Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 619/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. D-liður 2. tl. — 31. gr. 1. tl. — 32. gr. — 38. gr. — 53. gr.   — 95. gr. 2. mgr.  

Atvinnuhúsnæði — Íbúðarhúsnæði — Atvinnurekstrareign — Fyrning — Fyrning, almenn — Fyrnanleg eign — Fyrnanleg fasteign — Framkvæmdasjóður Íslands — Framkvæmdasjóðslán — Rekstrarskuldir — Vaxtagjöld — Rekstrarkostnaður — Félagsgjald — Tannlæknastofa — Tannlæknir — Áætlun — Áætlun skattstofna — Síðbúin framtalsskil — Sjálfstæð starfsemi — Félag sjálfstætt starfandi manna — Verðbreytingarfærsla — Tekjufærsla vegna verðbreytingar — Fasteign — Skipting fasteignar í íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði — Íbúðarlán

Málavextir eru þeir, að kærandi taldi ekki fram til skatts í framtalsfresti fyrir álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988 og sætti því áætlun skattstjóra á skattstofnum. Eftir álagninguna barst skattstjóra skattframtal kæranda árið 1988 ásamt kæru, dags. 26. ágúst 1988. Áður en hann úrskurðaði kæruna, reit hann kæranda bréf, dags. 8. nóvember 1988, þar sem hann var beðinn um að gera grein fyrir skiptingu húseignar hans að A, annars vegar til notkunar sem íbúðarhúsnæði hans og hins vegar við atvinnurekstur hans. Var tilgangur skattstjóra sá að kanna réttmæti framtalsgagna vegna þessa með tilliti til skiptingar á innsendum fasteignamatsseðli. Ekkert svar barst frá kæranda og þann 28. desember 1988 kvað skattstjóri upp kæruúrskurð og gerði þar hinar kærðu breytingar á framtalinu. Eru forsendur svohljóðandi:

„Um breytingar á framtalinu vísast til bréfs skattstjóra dags. 8. nóv. sl., þess að ekkert svar barst og breytinga á framtölum fyrri ára.

Skuldir v/atvinnuhúsnæðis eru færðar á efnahagsreikning kr. 2.174.030 og eignir færðar þar á fasteignamatsverði.

Eignir og skuldir á persónuframtali lækka samsvarandi.

Vextir eru færðir af persónuframtali á rekstur kr. 330.802.

Fyrning húsnæðis er færð til frádráttar kr. 131.257. meðf. er ljósrit af fyrningarskýrslu.

Tekjufærsla v/verðbreytinga er færð kr. 371.645.

Félagsgjald í T.F.I. kr. 17.850 er fært af rekstrarreikningi á persónuframtal.“

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með bréfi, 17. janúar 1989. Er þess krafist, að framangreindar breytingar skattstjóra á skattframtali kæranda verði felldar úr gildi. Er tekið fram, að kærandi geti ekki fellt sig við skiptingu skattstjóra á notkun umrædds húsnæðis og skuldum, sem á því hvíla. Í því sambandi gerir kærandi grein fyrir byggingu húsnæðisins og raunverulegri notkun þess, svo og lántöku frá Framkvæmdasjóði Íslands, sem beinlínis hafi verið veitt til að innrétta tannlæknastofu í húsnæðinu. Að því er varðar gjaldfært félagsgjald til Tannlæknafélags Íslands, tekur kærandi fram, að það sé vegna rekstrar kæranda sem tannlæknis.

Með bréfi, dags. 11. maí 1990, gerir ríkisskattstjóri þá kröfu fyrir hönd gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Úrskurð skattstjóra varðandi meðferð félagsgjalds til Tannlæknafélags Íslands þykir bera að staðfesta. Af hálfu kæranda þykir ekkert það fram komið, er gefi tilefni til þess að hagga breytingum skattstjóra að því er varðar færslu atvinnuhúsnæðis og skulda vegna þess af persónuframtali á efnahagsreikning.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja