamningi hinn 8. júní 2006. Frá þeim tíma hefði verið unnið að því á vegum kæranda að finna atvinnuhúsnæði sem gæti komið í stað hinnar seldu fasteignar, enda væri það stefna og tilgangur félagsins að eiga og leigja út atvinnuhúsnæði. Umboðsmaður kæranda áréttaði að þrátt fyrir hið skamma eignarhald kæranda á húsnæðinu hefði eignin verið keypt upphaflega til að eiga hana til frambúðar og því hefði eignin verið færð í eignaskrá. Framangreind rök fyrir eignfærslu eignarinnar ættu einnig við sem rök fyrir frestun á skattlagningu á söluhagnaði vegna sölu eignarinnar.

Með bréfi, dags. 29. október 2007, tilkynnti skattstjóri kæranda, sbr. 3. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, meðal annars um þá breytingu á skattframtali kæranda árið 2007 að hafna frestun á skattlagningu greinds söluhagnaðar að fjárhæð 22.521.321 kr. vegna sölu á fasteigninni að K í Reykjavík. Skattstjóri rakti bréfaskipti í málinu, þar á meðal svarbréf umboðsmanns kæranda, dags. 4. október 2007, og gerði ennfremur grein fyrir ákvæðum 14. og 33. gr. laga nr. 90/2003. Tók skattstjóri fram að samkvæmt 14. gr., sbr. 33. gr. laga nr. 90/2003, þyrftu þær eignir, sem söluhagnaður reiknaðist af, að teljast varanlegir rekstrarfjármunir svo að heimilt væri að fresta skattlagningu söluhagnaðarins. Því væri ekki til að dreifa í tilfelli fasteignarinnar að K, enda hefði eignin verið seld þriðja aðila innan örfárra daga frá kaupum hennar. Yrði því að telja að salan félli undir 21. gr. laga nr. 90/2003 sem þýddi að hagnaðurinn teldist til skattskyldra tekna að fullu á söluári. Rakti skattstjóri nánar ákvæðið. Væri því ekki heimilt að fresta tekjufærslu á hagnaði vegna sölu á K og yrði álagning á kæranda gjaldárið 2007 í samræmi við það.

Með bréfi, dags. 12. nóvember 2007, kærði umboðsmaður kæranda þá breytingu skattstjóra á skattframtali kæranda árið 2007 að hafna frestun skattlagningar á hagnaði kæranda af sölu eignarinnar að K í Reykjavík. Ítrekaði umboðsmaðurinn þá skýringu að fasteignin hefði verið keypt í þeim tilgangi að eiga hana og leigja út og hefði 10 ára leigusamningur um eignina verið frágenginn. Hins vegar hefði óvænt tilboð borist í eignina sem reynst hefði svo hagstætt að talið hefði verið rétt að selja og leita að annarri fasteign í staðinn. Þrátt fyrir skamman eignarhaldstíma hefði verið um að ræða eign, sem uppfyllti skilyrði 33. gr. laga nr. 90/2003 um að vera varanlegur rekstrarfjármunur, enda væru engin ákvæði í lagagrein þessari sem áskildu ákveðinn eignarhaldstíma á eign svo að hún gæti talist varanlegur rekstrarfjármunur. Þar af leiðandi féllu kaup og sala eignarinnar ekki undir ákvæði 21. gr. laga nr. 90/2003, miðað við þær forsendur sem búið hefðu að baki kaupunum. Fór umboðsmaður kæranda fram á að opinber gjöld kæranda gjaldárið 2007 yrðu leiðrétt í samræmi við framangreint.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 7. mars 2008, og hafnaði henni. Skattstjóri rakti gang málsins og bréfaskipti í því. Skattstjóri tók fram að kærandi væri einkahlutafélag sem hefði verið stofnað á árinu 2006. Tilgangur félagsins væri samkvæmt skráningu í fyrirtækjaskrá ráðgjafarstarfsemi, kaup og sala fasteigna, rekstur þeirra, lánastarfsemi og skyldur rekstur. Í áritun stjórnar í ársreikningi hefði komið fram að meginstarfsemi kæranda væri ráðgjafarstarfsemi og kaup, sala og rekstur fasteigna. Kærandi hefði keypt eignina K hinn 30. maí 2006 og selt aftur hinn 8. júní sama ár eða rúmri viku seinna. Kaupverð eignarinnar hefði verið 490.000.000 kr. og söluverð 527.500.000 kr. Á árinu 2006 hefði kærandi einnig keypt sumarhúsalóðir fyrir 1.097.780 kr., en heildarvelta félagsins á árinu hefði numið 527.928.059 kr. og hagnaður 18.665.923 kr. Viðskipti með fasteignir teldust aðalstarfsemi kæranda og nánast allar tekjur félagsins kæmu af sölu eigna. Í 21. gr. laga nr. 90/2003 kæmi fram að félli sala eigna undir atvinnurekstur gjaldanda eða hefði eigna verið aflað í þeim tilgangi að selja þær aftur með hagnaði teldist hagnaður af sölu þeirra ávallt til skattskyldra tekna á söluári. Kærandi hefði borið því við að ætlunin hefði verið að leigja út eignina og því væri um að ræða fyrnanlega eign samkvæmt 33. gr. laga nr. 90/2003. Skattstjóri kvaðst hins vegar líta svo á að eignin uppfyllti naumast þau skilyrði sem 33. gr. laga nr. 90/2003 gerði til fyrnanlegra eigna, þ.e. að vera notuð til öflunar tekna í atvinnurekstri og að rýrna að verðmæti við eðlilega notkun og aldur, enda hefði umrædd fasteign einungis verið í útleigu hjá kæranda í rúma viku. Í tilvikum sem þessum vægju staðreyndir þyngst kvað skattstjóri. Fyrir lægi að eignarhald kæranda hefði aðeins varað í rúma viku og sala eigna félli undir atvinnurekstur kæranda. Þá hefði kærandi ekki lagt fram þá leigusamninga, sem vísað hefði verið til af hálfu félagsins, en skattstjóra teldi að fullt tilefni hefði verið til þess. Að þessu virtu þætti verða að hafna kröfu kæranda um frestun á skattlagningu á söluhagnaði að fjárhæð 22.521.321 kr. á grundvelli 14. gr. laga nr. 90/2003.

III.

Með kæru, dags. 29. maí 2008, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 7. mars 2008, til yfirskattanefndar. Þess er krafist af hálfu umboðsmannsins að umrædd breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 2007 verði felld úr gildi „og ákvæði 33. gr. laga um tekjuskatt gildi um eignfærslu eignarinnar og við meðhöndlun söluhagnaðarins, kr. 22.521.321, gildi ákvæði 14. gr. skattalaga“, eins og þar segir. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Meðfylgjandi kærunni eru meðal annars ljósrit kaupsamninga vegna kaupa og sölu á fasteigninni að K í Reykjavík, sbr. kaupsamning, dags. 30. maí 2006, og kaupsamning, dags. 8. júní 2006, svo og ljósrit tveggja húsaleigusamninga um eignina, annars vegar húsaleigusamnings kæranda, dags. 8. maí 2006, við X ehf. sem leigjanda og hins vegar húsaleigusamnings kæranda, dags. 1. júní 2006, við Y hf. sem leigjanda.

Í kærunni rekur umboðsmaður kæranda gang málsins ítarlega. Víkur umboðsmaðurinn að forsendum skattstjóra í hinum kærða úrskurði og ítrekar þau rök að hvergi í 33. gr. laga nr. 90/2003 sé áskilinn einhver tiltekinn lágmarkstími á eignarhaldi til þess að heimilt sé að fresta skattlagningu söluhagnaðar. Það hljóti enda að vera skattaðilinn sjálfur sem einn geti upplýst um tilgang með kaupum, eins og í tilviki kæranda. Fram hafi komið af hálfu kæranda að tilgangurinn hafi verið sá að eiga umrædda fasteign í langan tíma, en hagstætt tilboð í eignina hafi breytt þeim áformum. Í kjölfarið hafi kærandi leitað eftir nýrri eign til kaups með það fyrir augum að leigja hana út. Hvað snerti þá viðbáru skattstjóra að aðaltekjur kæranda hafi verið af eignasölu bendir umboðsmaðurinn á að fasteignin hafi verið örskamman tíma í útleigu áður en hún var seld og um fyrsta rekstrarár hafi verið að ræða. Eðlilega hafi því ekki verið um aðrar tekjur að ræða á árinu, enda ekki búið að fjárfesta í annarri eign til útleigu. Varðandi málskostnað er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði að fjárhæð 40.000 kr., er miðist við fimm klukkustunda vinnu og 8.000 kr. tímagjald.

IV.

Með bréfi, dags. 25. júlí 2008, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Umboðsmaður kæranda krefst þess að breyting skattstjóra á skattframtali kæranda gjaldárið 2007 verði felld úr gildi og ákvæði 33. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, gildi um eignfærslu fasteignar og að við meðhöndlun söluhagnaðarins gildi 14. gr. sömu laga. Vísar umboðsmaður m.a. til þess að í 33. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sé þess hvergi krafist að eign þurfi að vera í eigu gjaldanda tiltekinn tíma.

Skattstjóri metur eignarhald og útleigu á fasteign kæranda, „... í rúma viku“, svo að það geti vart uppfyllt skilyrði 33. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þ.e. að vera notuð til öflunar tekna í atvinnurekstri og rýrna að verðmæti við eðlilega notkun og aldur. Skattstjóri metur það svo að fasteignarinnar sé ekki aflað sem varanlegs rekstrarfjármunar, sbr. 2. tölul. 33. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, heldur sé sala kæranda á fasteign hluti af atvinnurekstrartekjum hans, enda sé það í samræmi við tilgang rekstrar kæranda. Umboðsmaður kæranda þykir ekki hafa sýnt fram á með sannanlegum hætti að mat skattstjóra sé ekki rökum reist.

Að framangreindu virtu er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 6. ágúst 2008, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 22. ágúst 2008, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Kemur fram hjá umboðsmanninum vegna athugasemdar ríkisskattstjóra um að rekstrartilgangur kæranda sé m.a. að kaupa og selja fasteignir að tilgangurinn sé einnig sá að leigja út fasteignir, sbr. 3. gr. félagssamþykkta kæranda er fylgdu bréfinu. Ítrekar umboðsmaðurinn að öðru leyti áður fram komin rök og skýringar þess efnis að það hafi verið upphaflegur tilgangur kæranda með kaupum á fasteigninni að K að eiga hana og leigja út og að það hafi eingöngu verið vegna hagstæðs kauptilboðs að vikið hafi verið frá þeim áformum.

V.

Kærandi, sem er einkahlutafélag, var stofnsettur hinn .. 2006, sbr. félagssamþykktir, sem dagsettar eru þann dag, og liggja fyrir í málinu. Samkvæmt 3. gr. samþykktanna er tilgangur félagsins ráðgjafarstarfsemi, kaup og sala fasteigna, rekstur þeirra, leiga, lánastarfsemi og annar skyldur rekstur. Eins og fram er komið keypti kærandi fasteignina að K í Reykjavík með kaupsamningi, dags. 30. maí 2006, og nam kaupverðið 490.000.000 kr. Afhendingardagur var 1. júní 2006. Þessa sömu fasteign seldi kærandi með kaupsamningi, dags. 8. júní 2006, og nam söluverðið 527.500.000 kr. Afhendingardagur var 9. júní 2006. Í skattskilum kæranda gjaldárið 2007 var söluhagnaður kæranda vegna þessarar sölu reiknaður 37.500.000 kr., sbr. eignaskrá, og var sú fjárhæð færð til tekna í reit 1050 í skattframtalinu. Í reit 4030 í skattframtalinu tilgreindi kærandi frestun skattlagningar á hluta þessa söluhagnaðar eða 22.521.321 kr., sbr. nánari lýsingu í upphafi II. kafla hér að framan. Í reit 1040 í skattframtali kæranda árið 2007 voru tilgreindar leigutekjur að fjárhæð 428.059 kr. er voru vegna útleigu umræddrar fasteignar þann skamma tíma sem hún var til tekjuöflunar kæranda, sbr. greinda afhendingardaga (lögskiladaga). Framtalsháttur kæranda byggðist á því að um sölu fyrnanlegrar eignar samkvæmt 33. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, hefði verið að ræða þannig að félaginu væri heimil frestun skattlagningar söluhagnaðarins um tvenn áramót samkvæmt 14. gr. greindra laga. Á það hefur skattstjóri ekki fallist og lýtur ágreiningsefni málsins að því. Skattstjóri taldi að sala umræddrar fasteignar félli undir atvinnurekstur kæranda, sbr. 21. gr. laga nr. 90/2003 sem skattstjóri vísaði til. Í þeim efnum benti skattstjóri á að viðskipti með fasteignir teldust aðalstarfsemi kæranda og nánast allar tekjur kæranda væru vegna eignasölu. Samkvæmt þessu væri ekki um að ræða fyrnanlega eign í skilningi 33. gr. laga nr. 90/2003 og því ekki um að ræða hagnað af sölu eigna samkvæmt 13. gr. laganna. Af þessu leiddi að sú heimild 14. gr. laga nr. 90/2003 til sérstakrar fyrningar fyrnanlegra eigna á móti skattskyldum söluhagnaði samkvæmt 13. gr. laganna og frestunar skattlagningar söluhagnaðar um tvenn áramót ætti ekki við í tilviki kæranda. Af hálfu kæranda er þessari niðurstöðu skattstjóra mótmælt. Er því teflt fram að tilgangur kaupanna hafi verið útleiga fasteignarinnar til langs tíma, sbr. framlagða húsaleigusamninga, enda þótt áform hafi breyst vegna hagstæðs kauptilboðs. Þá er bent á vegna forsendna skattstjóra viðvíkjandi aðalstarfsemi kæranda að skráður tilgangur kæranda samkvæmt félagssamþykktum sé meðal annars sá að leigja út fasteignir. Viðvíkjandi lagagrundvelli bendir umboðsmaður kæranda á að engan áskilnað sé að finna í 33. gr. laga nr. 90/2003 varðandi eignarhaldstíma skattaðila á eign svo að hún geti talist fyrnanleg.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 90/2003 telst hagnaður af sölu eigna, sem heimilt er að fyrna samkvæmt 33. gr. laganna, og af sölu réttinda, sem tengd eru þessum eignum, að fullu til skattskyldra tekna á söluári og skiptir ekki máli hve lengi skattaðili hefur átt hina seldu eign. Á því ári sem skattskyldur söluhagnaður eigna samkvæmt 13. gr. laga nr. 90/2003 færist til tekna er skattaðila heimilt samkvæmt 14. gr. laganna að fyrna eignir, sem fyrnanlegar eru samkvæmt 33. gr. sömu laga, um fjárhæð sem nemur hinum skattskylda söluhagnaði. Eigi skattaðili ekki eignir, sem hann getur fyrnt á þennan hátt á því ári þegar sala fer fram, getur hann farið fram á frestun skattlagningar á söluhagnaði um tvenn áramót, enda afli hann sér eigna sem fyrna má samkvæmt 33. gr. innan þess tíma og fyrni þær um fjárhæð sem nemur hinum skattskylda söluhagnaði. Ef eignanna er ekki aflað innan tilskilins tíma telst söluhagnaðurinn með skattskyldum tekjum á öðru ári frá því er hann myndaðist að viðbættu 10% álagi. Fyrning eða frestun tekjufærslu á þessum grundvelli kemur því aðeins til greina að yfirfæranleg rekstrartöp hafi verið jöfnuð, sbr. niðurlag greinarinnar. Samkvæmt 33. gr. laga nr. 90/2003 eru fyrnanlegar eignir varanlegir rekstrarfjármunir sem notaðir eru til öflunar tekna í atvinnurekstri eða í sjálfstæðri starfsemi og rýrna að verðmæti við eðlilega notkun eða aldur, sbr. nánari upptalningu á helstu flokkum fyrnanlegra eigna í lagagreininni.

Þegar í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 4. október 2007, kom fram að umræddrar fasteignar hefði verið aflað í því skyni að leigja hana út til langs tíma og í því sambandi vísað til þess að leigusamningar hefðu verið frágengnir þegar aðstæður breyttust og ákveðið var að selja eignina. Í tilkynningu skattstjóra, dags. 29. október 2007, var að takmörkuðu leyti fjallað um skýringar og málsástæður kæranda, en því slegið föstu að vegna skamms eignarhaldstíma félli salan undir 21. gr. laga nr. 90/2003. Í kæru, dags. 12. nóvember 2007, voru skýringar og sjónarmið kæranda ítrekuð. Í kæruúrskurði skattstjóra, dags. 7. mars 2008, var meginforsenda embættisins sem áður hinn skammi eignarhaldstími, auk þess sem vísað var til þess að aðalstarfsemi kæranda og megintekjur væru vegna viðskipta með fasteignir. Þá fann skattstjóri að því að tilvísaðir húsaleigusamningar hefðu ekki verið lagðir fram, en krafa um framlagningu þeirra hafði ekki komið fram af hálfu skattstjóra.

Samkvæmt framansögðu verður naumast talið að rökstuðningur skattstjóra í tilkynningu, dags. 29. október 2007, og kæruúrskurði, dags. 7. mars 2008, hafi verið fullnægjandi, sbr. 3. mgr. 96. gr. og 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003, og 1. og 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk þess sem forsendur skattstjóra stóðust ekki að öllu leyti, enda er skráður tilgangur kæranda meðal annars útleiga fasteigna. Þá stóðst engan veginn að draga í efa fyrst í kæruúrskurði tilvist umræddra húsaleigusamninga, en þannig verður að skilja umrædda athugasemd skattstjóra, enda hafði kærandi ekki verið krafinn áður um framlagningu þeirra, eins og fram er komið. Með þessari málsmeðferð var farið á svig við andmælarétt kæranda, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk þess sem skattstjóra bar í samræmi við rannsóknarskyldur sínar, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að ganga eftir gerningum þessum, áður en hann tók ákvörðun í málinu, teldi hann vafa leika á tilvist þeirra, enda verður að skilja athugasemd skattstjóra svo að hann hafi talið samninga þessa geta haft þýðingu við úrlausn málsins.

Að virtum atvikum málsins og skýringum kæranda, sem studdar eru gögnum, þ.e. húsaleigusamningum, um fyrirhugaða útleigu umræddrar fasteignar, sem raunar var leigð út, þótt í skamman tíma væri, þykir ekki ástæða til að vefengja að kaup kæranda á fasteigninni hafi verið gerð með það fyrir augum að nýta húsnæðið til öflunar tekna í atvinnurekstri kæranda. Verður því að telja að um hafi verið að ræða skattskyldan söluhagnað samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 90/2003. Var kæranda því heimil sú frestun skattlagningar söluhagnaðar sem kveðið er á um í 14. gr. laga nr. 90/2003 og kærandi tilfærði í skattframtali sínu árið 2007.

Með vísan til þess, sem að framan er rakið, er hin kærða breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 2007, sem hann tilkynnti kæranda um með bréfi sínu, dags. 29. október 2007, og staðfesti með kæruúrskurði sínum, dags. 7. mars 2007, felld úr gildi og krafa kæranda tekin til greina.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Kærandi hefur ekki lagt fram reikninga um útlagðan kostnað sinn við meðferð málsins, en umboðsmaður kæranda hefur gert grein fyrir slíkum kostnaði. Með vísan til framanritaðs og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákveðinn 35.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda í máli þessu. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 35.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja