Úrskurður yfirskattanefndar
- Vantaldar tekjur
- Áætlun skattstofna
- Tímamörk endurákvörðunar
Úrskurður nr. 8/2020
Gjaldár 2013-2017
Lög nr. 90/2003, 7. gr. B-liður, 96. gr. 1. mgr., 97. gr. 1. mgr.
Ríkisskattstjóri hækkaði skattskyldar tekjur kæranda af atvinnurekstri í skattframtölum hans árin 2013-2017 sem nam fjárhæð tilgreindra innborgana á bankareikninga kæranda umrædd ár, en ríkisskattstjóri leit svo á að um væri að ræða vanframtaldar tekjur af ferðaþjónustu. Við mat sitt á vanframtöldum rekstrartekjum kæranda féllst ríkisskattstjóri á þær skýringar kæranda að hluti innborgana í reiðufé á bankareikninga væri til kominn vegna sölu fasteigna í útlöndum árin 2002 og 2004, en hafnaði því þó að taka í því sambandi tillit til innborgana sem áttu sér stað á árunum 2009-2011 þar sem kærandi þótti ekki hafa sýnt fram á að þeim fjármunum hefði ekki verið ráðstafað í eigin þágu á greindum árum. Yfirskattanefnd féllst ekki á með kæranda að með þessum ályktunum sínum hefði ríkisskattstjóri brotið gegn reglu um sex ára tímafrest til endurákvörðunar, enda hefði verið óhjákvæmilegt við mat á vantöldum tekjum kæranda að taka afstöðu til skýringa hans á uppruna fjármunanna. Var kærandi í málinu ekki talinn hafa fært fram viðhlítandi rök fyrir því að mat ríkisskattstjóra á vanframtöldum rekstrartekjum hans umrædd ár væri um skör fram þar sem ekki væri tekið nægjanlegt tillit til fjármuna sem verið hefðu í eigu kæranda erlendis.
Ár 2020, miðvikudaginn 29. janúar, er tekið fyrir mál nr. 125/2019; kæra A og B, dags. 3. júlí 2019, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2013, 2014, 2015, 2016 og 2017. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 3. júlí 2019, hafa kærendur skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 9. apríl 2019, vegna álagningar opinberra gjalda kærenda gjaldárin 2013, 2014, 2015, 2016 og 2017. Með úrskurðinum féllst ríkisskattstjóri á endurupptöku máls kærenda vegna umræddra gjaldára, sbr. úrskurð ríkisskattstjóra, dags. 11. október 2018, um endurákvörðun opinberra gjalda kærenda. Með síðastnefndum úrskurði hækkaði ríkisskattstjóri skattskyldar tekjur kæranda, A, af atvinnurekstri í skattframtölum hans um 51.425.631 kr. árið 2012, 63.064.084 kr. árið 2013, 15.799.381 kr. árið 2014, 20.803.614 kr. árið 2015 og 16.942.195 kr. árið 2016, sbr. B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eða sem nam fjárhæð tilgreindra innborgana á bankareikninga kærenda árin 2011, 2012, 2013, 2014 og 2015. Leit ríkisskattstjóri svo á að um væri að ræða vanframtaldar tekjur af ferðaþjónustu sem kærandi, A, hefði stundað hér á landi á greindum árum. Að teknu tilliti til annarra breytinga ríkisskattstjóra á skattframtölum kærenda nam hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns kæranda, A, samkvæmt úrskurðinum 29.933.071 kr. gjaldárið 2013, 34.910.586 kr. gjaldárið 2014, 16.114.234 kr. gjaldárið 2015, 20.866.265 kr. gjaldárið 2016 og 17.061.941 kr. gjaldárið 2017 og bætti ríkisskattstjóri 25% álagi við þá hækkun skattstofna kæranda, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Með hinum kærða úrskurði, dags. 9. apríl 2019, tók ríkisskattstjóri mál kærenda til nýrrar meðferðar í framhaldi af beiðni þeirra frá 3. desember 2018 um endurupptöku málsins og frekari bréfaskiptum, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kærenda, dags. 28. janúar og 12. mars 2019, og svarbréf umboðsmanns kærenda, dags. 7. febrúar og 24. mars sama ár. Með úrskurðinum féllst ríkisskattstjóri á að lækka rekstrartekjur kæranda, A, um 39.623.583 kr. árið 2012, um 24.569.619 kr. árið 2013, um 1.486.088 kr. árið 2014 og um 493.291 kr. árið 2015, en hækkaði rekstrartekjur árið 2016 um 466.270 kr. Leiddu þær breytingar til lækkunar á tekjuskatts- og útsvarsstofni kæranda um 29.933.071 kr. gjaldárið 2013, 33.647.556 kr. gjaldárið 2014, 1.486.088 kr. gjaldárið 2015 og 493.291 kr. gjaldárið 2016, en til hækkunar á tekjuskatts- og útsvarsstofni gjaldárið 2017 um 466.270 kr. Áður ákvarðað 25% álag féll niður gjaldárið 2013 og lækkaði gjaldárin 2014, 2015, 2016 og 2017 um tilgreindar fjárhæðir.
Í kæru kærenda til yfirskattanefndar er þess krafist „að andvirði EUR 128.785 verði metnar sem millifærsla eigna kærenda á fyrirspurnartímabilinu og leiði þannig til lækkunar atvinnurekstrartekna kærenda sem því nemur“, eins og segir í kærunni. Þá er þess krafist að kærendum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.
II.
Helstu málavextir eru þeir að skattframtölum kærenda árin 2013, 2014, 2015, 2016 og 2017 fylgdu rekstrarskýrslur (RSK 4.11) vegna rekstrar kæranda, A, við skipulagningu ferða á árunum 2012, 2013, 2014, 2015 og 2016.
Með bréfi til kæranda, dags. 16. desember 2014, fór ríkisskattstjóri fram á skýringar hans á tilgreindum erlendum innborgunum á bankareikning kæranda á árunum 2012 og 2013 auk þess sem lagt var fyrir kæranda að láta í té bókhaldsgögn vegna rekstrar umrædd ár. Í svarbréfi umboðsmanns kærenda, dags. 20. febrúar 2015, kom fram að kærandi hefði ekki gert sér grein fyrir því að mestan hluta innborgana þessara bæri að færa sem tekjur í rekstrarskýrslum, en hann hefði einungis tilgreint nettótekjur af ferðaskipulagningu hér á landi í skattskilum sínum. Fylgdu bréfinu endurgerðar rekstrarskýrslur fyrir árin 2012 og 2013 og var þess óskað að skýrslurnar yrðu lagðar til grundvallar nýrri álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2013 og 2014.
Í kjölfar frekari bréfaskipta, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kærenda, dags. 8. nóvember 2016, þar sem ríkisskattstjóri óskaði m.a. eftir bókhaldsgögnum vegna rekstraráranna 2012, 2013, 2014 og 2015, og svarbréf kærenda ásamt gögnum, dags. 17. janúar og 28. maí 2017, sbr. og bréf ríkisskattstjóra, dags. 6. mars 2018, sem ekki var svarað af hálfu kærenda, boðaði ríkisskattstjóri kærendum með bréfi, dags. 14. júní 2018, endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárin 2013, 2014, 2015, 2016 og 2017 þar sem fyrirhugað væri að hækka stofn kæranda, A, til tekjuskatts og útsvars um 29.933.071 kr. gjaldárið 2013, 34.910.586 kr. gjaldárið 2014, 16.114.234 kr. gjaldárið 2015, 20.866.265 kr. gjaldárið 2016 og 17.061.941 kr. gjaldárið 2017 vegna meintra vanframtalinna tekna af atvinnurekstri á greindum árum, sbr. B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þá væri fyrirhugað að bæta 25% álagi við hækkun skattstofna kæranda umrædd ár, sbr. heimildarákvæði 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Var kærendum veittur 20 daga frestur frá dagsetningu boðunarbréfsins til að koma á framfæri athugasemdum í tilefni af fyrirhugaðri endurákvörðun, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Fyrir liggur að kærendum var ítrekað veittur frekari frestur til að koma á framfæri andmælum, fyrst til 31. ágúst 2018 með tölvupósti ríkisskattstjóra 20. júlí sama ár, síðan til 5. október 2018 með tölvupósti 3. september sama ár og loks til 10. október með tölvupósti 8. sama mánaðar. Andmæli bárust ekki innan þess frests og með úrskurði um endurákvörðun, dags. 11. október 2018, hratt ríkisskattstjóri hinum boðuðu breytingum á skattframtölum kærenda árin 2013, 2014, 2015, 2016 og 2017 í framkvæmd, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003.
Í úrskurði sínum rakti ríkisskattstjóri gang málsins og fyrri bréfaskipti í málinu. Þá reifaði ríkisskattstjóri skattskil kærenda vegna þeirra ára sem um ræðir og upplýsingar um erlendar innborganir á bankareikninga kærenda sömu ár. Vék ríkisskattstjóri m.a. að þeim skýringum kærenda að þau hefðu flutt eigin fjármuni frá útlöndum til Íslands á liðnum árum og tók fram að kærendur hefðu hvorki sýnt fram á tilvist slíkra fjármuna með gögnum né flutning þeirra til Íslands, svo sem með bankayfirlitum. Þá gat ríkisskattstjóri þess að auk fyrrgreindra erlendra innborgana væri um að ræða innborganir á bankareikninga kærenda með bæði reiðufé og millifærslum, svo sem nánari grein var gerð fyrir. Fram kom að þrátt fyrir áskoranir ríkisskattstjóra hefðu kærendur enga grein gert fyrir misræmi í upplýsingum um innborganir á bankareikninga þeirra, er virtust stafa af atvinnurekstri kæranda, A, og upplýsingum um rekstrartekjur samkvæmt skattframtölum kærenda. Í því sambandi vísaði ríkisskattstjóri til lífeyrisútreiknings vegna áranna 2012–2016 sem bæri með sér að lífeyrir kærenda hefði verið neikvæður öll árin svo næmi háum fjárhæðum. Skattskil kærenda fengju því engan veginn staðist.
Í úrskurðinum vék ríkisskattstjóri nánar að þeim skýringum kærenda að þau hefðu átt fjármuni erlendis í kjölfar sölu tveggja fasteigna á árunum 2002 og 2004 sem fluttir hefðu verið til Íslands síðar. Benti ríkisskattstjóri á að í ljósi þess langa tíma sem liðinn væri frá sölu fasteignanna yrði að telja afar ólíklegt að fjármunir vegna sölu eignanna hefðu ekki verið nýttir að einhverju eða öllu leyti til framfærslu heldur verið geymdir um árabil. Yrði því ekki tekið tillit til þessara skýringa við mat á vanframtöldum tekjum vegna innborgana á bankareikninga sem átt hefðu sér stað á árunum 2012–2017. Kvaðst ríkisskattstjóri líta svo á að allar innborganir á bankareikninga kæranda, A, umrædd ár bæru með sér greiðslur til hans vegna atvinnurekstrar, sbr. ákvæði B-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Yrði hækkun atvinnurekstrartekna kæranda því 51.425.631 kr. árið 2012, 63.064.084 kr. árið 2013, 15.799.381 kr. árið 2014, 20.803.614 kr. árið 2015 og 16.942.195 kr. árið 2016. Þá kom fram að samkvæmt innsendum rekstrarskýrslum vegna rekstraráranna 2012 og 2013 og framlögðum hreyfingalistum vegna gjaldaliðarins „Keypt efni án vsk“ ásamt fylgiskjölum yrðu frádráttarbær gjöld ákvörðuð 22.217.133 kr. fyrra árið og 30.121.625 kr. það síðara. Af breytingum þessum leiddi að hagnaður kæranda, A, af atvinnurekstri yrði 30.891.367 kr. árið 2012, 34.910.586 kr. árið 2013, 16.114.234 kr. árið 2014, 20.866.265 kr. árið 2015 og 17.061.941 kr. árið 2016 og ónotað yfirfæranlegt rekstrartap á samræmingarblaði (RSK 4.05) með skattframtölum kæranda vegna sömu ára félli niður. Þá kom fram að þar sem reiknaður lífeyrir kærenda væri, samkvæmt útreikningi ríkisskattstjóra, neikvæður um 15.795.977 kr. árið 2012, 15.533.094 kr. árið 2013, 13.310.865 kr. árið 2014, 7.697.493 kr. árið 2015 og 13.144.384 kr. árið 2016 yrðu sömu fjárhæðir færðar sem úttekt úr rekstri í rekstrarskýrslum með skattframtölum kæranda umrædd ár og þar af leiðandi til lækkunar á hreinni eign í atvinnurekstri. Þá gerði ríkisskattstjóri grein fyrir fjárhæðum 25% álags, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.
III.
Næst gerðist það í málinu að með bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 3. desember 2018, óskuðu kærendur eftir endurupptöku málsins, sbr. ákvæði 1. tölul. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í bréfi þessu var vísað til meðfylgjandi gagna er væru annars vegar kvittanir banka vegna innborgana á gjaldeyrisreikninga kærenda og hins vegar yfirlit yfir millifærslur milli eigin bankareikninga kærenda. Fram kom að gögnin bæru með sér að þegar tekið væri tillit til millifærslna milli eigin reikninga kærenda, sem ekki bæri að virða sem vanframtaldar tekjur af atvinnurekstri kæranda, A, yrðu vantaldar tekjur nokkru lægri en ríkisskattstjóri hefði miðað við eða samtals 180.440.331 kr. öll árin 2012-2016 í stað 218.557.478 kr. Var þetta nánar sundurliðað eftir árum. Þá var í bréfinu vikið nánar að flutningi kærenda á fjármunum frá útlöndum til Íslands, þ.e. fjármunum sem kærendum hefðu hlotnast við sölu fasteigna erlendis á árunum 2002 og 2004. Söluandvirði beggja fasteignanna hefði verið um 451.000 evrur. Var tekið fram að við sölu kærenda á eignunum hefði söluandvirðið verið afhent móður kæranda, A, til varðveislu, en sú aðferð væri vel þekkt í viðkomandi ríki þar sem fjármálastofnanir þar í landi hefðu staðið höllum fæti allt frá hruni hagkerfisins. Af þessum sökum væri kærendum ókleift að leggja fram gögn um rafrænar færslur af bankareikningum erlendis. Fjármunirnir hefðu komið til landsins sem lausafé í farangri kærenda eða ættingja þeirra. Kærendur hefðu innleyst fjármunina árin 2012, 2013 og 2014 með innborgunum á gjaldeyrisreikninga sína eða 32.507.072 kr. fyrsta árið, 26.942.915 kr. annað árið og 11.846.762 kr. þriðja árið eða samtals 71.296.749 kr., en á gengi hverrar færslu væri um að ræða í kringum 451.000 evrur. Umrædd fjárhæð ætti því að koma til frádráttar meintum vantöldum tekjum af atvinnurekstri. Hluti fjármunanna hefði verið fluttur af venslafólki kærenda sem komið hefði til landsins á mismunandi tímum og ekki unnt að skilgreina nákvæmlega hvenær, enda væri nokkuð um liðið. Kærendur hefðu geymt fjármunina sjálf þar sem tiltrú þeirra á bankakerfi hafi verið lítil vegna fyrri reynslu.
Í beiðninni var stuttlega fjallað um lífeyrisútreikning ríkisskattstjóra og tekið fram að neysluviðmið í skýrslu velferðarráðuneytisins gætu ekki verið grunnur að skattlagningu í hendi kærenda. Þeim væri mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Þá var gerð nánari töluleg grein fyrir sjónarmiðum kærenda varðandi fjárhæð tekna af atvinnurekstri og kom þar fram að vantaldar tekjur ættu að ákvarðast 17.012.791 kr. árið 2012, 37.293.057 kr. árið 2013, 23.408.209 kr. árið 2014, 31.302.566 kr. árið 2015 og 27.201.759 kr. árið 2016. Kom fram að taka bæri tillit til fram kominna skýringa kærenda og kveða upp nýjan úrskurð í málinu til samræmis við hinar nýju upplýsingar.
Áður en ríkisskattstjóri tók beiðni kærenda um endurupptöku til afgreiðslu ritaði hann kærendum bréf, dags. 28. janúar 2019, þar sem ríkisskattstjóri krafði kærendur um frekari skýringar og gögn, m.a. varðandi tilgreindar innborganir á bankareikninga kærenda. Í bréfinu kom m.a. fram að ríkisskattstjóri hefði í tilefni af endurupptökubeiðni kærenda aflað frekari gagna frá banka um innborganir á gjaldeyrisreikninga kæranda, A, á árunum 2008–2011. Kom fram að innborganir í reiðufé, þ.e. evrum, inn á reikningana hefðu numið 3.100 evrum árið 2009, 33.495 evrum árið 2010, 92.190 evrum árið 2011, 209.003 evrum árið 2012, 171.350 evrum árið 2013, 94.420 evrum árið 2014, 48.900 evrum árið 2015 og 3.500 evrum árið 2016. Innborganir í reiðufé á gjaldeyrisreikninga kæranda, þ.e. umfram erlendar millifærslur á reikningana, hefðu þannig numið samtals 128.785 evrum á árunum 2009, 2010 og 2011. Að þessu virtu þætti ótrúverðugt að allt söluandvirði fasteigna, sem kærendur hefðu selt á árunum 2002 og 2004, hefði verið lagt inn á gjaldeyrisreikninga kæranda á árunum 2012, 2013 og 2014 en ekki verið ráðstafað í eigin þágu á árunum 2002–2011. Óskaði ríkisskattstjóri af þessu tilefni eftir skýringum á uppruna þess fjár sem runnið hefði inn á gjaldeyrisreikninga á árunum 2009–2011 og ástæðum þess að kærendur hefðu að engu leyti ráðstafað fjármunum vegna sölu fasteigna fyrr en á árinu 2012. Þá fór ríkisskattstjóri fram á skýringar á því hvernig kærendur hefðu fjármagnað eignamyndun á árunum 2002–2011 í ljósi þess að framtaldar tekjur samkvæmt skattskilum kærenda dygðu aðeins fyrir almennri grunnframfærslu, svo sem ríkisskattstjóri gerði nánari grein fyrir. Kom fram í því sambandi að raunaukning eigna kærenda, þ.e. eignabreyting umfram fasteignamat en að frádregnum skuldum, næmi rúmum 28 milljónum króna frá árinu 2001 og til ársloka 2011 samkvæmt upplýsingum í skattframtölum þeirra.
Í svarbréfi umboðsmanns kærenda, dags. 7. febrúar 2019, var því mótmælt að unnt væri að krefja kærendur um upplýsingar og gögn vegna áranna 2009–2011, sbr. 1. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003. Þá hefði öllum gögnum vegna þessara ára verið fargað, sbr. 20. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, þar sem mælt væri fyrir um sjö ára geymsluskyldu gagna. Af hálfu kærenda væri þó unnt að upplýsa að fjármunir sem vísað væri til væru til komnir vegna sölu ýmissa innanstokksmuna sem verið hefðu hluti af innbúi kærenda erlendis, þ.e. smámuna, smámynda, stytta og krossa frá ýmsum tímum. Þá voru áður fram komnar skýringar kærenda áréttaðar.
Með bréfi, dags. 12. mars 2019, boðaði ríkisskattstjóri kærendum að fyrirhugað væri að endurupptaka úrskurð embættisins um endurákvörðun, dags. dags. 11. október 2018, og gera tilteknar breytingar á úrskurðinum, svo sem nánar greindi. Í bréfinu voru áréttuð þau sjónarmið sem fram komu í fyrrnefndum úrskurði og lutu að því að skýringar kærenda á geymslu og ráðstöfun fjármuna vegna sölu fasteigna erlendis á árunum 2002 og 2004 þættu ekki sannfærandi með tilliti til þess að kærendur hefðu verið búsett á Íslandi frá árinu 2000. Gat ríkisskattstjóri þess að fyrirspurn embættisins varðandi greiðslur á árunum 2000–2011 hefði verið gerð í því skyni að upplýsa málið svo sem kostur væri, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda lytu skýringar kærenda að ráðstöfunum, þ.e. sölu fasteigna, sem átt hefðu sér stað á greindu tímabili eða á árunum 2002 og 2004. Ekki yrði séð að ríkisskattstjóri væri óheimilt að beina spurningum til kærenda varðandi eldri tímabil, sbr. m.a. meðalhófsreglu 12. gr. fyrrnefndra laga, en í málinu reyndi á matskennd atriði og takmörkuðum gögnum til að dreifa.
Í bréfinu tók ríkisskattstjóri fram að með hliðsjón af upplýsingum og athugasemdum sem fram kæmu í endurupptökubeiðni kærenda varðandi ofmat rekstrartekna þætti rétt, við mat á vanframtöldum rekstrartekjum kæranda, A, að bera saman erlendar millifærslur og peningaseðla sem lagðir hefðu verið inn á gjaldeyrisreikninga og bankareikninga við veltu samkvæmt skattframtölum, enda þætti sú nálgun nákvæmari en sú nálgun sem fram kæmi í úrskurði um endurákvörðun þar sem ekki hefði verið gerð sérstök grein fyrir innborgunum á gjaldeyrisreikning í reiðufé sem að miklu leyti hefðu síðan verið millifærðar á innlendan bankareikning „og reiknuð sem viðbót við erlendu millifærslurnar“, eins og sagði í bréfinu. Þá kom fram að kærendur þættu jafnframt hafa sýnt fram á að einhver hluti innlendra innborgana inn á innlendan bankareikning kæranda væru í eigin þágu hans en ekki vegna rekstrar. Var vísað til töflu í bréfinu um greindan samanburð innborgana við framtalda veltu þar sem fram kom að „misræmi á veltu vs. innborganir“ næmi 29.242.038 kr. árið 2012, 25.629.087 kr. árið 2013, 14.313.293 kr. árið 2014, 20.310.323 kr. árið 2015 og 17.408.465 kr. árið 2016. Þá sagði svo í bréfinu:
„Að svo komnu og að virtum öllum þeim upplýsingum og gögnum sem fram hafa komið getur RSK fallist á, með hliðsjón af 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að 322.215 € (451.000 € – 128.785 €) sem lagðar voru inn á gjaldeyrisreikninga gjaldanda A á árunum 2012 og 2013 með peningaseðlum hafi mögulega verið lausafé gjaldenda sem uppruna sinn átti vegna sölu fasteignanna erlendis. RSK lýtur því svo á, m.t.t. fyrirliggjandi gagna, að þær 128.785 € sem voru lagðar inn með peningaseðlum inn á gjaldeyrisreikninga gjaldanda á árunum 2009–2011 eigi sama uppruna.“
Fram kom í bréfi ríkisskattstjóra að með vísan til framanritaðs væri fyrirhugað að lækka rekstrartekjur kæranda, A, um samtals 322.215 evrur á árunum 2012 og 2013, þ.e. um 33.119.647 kr. (207.060 evrur) fyrra árið og um 18.647.049 kr. (115.155 evrur) það síðara. Auk þess væri fyrirhugað að lækka rekstrartekjur um 6.503.936 kr. árið 2012, um 5.922.570 kr. árið 2013, um 1.486.088 kr. árið 2014 og um 493.291 kr. árið 2015 „vegna ofmats [ríkisskattstjóra] á innborgunum sem ekki virðast tengdar atvinnurekstri“, eins og sagði í bréfinu. Loks væri fyrirhugað að hækka rekstrartekjur um 466.270 kr. árið 2016 til samræmis við innborganir reiðufjár á gjaldeyrisreikning. Gerði ríkisskattstjóri tölulega grein fyrir þessum breytingum sem leiða myndu til þess að hagnaður af rekstri kæranda, A, yrði 10.340.967 kr. árið 2013, 14.628.146 kr. árið 2014, 20.372.974 kr. árið 2015 og 17.528.211 kr. árið 2016, en árið 2012 yrði tap af rekstrinum að fjárhæð 8.119.641 kr. sem fært yrði sem framlag til rekstrar í rekstrarskýrslu með skattframtali kærenda árið 2013. Kom fram að tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda, A, myndi lækka um 29.933.071 kr. gjaldárið 2013, 33.647.556 kr. gjaldárið 2014, 1.486.088 kr. gjaldárið 2015 og 493.291 kr. gjaldárið 2016, en hækka um 466.270 kr. gjaldárið 2017 frá því sem ákveðið hefði verið með úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 11. október 2018. Til samræmis væri fyrirhugað að endurreikna 25% álag til niðurfellingar gjaldárið 2013, til lækkunar gjaldárin 2014, 2015 og 2016 og til hækkunar gjaldárið 2017, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, svo sem rakið var nánar tölulega í bréfinu.
Með bréfi, dags. 24. mars 2019, gerðu kærendur athugasemd við að ríkisskattstjóri hygðist ekki taka að öllu leyti tillit til skýringa þeirra varðandi ráðstöfun söluandvirðis fasteigna sem seldar hefðu verið í útlöndum. Kom fram að kærendur teldu ríkisskattstjóra ekki heimilt „[að færa] tilgreinda fjárhæð 128.785 € undir ár sem ekki eru til skoðunar“, eins og sagði í bréfinu. Var í þessu sambandi vísað til lögmætisreglu skattaréttar og bent á að kærendur hefðu gert ítarlega grein fyrir uppruna þess fjár sem um ræðir og komu þess til landsins.
Með úrskurði, dags. 9. apríl 2019, tók ríkisskattstjóri málið til nýrrar meðferðar og gerði breytingar á úrskurði sínum um endurákvörðun, dags. 11. október 2018, til samræmis við þær breytingar sem boðaðar höfðu verið með bréfi embættisins, dags. 12. mars 2019. Leiddi úrskurðurinn þannig til lækkunar tekjuskatts- og útsvarsstofns kæranda, A, um 29.933.071 kr. gjaldárið 2013, 33.647.556 kr. gjaldárið 2014, 1.486.088 kr. gjaldárið 2015 og 493.291 kr. gjaldárið 2016, en til hækkunar tekjuskatts- og útsvarsstofns hans gjaldárið 2017 um 466.270 kr. Áður ákvarðað álag samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 féll niður gjaldárið 2013 og lækkaði úr 8.727.646 kr. í 315.757 kr. gjaldárið 2014, úr 4.028.558 kr. í 3.657.036 kr. gjaldárið 2015 og úr 5.216.566 kr. í 5.093.243 kr. gjaldárið 2016, en gjaldárið 2017 hækkaði fjárhæð álags úr 4.265.485 kr. í 4.382.052 kr. Rökstuðningur í úrskurði ríkisskattstjóra var á sömu nótum og í fyrrnefndu bréfi embættisins, dags. 12. mars 2019, en vegna sjónarmiða í bréfi kærenda, dags. 24. sama mánaðar, tók ríkisskattstjóri fram að málið varðaði uppruna peningaseðla að fjárhæð alls 525.230 evrur sem komið hefðu til landsins á árunum 2012–2016. Gæti ríkisskattstjóri fallist á að hluti fjárins eða 322.215 evrur sem fluttar hefðu verið hingað til lands á árunum 2012 og 2013 væri mögulega vegna eftirstöðva lausafjár vegna sölu fasteigna erlendis, en það sem umfram væri yrði að virða sem tekjur af atvinnurekstri, þ.e. ferðaskipulagningu. Ekki væri því um það að ræða að ríkisskattstjóri væri að færa fjárhæðir milli ára, eins og ýjað væri að af hálfu kærenda í málinu.
IV.
Í kæru kærenda til yfirskattanefndar er þess krafist „að andvirði EUR 128.785 verði metnar sem millifærsla eigna kærenda á fyrirspurnartímabilinu og leiði þannig til lækkunar atvinnurekstrartekna kærenda sem því nemur“, eins og segir í kærunni. Þá er þess krafist að kærendum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.
Í kærunni er rakið að kærendur hafi flutt til Íslands frá útlöndum árið 2000 og séu nú með tvöfalt ríkisfang. Kærandi, A, hafi hlotið fasteign í arf eftir föður sinn árið 1998 sem hann hafi selt á árinu 2004. Áður hafi kærandi, B, selt fasteign á árinu 2002. Fjármunir vegna sölu fasteignanna, alls um 415.000 evrur, hafi verið afhentir móður kæranda, A, til varðveislu. Þar sem mikill órói hafi einkennt fjármálamarkaði á þeim tíma hafi kærendur ákveðið að geyma fjármuni í erlendri mynt fremur hjá ættingjum í stað þess að eiga á hættu að tapa fénu hjá banka. Þá kemur fram að það veki furðu kærenda að ríkisskattstjóri skuli „úrskurða um fjármuni fyrir ár sem þeir hafa ekki heimild til“, en slík ákvörðun brjóti gegn lögmætisreglu skattaréttar, sbr. 40. gr., sbr. 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, með síðari breytingum. Hafa beri í huga að heimild ríkisskattstjóra til endurákvörðunar skatta taki einungis til sex ára, sbr. 1. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003. Slík vinnubrögð stangist á við meginreglur laga um réttláta málsmeðferð, réttmætar væntingar kærenda og lagaáskilnaðarreglu. Ranglega sé ályktað af hálfu ríkisskattstjóra að fjármunir sem um ræðir hljóti að hafa verið fluttir til landsins frá og með árinu 2009 og verið nýttir í eigin þágu kærenda á árunum 2009, 2010 og 2011. Hafi kærendur fært rök fyrir því að fjármunir, sem á öðrum tímum hafi verið fluttir hingað til lands, hafi átt annan uppruna. Hugarflug starfsmanna ríkisskattstjóra varðandi þau verðmæti sem flutt hafi verið til landsins geti ekki ráðið niðurstöðu í málinu, enda sé engin þekking til staðar innan embættis ríkisskattstjóra á verðmæti muna sem um ræðir. Kærendur hafi lagt á sig mikið erfiði við öflun gagna í málinu, m.a. gagna frá útlöndum, og sé þannig í mun að upplýsa málið, en fyrir liggi að fyrri úrskurður ríkisskattstjóra hafi verið kveðinn upp á grundvelli ófullnægjandi gagna og upplýsinga.
V.
Með bréfi, dags. 15. ágúst 2019, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 16. ágúst 2019, var umboðsmanni kærenda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
VI.
Eins og fram er komið fylgdu skattframtölum kærenda árin 2013, 2014, 2015, 2016 og 2017 rekstrarskýrslur (RSK 4.11) vegna rekstrar kæranda, A, við ferðaskipulagningu á árunum 2012, 2013, 2014, 2015 og 2016. Samkvæmt skýrslunum námu rekstrartekjur 1.682.869 kr. árið 2012, 1.968.127 kr. árið 2013, 22.413.616 kr. árið 2014, 11.941.717 kr. árið 2015 og 12.516.244 kr. árið 2016. Að teknu tilliti til rekstrargjalda, þar með talið reiknaðs endurgjalds, nam tilfært tap af starfseminni 640.648 kr. fyrsta árið og 1.422.897 kr. annað árið, en óverulegur hagnaður varð af starfseminni önnur ár sem um ræðir eða hagnaður að fjárhæð 314.853 kr. þriðja árið, 62.651 kr. fjórða árið og 119.746 kr. fimmta árið. Í framhaldi af bréfi ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 16. desember 2014, þar sem ríkisskattstjóri spurðist fyrir um erlendar innborganir á bankareikning kæranda á árunum 2012 og 2013, bárust ríkisskattstjóra endurgerðar rekstrarskýrslur vegna þeirra ára með bréfi kæranda, dags. 20. febrúar 2015. Samkvæmt þeim skýrslum námu rekstrartekjur 17.362.526 kr. árið 2012 og 33.480.554 kr. árið 2013 og að teknu tilliti til rekstrargjalda var tilfært tap af starfseminni 4.854.607 kr. fyrra árið en hagnaður 3.358.925 kr. síðara árið. Í kjölfar frekari bréfaskipta og athugunar ríkisskattstjóra á bókhaldsgögnum kæranda boðaði ríkisskattstjóri kærendum endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda gjaldárin 2013, 2014, 2015, 2016 og 2017 með bréfi, dags. 14. júní 2018, þar sem fyrirhugað væri að hækka atvinnurekstrartekjur kæranda, A, um 51.425.631 kr. árið 2012, 63.064.084 kr. árið 2013, 15.799.381 kr. árið 2014, 20.803.614 kr. árið 2015 og 16.942.195 kr. árið 2016, sbr. ákvæði B-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, auk annarra tilgreindra breytinga á skattframtölum kærenda þau ár. Voru forsendur hinna boðuðu breytinga í stuttu máli þær að upplýsingar um innborganir á bankareikninga kæranda bæru með sér að tekjur af atvinnurekstri hans væru verulega vanframtaldar í skattskilum hans umrædd ár. Voru breytingarnar auk þess studdar þeim rökum að lífeyrir kærenda væri umtalsvert neikvæður öll árin væri miðað við framtaldar tekjur í skattframtölum kærenda, svo sem nánari töluleg grein var gerð fyrir í boðunarbréfinu. Í framhaldi af frekari tölvupóstum og frestveitingum í málinu hratt ríkisskattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd með úrskurði um endurákvörðun, dags. 11. október 2018. Með úrskurði þessum ákvarðaði ríkisskattstjóri atvinnurekstrartekjur kæranda, A, til samræmis við upplýsingar um greiðslur inn á bankareikninga hans umrædd ár sem námu 53.108.500 kr. árið 2012, 65.032.211 kr. árið 2013, 38.212.997 kr. árið 2014, 32.745.331 kr. árið 2015 og 29.458.439 kr. árið 2016 samkvæmt sundurliðun í úrskurðinum. Í úrskurðinum hafnaði ríkisskattstjóri þeim skýringum kæranda, sem fram höfðu komið við meðferð málsins, að hluti innborgana á bankareikning kæranda væri vegna fjármuna sem kærendur hefðu átt erlendis eftir sölu tveggja fasteigna þar á árunum 2002 og 2004 sem þau hefðu flutt til Íslands síðar.
Með bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 3. desember 2018, fóru kærendur fram á að málið yrði tekið til nýrrar meðferðar, sbr. 1. tölul. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í bréfinu var m.a. vísað til meðfylgjandi gagna um millifærslur milli eigin bankareikninga kærenda er tjáðust ekki tengjast atvinnurekstri kæranda, A, svo sem nánar var sundurliðað. Var rakið að þegar tekið væri tillit til slíkra færslna ættu rekstrartekjur kæranda að lækka í 49.519.863 kr. árið 2012, 64.055.972 kr. árið 2013, 32.644.971 kr. árið 2014, 25.512.566 kr. árið 2015 og 8.706.759 kr. árið 2016. Þá voru ítrekuð áður fram komin sjónarmið kærenda þess efnis að við mat sitt á vantöldum tekjum hefði ríkisskattstjóri ranglega tekið með í reikninginn fjármuni sem kærendur hefðu flutt til landsins frá útlöndum vegna sölu fasteigna þar á árunum 2002 og 2004. Var gerð nánari grein fyrir sölu fasteignanna í bréfinu og geymslu fjármuna erlendis í kjölfar sölunnar. Kom fram að kærendur hefðu síðan flutt samtals 451.000 evrur eða 71.296.749 kr. til landsins á árunum 2012, 2013 og 2014, þ.e. nánar tiltekið 32.507.072 kr. á árinu 2012, 26.942.915 kr. á árinu 2013 og 11.846.762 kr. á árinu 2014, sbr. gögn um innborganir á gjaldeyrisreikninga kæranda á greindum árum. Kom fram í beiðninni að rekstrartekjur kæranda árin 2012, 2013 og 2014 ættu að lækka til samræmis við fyrrgreindar fjárhæðir til viðbótar við áðurnefnda lækkun vegna millifærslna milli eigin reikninga. Að teknu tilliti til innborgana í reiðufé að fjárhæð 180.000 kr. á árinu 2013, 2.610.000 kr. á árinu 2014, 5.790.000 kr. á árinu 2015 og 18.495.000 kr. á árinu 2016 ættu vanframtaldar rekstrartekjur kæranda, A, því að ákvarðast 17.012.791 kr. árið 2012 (49.519.863 – 32.507.072), 37.293.057 kr. árið 2013 (64.055.972 + 180.000 – 26.942.915), 23.408.209 kr. árið 2014 (32.644.971 + 2.610.000 – 11.846.762), 31.302.566 kr. árið 2015 (25.512.566 + 5.790.000) og 27.201.759 kr. árið 2016 (8.706.759 + 18.495.000).
Í kjölfar frekari bréfaskipta, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kærenda, dags. 28. janúar 2019, og svarbréf kærenda, dags. 7. febrúar sama ár, boðaði ríkisskattstjóri kærendum að nýju endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda gjaldárin 2013, 2014, 2015, 2016 og 2017 með bréfi, dags. 12. mars 2019. Í bréfinu kom m.a. fram að við mat á vanframtöldum rekstrartekjum kæranda, A, í tilefni af endurupptökubeiðni kærenda þætti réttast að bera saman fyrirliggjandi upplýsingar um erlendar millifærslur og innborganir á bankareikninga kærenda í reiðufé við framtaldar rekstrartekjur. Var gerð töluleg grein fyrir samanburði þessum í töflu í boðunarbréfinu og kom þar fram að „misræmi á veltu vs. innborganir“ næmi 29.242.038 kr. árið 2012, 25.629.087 kr. árið 2013, 14.313.293 kr. árið 2014, 20.310.323 kr. árið 2015 og 17.408.465 kr. árið 2016. Þá féllst ríkisskattstjóri á að taka tillit til skýringa kærenda um fjármunaeign vegna sölu fasteigna erlendis með þeim hætti að innborganir í reiðufé að fjárhæð samtals 322.215 evrur á gjaldeyrisreikning kæranda á árunum 2012 og 2013 yrðu ekki taldar bera með sér vanframtaldar rekstrartekjur hans, þ.e. nánar tiltekið innborganir að fjárhæð 207.060 evrur eða 33.119.647 kr. á árinu 2012 og innborganir að fjárhæð 115.155 evrur eða 18.647.049 kr. á árinu 2013. Í bréfinu var þess ennfremur getið að kærendur hefðu sýnt fram á með beiðninni „að eitthvað af innlendum innborgunum“ inn á bankareikninga þeirra hefðu verið í eigin þágu og því ótengdar atvinnurekstri kæranda, A. Kom fram að lækkun rekstrartekna hans af þessum sökum yrði 6.503.936 kr. árið 2012, 5.922.570 kr. árið 2013, 1.486.088 kr. árið 2014 og 493.291 kr. árið 2015 frá fyrri ákvörðun ríkisskattstjóra, en rekstrartekjur árið 2016 myndu hækka um 466.270 kr. „í samræmi við peningaseðla lagða inn á gjaldeyrisreikning“, eins og þar sagði. Í töflu í niðurlagi bréfsins kom fram að miðað við framangreindar forsendur myndu rekstrartekjur kæranda, A, því lækka um samtals 39.011.008 kr. árið 2012, um 24.569.619 kr. árið 2013, um 1.486.088 kr. árið 2014 og um 493.291 kr. árið 2015 frá því sem ákveðið var með úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 11. október 2018. Er á þessu byggt í hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 9. apríl 2019, og því ljóst að með úrskurðinum hefur ríkisskattstjóri ákvarðað rekstrartekjur kæranda, A, 14.097.492 kr. árið 2012 (53.108.500 – 39.011.008), 40.462.592 kr. árið 2013 (65.032.211 – 24.569.619), 36.726.909 kr. árið 2014 (38.212.997 – 1.486.088), 32.252.040 kr. árið 2015 (32.745.331 – 493.291) og 29.924.709 kr. árið 2016 (29.458.439 + 466.270). Nam lækkun rekstrartekna kæranda því 3.265.034 kr. árið 2012 (14.097.492 – 17.362.526) og hækkun rekstrartekna 6.982.038 kr. árið 2013 (40.462.592 – 33.480.554), 14.313.293 kr. árið 2014 (36.726.909 – 22.413.616), 20.310.323 kr. árið 2015 (32.252.040 – 11.941.717) og 17.408.465 kr. árið 2016 (29.924.709 – 12.516.244) frá því sem tilgreint var af hálfu kærenda í skattskilum þeirra umrædd ár að teknu tilliti til leiðréttinga samkvæmt bréfi kærenda, dags. 20. febrúar 2015, sbr. endurgerðar rekstrarskýrslur fyrir árin 2012 og 2013 er fylgdu því bréfi.
Í kæru kærenda til yfirskattanefndar er þess krafist „að andvirði EUR 128.785 verði metnar sem millifærsla eigna kærenda á fyrirspurnartímabilinu og leiði þannig til lækkunar atvinnurekstrartekna kærenda sem því nemur“, eins og segir í kærunni. Er vísað til þeirra skýringa sem fram komu í beiðni kærenda um endurupptöku málsins hjá ríkisskattstjóra sem lutu að því að þau hefðu flutt fjármuni frá útlöndum til Íslands á árunum 2012, 2013 og 2014 að fjárhæð um 451.000 evrur sem taka bæri tillit til við mat á vanframtöldum tekjum af atvinnurekstri. Í beiðninni var byggt á því að lækka bæri vanframtaldar rekstrartekjur af þessum sökum um 32.507.072 kr. árið 2012, 26.942.915 kr. árið 2013 og 11.846.762 kr. árið 2014. Eins og hér að framan greinir féllst ríkisskattstjóri á þessar skýringar kærenda, þó þannig að ríkisskattstjóri miðaði við nokkru lægri fjárhæð eða sem nam 322.215 evrum. Vísaði ríkisskattstjóri í þessu sambandi til upplýsinga um innborganir í reiðufé inn á gjaldeyrisreikning kæranda, A, á árunum 2012 og 2013 og tók fram að fallast mætti á að mögulega væri þar um að ræða fjármuni vegna sölu fasteigna í útlöndum. Nam lækkun rekstrartekna af þessum sökum 33.119.647 kr. árið 2012 og 18.647.049 kr. árið 2013, sbr. hér að framan. Í úrskurði sínum kvaðst ríkisskattstjóri einnig líta svo á að innborganir í reiðufé á gjaldeyrisreikning kæranda að fjárhæð alls 128.785 evrur á árunum 2009, 2010 og 2011 ættu sér sama uppruna. Ríkisskattstjóri tók þó ekki tillit til þessara innborgana við mat á vanframtöldum tekjum þau ár sem um ræðir. Kom fram í úrskurði ríkisskattstjóra að ótrúverðugt þætti að fjármunum vegna sölu fasteignanna hefði ekki verið ráðstafað í þágu kærenda á árunum 2002–2011, m.a. í ljósi eignamyndunar kærenda á þessu tímabili samkvæmt upplýsingum úr skattframtölum þeirra árin 2001–2012, sem ríkisskattstjóri gerði nánari grein fyrir. Vísaði ríkisskattstjóri m.a. til þeirra skýringa kærenda í bréfi þeirra, dags. 7. febrúar 2019, að kærendur hefðu selt ýmsa innanstokksmuni sem verið hefðu hluti af innbúi þeirra sem geymdir hefðu verið í útlöndum eftir flutning kærenda til Íslands á árinu 2001, þ.e. smámyndir, styttur og krossa frá ýmsum tímum sem kærendur hefðu eignast á löngum tíma. Kom fram að ríkisskattstjóra þætti ólíklegt að söluandvirði fasteignanna hefði að öllu leyti verið geymt í híbýlum kærenda eða ættingja þeirra erlendis um langt árabil og að kærendur hefðu ekki ráðstafað fénu að einhverju leyti í eigin þágu á umræddum árum.
Fyrir yfirskattanefnd er einvörðungu deilt um síðastnefnda ákvörðun ríkisskattstjóra að því er snertir mismun að fjárhæð 128.785 evrur eða 22.530.053 kr. sé miðað við umreikning ríkisskattstjóra. Þótt ekki sé í kæru vikið að skiptingu fjárhæða milli ára samkvæmt því sem byggt er á í úrskurði ríkisskattstjóra, en eins og hér að framan er rakið lagði ríkisskattstjóri í því sambandi til grundvallar nokkru hærri fjárhæð vegna innborgana sem um ræðir rekstrarárið 2012 en miðað var við í beiðni kærenda um endurupptöku (33.119.647 kr. í stað 32.507.072 kr.), þykir allt að einu rétt að líta svo á að krafa kærenda lúti að því að lögð verði til grundvallar sú skipting sem fram kom í beiðninni. Verður því litið svo á að krafa kærenda lúti að því að rekstrartekjur árið 2012 hækki um 612.575 (32.507.072 – 33.119.647), en lækki um 8.295.866 kr. (26.942.915 – 18.647.049) árið 2013 og um 14.846.762 kr. árið 2014, enda kemur ekkert annað fram í kærunni varðandi skiptingu fjárhæða.
Af hálfu kærenda er byggt á því að sú ákvörðun ríkisskattstjóra, að taka ekki tillit til innborgana á gjaldeyrisreikning kærenda sem fram fóru á árunum 2009, 2010 og 2011 við mat á vanframtöldum rekstrartekjum kæranda, A, vegna áranna 2012, 2013 og 2014 fái ekki staðist þar sem heimild ríkisskattstjóra til endurákvörðunar nái einungis til sex ára áður en ákvörðun sé tekin, sbr. 1. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003. Sé ríkisskattstjóra því óheimilt „að úrskurða um efni eða form lengra aftur“ og sé ákvörðun embættisins því löglaus. Er bent á að kærendur hafi gert rækilega grein fyrir tilurð þeirra fjármuna sem um ræðir. Sé ranglega ályktað í úrskurði ríkisskattstjóra að fé vegna sölu fasteigna kærenda í útlöndum hafi verið flutt til landsins á árunum 2009, 2010 og 2011 og verið nýtt í þágu kærenda á þeim tíma. Hafi kærendur fært rök að því að fjármunir, sem fluttir hafi verið til landsins á öðrum tímum, eigi sér annan uppruna.
Fyrir liggur að ríkisskattstjóri byggði mat sitt á vantöldum rekstrartekjum kæranda, A, á upplýsingum um innborganir á bankareikninga hans árin 2012, 2013, 2014, 2015 og 2016, þ.e. í fyrsta lagi upplýsingum um erlendar millifærslur inn á gjaldeyrisreikning, í öðru lagi upplýsingum um innborganir í reiðufé (evrum) inn á gjaldeyrisreikning og í þriðja lagi upplýsingum um innborganir í reiðufé (krónum) inn á bankareikning. Með hinum kærða úrskurði hefur ríkisskattstjóri fallist á þær skýringar kæranda að hluti innborgana í reiðufé sé til kominn vegna sölu tveggja fasteigna erlendis árin 2002 og 2004 og að söluandvirði eignanna hafi verið varðveitt þar um árabil og síðan verið flutt til Íslands í reiðufé af kærendum sjálfum og venslamönnum þeirra. Á hinn bóginn leit ríkisskattstjóri við þetta mat sitt jafnframt til upplýsinga um innborganir í reiðufé á bankareikninga kæranda árin 2009–2011 sem hann taldi eiga sér sömu skýringu og draga bæri því frá heildarfjárhæð söluandvirðis fasteignanna, sem óumdeilt er að hafi numið alls 451.000 evrum, við mat á vanframtöldum rekstrartekjum, enda hefðu kærendur ekki sýnt fram á að þessum fjármunum hefði ekki verið ráðstafað í eigin þágu á greindum árum. Ekki verður fallist á með kærendum að með þessum ályktunum í hinum kærða úrskurði hafi verið brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 um tímafrest til endurákvörðunar, enda lutu fyrrgreindar viðbárur kærenda beinlínis að uppruna fjármunanna sem óhjákvæmilega varð að taka afstöðu til við mat á vanframtöldum rekstrartekjum þau ár sem endurákvörðun ríkisskattstjóra tók til, þ.e. árin 2012–2016. Að öðru leyti þykir hér mega vísa til úrlausnar um hliðstæða viðbáru í dómi Hæstaréttar Íslands 27. október 2016 í máli nr. 845/2015 (Síminn hf. gegn íslenska ríkinu). Verður krafa kærenda ekki tekin til greina á þeim grundvelli að ákvörðun ríkisskattstjóra stríði gegn 1. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003.
Eins og fram er komið fluttu kærendur til Íslands frá útlöndum á árinu 2000 og hafa frá og með þeim tíma borið ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003. Fyrir liggur að í skattframtölum sínum hafa kærendur ekki tilgreint neinar eignir erlendis og hafa ekki komið fram á því aðrar skýringar en þær að um mistök hafi verið að ræða, sbr. beiðni kærenda um endurupptöku málsins, dags. 3. desember 2018. Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að ekki hafi komið til flutnings fjármuna í þeirra eigu vegna sölu fasteigna erlendis á árunum 2002 og 2003 fyrr en á árinu 2012 og að þær innborganir í reiðufé á gjaldeyrisreikning kæranda á árunum 2009, 2010 og 2011, sem raktar eru í úrskurði ríkisskattstjóra, séu alfarið til komnar vegna sölu lausafjármuna. Þessar skýringar kærenda eru engum gögnum studdar af þeirra hálfu og þykja ekki sannfærandi í ljósi þeirra fjárhæða sem um ræðir. Framhjá því verður ekki litið að engra haldbærra gagna nýtur í málinu um geymslu fjármuna í útlöndum um árabil og flutning þeirra til Íslands á því tímabili sem málið varðar. Er því raunar ekki haldið fram af hálfu kærenda að slíkum gögnum ætti að vera til að dreifa, enda er því haldið fram að af hálfu kærenda að þau sjálf og venslafólk þeirra hafi flutt reiðufé með sér til landsins frá útlöndum. Verður að taka undir með ríkisskattstjóra að frásögn kærenda um fyrirkomulag við flutning greindra fjármuna hingað til lands þykir með ólíkindum með tilliti til fjárhæða sem um ræðir. Þá hafa skýringar þeirra á varðveislu fjármunanna verið á reiki, en við meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra var því í fyrstu haldið fram að söluandvirði fasteigna, sem seldar hefðu verið á árunum 2002 og 2004, hefði legið í banka erlendis, sbr. bréf kærenda til ríkisskattstjóra, dags. 17. janúar og 28. maí 2017.
Með vísan til þess, sem hér að framan er rakið, verður ekki talið að kærendur hafi fært fram viðhlítandi rök fyrir því að mat ríkisskattstjóra á vanframtöldum rekstrartekjum kæranda, A, sem eins og fram er komið byggði alfarið á upplýsingum um innborganir á bankareikninga hans þau ár sem um ræðir, sé um skör fram þar sem ekki hafi verið tekið nægjanlegt tillit til fjármuna í eigu kærenda erlendis, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Eins og áður er rakið hefur ríkisskattstjóri tekið tillit til þeirra skýringa að því er snertir innborganir að fjárhæð samtals 322.215 evrur eða 51.766.696 kr., en samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins er þar um að ræða þorra innborgana á gjaldeyrisreikninga kæranda í reiðufé árin 2012 og 2013 sem námu alls 380.353 evrum samkvæmt gögnum er ríkisskattstjóri aflaði frá banka, sbr. sundurliðun í bréfi ríkisskattstjóra, dags. 28. janúar 2019. Verður ekki talið að skýringar kærenda, sem ekki eru studdar neinum gögnum sem hald er í, gefi neitt tilefni til að lækka tekjuviðbót ríkisskattstjóra vegna áranna 2013 og 2014, svo sem krafa kærenda lýtur að.
Samkvæmt framansögðu verður að hafna kröfu kærenda í máli þessu. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna málskostnaðarkröfu kærenda, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kærenda er hafnað.