Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 618/1990

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. B-liður — 31. gr. 3. tl. — 60. gr. 2. mgr. — 100. gr. 1. mgr.  

Skattskyldar tekjur — Atvinnurekstrartekjur — Húsaleigutekjur — Útleiga — Útleiga atvinnuhúsnæðis — Atvinnuhúsnæði — Atvinnurekstur — Sjálfstæð starfsemi — Tapaðar útistandandi viðskiptaskuldir — Útistandandi viðskiptaskuldir — Sönnun fyrir því að útistandandi viðskiptaskuld sé töpuð — Sönnun — Óvissar tekjur — Tekjutímabil — Tekjuuppgjör — Tekjuuppgjör rekstrar — Tekjuuppgjörsaðferð — Tímaviðmiðun rekstrarútgjalda — Kæra, síðbúin — Síðbúin kæra — Kærufrestur — Vítaleysisástæður

Málavextir eru þeir, að kærandi, sem leigir út fasteign, taldi fram sem leigutekjur í rekstrarreikningi, er fylgdi skattframtali hans 1989, 125.966 kr. með þeim athugasemdum, að vegna vanskila leigutaka hefði áfallin leiga verið reiknuð jöfn kostnaði ársins, en gjaldfallin leiga árið 1988 hefði numið 221.557 kr. Skattstjóri tilkynnti kæranda í bréfi til hans, dags. 27. júlí 1989, að húsaleigutekjur hans hefðu verið hækkaðar í 221.557 kr. eða um 95.591 kr. Hreinar tekjur af útleigu 95.591 kr. hefðu verið færðar til tekna í skattframtali kæranda 1989. Jafnframt hefði inneign hjá leigutaka 458.520 verið færð til eignar. Í kæru til skattstjóra, dags. 24. ágúst 1989, var hækkun hans á húsaleigutekjum mótmælt með vísan til 2. mgr. 60. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, á þeim forsendum, að um óvissar tekjur væri að ræða. Með úrskurði, uppkveðnum 23. október 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda m.a. þar sem ekki hefði verið sýnt fram á, að útistandandi skuldir vegna leigutekna væru sannanlega tapaðar.

Úrskurði skattstjóra hefur verið skotið til ríkisskattanefndar. Er farið fram á, að ríkisskattanefnd skeri úr um, hvort kæranda beri að tekjufæra húsaleigutekjur ársins að fullu með hliðsjón af ákvæðum 2. mgr. 60. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Fram kemur, að kærandi hefur leigt út atvinnuhúsnæði undir vélsmiðju. Að sögn skuldaði leigutaki kæranda í árslok 1988 43.620 kr. vegna húsaleigu ársins 1986, 193.343 kr. vegna ársins 1987 og 221.557 kr. vegna ársins 1988. Á skattframtali 1989 vegna tekjuársins 1988 hefði kærandi einungis talið fram húsaleigutekjur að fjárhæð 125.966 kr., eða fjárhæð sem samsvaraði gjöldum þess árs af húsnæðinu. Hefði skattstjóri hækkað tekjurnar á framtali í 221.557 kr. en sú breyting var kærð með vísan til 2. mgr. 60. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem um óvissar tekjur hefði verið að ræða að áliti kæranda. Að sögn hefur kærandi haldið uppi innheimtuaðgerðum en ekki leitað lögfræðilegrar úrlausnar vegna hinnar ógreiddu húsaleigu. Í framhaldskæru til ríkisskattanefndar er gerð grein fyrir því hvers vegna kært hefði verið svo seint sem raun bar vitni til ríkisskattanefndar.

Kröfugerð ríkisskattstjóra f.h. gjaldkrefjenda, dags. 8. maí 1990, er á þá leið, að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd, þar sem hún sé of seint fram komin en lögmæltur 30 daga kærufrestur skv. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981 hefði runnið út 22. nóvember 1989. Skýring kæranda á, að honum hefði ekki verið unnt að kæra innan veitts frests sé ófullnægjandi. Telji ríkisskattanefnd hins vegar, að taka beri kæruna til efnislegrar meðferðar þrátt fyrir ofangreindan meintan formgalla, er þess krafist, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Eftir atvikum er fallist á að taka kæruna til efnismeðferðar. Eigi verður á það fallist með kæranda, að um hafi verið að ræða óvissar tekjur í skilningi 2. mgr. 60. gr. laga nr. 75/1981. Er því kröfu hans hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja