Úrskurður yfirskattanefndar

  • Lífeyrir
  • Takmörkuð skattskylda

Úrskurður nr. 6/2020

Gjaldár 2019

Lög nr. 90/2003, 3. gr. 1. mgr. 3. tölul., 70. gr. 2. tölul. 3. mgr.   Lög nr. 4/1995, 19. gr., 20. gr.  

Kærandi í máli þessu, sem bjó í Danmörku, var talinn útsvarsskyldur hér á landi á grundvelli takmarkaðrar skattskyldu sinnar vegna lífeyristekna.

Ár 2020, miðvikudaginn 29. janúar, er tekið fyrir mál nr. 170/2019; kæra A, dags. 10. nóvember 2019, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2019. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 10. nóvember 2019, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 21. október 2019, vegna álagningar opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2019. Kærandi og maki hans báru tekjuárið 2018 takmarkaða skattskyldu á Íslandi, sbr. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Með hinum kærða úrskurði féllst ríkisskattstjóri á kröfu kæranda samkvæmt kæru, dags. 23. júní 2019, þess efnis að ónýttur persónuafsláttur maka að fjárhæð 354.033 kr. kæmi til viðbótar persónuafslætti kæranda við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2019. Samkvæmt skattbreytingaseðli með úrskurði ríkisskattstjóra lækkaði tekjuskattur kæranda um 354.033 kr. vegna þessarar ákvörðunar embættisins.

Í kæru til yfirskattanefndar er þeirri spurningu varpað fram hvort útsvarsstofn eigi ekki „að lækka hlutfallslega“. Þá bendir kærandi á að þau hjón séu búsett í Danmörku. Gerir kærandi athugasemd við að þeim sé gert að greiða útsvar á Íslandi.

II.

Með bréfi, dags. 26. nóvember 2019, hefur ríkisskattstjóri krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Kærandi sé búsettur í Danmörku og sé með fulla og ótakmarkaða skattskyldu þar í landi. Kærandi og maki hans séu lífeyrisþegar á Íslandi og beri því takmarkaða skattskyldu hérlendis samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 1. mgr. 18. gr. tvísköttunarsamnings milli Norðurlandanna. Kærandi greiði því útsvar af tekjum sínum, sbr. 19. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 27. nóvember 2019, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og kæranda gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Samkvæmt skráningu í þjóðskrá fluttu kærandi og eiginkona hans til Danmerkur á árinu 2017 og voru hjónin skráð þar til heimilis allt tekjuárið 2018. Samkvæmt skattframtali þeirra árið 2019 nam tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda 5.867.498 kr. Var þar um að ræða greiðslur frá almennum lífeyrissjóðum og séreignarsjóði auk greiðslu frá K sem kærandi færði sér til tekna í skattframtalinu. Tekjuskatts- og útsvarsstofn maka nam 808.584 kr. vegna greiðslna frá lífeyrissjóðum og séreignarsjóði. Vegna lífeyristekna sinna báru kærandi og eiginkona hans takmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, en í ákvæði þessu segir að allir menn sem njóta frá íslenskum aðilum launa fyrir störf, þar með talin stjórnar-, endurskoðenda- eða nefndarstörf, eftirlauna, biðlauna, lífeyris, styrkja eða hliðstæðra greiðslna skuli greiða tekjuskatt af þeim greiðslum. Þess er að geta að í gildi er samningur milli Norðurlandanna til að komast hjá tvísköttun að því er varðar skatta á tekjur og eignir, sbr. auglýsingu nr. 11/1997 í C-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt d-lið 3. tölul. 2. gr. samningsins tekur hann að því er Ísland varðar til m.a. tekjuskatts og útsvars til sveitarfélaga. Í 1. mgr. 18. gr. samningsins kemur fram að skattleggja má eftirlaun og lífeyri, sem greidd eru frá samningsríki og greiðslur frá samningsríki samkvæmt almannatryggingalöggjöf þess til aðila heimilisfasts í öðru samningsríki, í fyrrnefnda ríkinu. Samningurinn hefur ekki áhrif á skattlagningu lífeyristekna kæranda hér á landi.

Í 70. gr. laga nr. 90/2003 er mælt fyrir um ákvörðun tekjuskatts aðila með takmarkaða skattskyldu. Í 2. tölul. 70. gr. er fjallað um tekjuskatt aðila sem um ræðir í 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna. Í 3. mgr. 2. tölul. 70. gr. er að finna svohljóðandi sérreglu varðandi tekjuskatt eftirlaunaþega og lífeyrisþega sem um ræðir í 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna:

„Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal tekjuskattur eftirlaunaþega og lífeyrisþega sem um ræðir í 2. tölul. 3. gr. reiknast af tekjuskattsstofni skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. 66. gr. að teknu tilliti til persónuafsláttar skv. A-lið 67. gr. Persónuafsláttur skal í þessum tilvikum einungis dreginn frá tekjuskatti af eftirlaunum og lífeyri viðkomandi aðila og skal ónýttum hluta hans einungis ráðstafað til greiðslu á útsvari af sömu tekjum. Sá hluti persónuafsláttar sem þá er enn óráðstafað fellur niður og er hann ekki millifæranlegur milli hjóna nema þau séu bæði eftirlaunaþegar eða lífeyrisþegar og falli að öðru leyti bæði undir ákvæði þessarar málsgreinar.“

Í 1. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003 eru ákvæði um skattstiga manna. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2019 bar að reikna 22,5% tekjuskatt af tekjuskattsstofni að 10.724.553 kr. og 31,8% af tekjuskattsstofni frá 10.724.554 kr., sbr. 1.–5. tölul. 1. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003, sbr. einnig auglýsingu fjármálaráðherra nr. 1157/2017, um fjárhæðarmörk tekjuskattsstofns, innheimtuhlutfall í staðgreiðslu og persónuafslátt árið 2018, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda. Persónuafsláttur gjaldárið 2019 var 646.739 kr.

Við almenna álagningu opinberra gjalda á kæranda gjaldárið 2019 var tekjuskattur kæranda og eiginkonu hans ákvarðaður í samræmi við framangreint en þó þannig að ríkisskattstjóri leit svo á að kærandi ætti ekki rétt til nýtingar persónuafsláttar eiginkonu að því leyti sem hann kom ekki til frádráttar reiknuðum tekjuskatti og útsvari hennar. Nánar tiltekið var tekjuskattur kæranda ákvarðaður 22,5% af tekjuskattsstofni, þ.e. 5.867.498 kr. x 22,5%, en til frádráttar reiknuðum tekjuskatti, er þannig nam 1.320.187 kr., kom persónuafsláttur 646.739 kr. Álagður tekjuskattur varð þá 673.448 kr. Við álagninguna nam óráðstafaður persónuafsláttur eiginkonu 354.033 kr. Með hinum kærða úrskurði féllst ríkisskattstjóri á að sú fjárhæð kæmi til ráðstöfunar hjá kæranda til viðbótar persónuafslætti hans, sbr. niðurlagsákvæði 3. mgr. 2. tölul. 70. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt úrskurðinum lækkaði áður ákvarðaður tekjuskattur kæranda því um greinda fjárhæð og varð 319.415 kr.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið fólu breytingar ríkisskattstjóra með hinum kærða úrskurði ekki í sér lækkun skattstofna, eins og kærandi virðist telja, heldur það eitt að breyting varð á álögðum tekjuskatti með tilliti til nýtingar persónuafsláttar maka. Verður ekki annað séð en að álagningin hafi verið lögum samkvæmt.

Vegna athugasemda kæranda um álagningu útsvars skal tekið fram að samkvæmt 19. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, skulu þeir menn, sem skattskyldir eru samkvæmt ákvæðum I. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, greiða útsvar af tekjum sínum til sveitarfélags eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum. Í 1. mgr. 20. gr. laga nr. 4/1995 er mælt svo fyrir að hver maður, sem útsvarsskyldur er samkvæmt lögunum, skuli greiða útsvar í einu sveitarfélagi og falli útsvarið óskipt til þess. Þá segir í 3. mgr. greinarinnar að þeir menn, sem um ræði í 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skuli greiða útsvar til þess sveitarfélags þar sem þeir öfluðu mestra tekna sinna á tekjuárinu. Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, var kærandi útsvarsskyldur hér á landi á grundvelli takmarkaðrar skattskyldu sinnar vegna lífeyristekna, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/2003 og 19. gr. laga nr. 4/1995. Ríkisskattstjóri lagði útsvar kæranda til X-bæjar. Kærandi hefur engar athugasemdir gert í tilefni af því sérstaklega.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hin kærða álagning stendur óhögguð.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja